Ályktun um stöðu íslenskrar tungu 2013
Eitt af verkefnum Íslenskrar málnefndar að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Í ályktun fyrir árið 2013 beinir málnefndin sjónum sínum sérstaklega að íslensku sem öðru máli og þá einkum og sér í lagi að börnum af erlendum uppruna og skólastarfi.
Á undanförnum árum hefur fjöldi fólks af erlendum uppruna flust til Íslands. Að sama skapi hefur fjöldi barna með innflytjendabakgrunn margfaldast á örfáum árum. Íslensk málnefnd telur að af þeim sökum standi allt skólakerfið frammi fyrir miklum áskorunum næstu árin og áratugina. Þar sem innflytjendasaga Íslendinga er stutt hafa þeir tækifæri til að nýta sér reynslu annarra þjóða og niðurstöður fjölmargra erlendra rannsókna á aðlögun innflytjenda og námsárangri og námsfærni tvítyngdra barna. Sterk staða í móðurmáli er talin leiða til sterkrar stöðu í lestri og ritun í seinna máli sem er forsenda þess að nemendur með annað móðurmál geti tileinkað sér námsefni skólanna. Tölur sýna að börn með erlendan bakgrunn fara síður í framhaldsskóla en innfæddir jafnaldrar þeirra og það er að mati nefndarinnar mikið áhyggjuefni.
Í ályktuninni er stöðunni lýst eins og Íslensk málnefnd telur hana vera núna. Eftir það er fjallað um það hverjar framtíðarhorfurnar eru ef ekkert verður að gert en í lokakaflanum eru settar fram hugmyndir Íslenskrar málnefndar um hvernig bregðast skuli við.
- Ályktun um stöðu íslenskrar tungu 2013 (PDF-skjal, 205 kb)