Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2013 Forsætisráðuneytið

Aðgerðir sökum neyðarástands vegna kynferðisbrota gegn börnum

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja nú þegar 79 milljónum kr. til að fjármagna forgangsaðgerðir til að bregðast við neyðarástandi í kynferðisbrotum gegn börnum. Þá hefur ríkisstjórnin lagt til að 110 milljón kr. aukafjárveiting verði varið í kaup á nýju Barnahúsi en sú tillaga er háð samþykki Alþingis. Samanlagt er um að ræða 189 milljónir kr.

Í janúar sl. skipaði forsætisráðherra nefnd fjögurra ráðuneyta um samhæfða framkvæmd stjórnvalda til þess að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi, eflingu lögreglu og ákæruvalds og bætt úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota, einkum börn. Þá átti nefndin að leggja til aðgerðir um bætta skráningu, eftirlit og meðferð með dæmdum kynferðisbrotamönnum. Í nefndinni sátu Ágúst Ólafur Ágústsson formaður, frá forsætisráðuneyti, Halla Gunnarsdóttir og Þórunn Hafstein frá innanríkisráðuneyti, Ingibjörg Broddadóttir og Sindri Kristjánsson frá velferðarráðuneyti og Jóna Pálsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Þrátt fyrir öflugt starf síðustu ára til að vinna gegn kynferðisofbeldi og bætta málsmeðferð er enn verk að vinna. Nefndin hitti á fimmta tug gesta á undanförnum tveimur mánuðum. Allir gestir nefndarinnar lýstu yfir miklum áhyggjum af gríðarlegri aukningu á tilkynntum kynferðisbrotum það sem af er þessu ári. Ýmsir gestir nefndarinnar líktu núverandi stöðu sem „neyðarástandi“ sem þyrfti að bregðast við hratt og örugglega.

Víðast hvar um landið hafa jafnmörg mál eða jafnvel fleiri verið tilkynnt til lögreglu á fyrstu þremur mánuðum ársins 2013 og voru tilkynnt allt árið í fyrra. Yfir 100 kynferðisbrot gegn börnum hafa verið tilkynnt til lögreglu frá áramótum en til samanburðar bárust 141 mál til lögreglu allt síðasta ár.

Þá hafa frá áramótum leitað helmingi fleiri börn í Barnahús en gera að jafnaði á jafnlöngu tímabili. Um tvö börn hafa nú komið daglega í Barnahús frá áramótum en í fyrsta skipti í sögu Barnahúss þurfa börn að bíða eftir þjónustu Barnahúss. Nú bíður 41 barn eftir þjónustu í Barnahúsi. Um 270-300 börn hafa leitað til Barnahúss á ári en um 470 tilkynningar berast til barnaverndarnefnda vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi á ári.

Nefndin telur það því mjög áríðandi að styrkja lögreglu, ákæruvald og Barnahús þegar í stað til að takast á við aukinn málafjölda sem enginn sá fyrir. Þá er áríðandi að efla enn frekar forvarnar- og fræðslustarf, auka við meðferðarúrræði fyrir brotaþola og brotamenn og styðja við bakið á þeim félagasamtökum sem sinna þjónustu við þolendur og aðstandendur þeirra. Það er því samhljómur milli tillagna nefndarinnar og tillagna hins þverpólitíska undirhóps allsherjarnefndar Alþingis sem voru nýlegar kynntar.

Alls leggur nefndin til 27 tillögur til úrbóta og er heildarkostnaður við þær um 290 milljónir kr. þar með talin kaup á nýju Barnahúsi. Í ljósi þess neyðarástands sem hefur skapast vegna kynferðisbrota gegn börnum var tillögunum forgangsraðað eftir mikilvægi og var það niðurstaða nefndarinnar að 15 tillögur þyldu enga bið. Þar er m.a. gert ráð fyrir 11 nýjum stöðugildum til mæta brýnni þörf.

Forgangstillögur nefndarinnar:

  1. Tillaga um kaup á nýju Barnahúsi en þessi tillaga er háð samþykki Alþingis.
  2. Tillaga um landssamráð barnaverndaryfirvalda, lögreglu og ákæruvalds.
  3. Tillaga um svæðissamráð sveitarfélaga, lögreglustjóra og barnaverndarnefnda.
  4. Tillaga um fjölgun sérfræðinga í Barnahúsi.
  5. Tillaga um stuðning gagnvart aðstandendum brotaþola.
  6. Tillaga um eflingu Vitundarvakningar gegn kynferðislegu ofbeldi.
  7. Tillaga um gerð fræðsluefnis um kynferðisofbeldi.
  8. Tillaga um aukinn stuðning við félagasamtök sem sinna þjónustu fyrir brotaþola.
  9. Tillaga um fjölgun lögreglumanna sem sinna rannsókn kynferðisbrota.
  10. Tillaga um ráðningu aðstoðarsaksóknara við embætti Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
  11. Tillaga um sálgæslu fyrir lögreglumenn og ákærendur í kynferðisbrotum gegn börnum.
  12. Tillaga um ráðningu saksóknara við embætti ríkissaksóknara.
  13. Tillaga um áhættumat á dæmdum kynferðisbrotamönnum.
  14. Tillaga um skráningu kynferðisbrotamanna.
  15. Tillaga um ráðningu sálfræðings við embætti Fangelsismálastofnunar.

Kostnaðurinn við forgangstillögur nefndarinnar á þessu ári er 79 milljónir kr. fyrir utan kaup á nýju Barnahúsi. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að mæta þessum kostnaði nú þegar vegna þess neyðarástands skapast hefur vegna kynferðisbrota gegn börnum.

Þá leggur ríkisstjórnin til að tillagan um kaup á nýju Barnahúsi fyrir allt að 110 milljónir kr. að teknu tilliti til söluandvirðis á núverandi húsnæði sem bætist við umrædda upphæð, verði tryggð með aukafjárveitingu með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að 189 milljónum kr. verði á þessu ári varið í kaup á nýju Barnahúsi og aðrar forgangstillögur til að bregðast við því neyðarástandinu.

Hér fyrir neðan má finna aðrar tillögur nefndarinnar en ýmsar aðrar úrbætur eru nú þegar komnar til skoðunar hjá viðkomandi ráðuneytum og má þar nefna skýrslutökur barna, rannsóknarheimildir lögreglu og mótun tillagna að framtíðarskipan ákæruvaldsins.

Aðrar tillögur nefndarinnar sem lagt er til að ráðist verði í á næsta ári:

  1. Tillaga um miðlæga stuðnings- og ráðgjafareiningu fyrir brotaþola
  2. Tillaga um ráðningu sálfræðings á geðsvið Landspítalans fyrir fullorðna brotaþola
  3. Tillaga um meðferð fyrir kynferðisbrotamenn
  4. Tillaga um úrræði fyrir þá sem kunna að fremja kynferðisbrot gegn börnum
  5. Tillaga um læknisskoðanir í Barnahúsi og verkaskiptingu við neyðarmóttöku
  6. Tillaga um rannsóknarsjóð um forvarnir og kynferðislegt ofbeldi
  7. Tillaga um fræðslu um heimilisofbeldi
  8. Tillaga um klám og kynheilbrigði
  9. Tillaga um miðlægt gagnasafn
  10. Tillaga um endurmenntun og þjálfun lögreglumanna sem fást við kynferðisbrot
  11. Tillaga um fjölgun félagsráðgjafa við embætti Fangelsismálastofnunar
  12. Tillaga um upplýsingar úr sakarvottorði

Heildarkostnaður við allar tillögurnar og þar með talið forgangstillögurnar, er um 290 milljónir króna.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta