Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um úrbætur á tekjuskattskerfi einstaklinga og barna- og vaxtabótum
Aþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra unnið úttekt á tekjuskattlagningu einstaklinga og barna- og vaxtabótakerfunum með frekari úrbætur í huga, en síðustu ár hefur markvisst verið unnið að því að einfalda íslenska skattkerfið á sem flestum sviðum. Skýrsla sjóðsins um úttektina liggur nú fyrir ásamt hugmyndum að mögulegum breytingum á kerfunum.
Hugmyndir sérfræðinga AGS um mögulegar breytingar kerfanna eru í stuttu máli nokkuð róttækar miðað við gildandi tekjuskatts- og bótakerfi. Á það bæði við um uppbyggingu tekjuskattsálagningar og bótakerfanna. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi:
- Framtíðarúrbætur á íslenska tekjuskattskerfinu ættu að beinast að breytingum á persónuafslætti, lægra tekjuskattshlutfallinu, barnabótum og vaxtabótum.
- Persónuafsláttur verði hækkaður og greiddur út til þeirra sem náð hafa 18 ára aldri, nýtist hann ekki að fullu á móti álögðum skatti.
- Barna- og vaxtabótakerfi verði einfölduð og bótum beint í ríkari mæli að lágtekjuheimilum.
- Ein föst fjárhæð barnabóta verði reiknuð fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, óháð fjölskyldugerð.
- Skerðingarhlutfall barnabóta verði eitt og hækki töluvert frá því sem nú er.
- Vaxtabætur verði felldar niður í áföngum á næstu árum.
- Breytingar vaxtabóta falli að allsherjarendurskoðun á húsnæðisstuðningi stjórnvalda.
Ráðherra hefur nú falið sérfræðingum ráðuneytisins að taka skýrsluna í heild og einstaka efnisþætti hennar til gaumgæfilegrar skoðunar sem lið í mótun stefnu á sviði tekjuskattlagningar einstaklinga til framtíðar. Í þessu samhengi má benda á að í ráðuneytinu er nú þegar unnið að útfærslu tillagna um stuðning ríkisins við þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð, samhliða úrbótum á vaxtabótakerfinu.