Hoppa yfir valmynd
22. september 2021 Innviðaráðuneytið

Mikil arðsemi af lagningu Sundabrautar samkvæmt félagshagfræðilegri greiningu

Sundabrú yfir Kleppsvík - mynd

Mikil arðsemi er af lagningu Sundabrautar samkvæmt drögum að niðurstöðu óháðrar félagshagfræðilegrar greiningar. Mestur ábati felst hvort tveggja í minni akstri, útblæstri og mengun og styttri ferðatíma vegfarenda vegna styttingu leiða til og frá höfuðborgarsvæðinu. Áður hafði komið fram að kostnaður vegna þverunar Kleppsvíkur er metinn talsvert lægri með byggingu Sundabrúar en með jarðgöngum.

Í frétt á vef Vegagerðarinnar segir að niðurstöðurnar bendi til að arðsemi Sundabrautar sé mikil í samræmi við fyrri athuganir. Framkvæmdin er metin arðsöm hvort sem um er að ræða Sundabrú eða Sundagöng. Svokallaðir innri vextir framkvæmdarinnar væru metnir á bilinu 10-12% en miðað við hefðbundin viðmið væru verkefni talin fýsileg ef innri vextir eru yfir 3,5%. Ábati notenda Sundabrautar, hvort sem er akandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum væri því verulegur.

„Fyrstu niðurstöður úr þeirri félagshagfræðilegu greiningu sem Vegagerðin hefur kynnt staðfesta þá sannfæringu mína að Sundabraut hafi gríðarlega þýðingu fyrir samgöngur og samfélagið allt. Hún mun gjörbreyta umferðarmynstri höfuðborgarinnar, mynda góða tengingu á milli borgarhverfa og landshluta, létta á umferð í gegnum Mosfellsbæ og Ártúnsbrekku og styrkja öryggisleiðir út úr borginni,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar og formaður starfshópsins um legu Sundabrautar, segir lagningu brautarinnar hagkvæma framkvæmd þegar horft væri til félagshagfræðilegra þátta. „Megin ávinningurinn er sparnaður í ferðatíma vegfarenda svo og minni akstursvegalengdir en umferðarlíkön gera ráð fyrir að við opnun brautarinnar geti heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu minnkað um tæplega 60 milljón kílómetra árlega eða um 160 þús. km á sólarhring. Tímasparnaður og styttri vegalengdir leiða jafnframt af sér minni útblástur kolefnis, færri slys, minni hávaða og minni mengun. Allt þetta á við hvort sem um er að ræða Sundabrú eða Sundagöng,“ segir Guðmundur Valur.

Í yfirlýsingu, sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, undirrituðu 6. júlí sl. sammæltust ríki og borg um að Sundabraut verði lögð alla leið í Kjalarnes í einni samfelldri framkvæmd og að alþjóðleg hönnunarsamkeppni verði haldin um útlit Sundabrúar, verði hún fyrir valinu. Í yfirlýsingunni segir að stefnt skuli að því að hefja framkvæmdir við Sundabraut árið 2026 og að brautin verði tekin í notkun árið 2031. Næstu skref eru að undirbúa nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og umhverfismat framkvæmdarinnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta