Hoppa yfir valmynd
14. desember 2021 Innviðaráðuneytið

Ýmsar breytingar á reglum um skoðun ökutækja taka gildi um áramót

Um áramótin taka gildi ýmsar nýjar reglur um skoðun ökutækja í samræmi við reglugerð um skoðun ökutækja (nr. 414/2021) sem tók gildi 1. maí sl. Reglugerðinni er ætlað stuðla að auknu umferðaröryggi. Ákveðin atriði reglugerðarinnar koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2022.

Ýmis nýmæli og breytingar koma fram með reglugerðinni. Sum atriði eiga erindi við alla eigendur og umráðamenn ökutækja en jafnframt eru önnur sem snúa að tilteknum gerðum ökutækja. Með reglugerðinni eru kröfur og heimildir uppfærðar samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins.

Dæmi um breytingar:

  • Sumarökutæki þarf framvegis að skoða í upphafi sumars. Bifhjól, fornbílar, húsbílar, hjólhýsi, tjaldvagnar og fellihýsi fá nú öll skoðunarmánuðinn 5 í stað 8 áður. Það þýðir að skoðun þarf að vera lokið fyrir lok júlí í stað þess að áður þurfti skoðun að ljúka fyrir lok október.
  • Fyrsta aðalskoðun bílaleigubíla og bifreiða sem notaðar eru í ökukennslu skal nú fara fram eftir þrjú ár í stað fjögurra ára áður. Skoðunartíðni þessara ökutækja verður framvegis 3-2-2-1 ár (áður 4-2-2-1 ár).
  • Ökutæki sem skráð eru sem skólabifreiðar og þau sem eru skráð í notkunarflokkinn flutningur hreyfihamlaðra í atvinnuskyni skulu framvegis fara árlega í reglubundna skoðun. Skoðunartíðnin verður því 1-1-1-1 ár (áður 4-2-2-1 ár).
  • Dráttarvélar sem komast hraðar en 40 km/klst og eru (aðallega) notaðar á vegum verða framvegis skoðunarskyldar. 
  • Ökutæki sem öllum stundum eru staðsett í Hrísey, Grímsey eða Flatey á Breiðafirði geta orðið undanþegin skoðunarskyldu – en þá þarf að skrá þau í notkunarflokkinn eyjaökutæki.
  • Hækkun vanrækslugjalds í 20.000 kr. (úr 15.000 kr.) tók gildi 1. maí 2021. Vanrækslugjald vegna vörubifreiða, hópbifreiða og eftirvagna hækkaði þá einnig í 40.000 kr.

Aðgengilega samantekt á helstu breytingum og nýmælum reglugerðarinnar má finna á sérstakri vefsíðu Samgöngustofu um reglugerðina.

Fréttin var uppfærð 21. desember 2021 með nákvæmari upplýsingum um vanrækslugjald.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta