Hoppa yfir valmynd
17. september 2012 Forsætisráðuneytið

Auðlindastefnunefnd lýkur störfum

Gufuorka
Gufuorka

Nefnd forsætisráðherra um stefnumörkun í auðlindamálum ríkisins var sett á fót samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar í maí 2011. Skýrsla nefndarinnar liggur nú fyrir og hefur verið tekin til umfjöllunar í ríkisstjórn. Í nefndinni voru Arnar Guðmundsson formaður, Álfheiður Ingadóttir, Gunnar Tryggvason, Indriði H. Þorláksson, Ragnar Arnalds og Svanfríður Inga Jónasdóttir.

Verklag og áherslur

Tillögur nefndarinnar byggja á þeim ítarlegu skýrslum sem unnar hafa verið á undanförnum árum um auðlindamál. Ber þar sérstaklega að geta um starf Auðlindanefndar, sem lauk árið 2000.

Auðlindastefnunefnd leggur áherslu á hina samfélagslegu vídd sjálfbærrar þróunar, velferð og sátt. Litið er til þátta á borð við jöfnuð og lýðræðisleg yfirráð auðlinda, gætt að rekstrarhæfi og vaxtarmöguleikum þeirra greina sem byggja beint á auðlindanýtingu og hugað að rétti komandi kynslóða. Þannig sé hægt að ná ásættanlegum stöðugleika.

Drög að skýrslu nefndarinnar voru kynnt opinberlega með málþingi í Hörpu 22. júní 2012 og  á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Endanlegri skýrslu var skilað að lokinni úrvinnslu á þeim ábendingum og athugasemdum sem settar voru fram á málþinginu og í kjölfar þess.

Tillögur nefndarinnar

  1. Fyrir nýtingu á auðlindum og takmörkuðum gæðum  í atvinnuskyni verði greitt gjald sem standi undir umsýslu- og umhverfiskostnaði.
  2. Arður sem stafar af aðgangi nýtingaraðila að tiltekinni auðlind eða takmörkuðum gæðum í atvinnuskyni verði skattlagður að hluta. Slíkur arður er þegar fyrir hendi eða líklegur til að myndast vegna vatnsafls, jarðvarma, ferskvatns, fiskistofna, losunarheimilda, þjóðlendna og kolvetnis í jörðu.
  3. Nýtingarleyfi verði háð skýrum reglum og gildistími þeirra taki mið af eðli viðkomandi auðlindar, nauðsynlegri fjárfestingu, fjölda nýtingaraðila og aðgengis að sérleyfum.
  4. Tekjur ríkisins af auðlindum komi fram á sérstökum Auðlindareikningi, sem meðal annars fylgi fjárlagafrumvarpi, og sýni verðmæti auðlindanna og framlag þeirra til samfélagsins.
  5. Arði af endurnýjanlegum auðlindum verði ráðstafað af Alþingi, með sama hætti og öðrum tekjum ríkisins. Komi til tekna af óendurnýjanlegum auðlindum renni þær í Auðlindasjóð, í þágu hagsmuna komandi kynslóða.
  6. Tilhögun við auðlindaumsýslu verði með samræmdum hætti. Byggð verði upp sérþekking á mismunandi leiðum við mat á auðlindarentu, skilaleiðum auðlindaarðs til þjóðarinnar, aðferðum við úthlutun sérleyfa, gildistíma þeirra og öðrum skilyrðum sem slíkri umsýslu tengjast.

Ákvörðun ríkisstjórnar

Skýrslan verður lögð fram á Alþingi á næstunni en einnig hefur ríkisstjórnin falið hlutaðeigandi ráðherrum að taka mið af stefnumörkuninni, sem þar kemur fram, ekki síst í þeim frumvörpum á auðlindasviðinu sem þegar er að finna á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta