Hoppa yfir valmynd
17. október 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Hver stendur vörð um réttindi og öryggi sjúklinga?

Magnús Pétursson kynnir skýrslu ráðgjafarhópsins
Magnús Pétursson kynnir skýrslu ráðgjafarhópsins

Heilbrigðisþjónusta á Íslandi er góð og örugg fyrir sjúklinga, hvort sem í hlut á einkarekin þjónusta eða þjónusta á vegum hins opinbera, þótt sitthvað megi bæta. Þetta er mat ráðgjafarhóps sem velferðarráðherra fól að skoða starfsemi einkarekinna læknastofa. Hópurinn varar við sleggjudómum um öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu vegna einstakra atvika. 

Velferðarráðherra skipaði ráðgjafarhópinn í febrúar á þessu ári til að fara í saumana á faglegum þáttum í starfsemi einkarekinna læknastofa og gera tillögur til úrbóta eftir því sem þörf krefði. Kveikjan að skipun hópsins voru álitaefni sem upp komu í tengslum við innflutning og notkun frönsku PIP brjóstapúðanna sem mikið hafa verið til umræðu. Formaður hópsins var Magnús Pétursson.

Helstu niðurstöður

Ráðgjafarhópurinn hefur lagt skýrslu sína fyrir velferðarráðherra og var hún jafnframt kynnt opinberlega á fréttamannafundi í velferðarráðuneytinu í dag. Í skýrslunni koma fram ýmsar ábendingar um þætti í heilbrigðisþjónustu sem betur mega fara, þótt meginniðurstaðan sé sú að íslensk heilbrigðisþjónusta sé góð og vel búið að öryggi sjúklinga samkvæmt lögum.

Faglegar kröfur þær sömu

Lög um réttindi sjúklinga gera ekki greinarmun á því hvort hið opinbera eða einkaaðilar veita heilbrigðisþjónustu. Í ljósi þess bendir ráðgjafarhópurinn á að einstaklingur sem fær þjónustu hjá lækni á einkastofu sé jafnsettur varðandi kröfur um faglega þjónustu og ef um opinbera stofnun væri að ræða. Það er einnig mat hópsins að reglur um starfsleyfi og starfsemi einkarekinna læknastofa séu í meginatriðum skýrar og fullnægjandi til þess að tryggja öryggi og réttarstöðu sjúklinga.

Bæta þarf upplýsingagjöf

Almenningur þekkir ekki nógu vel réttarstöðu sína í heilbrigðisþjónustunni. Markvisst þarf að bæta úr þessu að mati hópsins með aðgengilegum upplýsingum á einum stað s.s. um aðgengi að þjónustu, gjaldtöku og greiðslur sjúklinga og hvert eigi að beina aðfinnslum, kvörtunum og kærum.

Niðurgreiðslur einkarekinnar heilbrigðisþjónustu án samnings óviðundandi

Ekki hafa verið í gildi samningar milli sérfræðilækna og Sjúkratrygginga Íslands í tæp tvö ár, en ríkið greiðir hlut í kostnaði sjúklinga á grundvelli undanþágu sem veitt er með reglugerð. Ráðgjafarhópurinn segir þetta óviðunandi því þannig sé uppbyggingu heilbrigðiskerfisins breytt í grundvallaratriðum án atbeina löggjafans. Ráðgjafarhópurinn telur samningsleysið veikja réttarstöðu sjúklinga og leiða til óvissu og óöryggis. Þá telur hann niðurgreiðslur hins opinbera á tannlæknisþjónustu sem veitt er án samnings vera brot á lögum. Hópurinn segir að leita þurfi allra leiða til að samningar takist og skorti til þess lagaforsendur verði Alþingi að beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum.

Samræmd sjúkraskrá fyrir alla landsmenn og eflt eftirlit

Ráðgjafarhópurinn leggur til ýmsar úrbætur til að efla eftirlit með lækningatækjum sem Lyfjastofnun annast og eftirlit með heilbrigðisþjónustu sem er á hendi Embætti landlæknis. Er meðal annars lagt til að sérstakri stofnun eða starfseiningu innan embættis Landlæknis verði falið eftirlit með heilbrigðisþjónustu og að hún njóti sjálfstæðis sem verði formlega skilgreint í lögum eða reglugerð. Ráðgjafahópurinn leggur einnig til að komið verði upp samræmdri sjúkraskrá fyrir alla landsmenn. Markviss og greið upplýsingaskil milli lækna muni auka öryggi sjúklinga og stuðla að samfelldri þjónustu, jafnframt því að draga úr tvíverknaði og óþarfa kostnaði.

Forgangsröðun óhjákvæmileg

Ráðgjafarhópurinn fjallar í niðurstöðum sínum um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Vísað er til sívaxandi útgjalda til heilbrigðismála hérlendis sem erlendis sem geri það að verkum að setja þurfi málaflokknum takmörk út frá getu samfélagsins til verðmæta- og tekjusköpunar en ekki einungis út frá því hvað sé læknisfræðilega mögulegt. Ráðgjafarhópurinn telur óhjákvæmileg að stjórnvöld viðurkenni að forgangsröðun þurfi að eiga sér stað og jafnframt að almenningur eigi rétt á að vita hvernig sú forgangsröðun fer fram, af hverju hún er gerð og á hvaða forsendum.

Aukið hlutverk sjúklingasamtaka

Ráðgjafarhópurinn telur viðhorf fólks til heilbrigðisþjónustu hafa breyst þannig að sjúklingar líti nú fremur á sig sem neytendur þjónustunnar en þiggjendur. Heilbrigðisyfirvöld þurfi að semja sig að þessari staðreynd, meðal annars með auknu samstarfi við samtök sjúklinga sem fái þannig meira vægi sem fulltrúar neytenda. Lagt er til að mörkuð verði stefna um samskipti við sjúklingasamtök.

Skýrsla ráðgjafarhópsins; Hver stendur vörð um réttindi og öryggi sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta