Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna endurnýjar ályktun um stöðu mannréttinda í Íran

Frá fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. - mynd

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun um stöðu mannréttinda í Íran sem lögð var fram af ríkjahópi undir forystu Íslands. Ályktunin tryggir annars vegar áframhaldandi umboð sérstaks skýrslugjafa til þess að vakta og gefa reglubundna skýrslu um stöðu mannréttinda í Íran, og framlengir hins vegar um eitt ár umboð tímabundinnar óháðrar rannsóknarnefndar sem safnar upplýsingum og gögnum vegna hrinu grófra mannréttindabrota íranskra stjórnvalda í kjölfar víðtækra mótmæla eftir andlát Jina Mahsa Amini haustið 2022. 

Ísland hefur farið fyrir árlegri ályktun um umboð sérstaks skýrslugjafa um stöðu mannréttinda frá því 2021. Í kjölfar mótmælanna haustið 2022, þar sem konur og stúlkur voru í broddi fylkingar, kölluðu Ísland og Þýskaland eftir sérstakri umræðu í ráðinu og leiddu nýja ályktunum um stofnun framangreindrar rannsóknarnefndar til að safna saman sönnunargögnum til að síðar megi draga gerendur til ábyrgðar.

Fundarlotu ráðsins lýkur síðar í dag en hún hófst með sérstakri ráðherraviku þar sem Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra flutti ávarp sem hægt er að nálgast hér. Í fundalotunni sem var sú fimmtugasta og fimmta síðan ráðið var stofnað 2006 var fjallað um 32 ályktanir og tvær ákvarðanir. Auk Íranmálsins bar hæst endurnýjun ályktana um stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs auk endurnýjunar umboðs sérstakrar rannsóknarnefndar vegna yfirstandandi innrásar Rússlands í Úkraínu og ályktun um mannréttindamál í Belarús. Þá samþykkti ráðið einnig nýja ályktun sem ætlað er að vernda réttindi intersex fólks.   

Ísland er í framboði til setu í mannréttindaráðinu fyrir tímabilið 2025 til 2027 og tók að venju virkan þátt í lotunni sem áheyrnarríki. Til viðbótar því að leiða ályktunina um stöðu mannréttinda í Íran kom Ísland að flutningi hátt í fjörutíu ávarpa, bæði eitt og sér og í nánu samstarfi við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin sem flytja reglulega sameiginleg ávörp. Öll ávörpin má nálgast á vefsíðu fastanefndar Íslands í Genf.  

  • Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. - mynd
  • Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna endurnýjar ályktun um stöðu mannréttinda í Íran - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta