Hoppa yfir valmynd
18. desember 2012 Matvælaráðuneytið

Eftirlitsnefnd Alþingis um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins skilar áfangaskýrslu til  ráðherra

Skýrsla nefndarinnar

Eftirlitsnefndin hefur nú skilað ráðherra fjórum skýrslum um framkvæmd aðgerða í þágu skuldugra fyrirtækja og heimila í landinu, sbr. lög nr. 107/2009. Í skýrslu nefndarinnar sem nú er lögð fram er áhersla lögð á að gera grein fyrir framkvæmd fjármálafyrirtækja á sértækri skuldaaðlögun og fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja með skuldir undir einum milljarða króna, sbr. einnig Samkomulag um Beinu Brautina. Að auki fjallar skýrslan ítarlega um úttekt á málum á forræði Dróma og stuttlega um framkvæmd 110% leiðarinnar og sértækrar skuldaðlögunar fyrir einstaklinga, skv. samkomulagi um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun einstaklinga.

Tæpar tvær vikur eru eftir af gildistíma sértækrar skuldaaðlögunar fyrir einstaklinga. Umsóknir verða að berast viðskiptabanka í síðasta lagi 31. desember 2012. Eftirlitsnefndin vill hvetja alla einstaklinga sem eru í greiðslu- og skuldavanda til að senda inn umsókn.

Á næstu vikum mun eftirlitsnefndin skila ráðherra sérstakri lokaskýrslu þar sem gerð verður grein fyrir skoðun á milljarðsmálum fyrirtækja og fyrirætlunum fjármálafyrirtækjanna vegna ólokinna fyrirtækjamála.

Helstu niðurstöður:

Fyrirtæki:
Það er í meginatriðum niðurstaða nefndarinnar að ákvæðum laga og reglna hafi verið fylgt við fjárhagslega endurskipulagningu minni og meðalstórra fyrirtækja hjá fjármálafyrirtækjum á tímabilinu október 2009 til júní 2012.

Stærstur hluti afskrifta fjármálafyrirtækja vegna fyrirtækja er vegna endurútreiknings gengistryggðra lána, gjaldþrota, lögformlegra nauðasamninga og milljarðsmála. Búið er að samþykkja endurskipulagningu um 650 minni og meðalstórra fyrirtækja. Í meginatriðum er niðurstaða nefndarinnar, byggt á úrtökum að ákvæðum laga og reglna hafi verið fylgt og jafnræðis gætt í málum lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Nokkur tilvik eru um að endurskipulögð fyrirtæki hafa átt í vandræðum eftir endurskipulaginu. 

Öll fjármálafyrirtækin hafa lýst því yfir við eftirlitsnefndina að einstaklingar og fyrirtæki muni njóta betri réttar í samræmi við dómsniðurstöður og/eða löggjöf verði slíkur réttur lögfestur eða ákvarðaður eftir að fjárhagslegri endurskipulagningu lýkur. Enginn fyrirgeri rétti með því að vinna með viðskiptabanka sínum að því að koma fjárhagskipan sinni í lífvænlegt horf. Vanskil og tregða við að ganga til samninga draga úr trausti og trúnaði og geta leitt til þess að lífvænleg fyrirtæki fyrirgeri rétti sínum til endurskipulagningar.

Drómi:

Nefndin gerði ítarlega úttekt á málum á forræði Dróma á vormánuðum 2012. Í kjölfarið gerði nefndin athugasemdir við afgreiðslu og málshraða mála í 110% leið og að kvartanir og erindi lántaka og annarra fjármálafyrirtækja sem Dróma bárust væru ekki í skilgreindum farvegi. Úr þessu var bætt af hálfu stjórnar Dróma. Nefndinni hafa borist kvartanir eftir þann tíma. Nefndin hefur kannað tilefni kvartana og flokkar þau sem einstök tilvik þó tilmælum um endurskoðun verklags hafi verið beint til Dróma að nýju. Nefndin telur að verklag Dróma hafi gefið málefnalegt tilefni kvartana. Hluti kvartana sem beinst hafa að Dróma var m.a. vegna aðgerða og/eða aðgerðaleysis þriðja aðila.

Sparisjóðir:

Sparisjóðirnir hafa að mati nefndarinnar, ekki unnið þá greiningar- og undirbúningsvinnu sem þörf var á til að senda út tilboð í samræmi við Beinu brautina. Fyrir liggja vísbendingar um að efla þurfi skilning sparisjóðanna á markmiði laga nr. 107/2009, SFF reglum og Samkomulagi um Beinu brautina.

Íbúðalánasjóður:

Íbúðalánasjóður hefur einn þá afstöðu að fara fram á að söluhagnaður fasteigna renni til sjóðsins í þeim tilvikum þegar lántaki selur á samningstímanum, á hærra verði en lagt var til grundvallar við gerð samnings um sértæka skuldaaðlögun. Óeðlilegt er að samræmi sé ekki milli lánveitenda um þetta. Íbúðalánasjóður hefur einnig talið sig skorta lagaheimild til að taka yfir eignir sem reynt er að selja samkvæmt 12. gr. verklagsreglna um sértæka skuldaaðlögun. Nefndin er ekki sammála þeirri afstöðu sjóðsins. Í stað þess að þrátta um þetta atriðið hefur nefndin beint þeim tilmælum til sjóðsins að hann afli þessarar lagaheimildar.

Hlutverk eftirlitsnefndarinnar:

Nefndin og starfsmenn hennar hafa fylgst með og kannað að eigin frumkvæði hvort eftirlitsskyldir aðilar á fjármálamarkaði framfylgi samræmdum reglum og hafi við framkvæmdina gætt sanngirni og jafnræðis á milli skuldara. Eftirlitsnefndin var sett á fót á grundvelli laga nr. 107/2009 og lýkur hún störfum um næstu áramót.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta