Verndarsvæði í hafi - Áfangaskýrsla stýrihóps um verndun hafsins
Verndarsvæði í hafi - Áfangaskýrsla stýrihóps um verndun hafsins
Eftirtalin atriði eru á meðal tillagna í skýrslunni:
- Hugtakið „friðlýst svæði í hafi“ verði notað almennt um það sem á ensku er nefnt marine protected area (MPA) og að hugtakið „önnur virk svæðisvernd“ verði notað almennt um það sem á ensku er nefnt other effective conservation measures (OECM). Hugtakið „verndarsvæði í hafi“ verði notað sem safnheiti yfir svæði sem njóta einhvers konar verndar.
- Matvælaráðherra feli Hafrannsóknastofnun að leiða vinnu við samhæfingu, aðgengi og uppbyggingu gagnagrunna varðandi náttúrufar hafsins í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og aðra aðila sem búa yfir gögnum og upplýsingum. Þetta er forsenda markvissrar vinnu við skilgreiningu verndarsvæða í hafi auk opinnar umræðu um vistkerfi í hafi og verndun þeirra.
- Lokið verði við greiningu á áhrifamætti settra reglna um nýtingu nytjastofna í hafi við verndun líffræðilegrar fjölbreytni, m.a. með hliðsjón af leiðbeiningum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN). Greiningin verði unnin af Hafrannsóknastofnun í samstarfi við vísindateymi stýrihópsins og kynnt fyrir helstu hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Ráðherra taki síðan ákvörðun á grunni greiningarinnar auk annarra sjónarmiða hvort svæði sem takmarkanir gilda um varðandi nýtingu nytjastofna verði skilgreind og tilkynnt sem friðlýst svæði eða hluti virkrar svæðisverndar.
- Í samráði við Samstarfsnefnd matvælaráðuneytisins um bætta umgengni um auðlindir sjávar verði leitað tillagna að svæðum sem kæmu til greina sem verndarsvæði í hafi. Jafnframt verði leitað tillagna um hvernig þessari þekkingu verði best safnað.
- Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið skoði í samvinnu við Umhverfisstofnun þegar friðlýst svæði og athugi hvort til greina komi að tilkynna fleiri svæði sem friðlýst svæði í hafi. Fjögur svæði hafa þegar verið tilkynnt: Surtsey, Eldey og tvær hverastrýtur í Eyjafirði.