Hoppa yfir valmynd
11. mars 2025 Atvinnuvegaráðuneytið

Upplifun hinsegin starfsfólks í sjávarútvegi og landbúnaði önnur en gagnkynhneigðra

Könnun um viðhorf starfsfólks í sjávarútvegi, landbúnaði og tengdum greinum gagnvart hinsegin fólki og stöðu þess innan greinanna var unnin nýverið á vegum matvælaráðuneytisins.

Nokkur munur er á svörum hinsegin svarenda og þeirra sem ekki eru hinsegin. Af hinsegin svarendum eru 21% ósammála því að innan greinarinnar ríki almennt skilningur, umburðarlyndi og virðing gagnvart hinsegin fólki en einungis 12% gagnkynhneigðra svarenda voru sama sinnis.

Hinsegin svarendur eru líklegri til að hafa orðið vör við að starfsfólk eða stjórnendur segi óviðeigandi sögur, brandara eða yfirlýsingar sem lýsa fordómum í garð hinsegin fólks. Hinsegin eru jafnframt líklegri til að hafa orðið vör við mismunun, áreiti, fordóma eða ofbeldi í garð hinsegin fólks í greininni á síðustu tveimur árum. Af hinsegin svarendum telja 50% mikla þörf á að fjallað sé meira um hinsegin málefni innan greinarinnar og skýrari stefna sé mörkuð í málefnum hinsegin fólks, en aðeins tæp 25% þeirra svarenda sem ekki voru hinsegin voru á sömu skoðun.

Aðspurð um hvort viðkomandi hafi einhvern tímann ákveðið að vera ekki opin með hinseginleika sinn í starfi sínu í greininni af ótta við að verða mismunað eða verða fyrir fordómum eða öráreiti svöruðu rúm 40% því játandi. Tæp 80% svöruðu því neitandi þegar spurt var hvort það hefði áhrif á framgöngu þeirra innan greinarinnar að vera hinsegin.
Þá svara 11% að algengt sé að starfsfólk eða stjórnendur segi óviðeigandi sögur, brandara eða yfirlýsingar sem lýsi fordómum í garð hinsegin fólks. Um 17 % svarenda hafa orðið var við mismunun, áreiti, fordóma eða ofbeldi af hendi yfirmanns í garð hinsegin fólks í greininni á síðustu 2 árum, 25% svarenda hafa orðið var við það af hendi samstarfsfólks og tæp 19% svarenda hefur orðið vart við það sama af hendi viðskiptavina.

Könnunin leiðir að auki í ljós að 81% svarenda eru sammála því að jafnt sé komið fram við starfsfólk óháð kynhneigð, kynvitund og hinseginleika. Einnig eru 70% svarenda sammála því að almennt ríki skilningur, umburðarlyndi og virðing gagnvart fyrrnefndum atriðum í þessum greinum.

Rúm 42% telja litla þörf á meiri umfjöllun um hinsegin málefni innan greinarinnar og skýrari stefna verði mörkuð í málefnum hinsegin fólks til að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks, en tæplega 26% töldu þörfina vera mikla.

Þau sem störfuðu í sjávarútvegi (75,4%) voru almennt líklegri en starfsfólk í landbúnaði (66,8%) til að vera sammála því að innan greinarinnar ríki almennt skilningur, umburðarlyndi og virðing gagnvart mismunandi kynhneigð og/eða hinseginleika. Þá voru rúm 86% starfandi í sjávarútvegi sammála því að innan greinarinnar væri komið jafnt fram við starfsfólk óháð kynhneigð, kynvitund eða hinseginleika, samanborið við tæp 78% þeirra sem starfa í landbúnaði. Eins var starfsfólk í sjávarútvegi (48,3%) líklegra en starfsfólk í landbúnaði (39,4%) til að telja litla þörf vera á að fjallað sé meira um hinsegin málefni innan greinarinnar og skýrari stefna mörkuð í málefnum hinsegin fólks.

„Réttindabaráttu hinsegin fólks lýkur aldrei“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra. „Við njótum þeirra forréttinda að búa í samfélagi þar sem réttindi hinsegin fólks eru virt og almennt er staðan góð. En könnunin sýnir jafnframt að við megum ekki sofna á verðinum. Þróun mála á heimsvísu er glöggt merki um það, enda mikið áhyggjuefni.”

Af svarendum starfa 63,2% í landbúnaði, 26,8% í sjávarútvegi og 9,9% í tengdum greinum. Gagnkynhneigðir eru 95,7% og 99,6% skilgreina sig sem Sís/Sískynja.

Könnunin er gerð samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022-2025. Markmið aðgerðarinnar er að vekja athygli á stöðu hinsegin fólks og mikilvægi fjölbreytileika í þessum atvinnugreinum. Allar miða aðgerðirnar að því að bæta stöðu, stuðla að framförum og koma á réttarbótum fyrir hinsegin fólk til hagsbóta fyrir samfélagið allt.

Könnunin var unnin í samráði við Maskínu og Samtökin ´78 sem veittu jafnréttisteymi ráðuneytisins ráðgjöf við framkvæmd og mótun spurninga.

Ítarlegri niðurstöður úr könnuninni má nálgast hér. 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta