Árlegur dagur gegn einelti
Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti hefur ákveðið að helga 8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti.
Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti hefur ákveðið að helga 8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti. Slíkur baráttudagur var fyrst haldinn árið 2011 og markmiðið með deginum er og var að vekja sérstaka athygli á málefninu. Undirritun fulltrúa félaga, samtaka og opinberra stofnana á þjóðarsáttmála gegn einelti var þar einn liður. Sáttmálinn er einnig grunnur að frekari vinnu, við hann má bæta og miða í þeim efnum við þarfir þeirra fjölmörgu félaga, samtaka og stofnanna er undirrituð sáttmálann í Höfða í fyrra. Sáttmálann má því útfæra enn frekar með undirmarkmiðum og fjölbreyttum verkefnum. Sáttmálinn er svohljóðandi:
"Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd. Við munum öll hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er."
Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti hvetur eindregið til þess að sem flestir undirriti sáttmálann og sýni þar með hug sinn í verki. Það verður hægt að gera rafrænt á forsíðu nýrrar og breyttrar heimasíðu verkefnastjórnar sem opnuð verður innan skamms. Slóðin er/verður www.gegneinelti.is og sáttmálinn mun blasa við á forsíðu vefsins.
Verkefnastjórn þætti gott að fá upplýsingar um viðburði sem tengjast baráttunni gegn einelti. Bæði viðburði sem hafa átt sér stað og þá viðburði sem fyrirhugaðir eru á næstunni. Við mun birta allt slíkt á heimasíðu verkefnisins sem og koma öllu sem varðar atburði þann 8. nóvember á framfæri við fjölmiðla.
Mörg verkefni sem tengjast baráttudeginum eiga sér langan aðdraganda, eru ólík en eiga það öll sammerkt að vera liður í að efla jákvæð samskipti í samfélaginu. Markmiðið með baráttudeginum er því ekki að efna til sérstakrar flugeldasýningar á þessum tiltekna degi, dagurinn er fremur tilefni til þess að gefa gaum og benda á margt það sem vel er gert í þessum efnum. Baráttudagurinn er því ekki síður dagur til þessa að líta yfir farin veg, þétta raðirnar, ákveða næstu skerf og bretta upp ermarnar hver í sínum mikilvæga ranni.
Verkefnastjórnin hvetur alla þá fjölmörgu aðila og samtök, sem starfa á þeim vettvangi sem átakið nær til, til þess að taka höndum saman og helga 8. nóvember n.k. baráttunni gegn einelti. Sérstaklega er þessu beint til leikskóla, grunn- og framhaldsskóla, félags- og frístundamiðstöðva, auk vinnustaða og stofnana. Ýmislegt er að hægt að gera á þessum baráttudegi, s.s. með táknrænum viðburðum eða viðfangsefnum sem hafa það að markmiði að beina umræðunni að einelti og alvarlegum afleiðingum þess í samfélaginu og ekki síst mikilvægi jákvæðra og uppbyggilegra samskipta.
Verkefnisstjórnin mun á næstunni senda út nánari upplýsingar um baráttudaginn.