Hoppa yfir valmynd
19. desember 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

1,7 milljarða styrkir til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni

Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun.  - myndLandsvirkjun

Mikill uppgangur hefur verið í orku- og umhverfistengdum nýsköpunarverkefnum á landsbyggðinni sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur tekið þátt í á þessu kjörtímabili. Á síðustu fimm árum hafa verkefni sem tengjast Eimi á Norðurlandi, Orkídeu á Suðurlandi og Bláma á Vestfjörðum hlotið styrki upp á ríflega 1,7 milljarða króna.

Alls hafa bakhjarlar verkefnanna lagt til um 680 milljónir króna, en aðrir styrkir nema rúmlega einum milljarði. Þeir eru af ýmsu tagi, en þeir stærstu eru Horizon- og Life-styrkir frá Evrópusambandinu og styrkir frá innlendum sjóðum á borð við Orkusjóð, Lóu og Matvælasjóð. Samstarfsverkefnin eiga það sameiginlegt að stuðla að orkutengdri nýsköpun og orkuskiptum með því að byggja á styrkleikum, auðlindastraumum og áhuga hvers svæðis fyrir sig.

 

460 milljónir á Norðurland

Eimur er samstarfsverkefni á Norðurlandi sem hefur það markmið að bæta nýtingu auðlinda með sjálfbærni, nýsköpun og verðmætasköpun að leiðarljósi. Bakhjarlar þess eru umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Norðurorka og Orkuveita Húsavíkur. Alls hafa komið 460 milljóna króna styrkir til verkefnisins síðan 2020.

770 milljónir til verkefna á Suðurlandi

Orkídea er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og Landbúnaðarháskóla Íslands. Tilgangur Orkídeu er að stuðla að þróun orkutengdrar matvælaframleiðslu og hringrásarhagkerfis á Suðurlandi. Styrkir til Orkídeu síðustu fjögur ár nema 770 milljónum króna.

Tæpur hálfur milljarður á Vestfirði

Blámi er samstarfsverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Meginmarkmið Bláma er að styðja við og efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna með því að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. Alls nema styrkir til verkefna Bláma 480 milljónum króna á fyrrnefndu tímabili.

Hliðarstraumar fléttaðir inn í verðmætasköpun á Austurlandi

Þá ber að nefna fjórða samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Eygló á Austurlandi, sem hóf starfsemi í byrjun árs. Meginmarkmið Eyglóar er að efla nýsköpun og þróun, með áherslu á að bæta nýtni hliðarstrauma og flétta þá inn í nýja verðmætasköpun. Bakhjarlar eru umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Austurbrú og sveitarfélög á Austurlandi; Múlaþing, Fjarðabyggð, Fljótdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Við höfum lagt á það áherslu á þessu kjörtímabili að styrkja og styðja við nýsköpunarstarfsemi um land allt og það er ánægjulegt að fylgjast með eftirtektarverða árangri þessara verkefna, sem ekki bara styðja við betri orkunýtingu og aukna verðmætasköpun heldur skapa líka áhugaverð störf  fyrir sérfræðimenntað fólk sem flutt hefur getað aftur í heimabyggð eftir að hafa fengið starf við sitt hæfi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta