Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2013 Matvælaráðuneytið

Starfshópur skilar greinargerð um kennitöluflakk og jöfnun kynja í stjórnum fyrirtækja

Í nóvembermánuði 2012 setti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið  á fót starfshóp sem falið var að vinna tillögur að lagabreytingum og aðgerðum til að verjast kennitöluflakki og til að ná markmiðum laga um jöfnun kynja í stjórnum fyrirtækja. Markmiðið með vinnu hópsins var að lagaumgjörð um skrásetningu fyrirtækja og úrræði um slit þeirra stuðli að slitum óvirkra félaga og viðurlögum gagnvart félögum sem ekki virða lagaskyldur varðandi skil ársreikninga og framkvæmd hlutafélagalaga. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar ASÍ, Viðskiptaráðs Íslands, Fjármálaeftirlitsins, fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, Hagstofu Íslands, Sérstaks saksóknara auk fulltrúa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Frumvarp sem byggir á tillögum starfshópsins verður lagt fram á Alþingi á allra næstu dögum.  
Greinargerðin
Í greinargerðinni er m.a. lagt til að þegar í stað verði lögð fram frumvörp til breytinga á lögum um hlutafélög, einkahlutafélög og lögum um ársreikninga.  

  • Í fyrsta lagi til að stuðla að því að markmið laga um jöfnun kynja í stjórnum fyrirtækja náist.
  • Í öðru lagi til að ársreikningum félaga sé skilað tímanlega.
  • Í þriðja lagi til að upplýsingar um eigendur og kynjahlutföll liggi fyrir í ársreikningum.  
  • Í fjórða lagi til að lágmarkshlutafé sé til samræmis við það sem gerist í nágrannaríkjum Íslands ásamt því að tekið sé tillit til breytinga á innlendu verðlagi.
  • Í fimmta lagi einföld breyting á lögum er varða lán milli dóttur- og móðurfélaga.
  • Einnig er í greinargerðinni lagt til að ítarlegri greining á eðli og umfangi kennitöluflakks hér á landi fari fram áður en frekari lagabreytingatillögur hvað þann þáttinn áhrærir verða bornar fram.

Framangreindar breytingar, auk væntanlegrar skráningar hjá Hagstofu Íslands, munu sumar hafa mikil áhrif á möguleikana til að fylgjast með fyrirtækjum og bregðast við kennitöluflakki með markvissari hætti en nú er. Þá segir að mikilvægt sé að kortleggja betur nýlega lagasetningu nágrannalandanna bæði á sviði félagaréttar og gjaldþrotaréttar þar sem brugðist er við viðfangsefnum af hliðstæðum toga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta