Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

BA-nám í lögreglufræðum fullfjármagnað​

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ákveðið að þriðja árið í lögreglufræðum til bakkalárgráðu við Háskólann á Akureyri (HA) fái fulla fjármögnun frá og með vorönn 2025. Beiðni HA hefur verið til meðferðar í ráðuneytinu frá því í nóvember 2023 og er ákvörðunin tekin eftir viðamikið samráð við HA og dómsmálaráðuneytið síðastliðið ár. 

„Allt samfélagið nýtur góðs af vel menntuðum og hæfum lögreglumönnum. Full fjármögnun þriðja ársins í lögreglufræðum er ekki aðeins hagsmunamál fyrir lögreglunema heldur einnig mikilvægt fyrir starfsþróun lögreglumanna að boðið sé upp á bakkalárgráðu í þessum fræðum, sem er forsenda frekara náms á háskólastigi. Með þessari ákvörðun erum við að taka mikilvægt skref í átt að enn faglegri og öruggari löggæslu á Íslandi,“ segir Áslaug Arna. 

„Háskólinn á Akureyri er þakklátur fyrir stuðning ráðherra og starfsfólks HVIN að tryggja áframhaldandi kostun á BA-námi í lögreglu- og löggæslufræði. Þessi námsleið er mikilvæg viðbót fyrir þá sem hafa lokið diplómanámi fyrir verðandi eða starfandi lögreglumenn og mun halda áfram að stuðla að auknu menntunarstigi lögreglu á Íslandi. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja öryggi íbúa landsins og styður þannig við sameiginleg markmið HA og embættis ríkislögreglustjóra,“ segir Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri. 

Háskólinn á Akureyri hefur boðið upp á kennslu í lögreglufræði frá árinu 2016. HA býður í dag upp á 120 eininga tveggja ára starfstengt diplómanám í lögreglufræðum, sem veitir réttindi til að starfa sem lögreglumaður, en einnig er hægt að ljúka bakkalárnámi í lögreglufræði til 180 eininga. Fjármögnun þriðja ársins í bakkalárnáminu verður nú, með ákvörðun ráðherra, samkvæmt reiknireglum nýrra árangurstengdrar fjármögnunar háskólanna. Áætlað er að kostnaðurinn muni nema um 65 milljónum króna árlega.

Ákvörðun ráðherra er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem fjallað er um mikilvægi þess að fjölga menntuðum lögreglumönnum til að auka öryggi og fagmennsku innan stéttarinnar. Með fjölgun menntaðra lögreglumanna er unnt að bæta þjónustu, stytta rannsóknartíma og auka gæði lögreglustarfa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta