Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 11.mars 2014
Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana, 1. tölublað 16. árgangs, er komið út á vef ráðuneytisins.
- Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 11. mars 2014 (PDF 269 KB)
Almennar siðareglur fyrir starfsmenn ríkisins
Í júní 2010 var gerð breyting á lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og fleiri lögum með það að markmiði að lögfesta umgjörð um siðareglur og samhæfa störf þeirra þeirra aðila innan stjórnsýslunnar sem vinna að bættum vinnubrögðum hennar. Lögin kváðu jafnframt á um að sett yrði á stofn samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna og hefur hún haft veg og vanda að undirbúningi og innleiðingu siðareglna fyrir ráðherra og starfsfólk Stjórnarráðsins og nú síðast fyrir aðra starfsmenn ríkisins. Almennar siðareglur starfsmanna ríkisins voru staðfestar af fjármála- og efnahagsráðherra 22. apríl 2013 og í inngangi segir að þær séu settar í því skyni að efla fagleg vinnubrögð og auka traust á stjórnsýslunni. Hver starfsmaður á að gæta að því fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum en stjórnendum ríkisstofnana er falið að sjá til þess að starfsfólki sé kunnugt um reglurnar og að þær séu eðlilegur þáttur í starfi þeirra. Siðareglurnar eiga að endurspegla tiltekin grunngildi í störfum hjá ríkinu eins og heilindi, óhlutdrægni og skilvirkni. Eins og gefur að skilja er það ekki einfalt verkefni að setja starfsmönnum ríkisins siðareglur þar sem þeir sinna mjög fjölbreyttum og ólíkum störfum. Niðurstaða samhæfingarnefndarinnar varð því sú að hinar almennu siðareglur ríkisstarfsmanna yrðu hugsaðar sem rammi en gert væri ráð fyrir því að fagstéttir og starfsmenn einstakra stofnana myndu eftir sem áður setja sér eigin siðareglur. Nú þegar eiga margir hópar starfsmanna ríkisins sér sérstakar reglur eða nota siðareglur samtaka sinna. Nefndin gerir ráð fyrir því að við endurskoðun slíkra reglna, eða eftir atvikum samningu nýrra, verði stuðst við almennar siðareglur starfsmanna ríkisins og leitast við að fylla út í þann ramma sem þær setja. Reglurnar eru aðgengilegar á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Viðmið um góða starfshætti við opinber innkaup
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út viðmið um góða starfshætti fyrir starfsmenn sem annast opinber innkaup. Markmið þessara viðmiða er að setja fram leiðbeiningar um hvernig beri að umgangast viðskiptavini, þ.e. fyrirtæki og bjóðendur, og komast hjá hagsmunaárekstrum. Viðmiðin eiga jafnframt að viðhalda trausti til opinberra innkaupa og tryggja jafnræði og samkeppni á markaði.
Viðmið þessi eru nánari útfærsla á almennum siðareglum starfsmanna ríkisins en innkaupastarfsmenn skulu jafnframt, eftir því sem við á, fara eftir siðareglum sem gilda á þeirra eigin stofnunum. Viðmiðum þessum er ætlað að vera leiðbeinandi og hvetja til umhugsunar um hvað teljist góðir starfshættir. Telji einstaka stofnanir þörf á ítarlegri reglum eru þær eindregið hvattar til að setja sér slíkar reglur í samráði við starfsmenn. Viðmiðin eru aðgengileg á vef fjármála og efnahagsráðuneytisins.
Túlkun nýrra upplýsingalaga vegna fyrirspurna um launakjör
Í framhaldi af gildistöku nýrra upplýsingalaga fékk Kjara- og mannauðssýslan þó nokkrar fyrirspurnir frá forstöðumönnum ríkisstofnana vegna beiðna sem þeim hafði borist um upplýsingar um launakjör starfsmanna þeirra. Þar sem lögin eru ný voru erindin framsend til forsætisráðuneytisins og óskað eftir leiðbeiningum um túlkun á lögunum þar sem þau eru á forræði þess. Nú í febrúar barst meðfylgjandi svar. Forstöðumenn eru hvattir til að kynna sér það og svara fyrirspurnum um launakjör starfsmanna sinna í samræmi við það. Upplýsingar um föst launakjör starfsmanna, 7. gr. upplýsingalaga (PDF 242)
Nefnd um málefnalegar skýribreytur hefur lokið störfum
Í Aðgerðaáætlun um launajafnrétti kynjanna sem var samþykkt á ríkisstjórnarfundi þann 28. september 2012 eru tiltekin þó nokkur verkefni sem ríkinu sem vinnuveitanda er falið að sinna. Þar má nefna samráð ráðuneyta um launastefnu, bættar starfslýsingar og leiðbeiningar til stjórnenda varðandi launaúttektir. Þá er kveðið á um formlegan starfshóp á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem hafi það hlutverk að meta hvaða skýribreytur teljast málefnalegar við greiningu á launamun kynjanna. Starfshópurinn sem var skipaður tveimur fulltrúum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og jafn mörgum frá BHM, BSRB og Félagi stjórnenda ríkisstofnana gaf út skýrslu með niðurstöðum og tillögum í desember sl. og lauk þar með störfum. Skýrslu nefndarinnar má nálgast á vef fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Til að skoðun á kynbundnum launamun sé samanburðarhæf á milli ára er nauðsynlegt að notast alltaf við sömu skýribreyturnar. Samanburður milli landa er ekki síður mikilvægur og því horfði nefndin sérstaklega til Norðurlandanna við ákvörðun um skýribreytur sem verði notaðar við úttekt Hagstofu Íslands á launum karla og kvenna. Nefndin varð sammála um að eftirfarandi breytur væru málefnalegar við mat á launamuni kynja:
Atvinnugreinaflokkun (ÍSAT2008), starfaflokkun (ÍSTARF95), kyn, menntun, starfshlutfall, vinnutími og starfsaldur/lífaldur.
Í niðurstöðum og tillögum er lögð áhersla á að stofnanir ríkisins ljúki sem fyrst nauðsynlegri skráningu upplýsinga sem varða laun og rekjanleika launabreytinga í Orra. Að auki leggur nefndin meðal annars til að stefnt verði að árlegum launagreiningum hjá stofnunum ríkisins, að áhrif kjarasamninga og launakerfa á launamun kynjanna verði skoðað með reglubundnum hætti og að ríkið, ásamt aðilum vinnumarkaðarins, standi fyrir tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals. Það verkefni er þegar farið af stað eins og fram kemur hér að neðan
Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals
Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 var formlega hleypt af stokkunum á jafnréttisþingi þann 1. nóvember síðastliðinn. Heildarsamtök launafólks, atvinnurekenda og stjórnvöld áttu frumkvæði að gerð og þróun staðalsins sem unninn var á vettvangi Staðlaráðs
Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals er unnið á vegum aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti á grundvelli Aðgerðaáætlunar um launajafnrétti kynjanna. Sérfræðingar á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins stýra verkefninu, leggja fram hagnýtar leiðbeiningar og veita stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum ráðgjöf varðandi innleiðingu jafnlaunastaðalsins ásamt því að efna til samstarfsvettvangs þátttakenda. Alls eru það ellefu ríkisstofnanir, tvö sveitarfélög og fjögur einkafyrirtæki sem taka þátt. Þær stofnanir sem taka þátt eru Alþingi, Fiskistofa, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Landmælingar Íslands, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Menntaskólinn í Kópavogi, Náttúrufræðistofnun Íslands, Ríkiskaup, Tollstjóri og velferðarráðuneytið.
Jafnlaunastaðallinn er stjórntæki er nýtist atvinnurekendum við mótun eða endurskoðun á launastefnu sinni og þeim aðferðum og viðmiðum sem notuð eru við launasetningu. Staðallinn er byggður upp með sama hætti og alþjóðlegir stjórnunarstaðlar eins og t.d. ISO 14001 um umhverfisstjórnun. Megin einkenni slíkra staðla er að fyrirtæki setji sér stefnu og skjalfestar verklagsreglur til að fylgja stefnunni. Einnig eru kröfur um rýni, úrbætur (komi upp frábrigði) og stöðugar umbætur.
Nánari upplýsingar um aðgerðir í launajafnrétti og þ.m.t. tilraunaverkefnið um innleiðingu jafnlaunastaðals er að finna á vef velferðarráðuneytisins.
Jafnlaunastaðalinn er hægt að kaupa á síðu staðlaráðs.
Kynjabókhald forstöðumanna 2013
Eins og undanfarin ár er birt yfirlit yfir fjölda forstöðumanna ríkisins og kynjahlutfall þeirra. Í töflunni hér að neðan má sjá fjölda forstöðumanna (þ.m.t. ráðuneytisstjóra) eftir ráðuneytum og hlutfall þeirra sem eru konur.
Karlar | Konur | Samtals | Ár 2013 | Ár 2012 | |
Forsætisráðuneyti | 2 | 4 | 6 | 67% | 67% |
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti | 10 | 3 | 13 | 23% | 29% |
Fjármála- og efnahagsráðuneyti | 11 | 2 | 13 | 15% | 8% |
Innanríkisráðuneyti | 27 | 11 | 38 | 29% | 28% |
Mennta- og menningarmálaráðuneyti | 28 | 22 | 50 | 44% | 54% |
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti | 13 | 2 | 15 | 13% | 6% |
Utanríkisráðuneyti | 2 | 0 | 2 | 0% | 0% |
Velferðarráðuneyti | 23 | 9 | 32 | 28% | 29% |
116 | 53 | 169 | 31% | 33% |
Í árslok 2013 voru forstöðumenn 169 og hefur þeim fækkað um 10 frá árinu 2012. Fækkun má rekja til þess að stofnanir voru lagðar niður og sameinaðar eða færðar undir aðrar stofnanir. Forsætisráðuneyti telur nú sex forstöðumenn, en áður þrjá. Tvær stofnanir sem heyrðu undir mennta- og menningarmálaráðuneyti, Fornleifavernd og Húsafriðunarnefnd, eru sameinaðar í Minjastofnun í forsætisráðuneyti, Hagstofa Íslands og Þjóðminjasafn færast einnig undir ráðuneytið. Undir innanríkisráðuneyti heyra 38 forstöðumenn, voru áður 46, og eru breytingar þær að Flugmálastjórn, Siglingastofnun og Umferðarstofa sameinast undir Samgöngustofu, Rannsóknarnefndir voru áður þrjár, vegna flugslysa, sjóslysa og umferðarslysa, en sameinast í eina Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Undir innanríkisráðuneyti heyra einnig sýslumannsembætti, sem eru 24, en fjöldi sýslumanna er færri þ.e. undir suma sýslumenn heyra tvö embætti, og að lokum sameinast verkefni Talsmanns neytenda undir Neytendastofu. Breytingar í mennta- og menningamálaráðuneyti eru þær að Þjóðmenningarhús færist undir Þjóðminjasafn og ýmis verkefni Listasafns Einars Jónssonar sameinast Listasafni Íslands. Nokkrar breytingar á skipulagi eru að auki, Veiðimálastofnun, áður umhverfis- og auðlindaráðuneyti, færist undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, en Fjármálaeftirlitið heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Konur eru 53 talsins og gerir það 31% af fjölda forstöðumanna, en var 33% árið á undan. Í súluritinu má sjá þróun síðustu ára.Meðalaldur forstöðumanna er 55,8 ára, konur eru 52,7 ára og karlar eru 57,2 ára. Meðalaldur ríkisstarfmanna í heild er lægri eða 46,1 ára, aldur kvenna er um 45,5 ára, en karla 47,2 ára í árslok 2013.
Nýtt efni á vef fjármálaráðuneytisins
Birtur hefur verið nýr listi yfir forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja í Lögbirtingablaðinu. Fyrir 1. febrúar ár hvert sker fjármálaráðherra úr því hvaða starfsmenn teljast forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja skv. 1. mgr. 22. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna rikisins og birtir lista yfir þá í Lögbirtingablaði.
Þegar listi þessi er skoðaður þá þarf ávallt að hafa í huga að hann er ekki tæmandi yfir forstöðumenn ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja. Embættismenn eru taldir upp í 1 - 13 tölulið í 1. mgr. 22. gr. laganna. Í 13. tölulið segir að fjármálaráðherra skeri úr hvaða starfsmenn falli undir þann lið. Það eru aðeins þeir sem birtir eru á forstöðumannalistanum. Aðrir eru sérstaklega taldir upp í lögunum.
Störf sem undanþegin eru verkfallsheimild
Birt hefur verið auglýsing nr. 81/2013 um skrá yfir störf sem undanþegin eru verkfallsheimild sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.