Ný skýrsla starfshóps um samþættingu menntunar og atvinnu
Starfshópur um samþættingu mennta- og atvinnumála sem settur var á laggirnar á grundvelli þingsályktunar um sama efni í júní 2011 hefur nú skilað skýrslu með tillögum sínum til forsætisráðherra. Hópurinn var skipaður fulltrúum úr skólasamfélaginu, ráðuneytum og samtökum atvinnurekenda og launamanna. Hópurinn hefur starfað síðan í september 2011 og haldið rúmlega 40 fundi.
Í skipunarbréfi starfshópsins kemur fram að hlutverk hans sé að móta aðgerðaráætlun sem þættir saman áherslur í mennta- og atvinnustefnu stjórnvalda með tilliti til menntunarþarfar atvinnulífsins. Tilgangurinn er m.a. að auka vægi starfsnáms í íslensku menntakerfi og þróa nýjar fjölbreyttar námsleiðir.
Greining:
Meðal þess sem fram kemur í greiningu starfshópsins er að:
- Margir fara ekki í nám við hæfi
- Þriðjungur Íslendinga hefur ekki lokið námi á framhaldsskólastigi
- Brotthvarf er viðvarandi vandamál í íslenskum framhaldsskólum
- Námstími er óvenju langur á Íslandi
Fjallað er um misvægi menntunar og þarfa atvinnulífsins hér á landi og gerður samanburður við lönd Evrópusambandsins og OECD.
Tillögur:
Tillögur starfshópsins eru sem hér segir:
Skilvirkari menntastefna:
- Allir nemendur ljúki a.m.k. framhaldsskólaprófi
- Stytting og betri nýting námstíma í grunn- og framhaldsskóla
- Aukin áhersla á einstaklingsmiðað nám
- Aðgerðir gegn brotthvarfi hefjist strax í grunnskóla
- Virkni nemenda í skólastofunni aukin og nýsköpun efld á öllum skólastigum
- Endurskoðun á forsendum reiknilíkans framhaldsskóla
- Samfella milli skólastiga
- Aukin ráðgjöf til ungs fólks um menntun og atvinnu.
- Efling þekkingargrundvallar við mótun menntastefnu
Aukið vægi verk- og tæknináms í íslensku menntakerfi:
- Aðgerðaáætlun um eflingu verk- og tæknináms á framhaldsskóla- og háskólastigi
- Hvatningarátak í þágu verk- og tæknináms
- Aukin áhersla á verk- og tæknigreinar í grunnskólum
- Náms- og starfsráðgjöf efld í grunn- og framhaldsskólum
- Nýjar námsleiðir þróaðar í verk- og tækninámi
Samstarf atvinnulífs og skóla:
- Greining á mannafls- og menntunarþörf atvinnulífsins
- Virkara samstarf skóla og atvinnulífs um nýjar áherslur í menntun
- Vinnustaðaþáttur námsins verði efldur og tenging við atvinnulíf aukin
Samráð um þróun menntunar:
- Settur verði á fót víðtækur samráðsvettvangur um framtíðarstefnu menntakerfis
Lagt er til að mennta- og menningarmálaráðuneytinu verði falið að hrinda tillögunum í framkvæmd í samráði við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og velferðarráðuneytið.
Nánari upplýsingar veitir Skúli Helgason, formaður starfshópsins s. 695-6901.