Hoppa yfir valmynd
7. júní 2024 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðuneytið kynnir áform um stefnumótun fullnustumála

Dómsmálaráðuneytið hefur í samráðsgátt stjórnvalda kynnt áform um heildstæða stefnumótun í fullnustumálum. Stefnumótunin verður unnin í víðtæku samráði og hefur verkefnastjórn verið skipuð til að leiða verkefnið áfram. Hægt er að koma að ábendingum og athugasemdum í gegnum samráðsgátt stjórnvalda til 1. júlí 2024.

Markmið fullnustukerfisins

Mál yfir tvö þúsund einstaklinga sem hlotið hafa refsingu koma til meðferðar hjá Fangelsismálastofnun á ári hverju. Því til viðbótar koma einnig til meðferðar mál einstaklinga sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald. Mikilvægt er að fullnusta refsinga sé örugg, fyrirsjáanleg og skilvirk. Þannig eru bæði almenn og sérstök varnaðaráhrif refsinga tryggð, dregið úr líkum á ítrekun brota og stuðlað að farsælli endurhæfingu og aðlögun dómþola að samfélaginu.

Greining á stöðu og áskorunum

Með framangreint í huga verður unnin greining á stöðu fullnustumála á Íslandi og helstu áskorunum í málaflokknum, m.a. er varðar húsnæði og aðbúnað fanga, þar á meðal gæsluvarðhaldsfanga. Jafnframt verður unnin greining á stöðu kvenna í fangelsi og annarra hópa, t.d. hinsegin einstaklinga og fatlaðra, auk þess sem fjallað verður um aðbúnað og rétt barna sem eiga foreldra í afplánun. Enn fremur þarf að rýna aðbúnað og menntun starfsmanna fangelsa og annarra aðila sem starfa innan fullnustukerfisins með það að markmiði að bæta öryggi bæði starfsmanna og dómþola, sem og bæta starfsumhverfi starfsmanna.

Þjónusta og önnur úrræði

Önnur úrræði en fangelsi verða einnig metin, m.a. rafrænt eftirlit og samfélagsþjónusta í stað fangelsisvistar sem og úrræði í lok afplánunar, t.d. áfangaheimili og reynslulausn. Þá verður sú þjónusta sem fangar hafa aðgang að í fangelsum rýnd, svo sem heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta og menntun með markmið um endurhæfingu dómþola í huga. Loks verða álitamál vegna innheimtu dómsekta greind.

Stefnumótun endar sem grænbók og síðar hvítbók

Stefnumótunarvinnan mun leiða til útgáfu grænbókar sem er stöðumats- og valkostagreining og í framhaldinu verður unnin stefna í formi hvítbókar þar sem settar verða fram tillögur að úrbótum í málaflokknum. Vinnsla grænbókar og hvítbókar mun fara fram í viðtæku samráði við hagaðila og sérfræðinga á sviðinu sem og annarra ráðuneyta og stofnana sem bera ábyrgð og koma að vinnu með dómþolum með einhverjum hætti.

Kynning á stefnumótun í samráðsgátt stjórnvalda

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum