Drög að nýjum greinanámskrám fyrir grunnskóla til umsagnar
Á vef ráðuneytisins eru birt drög að námssviða- og námsgreinahluta nýrrar aðalnámskrár grunnskóla. Ráðuneytið telur mikilvægt að fá viðbrögð við drögunum áður en þær verða gefnar út.
Á vef ráðuneytisins eru birt drög að námssviða- og námsgreinahluta nýrrar aðalnámskrár grunnskóla.
Skipaðar voru ritnefndir um hvert greinasvið á vegum ráðuneytisins til að endurskoða gildandi aðalnámskrá með hliðsjón af nýrri menntastefnu sem birtist í almennum hluta frá 2011. Í ritnefndum sátu fulltrúar úr háskólasamfélaginu, aðilar frá fagfélögum kennara og aðrir hagsmunaaðilar. Til viðmiðunar var hafður rammi um námsgreinar og námssvið sem birtur er í almennum hluta aðalnámskrár.
Ráðuneytið telur mikilvægt að fá viðbrögð við drögunum áður en gengið verður frá þeim til útgáfu. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að bregðast við og senda inn athugasemdir um drögin á netfangið [email protected] í síðasta lagi 7. september 2012.
Námskrárnar verða gefnar út í haust og hafa skólar þá tvö ár til að innleiða að fullu aðalnámskrá grunnskóla. Ný tilhögun námsmats verður notuð í fyrsta sinn við brautskráningu nemenda úr 10. bekk vorið 2015.