Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Frumvarp til laga um Lánasjóð Íslenskra námsmanna

Frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra til nýrra laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna var dreift á Alþingi í dag.


Frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra til nýrra laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna var dreift á Alþingi í dag.  Helsta nýmæli þess er að lagt er til að tekið verði upp styrkjakerfi að nokkru leyti samhliða því lánakerfi, sem nú er við lýði. Almennir styrkir vegna háskólanáms eru þekktir annars staðar á Norðurlöndum en styrkjakerfin eru ólík. Í frumvarpinu er lagt til að námsmenn geti áunnið sér styrki ljúki þeir náminu á þeim fjölda námsanna og á þeim tíma sem skipulag námsins gerir ráð fyrir. Styrkirnir eru því ekki ætlaðir til framfærslu meðan á námi stendur enda falla þeir ekki til fyrr en að námi loknu. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að námsmaður útskrifist innan þess fjölda námsanna og þess tíma sem skipulag náms gerir ráð fyrir. Er með þessu kerfi því einnig verið að hvetja námsmenn til að ljúka námi á tilskildum tíma, en frumvarpið gerir þó ráð fyrir ákveðnu svigrúmi varðandi þetta. Stjórn Lánasjóðsins er falið að skilgreina í úthlutunarreglum sínum í hvaða tilvikum rof á námi teljist ekki til tafar á námsframvindu, svo sem barneignir, veikindi eða sambærilegir þættir.

Fjárhæð styrksins er miðuð við ákveðið hlutfall, þ.e. 25%, af grunnframfærslu sjóðsins á Íslandi á hverjum tíma (140.600 á mánuði í níu mánuði á ári skólaárið 2012-2013). Hér er því ekki miðað við það lán sem hver námsmaður tekur heldur er um að ræða sömu styrkupphæð fyrir alla. Sem dæmi má nefna námsmann sem lýkur sex anna grunnháskólanámi á sex önnum og fær því 25% af þrefaldri grunnframfærslu á Íslandi miðað við óbreytta framfærslu árin þrjú eða: 1.265.400 kr. x 3 x 0,25 = 949.050 kr. Ljúki námsmaður grunnháskólagráðu eftir sjö annir í háskóla nemur styrkurinn 70% af fullum styrk. Eftir það fellur styrkurinn niður. Svigrúm til seinkunar í tveggja ára námi er einnig ein önn og nemur þá styrkurinn 60% af fullum styrk. Vegna tveggja til þriggja anna náms er ekki veitt neitt svigrúm til seinkunar.

Með frumvarpinu er einnig brugðist við ýmsum breytingum sem orðið hafa á menntakerfinu frá því núgildandi lög voru sett. Meðal annarra breytinga má nefnda að lagt er til að ábyrgð ábyrgðarmanns fellur niður við 67 ára aldur eða við andlát, lánshæfismatsnefnd verði falið að meta lánshæfi náms, flóttamenn og þeir sem hafa hlotið hér dvalarleyfi eiga rétt til námslána, lögfest verði tímamörk á birtingu og samþykkt úthlutunarreglna Lánasjóðsins. Þá er einnig lögð til sú breyting að tekjuteng afborgun af námslánum taki mið af nafngildi tekjustofns ársins á undan og sé því ekki uppfærð samkvæmt hlutfallslegri breytingu vísitölu neysluverðs frá 1. júli á tekjuöflunarári til 1. júli á endurgreiðsluári eins og núgildandi lög kveða á um. Verði þessi breyting að lögum mun hún létta greiðslubyrði námslána. Frumvarpið leggur einnig til að ráðherra verði veitt heimild til að veita námsmönnum, sem hefja nám í tiltekinni námsgrein á tilteknu tímabili, sérstakar ívilnanir til þess að gefa ráðherra tækifæri til þess að bregðast við ástandi þar sem skortur er viðvarandi eða fyrirsjáanlegur á fólki með tiltekna menntun með því að skapa sérstakan hvata til þess að sækja þá menntun.

Í tveimur bráðabirgðarákvæðum frumvarpsins er kveðið á um áframhaldandi þróun og endurskoðun á kerfum sem tryggja eiga námsmönnum framfærslu á meðan á námi stendur. Annars vegar að skipuð verði nefnd til að gera tillögur að nýju fyrirkomulagi á endurgreiðslum námslána. Nefndin á einnig að athuga mögleika á - og eftir atvikum gera tillögu að því- að endurgreiðslur námslána geti komið til frádráttar á tekjuskattstofni lánþega til þess að skapa hvata fyrir fólk til að nýta menntun sína á Íslandi. Hins vegar að skipuð verði önnur nefnd til að gera tillögu að kerfi sem tryggir fólki, sem fer af vinnumarkaði til náms á framhaldsskólastigi, framfærslu á meðan á námi stendur. Einnig á nefndin að athuga hvernig hægt sé að styðja við námsmenn, sem velja sér námsleiðir á framhaldsskólastigi, sem ekki eru undirbúningur fyrir háskólanám. Báðum nefndum er ætlað að skila niðurstöðum eigi síðar en 1. september 2013.

Frumvarpið er afrakstur af heildarendurskoðun á gildandi lögum. sem unnin var í samstarfi við námsmannahreyfingar. Við vinnslu frumvarpsins hefur einnig verið haft samráð við aðila vinnumarkaðarins auk þess sem það fór í almenna kynningu þar sem öllum gafst kostur á að gera athugasemdir við það. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. september 2014.

 

Frumvarpið má finna á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/141/s/1096.html

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta