Mat á hagsmunum Íslands:
Með átökunum í Úkraínu hóf Rússlandsstjórn einhliða nýjan kafla í öryggismálum Evrópu sem enn hefur ekki verið til lykta leiddur. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessari þróun en áskorunin sem staðið er frammi fyrir er langt frá því að vera eingöngu bundin við milliríkjaviðskipti. Þvert á móti er um utanríkispólitíska áskorun að ræða fyrir Ísland og alla bandamenn Íslands sem í grunninn snýr að því með hvaða hætti við skilgreinum utanríkisstefnu landsins og þau utanríkispólitísku gildi sem Ísland hefur staðið vörð um í samfélagi þjóðanna á lýðveldistímanum.