Samningur um tilraunaverkefnið „Menntun núna“
Í dag undirrituðu Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri samstarfssamning um verkefnið "Menntun núna" í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi.
„Menntun núna“ er tilraunaverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og aðila vinnumarkaðarins sem hefur það markmið að auka ráðgjöf og stuðning við menntun í Breiðholti. Verkefnið er staðsett í Gerðubergi. Samningurinn er um ráðstöfun styrktarframlags til verkefnisins og meginmarkmið hans eru að:
- Auka þjónustu og stuðning við þrjá hópa í Breiðholti í því skyni að auðvelda þeim að hefja nám að nýju. Í fyrsta lagi innflytjendur, í öðru lagi fólk á aldrinum 25 – 54 ára, semekki hefur lokið formlegu námi eftir grunnskóla og í þriðja lagi fólk á aldrinum 18 – 25 ára sem horfið hefur frá framhaldsnámi.
- Fjölga þeim íbúum Breiðholts sem lokið hafa skilgreindu prófi eftir grunnskóla.
- Efla íslenskukunnáttu innflytjenda í Breiðholti.
Tilraunin í verkefninu felst í að bjóða íbúum Breiðholts, þar sem býr fjöldi fólks af erlendu bergi brotið, tímabundið upp á öfluga þjónustu og úrræði í nærsamfélaginu, vinna með samtökum, félögum og samfélögum innflytjenda í hverfinu, að vinna skipulega í ákveðinn tíma með víðtæku samvinnuneti að því að bjóða íbúum upp á ráðgjöf og nám við hæfi, starfskynningar og starfsþjálfun.
Í lok verkefnisins verður árangur þess og yfirfærslugildi metið. Sem dæmi um starfsemi má nefna að einstaklingar, sem nýverið hafa hætt í framhaldsskóla, verða hvattir til að hefja nám að nýju með boði um aukinn stuðning við námið og náms – og starfsráðgjöf. Þá verður innflytjendum boðin náms- og starfsráðgjöf, starfskynningar, starfsþjálfun, raunfærnimat og aðstoð við að fá nám sitt viðurkennt.