Árleg skýrsla ráðherra um utanríkis- og alþjóðamál
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur lagt fram árlega skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál til Alþingis. Skýrslan er hin fimmta sem ráðherra leggur fram frá því að hann tók við embætti í byrjun árs 2009.
Í inngangi skýrslunnar þakkar utanríkisráðherra Alþingi fyrir að mikilvæg utanríkismál hafi verið unnin á grundvelli breiðrar samstöðu á þingi og á tíðum einróma samþykkis. Nefnir hann sem dæmi að á kjörtímabilinu hefur náðst samstaða um að efla þróunarsamvinnu, stefna Íslands í málefnum norðurslóða var samþykkt einróma, og um hagsmuni Íslands í makríldeilunni og í Icesave, eftir að málið fór í farveg dómsmáls, hefur ríkt ágæt sátt.
Í skýrslunni, sem nær til tímabilsins frá því í apríl á síðasta ári, kemur m.a. fram að:
- Norðurslóðir hafa verið forgangsmál allt kjörtímabilið og mikið hefur áunnist frá samþykkt norðurslóðastefnunnar á Alþingi í mars 2011. Tvíhliða samskipti við hin norðurslóðaríkin hafa stóreflst og styrkari stoðum rennt undir vísindastarf á norðurslóðum. Í síðustu viku vígði ráðherra Norðurslóðanet á Akureyri og fyrsti Nansen-prófessorinn tók nýverið til starfa við Háskólann á Akureyri. Norðurskautsráðið hefur verið fest í sessi sem mikilvægur vettvangur til ákvarðana um norðurslóðamál, svo sem bindandi alþjóðasamninga um leit og björgun en 46 skip sigldu milli Asíu og Evrópu á síðasta ári eftir hinni svokölluðu norðausturleið. Fastaskrifstofa Norðurskautsráðsins tók nýverið til starfa í Tromsö en fyrsti framkvæmdastjóri hennar er Íslendingur.
- Ákveðið hefur verið að opna íslenska sendiskrifstofu í Nuuk á Grænlandi síðsumars. Það er gert í ljósi áherslu á norðurslóðamál og aukinna samskipta við Grænland, og í samræmi við ályktun Alþingis frá mái 2010. Markmiðið er að treysta viðskiptasamstarf landanna með tilliti til auðlindanýtingar á svæðinu milli Íslands og Austur-Grænlands en Íslenskt-grænlenskt viðskiptaráð var stofnað í október á síðasta ári. Gengið hefur verið frá nýjum loftferðasamningi við Grænland en góðar flugsamgöngur eru lykillinn að því að efla viðskipti, ferðaþjónustu og önnur samskipti.
- Nefnd skipuð þingmönnum frá öllum þingflokkum vinnur nú að tillögum um nýja þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Þetta er í fyrsta skipti sem slík vinna er unnin og er markmið hennar að þjóðaröryggisstefna taki mið af nýjum ógnum í umhverfi Íslands og að skapa sátt um meginþætti í öryggis- og varnarmálum. Á alþjóðavettvangi hefur aukið samstarf Norðurlanda í öryggismálum birst m.a. í því að Svíar og Finnar hyggjast taka þátt í loftrýmiseftirliti á Íslandi. Þá hefur varnarsamstarfið við Bandaríkin verið útfært nánar og eflt til að mæta nýjum hættum, þar með talið þeim sem snúa að norðurslóðum.
- Einróma samstaða er um þróunarsamvinnustefnu Íslands á Alþingi sem samþykkti ríflega milljarðs króna hækkun á fjárframlögum til þróunarmála á fjárlögum þessa árs. Hækkunin er liður í því að ná settu marki um að 0,7% af vergum þjóðartekjum renni til þróunarmála á árinu 2019 sem mun skipa Íslandi í fremstu röð í þróunarmálum á alþjóðavettvangi. Nýlega var rýnt í stefnu og umgjörð Íslands á sviði þróunarsamvinnu af teymi sérfræðinga frá þróunarsamvinnunefnd OECD. Niðurstaðan var einkar jákvæð og fram kom að hún byggir á traustum og faglegum grunni.
- Stærsta verkefni á sviði þróunarsamvinnu sem Ísland hefur nokkru sinni ráðist í hófst á síðari hluta síðasta árs þegar Ísland var útnefnt sem aðalsamstarfsþjóð Alþjóðabankans á sviði jarðhita vegna verkefnis um jarðhitavæðingu í þrettán Afríkuríkjum. Norræni þróunarsjóðurinn greiðir 800 milljónir króna til verkefnisins og Alþjóðabankinn hyggst stofna allt að 65 milljarða króna sjóð til að styðja við jarðhitanýtingu í þróunarríkjum. Þróunarsamvinnustofnun Íslands er framkvæmdaraðili fyrsta hluta verkefnisins sem snýr að grunnrannsóknum og hagkvæmniathugunum. Þessu til viðbótar hefur Evrópusambandið óskað eftir liðsinni Íslands í að verja rúmum fimm hundruð milljónum króna til jarðhitarannsókna á svæði sem liggur á mörkum Rúanda, Búrúndí og Lýðveldisins Kongó. Ráðgert er að ýta því verkefni úr vör um mitt þetta ár.
- Í janúar vannst fulllnaðarsigur í Icesave-málinu fyrir EFTA dómstólnum. Þar með var endir bundinn á einn erfiðasta eftirmála bankahrunsins haustið 2008. Icesave-málið komst á forræði utanríkisráðherra þegar Eftirlitsstofnun EFTA höfðaði mál á hendur íslenskum stjórnvöldum fyrir meint brot á tilskipun um innstæðutryggingar og mismunun innstæðueigenda. Víðtækt samráð var haft í undirbúningi dómsmálsins, m.a. við þingmenn, lögmenn og félagasamtök sem létu sig málið varða, og var málsvörnin unnin í góðri sátt og samstöðu. Ráðherra skipaði málsvarnarteymi sem reyndur breskur málafærslumaður fór fyrir. Málsflutningur fór fram í september 2012 og er dómur féll var ljóst að allar helstu röksemdir Íslands voru teknar upp í forsendum dómsins.
- EES-samningurinn veitir aðgang að mikilvægasta markaðsvæði Íslands og er grundvöllur margvíslegra tækifæra á sviði viðskipta, rannsókna, menntunar og menningar. Teikn eru hins vegar á lofti um að þrengja kunni að samningnum og virkni hans því alþjóðasamningum er búinn þröngur rammi innan íslensku stjórnskipunarinnar. Þannig er til að mynda mat sérfræðinga að stjórnarskrá Íslands heimili ekki að Ísland segi sig undir agavald evrópskra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði og íslensk fjármálaþjónusta geti því ekki lengur verið hluti af innri markaði Evrópu.
- Fast hefur verið haldið á hagsmunum Íslands í aðildarviðræðunum við ESB, vegvísi Alþingis hefur verið fylgt í þaula og einungis lokaáfanginn er framundan. Á síðasta ári voru 12 kaflar opnaðir í viðræðunum og einum kafla lokað. Alls eru viðræður hafnar um 27 samningskafla af þeim 33 sem semja þarf um, eða 4/5 af öllum málaflokkum, en samningsafstaða Íslands hefur verið lögð fram í tveimur köflum til viðbótar. Í samræmi við samkomulag stjórnarflokkanna um breytta meðferð aðildarviðræðnanna verður ekki unnið frekar fram að kosningum við mótun samningsafstöðu Íslands í þeim fjórum köflum sem eftir eru og tengjast sjávarútvegi og landbúnaði. Á næstunni verður kynnt greinargerð um stöðu viðræðnanna við lok kjörtímabilsins.
- Íslensk stjórnvöld hafa allt kjörtímabilið stutt dyggilega við sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og hefur Palestínumálið verið tákn um ötula mannréttindabaráttu Íslendinga. Ísland fylgdi eftir viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu frá því í desember 2011 með því að gerast í nóvember 2012, eitt Vestur-Evrópuríkja, meðflutningsríki ályktunar um að Palestína fengi stöðu áheyrnarríkis hjá Sameinuðu þjóðunum. Tillagan var samþykkt með miklum meirihluta í allsherjarþinginu. Ný aðgerðaráætlun Íslands um málefni Palestínu liggur fyrir og nær til næstu fjögurra ára. Hún tryggir íslensk framlög til alþjóðlegra stofnana og frjálsra félagasamtaka – íslenskra og palestínskra.
- Fríverslunarviðræður Íslands og Kína eru langt komnar. Í heimsókn forsætisráðherra Kína til Íslands í apríl 2012 var sammælst um að taka upp þráðinn í fríverslunarviðræðum sem hófust 2007 og stefna á að ljúka þeim sem fyrst. Fimmta lota viðræðna haldin á Íslandi í lok desember 2012 og sjötta lotan í Kína í janúar 2013. Í síðustu lotunni í Kína náðist umtalsverður árangur og í kjölfar hennar hefur verið unnið að því að hnýta lausa enda, þar á meðal hvað varðar ákvæði um mannréttindi. Vonir standa til að fríverslunarsamningurinn verði undirritaður fljótlega sem mun skapa íslenskum fyrirtækjum og atvinnulífi mikilvæg tækifæri og efla viðskiptasamvinnu Íslands og Kína.
- Rekstur utanríkisþjónustunnar hefur verið innan fjárheimilda á undanförnum árum, þrátt fyrir að saman hafi farið umtalsverður niðurskurður og krefjandi verkefni. Norðurlöndin leita í æ ríkari mæli leiða til að samnýta húsnæði fyrir sendiskrifstofur sínar. Íslenskar sendiskrifstofur deila húsnæði með einni eða fleiri norrænum sendiskrifstofum í Berlín, Washington og London og gert er ráð fyrir að íslenska sendiráðið í Nýju-Delí flytji inn í nýtt húsnæði Dana þegar það er tilbúið. Góð reynsla er af samstarfinu í þessum borgum og verið er að kanna hvort slíkt fyrirkomulag gæti hentað víðar.