Skýrsla um þróun kostnaðar heimila við raforkuöflun
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur látið vinna skýrslu um þróun kostnaðar heimila við raforkuöflun, frá gildistöku raforkulaga 2005 til 2017. Sérstaklega er þar horft til heimila sem búa við rafhitun. Í skýrslunni er skoðuð þróun tekna og kostnaðar notenda fyrir kerfið í heild sinni (samkeppnis- og sérleyfisþátt) og sýndar samanburðartölur fyrir öll átta gjaldskrársvæði landsins; ásamt sköttum, verðjöfnun og niðurgreiðslum. Tekjurnar af þessari starfsemi renna til raforkuvinnslu, sölufyrirtækja, Landsnets, dreifiveitna og ríkissjóðs og koma þær bæði frá notandanum og frá ríkinu í formi niðurgreiðslna og dreifbýlisjöfnunar.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að heildarkostnaður meðal heimilis við raforkuöflun, á verðlagi við lok árs 2016, hefur breyst tiltölulega lítið frá 2005, en hann hefur þó ætíð verið meiri í dreifbýli en þéttbýli. Ef skoðaður er hver kostnaðarþáttur fyrir sig kemur í ljós að kostnaður notanda við orkukaup fór heldur minnkandi í byrjun tímabilsins en hefur verið að vaxa á undanförnum árum. Á móti kemur að kostnaður notanda vegna flutnings og dreifingar hefur farið lækkandi á allra síðustu árum vegna aukinna niðurgreiðslna og dreifbýlisframlags.