Skýrsla um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna
Forsætisráðherra hefur gefið Alþingi skýrslu um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna og tekna af gjöldum fyrir slík réttindi í samræmi við 5. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Skýrsla þessi er önnur í röðinni, á jafn mörgum árum.
Í skýrslunni kemur fram sú áhersla sem forsætisráðuneytið hefur lagt á stofnun þjóðlendna í fasteignaskrá á síðasta ári. Þannig voru alls 58 umsóknir um stofnun þjóðlendna í fasteignaskrá sendar sveitarfélögum í landinu til meðferðar. Þá hafa umsagnir um skipulagstillögur sveitarfélaga einnig verið fyrirferðarmiklar í starfi ráðuneytisins ásamt málum sem lúta að umsögnum um umsóknir fyrirtækja um rannsóknarleyfi vegna fyrirhugaðrar nýtingar á auðlindum í jörðu. Auk þess hefur verið skerpt á leyfisveitingarhlutverki sveitarfélaganna sem er víðtækt samkvæmt lögunum.