Kynning á þingsályktun um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis
- Almenningi gefst kostur á að kynna sér efni þingsályktunarinnar og senda athugasemdir og ábendingar til ráðuneytisins.
Þann 16. júní 2010 samþykkti Alþingi þingsályktun þess efnis að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Í greinargerð með tillögunni er lýst framtíðarsýn fyrir Ísland sem framsæknum vettvangi fyrir skráningu og starfsemi alþjóðlegra fjölmiðla og útgáfufélaga, sprotafyrirtækja, mannréttindasamtaka og gagnaversfyrirtækja. Bent er á að með tilkomu Internetsins sé hægt að þjóna lesendum hvar sem er í heiminum, óháð útgáfustað fjölmiðils. Ákvörðun um útgáfustað netútgáfu fjölmiðils sé t.d. tekin á grundvelli fjarskiptaleiða, rekstrarkostnaðar við vélbúnað og lagaumhverfis um ábyrgð og verndun fjölmiðla.
Með samræmdri stefnu um hið síðast nefnda væri unnt að tryggja málfrelsi rannsóknarblaðamanna og útgefenda pólitísks efnis. Vísað er til þekktra fordæma í löggjöf annarra ríkja um vernd gegn erlendum meiðyrðadómum og verndun heimildarmanna. Því er haldið fram að hagstæð löggjöf myndi laða hingað til lands ýmsa fjölmiðla og mannréttindasamtök, sem ættu undir högg að sækja í heimalöndum sínum, þar sem þeim væri stöðug hætta búin af málsóknum og þöggunartilraunum aðila sem teldu sér ógnað af opinberri umfjöllun. Lögbann á fréttaflutning Ríkisútvarpsins að kröfu skilanefndar Kaupþings banka um umfjöllun um lánabók bankans er nefnt sem dæmi um tilraun til þöggunar opinberrar umræðu. Vísað er til þess að vegna fjölmiðlalöggjafar í Svíþjóð hefðu fréttaveitur og mannréttindasamtök flutt rafrænt aðsetur sitt til þangað. Á það er bent að forysta Íslands á þessu sviði gæti vakið athygli á alþjóðavettvangi og áunnið landinu virðingu meðal alþjóðasamfélagsins.
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið falið að vinna að framgangi þingsályktunarinnar. Þann 3. maí sl. skipaði ráðherra stýrihóp og er honum ætlað að hafa forsögn um að leiða vinnu ráðuneytisins við greiningu og úttekt á lagaumhverfinu hér á landi og erlendis með tilliti til efnis þingsályktunarinnar og eftir atvikum undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf, meðal annars með því að líta til löggjafar annarra ríkja með það fyrir augum að sameina það besta til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis. Í greinagerð með þingsályktunartillögunni segir m.a.:
Upplýsingasamfélagið má sín lítils ef stöðugt er vegið að leiðum til að koma á framfæri upplýsingum sem viðurkennt er að almenningur eigi rétt á. Þótt sum lönd hafi lögfest fyrirmyndir á þessu sviði hefur ekkert ríki enn sameinað allt það besta til að skapa sér sérstöðu svo sem […] hér er kynnt. Ísland hefur því einstakt tækifæri til að taka forustu með því að búa til traustvekjandi lagaramma sem væri byggður á bestu löggjöf annarra ríkja.
Stýrihópinn er þannig skipaður:
- Ása Ólafsdóttir, formaður, skipuð af mennta- og menningarmálaráðherra án tilnefningar.
- Davíð Logi Sigurðsson, tilnefndur af utanríkisráðuneyti.
- Elfa Ýr Gylfadóttir, tilnefnd af fjölmiðlanefnd.
- Halla Gunnarsdóttir, tilnefnd af innanríkisráðuneyti.
- Smári McCarthy, tilnefndur af IMMI, alþjóðlegri stofnun um tjáningar- og upplýsingafrelsi.
- Tryggvi Björgvinsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðuneyti.
- Starfsmaður stýrihópsins er Margrét Magnúsdóttir lögfræðingur.
Þau atriði sem stýrihópnum er ætlað að taka til sérstakrar athugunar eru:
- Vernd heimildarmanna; þ.e. hvort rétt sé að styrkja vernd heimildarmannafrekar en nú er í gildandi rétti.
- Vernd afhjúpenda; þ.e. hvort rétt sé að styrkja vernd afhjúpenda (uppljóstrara), frekar en nú er í gildandi rétti og hvort til greina komi að breyta ákvæðum um þagnarskyldu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, sbr. lög nr. 45/1998 og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1040.
- Samskiptavernd og vernd milliliða; þ.e. hvort rétt sé að styrkja vernd samskipta, með því að takmarka eða afnema rétt til vistunar samskipta þeirra hjá þriðja aðila, svo sem fjarskiptafyrirtækjum. Hvort endurskoða skuli fjarskiptalög, nr. 81/2003, þá sérstaklega 3. mgr. 42. gr. laganna sem kveður á um varðveislu fjarskiptagagna í sex mánuði í þágu rannsóknar sakamála eða almannaöryggis.
- Hvort rétt sé að afnema eða takmarka heimildir til lögbanns vegna væntanlegrar birtingar efnis í fjölmiðlum. Jafnframt hvort styrkja megi rétt þeirra sem slík birting beinist að með öðrum hætti.
- Málskostnaður í málum sem varða tjáningarfrelsi og jafnframt hvort rétt sé að setja reglur um opinbera réttaraðstoð vegna málskostnaðar, sem hlýst af höfðun dómsmála sem varða tjáningarfrelsi eða hvort rétt sé að breyta réttarfarsreglum um þetta efni sérstaklega.
- Takmörkun á fullnustu erlendra dómsúrlausna í meiðyrðamálum og hvort rétt sé að breyta réttarfarsreglum hér á landi í því skyni að takmarka fullnustu slíkra dómsúrlausna hér á landi. Hér þarf að líta til skuldbindinga Íslands vegna EES samningsins og Lúganó samningsins.
- Vernd gagnagrunna og safna, og hvort rétt sé að skilgreina hugtakið ,,útgáfudag“ nánar þegar um er að ræða efni, sem gert er almenningi aðgengilegt í rafrænu gagnasafni, vegna tímafresta til höfðunar meiðyrðamála. Jafnframt hvort rétt sé að setja hámark fyrir greiðslu skaðabóta í slíkum málum.
- Upplýsingaréttur og hvort rétt sé að mæla fyrir um frekari rétt almennings til aðgengis að upplýsingum og skjölum, sem stafa frá opinberum aðilum.
- Rafræn staðfesta; þ.e. hvort rétt sé að tekin verði upp rafræn staðfesta félaga hér á landi fyrir fjölmiðla og samtök, sem að öðru leyti hafa starfsemi sína annars staðar. Jafnframt hvort þurfi að huga að reglum um lögsögu yfir fjölmiðlaþjónustuveitendum, sem miðli myndefni frá jarðstöð eða gervitungli undir íslenskri lögsögu.
- Annað það sem talið er styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi hér á landi.
Hér með gefst yður kostur til þess að kynna þér efni þingsályktunarinnar og senda athugasemdir og ábendingar til stýrihópsins.
- Athugasemdir sendist í tölvupósti á netfangið [email protected] merkt: Þingsályktun – tjáningar- og upplýsingafrelsi, eða í pósti á póstfangið:
Mennta- menningarmálaráðuneyti,
Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík.
- Frekari upplýsingar um framkvæmd þingsályktunarinnar veitir Margrét Magnúsdóttir.