Tillögur nefndar um efni nýrra landgræðslulaga
Umhverfisráðuneytið óskar eftir umsögnum um greinargerð nefndar um endurskoðun laga um landgræðslu, en nefndin skilaði umhverfisráðherra tillögum sínum í dag. Greinargerðin ásamt umsögnum sem berast um hana verða grunnur fyrir gerð frumvarps til nýrra landgræðslulaga.
Í greinargerðinni er farið yfir bakgrunn tillagnanna, s.s. sögu landgræðslu á Íslandi, ýmsa stefnumarkandi þætti, mikilvægi nýrrar lagasetninga á þessu sviði og ástand lands á Íslandi. Þá eru settar fram tillögur um efni nýrra laga þar sem m.a. er fjallað um stjórn landgræðslumála, skipulagsmál, ýmis viðfangsefni landgræðslu og heimildir og úrræði stjórnvalda í málefnum landgræðslu. Loks eru settar fram ábendingar um breytingar á öðrum lögum er snerta landgræðslu.
Í upphafi nefndarstarfsins var kallað eftir áliti og ábendingum frá ýmsum hagsmunaðilum og efnt var til opinnar málsstofu um málefnið. Við vinnslu greinargerðarinnar fór nefndin yfir og hafði til hliðsjónar innsendar athugasemdir og ábendingar sem komu fram á vinnslutíma greinargerðarinnar.
Sérstaka vefútgáfu greinargerðarinnar má nálgast á vef umhverfisráðuneytisins þar sem einnig er að finna PDF-útgáfu til útprentunar.
Óskar umhverfisráðuneytið hér með eftir athugasemdum við tillögur nefndarinnar.
Umsögnum um tillögur nefndarinnar skal skilað í síðasta lagi 27. ágúst næstkomandi á netfangið [email protected] eða í bréfapósti, merkt Umhverfisráðuneytið, Skuggasund 1, 150 Reykjavík.