Skýrsla um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu
Starfshópur innviðaráðherra hefur skilað skýrslu með tillögum um úrbætur á brunavörnum í húsnæði þar sem fólk hefur búsetu. Lagt er til að ráðist verði í víðtækt átak við fræðslu og mat á brunavörnum í eldri timburhúsum. Þá eru einnig lagðar til breytingar á lögum og reglum sem miða að því að stuðla að réttri skráningu á búsetu fólks sem býr í annars konar húsnæði en hefðbundnu íbúðarhúsnæði og auðvelda eftirlit með brunavörnum í slíku húsnæði.
Ráðherra hefur þegar falið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að hrinda í framkvæmd tillögum starfshópsins um átaksverkefni á sviði brunavarna í eldri timburhúsum. Þá mun ráðuneytið taka tillögur starfshópsins um breytingar á lögum og reglum til nánari skoðunar og útfærslu. Stefnt er að því að leggja fram frumvarp um efnið á Alþingi í haust.
Hópurinn var annar tveggja starfshópa sem skipaðir voru í apríl 2022 til að útfæra og fylgja eftir tillögum úr skýrslu samráðsvettvangs um úrbætur á brunavörnum, sem gerð var í kjölfar brunans á Bræðraborgarstíg 1.