Hoppa yfir valmynd
30. október 2021 Innviðaráðuneytið

Norrænir samgönguráðherrar ræddu loftslagsmál og orkuskipti tengd samgöngum

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á fjarfundi norrænna samgönguráðherra. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók í vikunni þátt í fjarfundi norrænna samgönguráðherra. Helsta viðfangsefni fundarins voru loftslagsmál og orkuskipti tengd samgöngum í víðum skilningi. Ráðherrarnir ræddu m.a. um þátttöku ríkjanna á loftslagsráðstefnunni COP 26 í Glasgow .

Á fundinum var rætt var um hvernig styrkja megi innviði til dreifingar á nýjum orkugjöfum og uppbyggingu þeirra. Þá var rætt um hlutverk vetnis og annars rafeldsneytis og aðkomu ríkja að því að innleiða notkun slíkra orkugjafa í samgöngum.

Þá var rætt um nýjar tillögur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem kynntar voru í júlí undir aðgerðaráætluninni „Fit for 55“, m.a. viðskiptakerfi með losunarheimildir og endurskoðun reglna um endurnýjanlegt eldsneyti. Sigurður Ingi sagði í umræðum um þetta efni að mikilvægt væri að greina tillögurnar og tryggja að þær leggi ekki óeðlilegar kvaðir á dreifðar byggðir.

Á fundinum fjallaði Sigurður Ingi um ýmis mál og sagði m.a. frá aðgerðum Íslands á sviði loftslagsmála, stefnumótun á sviði vetnismála og nýleg lög um samstarfsverkefni í samgöngum (PPP), sem ætlað er að flýta uppbyggingu samgöngumannvirkja með gjaldtöku þar sem önnur leið er fær.

Í umræðum ráðherranna um gjaldtöku í vegasamgöngum sagði Sigurður Ingi að vitað væri að tekjur með kolefnisskatti myndu dragast jafnt og þétt saman á komandi árum. Mikilvægt væri að greina hvaða leiðir væru bestar til að tryggja áfram tekjur sem stæðu undir nauðsynlegri innviðauppbyggingu í samgöngum. Sigurður Ingi greindi frá góðri samstöðu ríkis og sveitarfélaga um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem fæli í sér umfangsmikla innviðafjárfestingu og yrðu að hluta fjármagnaðar með gjaldtöku.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta