Hoppa yfir valmynd
7. júní 2016 Matvælaráðuneytið

Greinargerð starfshóps um arðskrár veiðifélaga

Starfshópur um endurskoðun löggjafar og framkvæmd laga og stjórnvaldsreglna um arðskrár veiðifélaga hefur skilað greinargerð til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

Starfshópurinn fór yfir 33 matsgerðir um arðskrár veiðifélaga sem lokið var á árunum 2010-2015. Í tillögum starfshópsins er sérstaklega horft til þriggja þátta; þróun matsþátta, kostnaðar við arðskrármöt og mönnun matsnefnda. 

Þróun matsþátta

Við skoðun á vægi kom í ljós að veiði hefur aukist úr 41,3% á fyrra viðmiðunartímabili í 49,0% seinna tímabilið, en að sama skapi hefur vægi bakkalengdar, búsvæða og annarra matsþátta minnkað. Frá því lög nr. 61/2006 tóku gildi hefur þannig orðið sú þróun að hlutdeild veiði hefur aukist á kostnað hinna höfuðþáttanna tveggja, landlengdar og uppeldisskilyrða. Breytingin er þó mögulega minni sé horft eingöngu á sjálfbærar laxveiðiár. Að mati starfshópsins þarf að greina nánar ástæður þessarar þróunar og síðan meta hvort þörf sé breytinga á verklagi við matsgerðir til að sporna við þessari þróun.

Kostnaður við arðskrármöt  

Það er jafnframt mat starfshópsins að kostnaður við matsgerðir sé hár. Núvirtur kostnaður var frá 1,33 til 10,4 millj. kr., en að meðaltali tæpar 4,8 millj. kr.  Í tveimur tilfellum lá fyrir yfirmat bæði á fyrra og seinna tímabili. Í báðum tilfellum var kostnaður ívið meiri á seinna tímabilinu. Starfshópurinn telur nauðsynlegt að fara nánar yfir verklag matsnefndar með það að markmiði að lækka kostnað við matsgerðir.

Mönnun matsnefndar

Starfshópurinn bendir á að í núgildandi lögum er sérstaklega kveðið á um að tveir matsmenn af þremur skuli uppfylla hæfisskilyrði héraðsdómara. Engar kröfur eru gerðar til fiskifræðilegar þekkingar eða reynslu matsmanna, enda þótt verulegur hluti matsefna varði það fræðasvið. Sú staðreynd að landeigendur eigi fulltrúa í matsnefndinni þurfi jafnframt skoðunar við. Starfshópurinn telur þannig rétt að kröfur um sérþekkingu matsmanna verði skoðaðar og lögum mögulega breytt.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta