Hoppa yfir valmynd
14. júní 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum - Ítarlegri kortlagning aðgerða og ávinnings en áður

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynna uppfærða útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.  - mynd
  • 150 aðgerðir en í fyrri útgáfu voru þær 50
  • Loftslagsaðgerðir kortlagðar og metnar ítarlegar en áður hefur verið gert
  • Grundvallarbreyting í nálgun stjórnvalda á verkefnið hvað varðar samtal við atvinnulíf og sveitarfélög um loftslagsmál sem er undirstaða áframhaldandi árangurs
  • Áætlunin stuðlar með markvissari hætti en áður að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni bindingu kolefnis
  • Aðgerðir sem búið er að meta benda til að Ísland geti náð 35-45% samdrætti í samfélagslosun fram til ársins 2030
  • Aðgerðir sem miða að aukinni grænni orkuöflun hluti af aðgerðaáætlun í fyrsta sinn
  • Aðgerðir sem snúa að réttlátum umskiptum, jafnrétti og velsæld til að gæta því að samfélagsleg sátt ríki um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum
  • Losun á beina ábyrgð Íslands hefur minnkað um 30% á hvern einstakling frá viðmiðunarári
  • Áætlunin verður í samráðsgátt í tvo mánuði og geta allir sent inn athugasemdir

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynntu uppfærða útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum í dag.

Aðgerðaáætlunin samanstendur af 92 loftslagsaðgerðum og 58 loftslagstengdum verkefnum. Kortlagning aðgerða er mun ítarlegri og áhrifamat þeirra varðandi losun umfangsmeira en í fyrri útgáfum.

Að vinnunni hafa komið sérfræðingar víðs vegar að úr stjórnkerfinu í samstarfi við stofnanir, sveitarfélög og hagsmunasamtök úr atvinnulífinu undir forystu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Áætlunin sker sig mjög frá eldri áætlun að því leiti að við uppfærsluna var lögð höfuðáhersla á samtal við mismunandi geira atvinnulífsins. Það var gert til þess að kortleggja betur og skilgreina nánar hvernig hver og ein atvinnugrein getur með sem bestu móti minnkað losun gróðurhúsalofttegunda. Verður þetta að teljast grundvallarbreyting í nálgun stjórnvalda á verkefnið.

Aðgerðir sem búið er að meta benda til að Ísland geti náð 35-45% samdrætti í samfélagslosun fram til ársins 2030.

Aðgerðir sem búið er að meta benda til að Ísland geti náð 35-45% samdrætti í samfélagslosun fram til ársins 2030. 

Í uppfærðri aðgerðaáætlun er metinn beinn ávinningur 26 aðgerða á beinni ábyrgð stjórnvalda í samfélagslosun Íslands. Áætla má að  áætlunin skili 35-45% samdrætti í samfélagslosun fyrir 2030. Hærri talan gerir ráð fyrir árangursríkri innleiðingu og framkvæmd aðgerða sem ekki var hægt að meta beint. Í áætluninni er með afgerandi hætti skýrt að frekari árangur í loftslagsmálum veltur á því að hér á landi sé nægt framboð grænnar orku sem komi í stað jarðefnaeldsneytis.

Áframhaldandi vinna við uppfærslu aðgerðaráætlunar verður unnin undir forystu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og verður stöðugt unnið að endurmati, undirbúningi og uppfærslu aðgerða eftir því sem þörf er á.

 

Árangursríkt samstarf við atvinnulíf og sveitarfélög undirstaða frekari samdráttar

Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og skuldbundið sig til að taka þátt í sameiginlegu markmiði ESB, Íslands og Noregs um 55% samdrátt í samfélagslosun árið 2030 miðað við árið 1990. Útlit er fyrir að hlutdeild Íslands í sameiginlegu markmiði ríkjanna nemi allt að 41% samdrætti. Þegar horft er til innleiðingar og framkvæmdar  aðgerða sem enn eru í mótun, svo sem hvernig má hvetja áfram til hreinorkuvæðingar í samgöngum, er útlit fyrir að því markmiði verði náð. Frekari samdráttar er þó þörf eigi íslensk stjórnvöld að ná sjálfstæðu markmiði sínu um 55% samdrátt árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040. Árangursríkt samstarf við atvinnulíf og sveitarfélög er undirstaða þess að frekari samdráttur náist, auk þess sem samfélagið í heild þarf að horfa til þess að orkugjafar framtíðar séu sjálfbærir og endurnýjanlegir og að ekki verði snúið af braut grænna orkuskipta. Í því samhengi hefur jafnframt verið lögð rík áhersla á skilvirkari leyfisveitingar á sviði umhverfis- og orkumála. Á komandi mánuðum mun Grænvangur leiða áfram vinnu við framkvæmd þeirra aðgerða er snúa að orkuskiptum í vegasamgöngum og vera milligönguliður atvinnulífs og stjórnvalda.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra: „Loftslags- og orkumálin hafa verið forgangsmál þessarar ríkisstjórnar síðustu sjö ár og það er ánægjulegt að sjá uppfærða metnaðarfulla aðgerðaráætlun líta dagsins ljós. Stjórnvöld hafa undanfarið unnið ötullega með atvinnulífinu, en það er algjört lykilatriði til að ná raunverulegum árangri.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Við höfum náð miklum árangri í samdrætti í losun. Frá árinu 2005 hefur losun á hvern einstakling dregist saman um 30% en á þessum tíma hafa umsvif hagkerfisins aukist verulega og okkur Íslendingum fjölgað mikið. Eina leiðin til að ná áframhaldandi árangri í loftslagsmálum er að vinna saman á breiðum grunni, bæði atvinnulíf og stjórnvöld. Slík samvinna samhliða einföldun regluverks og aukin skilvirkni á öllum sviðum stjórnsýslunnar er lykill að árangri. Jafnframt þarf að vera tryggt að ákvarðanir séu byggðar á bestu mögulegu upplýsingum og við megum aldrei missa sjónar á því að Ísland og íslenskt atvinnulíf verður að vera samkeppnishæft við önnur lönd. Þessi aðgerðaráætlun er lykilþáttur í loftslagsvegferðinni sem er hvergi nærri hætt. Tími framkvæmda er fram undan. Ég hvet alla þá aðila sem bera ábyrgð á losun, stóra sem smáa, til að vera hluti af þeim miklu breytingum sem fram undan eru.“

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra: Matvælaráðuneytið hefur verið í forystu um mótun aðgerða fyrir sína málaflokka. Skilvirkasta leiðin til að draga úr losun frá landi er að endurheimta votlendi. Í því ljósi er mikil áhersla á slíkar aðgerðir, bæði í einkalöndum og á jörðum í eigu ríkisins. Ég hyggst í því samhengi leggja fram þingsályktun um átak í endurheimt votlendis á ríkisjörðum á næsta þingi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra: „Uppfærð aðgerðaáætlun loftslagsmálum er metnaðarfull og setur meðal annars kraft í að minnka kolefnisspor ferðaþjónustu með áherslu á losun frá vegasamgöngum sem vega hvað þyngst eða um 33%. Um helmingur nýskráðra bíla árlega eru bílaleigubílar og því hafa bílaleigurnar veruleg áhrif með innkaupum sínum og svo aftur með endursölu. Vel útfærðir hvatar til þess að bílaleigur sjái hag sinn í því að kaupa grænni bifreiðar eru því dæmi um aðgerð sem ég bind vonir við að skili okkur samdrætti í losun.“

Í aðgerðaáætluninni sem kynnt er í dag er gerður skýr greinarmunur á mismunandi tegundum loftslagstengdra verkefna:

  • beinar aðgerðir, sem hægt er að meta beint til samdráttar,
  • óbeinar aðgerðir, sem leiða til samdráttar, en sem erfitt er að meta - og
  • loftslagstengd verkefni sem stuðla með markvissum hætti að innleiðingu aðgerða.

Samtal sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið átti við fulltrúa fjölda atvinnugreina og samvinna ráðuneytisins við sveitarfélög veturinn 2022-2023 er ein af undirstöðum uppfærðrar aðgerðaáætlunar. Í samtalinu við atvinnulífið fór fram greining á því hvaða loftslagsaðgerðir væri raunhæft, en jafnframt metnaðarfullt, að setja fram til að ná fram nauðsynlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda út frá áætlaðri losun hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Í þeirri vinnu komu fram margar ábendingar og hugmyndir um breytingar á lagaumgjörð sem gætu stutt við vegferðina. Samtal er jafnframt í gangi við Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) um virka þátttöku þeirra í aðgerðum vegna loftslagsvár og   nýverið var undirritaður samningur við SÍS um fjölbreytt loftslagstengd verkefni.  

Aðgerðaáætlunin samanstendur af 92 loftslagsaðgerðum og 58 loftslagstengdum verkefnum.

Aðgerðaáætlunin samanstendur af 92 loftslagsaðgerðum og 58 loftslagstengdum verkefnum. 

Áhersla á tíðari uppfærslu áætlunar og ný vefsíða opnuð

Uppfærð aðgerðaáætlun var unnin af fjölda sérfræðinga víðs vegar að úr stjórnkerfinu, en umhverfis,- orku og loftslagsráðuneytið hafði yfirumsjón með vinnunni  í samstarfi við önnur ráðuneyti, viðeigandi stofnanir, hagsmunasamtök úr atvinnulífinu og Samband Íslenskra sveitarfélaga.

Aðgerðaáætlunin er birt á vefnum www.co2.is  og verður uppfærð eftir því sem aðgerðum vindur fram. Gert er ráð fyrir að aðgerðir verði uppfærðar ársfjórðungslega að undangenginni afgreiðslu verkefnisstjórnar sem skipuð var nú í vor. Með þessu móti má taka eftirfylgni, uppfærslu og innleiðingu aðgerða fastari tökum, en einnig meta hvort aðgerðir beri raunverulegan árangur og séu í takt við tækniþróun.

Áætlunin er nú komin í Samráðsgátt stjórnvalda til næstu tveggja mánaða þar sem almenningi, félagasamtökum og hagaðilum gefst kostur á að koma með umsagnir og ábendingar til 22. september nk.

Ítarefni

www.co2.is - Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í samráðsgátt stjórnvalda

Glærukynning frá kynningarfundi ráðherra

Upptaka frá kynningarfundi ráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta