Stefna í almannavarna-og öryggismálum samþykkt
Stefna í almannavarna- og öryggismálum ríkisins 2015–2017 var samþykkt í morgun á fundi almannavarna- og öryggismálaráðs og í framhaldinu skrifaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður ráðsins, undir stefnuskjalið. Stefnan miðar að því að tryggja heildarsýn yfir áhættuþætti og inniheldur hún megináherslur fyrir málefnasvið almannavarna og 42 aðgerðir sem þykja nauðsynlegar og varða öryggi samfélagsins í víðu samhengi.
Stefnuskjalið er viðamikið plagg, 68 blaðsíður auk fylgiskjala, og skiptist í fimm kafla: Almannaöryggi, almannavarnir – skipulag og meginverkefni, vernd mikilvægra innviða samfélagsins, löggæsla og öryggismál og eftirfylgni og endurmat.
Stýrihópur hafði umsjón með gerð stefnunnar og var einnig aflað umsagna í opnu samráðsferli. Með stefnunni er leitast við að tryggja viðbrögð við ógnum og áhættuþáttum sem kunnir eru og með mati á því hvernig þeir muni þróast. Er hún skýr og sveigjanleg til að greiða fyrir því að viðbrögð stjórnvalda við ógnunum verði skilvirk og áreiðanleg. Aðgerðir vegna mögulegra öryggisógna felast í því að styrkja mótvægisaðgerðir og lágmarka tjón.
Aðild að almannavarna- og öryggismálaráði eiga ráðherrar og ráðuneytisstjórar forsætisráðuneytis, innanríkisráðuneytis, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, velferðarráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Þá sitja í ráðinu fulltrúar lykilstofnana í viðbragðskerfi almannavarna: Ríkislögreglustjórinn, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, vegamálastjóri, forstjórar Samgöngustofu, Póst- og fjarskiptastofnunar, Veðurstofunnar, Mannvirkjastofnunar, Umhverfisstofnunar, landsnets og Geislavarna ríkisins, orkumálastjóri, landlæknir, sóttvarnalæknir, fulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Rauða krossins á Íslandi og fulltrúi samræmdrar neyðarsvörunar. Einnig fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Fundinn ávörpuðu í upphafi þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Ólöf Nordal innanríkisráðherra. Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri flutti síðan skýrslu um almannavarnakerfið og reynslu undanfarinna ára. Ræddi hann einnig viðbragðsáætlanir og um vernd mikilvægra samfélagsinnviða. Þá kynnti Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri skrifstofu almannavarna í innanríkisráðuneytinu, helstu atriði stefnunnar og hvernig standa á að innleiðingu og uppfærslu áætlana um aðgerðir. Í framhaldinu var stefnan borin upp og hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.