Efling millilandaflugs á landsbyggðinni
Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið, að tillögu forsætisráðherra, að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja undirbúning að stofnun Markaðsþróunarsjóðs og Áfangastaðasjóðs með það að markmiði að koma á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík.
Forsætisráðherra skipaði í lok maí sl. starfshóp sem hafði það hlutverk að gera tillögur um hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík. Starfshópurinn fól Rannsóknarmiðstöð ferðamála að vinna skýrslu um svæðisbundin og þjóðhagsleg áhrif af beinu millilandaflugi til Akureyrar eða Egilsstaða og studdist starfshópurinn við upplýsingar úr þeirri skýrslu við gerð tillagna auk þess sem leitað var álits sérfræðings fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sviði ríkisaðstoðar og sérfræðings á sviði leiðakerfa og uppbyggingar nýrra áfangastaða. Ennfremur voru upplýsingar fengnar hjá Transport Scotland og Charter Fund Norway til að skoða þeirra nálgun. Þá kynnti starfshópurinn sér aðstæður á Egilsstöðum og Akureyri.
Starfshópurinn hefur nú skilað tillögum þar sem lagt er til að ríkissjóður styðji við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands með stofnun Markaðsþróunarsjóðs (e. Market Development Fund) og Áfangastaðasjóðs (e. Route Development Fund). Markmiðið er að sjóðirnir hafi hvetjandi áhrif á erlenda sem innlenda aðila og skal framlag þeirra vera viðbót við framlag annarra þróunaraðila (landshlutasamtaka, flugfélög, markaðsþróunarfélög o.fl.) og greiðast eftir að flug er hafið, nánar tiltekið þegar lágmarkstímabili hefur verið náð og svo mánaðarlega eftir það.
Í vinnu sinni horfði starfshópurinn einkum til eftirfarandi þátta:
- Að nýta betur innviði ríkisins.
- Að bæta aðgengi að millilandaflugi á Norðurlandi og Austurlandi sem hefur mikla þýðingu fyrir vaxtarmöguleika fyrirtækja og styður við fjölbreyttara atvinnulíf.
- Að bæta búsetuskilyrði og lífsgæði. Bætt aðgengi að millilandaflugi eykur búsetuskilyrði um land allt til muna. Lífsgæði heimamanna aukast með aukinni hagræðingu, sparnaði og fleiri ferðamöguleikum.
- Að efla hagræn áhrif. Gert er ráð fyrir að beint flug hafi veruleg jákvæð áhrif á hagkerfið á Norður- og Austurlandi. Með heilsársstörfum í ferðaþjónustu má auka menntun fólks í þeim geira og gera fyrirtækjum kleift að vinna að nýsköpun og þróun.
- Að bæta rekstrarskilyrði ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Með beinu flugi batna forsendur reksturs ferðaþjónustu á heilsársgrunni til muna. Nauðsynlegt er að bæta nýtingu fjárfestingar á Norður- og Austurlandi í ferðaþjónustu allt árið og þar með skilyrði til fjárfestinga. Bætt nýting hótela, veitingastaða, langferðabíla, hvalaskoðunarskipa og hvers kyns afþreyingarmöguleika, flugvalla, vega og annarra ríkisinnviða er helsta þjóðhagslega áhrifastærðin.
Gert er ráð fyrir að framlag ríkisins til sjóðanna muni skila sér til baka í formi skatttekna en ætla má að beinar skatttekjur af tveimur flugum á viku allt árið yrðu um 300-400 milljónir króna árlega sem ríkissjóður myndi njóta áfram að loknu þriggja ára starfstímabili sjóðanna.
Skýrsla starfshóps: Auknir möguleikar í millilandaflugi