Aukin vernd neytenda á fjármálamarkaði
Nefnd, sem skipuð var af hálfu forsætisráðuneytisins í október 2012 hefur skilað skýrslu og tillögum um bætta neytendavernd á fjármálamarkaði.
Helstu tillögur til úrbóta og bættrar neytendaverndar á fjármálamarkaði eru:
- Afnám stimpilgjalda af neytendalánum. Nefndin telur afar mikilvægt að stimpilgjöld verði afnumin með öllu enda felst í þeim aðgangshindrun á bankamarkaði. Slík aðgerð dregur úr kostnaði neytenda og heimila við lántöku. Aðgerðin er auk þess talin auka hreyfanleika viðskiptavina milli banka og stuðla því að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði.
- Bann við innheimtu lántökugjalda umfram vexti af neytendalánum. Lántökukostnaður er yfirleitt fast hlutfall af lánsfjárhæð (1%) en ekki er ljóst hvort sú tala endurspeglar raunkostnað við lántökuna. Lagt er til að bannað verði að innheimta lántökugjald sem hlutfall af lánsfjárhæð. Með lántökukostnaði er átt við þóknun og önnur gjöld sem neytandi þarf að greiða lánveitanda í tengslum við lánasamninginn.
- Uppgreiðslugjöld takmörkuð þannig að þau miði sannanlega við endurfjármögnunaráhættu lánveitanda.
- Samanburðarverðsjá á fjármálamarkaði. Sett verði á fót vefsíða þar sem allar upplýsingar um fjármálaþjónustu eru veittar á skýran og aðgengilegan hátt. Auðvelt verði að bera saman þjónustu banka og annarra fjármálastofnana t.d. vegna húsnæðislána, sparnaðar, vátrygginga o.s.frv.
- Fleiri tegundir húsnæðislána. Boðið verði upp á fleiri tegundir lána t.d. hrein vaxtalán og mögulega lán með verðtryggingarþaki þannig að lán hækki ekki umfram umsamin mörk og áhætta af verðbólguskoti dreifist milli lántaka og lánveitanda.
- Ítarleg rannsókn á bankamarkaði. Samkeppni á bankamarkaði er ábótavant að mati nefndarinnar, einkum á húsnæðislánamarkaði. Lagt er til að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti beiti sér fyrir rannsókn á bankamarkaði og geri samanburð á gjaldtöku fjármálafyrirtækja á Norðurlöndunum og öðrum nágrannaríkjum.
Nefndin leggur til að nýtt embætti Umboðsmanns neytenda verði sett á fót og Neytendastofa og talsmaður neytenda verði lögð niður í núverandi mynd. Nýtt embætti taki við skyldum þeirra og bæti við sig verkefnum sem nú er sinnt af Fjármálaeftirlitinu og snúa að neytendamálum.
Nefndin leggur áherslu á að Umboðsmanni neytenda verði tryggðar sambærilegar valdheimildir og sambærileg embætti hafa á Norðurlöndunum. Embættinu verði einnig fengið opinbert eftirlit með ósanngjörnum samningsskilmálum.
Gert er ráð er fyrir að mál sem snúa beint að neytendum verið í forgrunni hins nýja embættis Umboðsmanns neytenda. Einnig er lagt til að gerður verði samstarfssamningur milli Umboðsmanns skuldara, Umboðsmanns neytenda og Fjármálaeftirlitsins sem tryggir greið skipti á upplýsingum.
Loks leggur nefndin til nokkrar breytngar á lögum m.a. í þá veru að viðurlög við brotum á neytendalöggjöfinni verði hert. Þá er áhersla lögð á að stutt verði við fjármálalæsi almennings af hálfu hins opinbera.