Tillögur til úrbóta á stöðu barna í leit að alþjóðlegri vernd
Dómsmálaráðuneytið hefur birt skýrsluna: Samantekt um stöðu barna í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi – Tillögur til úrbóta. Samantektin var gerð að frumkvæði dómsmálaráðuneytisins og lýtur að lagaumhverfi og málsmeðferð stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd.
Við gerð samantektarinnar var höfð til hliðsjónar framkvæmd laga um útlendinga og hvaða verklag er viðhaft hjá þeim stofnunum sem að þessum málum koma, einkum í málum þar sem umsóknum barna hefur verið synjað og umsækjandi byggt umsókn sína á því að aðstæður í heima- eða viðtökuríki uppfylltu ekki þær kröfur sem fælust í lögum og alþjóðlegum skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur gengist undir. Markmið samantektarinnar var að rýna lagaumhverfi og meðferð þessara mála, taka saman helstu athugasemdir og gagnrýni sem fram hafa komið og leggja fram tillögur að mögulegum úrbótum til að tryggja enn frekar réttaröryggi og velferð barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi.
Samantektin hefur leitt í ljós að meginreglur Barnasáttamálans og mannréttindasáttmála Evrópu endurspeglast að miklu leyti í íslenskum lögum og reglugerðum er varða börn á flótta. Lög um útlendinga nr. 80/2016 tóku gildi 1. janúar 2017 og frá gildistöku laganna hefur komið í ljós að þau stjórnvöld sem koma að málefnum barna sem sækja um alþjóðlega vernd hafa unnið ötullega að því markmiði að framkvæmd laganna virði rétt barna í hvívetna. Við framkvæmd laganna og gerð samantektarinnar hefur þó komið í ljós að enn eru tækifæri til breytinga og úrbóta. Í samantektinni er m.a. lögð til umtalsverð breyting á móttöku og málsmeðferð stjórnvalda á umsóknum fylgdarlausra barna um alþjóðlega vernd. Aðrar tillögur lúta m.a. að leiðbeiningaskyldu stjórnvalda, rétti barns til að tjá sig og verklagi.
Tillögur skýrslunnar eru eftirfarandi:
- Bæta leiðbeiningarskyldu stjórnvalda.
- Skýra betur reglur sem gilda um viðtöl við börn.
- Viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fylgdarlausum börnum búsetu á heimili reknu af barnaverndaryfirvöldum.
- Breytingar á móttöku og málsmeðferð fylgdarlausra barna - litið verði á þessi mál fyrst og fremst sem barnaverndarmál.
- Sameiginlegt verklag Barnaverndarstofu og Útlendingastofnunar klárað.
- Fleiri umsækjendur í þjónustu hjá sveitarfélögum.
- Frekari úrbætur á barnvænni aðstöðu í móttökumiðstöð.
- Fullnægjandi sérfræðiþekking í málefnum barna.
- Verklagsreglur vegna mats á hagsmunum barna settar hjá Útlendingastofnun
Hér má lesa Samantekt á stöðu barna í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi – Tillögur til úrbóta