Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna hefur verið stofnaður
Katrín Jakobsdóttir setti í dag reglur um nýjan sjóð, Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna og jafnframt var Launasjóður fræðiritahöfunda lagður niður
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra setti í dag reglur um nýjan sjóð, Starfslaunasjóð sjálfstætt starfandi fræðimanna og jafnframt var Launasjóður fræðiritahöfunda lagður niður. Framlög í nýja Starfslaunasjóðinn verða talsvert hærri en áður voru veitt Launasjóðinn og starfssvið hans víkkað. Tilkynnt verður síðar um fjárveitingar til sjóðsins á yfirstandandi ári.
Í reglum um Starfslaunasjóðinn segir að meginhlutverk hans sé að launa starfsemi þeirra fræðimanna sem starfa sjálfstætt í sinni fræðigrein og rétt til að sækja um starfslaun hafa höfundar alþýðlegra fræðirita, handbóka, orðabóka og viðamikils upplýsingaefnis á íslensku í ýmsu formi.
Starfslaunin verða í samræmi við starfslaun listamanna eða um 280.000 kr. á mánuði á verðlagi fjárlaga 2013. Þeir sem taka starfslaun skulu vera á skrá hjá stjórn sjóðsins og fá greidd starfslaun mánaðarlega og þeir skulu ekki gegna föstu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur.
Starfslaun verða veitt til 3, 6, 9 eða 12 mánaða en heimilt er að veita sama einstaklingi starfslaun vegna afmarkaðs verkefnis til lengri tíma en 12 mánaða en þó aldrei lengur en til 36 mánaða og er þá miðað við að viðkomandi endurnýi umsókn sína árlega.
Það er mat ráðuneytisins að þessi breyting á stuðningi við sjálfstætt starfandi fræðimenn geti orðið til að gefa fleirum kost á að starfa að sérgrein sinni, það efli sjálfstæðar rannsóknir og útgáfu verka.