Hoppa yfir valmynd
17. desember 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ný stefna Vísinda- og tækniráðs 2013 – 2016

Áhersla lögð á alþjóðlega samkeppnishæfni og sveigjanlegt umhverfi rannsókna og nýsköpunar.

Vísinda- og tækniráð samþykkti á fundi sínum 27. nóvember 2013 nýja stefnu sem tekur til áranna 2013 til 2016. Í inngangi stefnuskjalsins er kjarni hennar skilgreindur með þessum hætti: „Mannauður er dýrmætasta auðlind sérhverrar þjóðar og eftir erfiðan niðurskurð undanfarinna ára verður það forgangsverkefni að skapa hér þannig aðstæður að ungt, vel menntað fólk kjósi að hasla sér völl hér á landi og reisa með því stoðir undir þekkingarsamfélag framtíðarinnar. Forsendan fyrir þessari þróun er traust menntakerfi og samkeppnishæfur vinnumarkaður sem getur tekist á við síbreytilegar þarfir atvinnu- og þjóðlífs. Til þess að svo megi verða þarf Ísland að leggja áherslu á alþjóðlega samkeppnishæfni og sveigjanlegt umhverfi rannsókna og nýsköpunar“.

Í stefnunni eru sett fram fjögur meginmarkmið:

I. Mannauður og nýliðun

Efla nýliðun í rannsókna- og nýsköpunargeiranum m.a. með eflingu doktorsnáms, eflingu raunvísinda og tæknigreina, styttingu námstíma að háskólanámi og auknu samstarfi fyrirtækja, rannsóknastofnana og menntakerfis.

II. Samstarf og skilvirkni

Auka samstarf háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja með aukinn afrakstur og skilvirkni að leiðarljósi.

III. Sókn og verðmætasköpun

Auka fjárveitingar og fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun, bæði í opinbera geiranum og einkageiranum.

IV. Afrakstur og eftirfylgni

Meta gæði og afrakstur vísinda- og nýsköpunarstarfs og stuðla að stöðugum umbótum.


Vísinda- og tækniráð

Vísinda- og tækniráð hefur það hlutverk að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækni­­þróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka sam­keppnis­hæfni atvinnulífsins. Vísinda- og tækniráð starfar skv. lögum nr. 2/2003. 

Forsætisráðherra er formaður ráðsins, en þar sitja einnig fjármálaráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra auk 16 fulltrúa sem eru tilnefndir í ráðið af ráðuneytum, háskólum og aðilum vinnumarkaðarins, auk þess sem forsætisráðherra getur kveðið allt að fjóra ráðherra til setu í ráðinu.

Ráðið markar stefnu stjórn­valda í vísinda- og tæknimálum til þriggja ára í senn. Umfjöllun ráðsins á hvoru sviði um sig er undirbúin af starfsnefndum ráðsins, vísindanefnd og tækninefnd. Vísinda- og tækniráð fundar fjórum sinnum ári.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta