Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þróun markaðs með kolefniseiningar skapi tækifæri á Íslandi

Ráðherra ásamt starfshópi. F.v. Jónas Fr. Jónsson, formaður starfshópsins, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Rafn Helgason. Á myndina vantar Helgu Barðadóttur. - mynd

Lagt er til að stjórnvöld hafi frumkvæði að því að leiða saman hagaðila til að kanna áhuga á stofnun viðskiptavettvangs (markaðstorgs) með kolefniseiningar. Jafnframt mættu opinberir aðilar íhuga notkun uppboðsmarkaða, í því skyni að stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri, tryggja samkeppni og jafnræði seljenda, auk þess sem slíkt geti eflt nýsköpun og þróun varðandi lausnir í loftslagsmálum. Þetta er meðal tillagna starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fól vorið 2023 að kortleggja stöðu og tækifæri til viðskipta með kolefniseiningar hér á land.

Starfshópurinn kynnti skýrslu sína í dag, en tillögum hópsins er ætlað að styðja við þróun kolefnismarkaða á Íslandi og auðvelda hagaðilum að nýta þau tækifæri sem kolefnismarkaðir bjóða upp á.

Jafnframt kemur fram að skoða ætti skattalega umgjörð rekstrar við framleiðslu og kaup á kolefniseiningum með tilliti til mögulegra ívilnana og frádráttarbærni rekstrarkostnaðar, auk þess sem ástæða sé  til að kanna grundvöll að  stofnun markaðstorgs með kolefniseiningar og að hið opinbera eigi að gera skýrar kröfur varðandi kaup á kolefniseiningum. 

Starfshópinn skipuðu þau Jónas Fr. Jónsson, hæstaréttarlögmaður, formaður, Helga Barðadóttir, sérfræðingur í umhverfis,- orku- og loftslagsráðuneyti, og Rafn Helgason, sérfræðingur í matvælaráðuneytinu, en áður höfðu setið í hópnum skipuð af matvælaráðuneytinu Björn Helgi Barkarson, skrifstofustjóri og Salome Hallfreðsdóttir, sérfræðingur, þar áður.

Frá kynningu skýrslu. Tillögum hópsins er ætlað að styðja við þróun kolefnismarkaða á Íslandi og auðvelda hagaðilum að nýta þau tækifæri sem kolefnismarkaðir bjóða upp á.

Í skýrslunni er enn fremur fjallað um hvernig markmið Íslands, sérstaklega í samhengi við Parísarsamninginn, hafa áhrif á möguleika til þátttöku í kolefnismörkuðum. Þá er veitt yfirsýn yfir regluverk kolefnismarkaða, bæði á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi og hvernig hægt sé að móta íslenskt regluverk til að tryggja áreiðanleika og gagnsæi í viðskiptum með kolefniseiningar, svo koma megi í veg fyrir vandamál eins og tvítalningu eða grænþvott. Einnig er þar fjallað um valkvæða kolefnismarkaðinn í íslensku samhengi, þar sem íslensk fyrirtæki geta framleitt og selt kolefniseiningar án þess að það sé lögbundin krafa. Það er ört vaxandi svið sem getur skapað tækifæri fyrir ýmis íslensk verkefni á sviði skógræktar, endurheimtar vistkerfa og annarra bindingarverkefna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Virkur markaður með kolefniseiningar er til þess fallin að skapa ýmis tækifæri fyrir bændur, landeigendur, félagasamtök og atvinnulífið. Starfshópurinn hefur kortlagt ítarlega möguleika varðandi kolefnismarkaði, bæði hinn valkvæða markað, sem og tækifæri sem felast í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Flest verkefni á Íslandi sem falla undir valkvæða markaðinn eru landnýtingarverkefni, svo sem skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis. Í skýrslunni er að finna  margar áhugaverðar tillögur sem stjórnvöld þurfa að taka til skoðunar á næstu misserum.“

Þá leggur starfshópurinn í tillögum sínum m.a. til að:

  • Hugtakið kolefniseining verði skilgreint í lögum og að unnið verði lagafrumvarp í samvinnu við atvinnulífið um kolefnisskrár.
  • Sett verði stefna um hvort kaupa eigi  kolefniseiningar frá öðrum ríkjum til að uppfylla markmið um samdrátt í samfélagslosun sem og kolefnishlutleysi.
  • Stjórnvöld móti stefnu um að ekki verði heimilaður útflutningur á alþjóðlegum kolefniseiningum (ITMOs) frá Íslandi sem hefðu neikvæði áhrif á losunarbókhald Íslands.
  • Skattaleg umgjörð rekstrar við framleiðslu og kaup á kolefniseiningum verði skoðuð m.t.t. mögulegra ívilnana og frádráttarbærni rekstrarkostnaðar.
  • Stjórnvöld hafi frumkvæði að því að leiða saman hagaðila til að kanna áhuga á stofnun viðskiptavettvangs (markaðstorgs) með kolefniseiningar.
  • Mælt verði fyrir um það í lögum að settar verði leiðbeiningar um gæði kolefniseininga sem ríkið kaupir og að þær kolefniseiningar sem opinberir aðilar kaupa hafi fengið staðfestingu frá faggildum/trúverðugum vottunaraðila og feli í sér raunverulegan loftslagsávinning.
  • Unnið verði lagafrumvarp sem setji almenna umgjörð um starfsemi kolefnisskráa.

Skýrslan verður nú sett til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem kostur gefst á að koma með umsagnir og ábendingar.

Kolefnismarkaðir - Áskoranir og tækifæri í íslensku samhengi


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta