Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2021 Innviðaráðuneytið

Óháð úttekt á notkun bundinna slitlaga

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt óháða úttekt um notkun á bundnum slitlögum á íslenskum vegum. Sigurður Erlingsson, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, vann úttektina að beiðni ráðuneytisins í kjölfar tveggja alvarlegra tilvika í umferðinni árið 2020 vegna galla í bikbundnum slitlögum.

Markmiðið með úttektinni var að greina vandamál við notkun bundinna slitlaga á íslenskum vegum og leggja til leiðir til úrbóta. Skýrsluhöfundur kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar á ráðstefnu Vegagerðarinnar um bundin slitlög, sem haldin var nýlega, og þær hafa verið teknar til frekari umfjöllunar hjá Vegagerðinni og ráðuneytinu.

Helstu niðurstöður

Nýtt verklag sem Vegagerðin hefur þegar kynnt við eftirlit vegna lagningar bundins malbiksslitlags lofar góðu að mati skýrsluhöfundar og er til þess fallið að leiða til umbóta. Þar sé tekið á atriðum er lúti að þekkingu eftirlitsaðila, tryggingu á gæðum vöru (malbiksslitlag), öryggi vegfarenda og upplýsingaflæði.

Í skýrslunni segir einnig að æskilegt væri að herða eftirlit með lagningu klæðinga til samræmis við það sem gert hafi verið varðandi lagningu malbiksslitlags. Útlögn á klæðingum væri vandasöm og mikilvægt að verkferlar við eftirlit séu skýrir og aðgerðaráætlun til staðar.

Lagt er til að gagnasöfnun verði bætt, s.s. um samsetningu umferðar og hitastig á vegum. Vegagerðin rekur mælakerfi en hluti upplýsinga um samsetningu umferðar, sérstaklega hvað varðar hlut þungra ökutækja, sé ófullnægjandi.

Þá er lagt til að sett verði á laggirnar rannsóknarverkefni um vetrarblæðingar á vegum sem miði að því að þróa mótvægisaðgerðir til að draga úr eða koma í veg fyrir þær.

Í skýrslunni eru einnig kynntar hugmyndir um nýja valkosti við hefðbundið malbik, s.s. lághitamalbiksblöndur, sem framleiddar væru við lægra hitastig. Þannig mætti spara orku í framleiðsluferlinu, flytja blöndur lengri vegalengdir en ella en ná eftir sem áður góðri þjöppun í vegi. Slíkar blöndur mætti nota yfir lengra tímabil á árinu.

Notkun færanlegra stöðva við framleiðslu malbiks á landsbyggðinni gæti opnað á lagningu malbiks víðar á landinu. Þá mætti skoða aukna notkun innlends steinefnis þó gæðin séu ekki þau sömu og á innfluttu steinefni. Skoða ætti einnig möguleika á að minnka stærstu steinefnastærð sem gæti opnað á möguleika á því að leggja þynnra malbik (3-3,5 cm), sem er ódýrara en hefðbundið malbik (4-5 cm). Slíkt gæti verið álitlegur kostur ef umferðarmagnið er ekki mjög mikið. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta