Skýrsla iðnaðar- og viðskiptaráðherra til Alþingis um ferðamál
Laust fyrir páska lagði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram á Alþingi skýrslu um ferðamál þar sem gerð er grein fyrir ýmsum þeim verkefnum sem unnið er að á vettvangi stjórnsýslunnar og í samstarfi við ferðaþjónustuna og sveitarfélög.
Skýrslan gefur glögga mynd af stöðu ferðaþjónustunnar og aðkomu ríkisvaldsins að verkefnum tengdum eflingu og þróun hennar í fortíð, nútíð og framtíð.
Meðal verkefna sem gerð er grein fyrir í skýrslunni má nefna:
- Aukin framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem og breytingar á sjóðnum til að hann geti betur sinnt hlutverki sínu við uppbyggingu á ferðamannastöðum.
- Verkefni sem koma fram í Vegvísi í ferðaþjónustu sem ráðuneytið og Samtök ferðaþjónustunnar stóðu sameiginlega að.
- Þau fjölmörgu verkefni sem unnið er að á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála.
- Markviss áhersla á að bæta talnagögn og auka rannsóknir.
- Lagabreytingar sem komnar eru til framkvæmda og eru í vinnslu.
Markmið skýrslunnar er að upplýsa Alþingi um þessi mikilvægu verkefni og kalla eftir hugmyndum þingsins um aðgerðir sem mega verða til þess að efla ferðaþjónustuna enn frekar.