Stefna um kvikmyndamenntun á Íslandi
Stefna um kvikmyndamenntun á Íslandi var samþykkt á fundi ríkisstjórnar í dag. Mennta- og menningarmálaráðherra mun í framhaldi af því vinna að innleiðingu hennar í samstarfi við hagsmunaaðila.
Stefna um kvikmyndamenntun á Íslandi var samþykkt á fundi ríkisstjórnar í dag. Mennta- og menningarmálaráðherra mun í framhaldi af því vinna að innleiðingu hennar í samstarfi við hagsmunaaðila.
Stefnan er byggð á tillögum stýrihóps mennta- og menningarmálaráðherra um stefnmótun í kvikmyndamenntun á Íslandi sem sett er fram í skýrslu hópsins. Við vinnu sína lagði hópurinn áherslu á samstarf og samráð við skóla og hagsmunaaðila til að samhæfa ólík sjónarmið varðandi uppbyggingu náms og tengja það þörfum atvinnulífs og uppbyggingu kvikmyndagerðar á Íslandi. Stýrihópnum til ráðgjafar voru Henning Camre, forstöðumaður Think Tank on European Film and Film Policy og fyrrverandi skólastjóri Den Danske Filmskole og National Film and Television School í Englandi og Vladan Nikolic, prófessor við kvikmyndadeild The New School (Parsons) í New York og kennari við kvikmyndadeild New York University.
Í skýrslunni er fjallað um stöðu náms í kvikmyndagerð á Íslandi, námstækifæri erlendis og gerðar tillögur að framtíðarskipulagi. Stýrihópurinn leggur til að kvikmyndamenntun á Íslandi verði skipt í fjögur þrep:
- Kvikmynda- og fjölmiðlalæsi, kennt á grunnskólastigi.
- Almennt kvikmyndanám á framhaldsskólastigi.
- Sérhæfing á framhaldsskólastigi í stoðhlutverkum kvikmyndagreinarinnar, svo sem hljóð, hár, förðun, tölvuvinnsla, ljós/rafvirkjun, búningar, leikmyndagerð o.s.frv.
- Sérhæfing í kvikmyndagerð á BA-stigi. Áhersla lögð á listrænan grunn og markmiðið að útskrifa leiðandi kvikmyndagerðarmenn á sviðum leikstjórnar, handritsgerðar, kvikmyndatöku, klippingar, hljóðs og framleiðslu.
-
Stýrihópinn skipuðu þau Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Félags kvikmyndagerðarmanna og Þórunn Jóna Hauksdóttir, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti.
-
Stefna um kvikmyndamenntun á Íslandi - Áfangaskýrsla stýrihóps