Rökræðukönnun um stjórnarskrá um helgina
Könnunin er hluti af almenningssamráði um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Rökræðukönnunin tekur fyrir nokkur afmörkuð atriði s.s. ákvæði um embætti forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði, Landsdóm, breytingar á stjórnarskrá, kjördæmaskiptingu og atkvæðavægi og alþjóðasamstarf.
Rökræðukönnunin fer þannig fram að þátttakendum verður skipt í hópa sem ræða viðfangsefnin út frá rökum með og á móti ýmsum tillögum undir stjórn umræðustjóra. Að loknum umræðum um hvert efni gefst þátttakendum tækifæri á samtali við sérfræðinga í pallborðsumræðum. Viðhorfskönnun fer fram í upphafi fundar og einnig í lok hans og þannig er kannað hvort breytingar verði á viðhorfum fólks við að taka þátt í nánari skoðun, rýni og umræðum um viðfangsefnin.
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annast rökræðukönnunina í samstarfi við Öndvegisverkefni um lýðræðislega stjórnarskrárgerð og Center for Deliberative Democracy við Stanfordháskóla.
Þátttakendur í rökræðukönnuninni voru valdir úr hópi þeirra sem svöruðu viðhorfskönnun um stjórnarskrána sem gerð var síðastliðið sumar sem byggði á slembiúrtaki og netpanel Félagsvísindastofnunar.
Niðurstöður viðhorfskönnunarinnar sem gerð var í sumar (á vef Félagsvísindastofnunar HÍ).