Orkumálaráðherrar Norðurlandanna leggja áherslu á aukinn hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum
Ráðherrafundur orkuráðherra Norðurlandanna var haldinn í gær í Keflavík undir forsæti Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Ráðherrarnir lögðu sérstaka áherslu á mikilvægi þróunar grænna tæknilausna og þess að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum jafnt á lofti, láði og legi.
Meðal annarra atriða sem koma fram í ályktun fundarins má nefna áherslu á samvinnu Norðurlandaþjóðanna varðandi flutningskerfi raforku og norrænan raforkumarkað.
Ráðherrarnir eru sammála um að ný Loftslags- og orkustefna ESB til ársins 2030 muni hafa mikil áhrif og setja þrýsting á alþjóðasamfélagið.
Danir munu gegna formennsku í nefndinni á næsta ári og tiltók danski ráðherrann Rasmus Pedersen að þeir muni feta í fótspor Íslendinga og leggja áfram áherslu á möguleika þess að nota lífeldsneyti í samgöngum, sérstaklega í skipum og flugvélum.