Dómsmálaráðherra heimsótti starfsstöðvar á Norðurlandi
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra heimsótti nýverið starfsfólk þeirra starfsstöðva á Norðurlandi sem heyra undir dómsmálaráðuneytið.
Ráðherra heimsótti Héraðsdóm Norðurlands eystra á Akureyri, embætti sýslumanns Norðurlands eystra á Akureyri og Húsavík auk lögreglunnar á Akureyri og Húsavík. Á Akureyri snæddi ráðherra jafnframt kvöldverð með Lögreglustjórafélaginu þar sem félagið var á vinnufundi.
Bergur Jónsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi eystra, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra og Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.
Meðal atriða sem rædd voru á fundum ráðherra á starfsstöðvum voru fjölgun lögreglufólks, frumvarp um sameiningar sýslumanna og aðstæður í heimilisofbeldismálum en ráðherra heimsótti einnig Jafnréttisstofu og Kvennaathvarfið á Akureyri.
„Það er augljóst að Kvennaathvarfið á Akureyri hefur sinnt hópi kvenna og barna sem hefðu annars ekki fengið þjónustu nær sinni heimabyggð“ sagði dómsmálaráðherra. „Heimilisofbeldi er böl sem er ekki bundið við landsvæði og því mikilvægt að fjölskyldur hafi í skjól að leita, jafnt innan höfuðborgarsvæðisins sem utan. Þessi heimsókn var góð brýning um að endurskoðun á framkvæmd og lögum um nálgunarbann sé nauðsynleg.“