Skýrsla um efnahagsleg áhrif innflutningsbanns Rússlands á íslenska hagsmuni
Fyrirtækið Reykjavik Economics hefur unnið skýrslu um efnahagsleg áhrif innflutningsbanns Rússlands á íslenska hagsmuni. Var skýrslan unnin að beiðni samráðshóps stjórnvalda og hagsmunasamtaka á Rússlandsmarkaði, en í honum sitja fulltrúar frá forsætisráðuneyti, utanríkisráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarrráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Í skýrslunni er farið yfir viðskiptasögu Íslands og Rússlands og hvernig útflutningur til Rússlands hefur þróast á undanförnum áratugum. Þá er greint frá þróun efnahagsmála í Rússlandi og aðstæðum á alþjóðlegum mörkuðum fyrir sjávarafurðir, og sagt frá viðskiptabanni Evrópusambandsins og annarra ríkja gagnvart Rússlandi.
Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a. að efnahagsleg áhrif innflutningsbanns Rússlands hér á landi geti orðið umtalsverð, en að hafa verði í huga að samdráttur ríki í efnahagsmálum Rússlands og að kaupmáttur fari þar minnkandi. Þá sé of snemmt að segja til um það hver áhrif verði af þeim mótvægisaðgerðum sem stjórnvöld hér á landi hafa gripið til vegna innflutningsbannsins.