Hoppa yfir valmynd
9. október 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland kjörið í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna

Fundarsalur mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf. - myndUN Photo

Ísland hlaut kjör til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í dag í kosningum sem fóru fram í allsherjarþinginu í New York. Samtals nítján ríki voru í framboði fyrir átján laus sæti ráðsins fyrir þriggja ára kjörtímabil sem hefst í byrjun árs 2025 og er til ársloka 2027.

„Mikil ábyrgð felst í því að taka sæti í mannréttindaráðinu sem hefur það helsta markmið að efla og vernda mannréttindi um heim allan. Við erum þakklát fyrir þann breiða stuðning sem okkur var sýndur í kosningunum í dag og við tökum við þessu verkefni af auðmýkt og alvöru, tilbúin að leggja okkur öll fram,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Ísland hlaut 174 af 183 greiddum atkvæðum í kosningunum en auk Íslands voru Spánn og Sviss í framboði um þrjú sæti hóps vestrænna ríkja.

„Við stöndum einfaldlega frammi fyrir miklum áskorunum þar sem mannréttindi eiga mjög víða undir högg að sækja. Okkar helsta markmið í ráðinu verður barátta fyrir bættum mannréttindum allra og þá leggjum við áherslu á að styrkja ráðið sem málsvara mannréttinda, sem það þarf að vera. Ísland, sem nýtur góðs af góðri stöðu heima fyrir, tekur þessu ábyrgðarhlutverki á alþjóðasviðinu alvarlega á þeim krefjandi tímum sem við lifum,“ segir Þórdís Kolbrún.

Þetta er í annað sinn sem Ísland er kosið til setu í mannréttindaráðinu en Ísland tók síðast sæti með skömmum fyrirvara í um átján mánaða skeið árið 2018 þegar Bandaríkin sögðu sig úr ráðinu. 

„Auk þess að leggja kapp á að efla samstöðu um grundvallargildi mannréttinda sem eiga víða undir högg að sækja ætlum við meðan á setu í mannréttindaráðinu stendur að leggja sérstaka áherslu á að grundvallarmannréttindi stúlkna og kvenna séu virt, mannréttindi barna og mannréttindi hinsegin fólks,” segir Þórdís Kolbrún.

Fjörutíu og sjö ríki sitja í mannréttindaráðinu hverju sinni sem hefur aðsetur í Genf, þar af tilheyra sjö hópi Vestur-Evrópu og annarra ríkja (WEOG), þrettán koma frá Afríku, þrettán úr hópi Asíu- og Kyrrahafsríkja, átta úr hópi ríkja Rómönsku Ameríku og Karíbahafseyja og loks sex úr hópi Austur-Evrópuríkja. Norðurlöndin skiptast á að sækjast eftir setu í ráðinu og er framboð Íslands því norrænt framboð. Um næstu áramót tekur Ísland við sæti í ráðinu af Finnlandi og Noregur fer síðan í framboð næst fyrir hönd Norðurlandanna fyrir tímabilið 2028-2030.

Um mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna í Genf var sett á fót árið 2006 en byggir á grunni eldri mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem starfaði frá 1946. Hlutverk ráðsins er að efla og vernda mannréttindi í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, fjalla um mannréttindabrot, beina tilmælum til einstakra ríkja um úrbætur í mannréttindamálum og fjalla um einstök þematísk réttindamál. 

Mannréttindaráðið fundar í þremur reglubundnum fundalotum á ári sem standa yfir í nokkrar vikur í senn. Jafnframt er hægt að kalla ráðið til sérstakra funda um afmörkuð brýn málefni og þarf þriðjungur aðildarríkjanna að samþykkja að til slíks fundar verði boðað.

Ráðið fjallar einnig um ástand mannréttinda í einstökum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna með reglubundinni allsherjarúttekt (Universal Periodic Review) þar sem hvert og eitt aðildarríki þarf að gera grein fyrir framkvæmd alþjóðaskuldbindinga sinna á mannréttindasviðinu og fara þrjár lotur allsherjarúttektarinnar fram í ráðinu ár hvert (í nóvember, janúar og maí). Á vegum mannréttindaráðsins starfa einnig sérstakir skýrslugjafar og vinnuhópar sem heimsækja ríki, skoða stöðu mannréttinda og veita ríkjum ráðgjöf.

Skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (Office of the High Commissioner for Human Rights, OHCHR) skipuleggur fundi mannréttindaráðsins og annast framkvæmd,jafnframt því sem hún sinnir vettvangsvinnu. Ísland er með gildandi rammasamning um stuðning við skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna út árið 2028.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta