Heimilt að hefja undirbúning fyrir nýjan sæstreng
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að tillögu Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra að hefja undirbúning að lagningu nýs sæstrengs milli Íslands og Evrópu. Samgönguráðherra mun fyrstu dagana í janúar ræða við þá sem málið snertir, fulltrúa fjarskiptafyrirtækjanna, stjórn Farice og aðra hagsmunaaðila.
Ísland hefur til skamms tíma verið tengt umheiminum með ljósleiðarastrengnum Cantat-3 sem tekinn var í notkun árið 1994 og með varasambandi gegnum gervihnött sem í dag annar vart meira en talsímaumferð. Fyrir frumkvæði samgönguráðherra var síðan nýi Farice-1 ljósleiðarastrengurinn lagður og tekinn í notkun í janúar 2004.
Af þessu sést að mjög hröð þróun og mjög mikil aukning hefur verið fyrir fjarskiptasamband við umheiminn og á það bæði við um talsíma og gagnaflutninga. Margs konar viðskipti og samskipti fyrirtækja, stofnana og almennings, svo og ýmsir öryggishagsmunir, krefjast daglegs og öruggs aðgangs að netinu. Með því móti gætu Íslendingar boðið enn frekari þjónustu á sviði alþjóðlegra viðskipta og í nýlegri skýrslu um áhrif truflana á fjarskiptatengingar milli Íslands og annarra landa segir meðal annars að hugmyndir um fjármálamiðstöð á Íslandi nái varla fram að ganga án öruggra fjarskipta. Þar eru nokkur dæmi nefnd um þjónustu sem væri unnt að útfæra með öruggu netsambandi, svo sem á sviði heilbrigðisþjónustu og líftækni, samræmingu framleiðslu og dreifingar alþjóðlegra fyrirtækja, rekstur framleiðslu- og viðskiptakerfa, umsýslu rafrænna viðskipta, afritun og endursköpun gagna og öryggisaðgangs að gögnun fyrir aðila með aðalvefþjóna í öðrum löndum.
Ljóst var að huga yrði að enn frekari tengingu landsins við útlönd og því skipaði samgönguráðherra starfshóp í júní síðastliðnum til að leggja á ráðin um öruggt varasamband við útlönd. Var honum falið að leggja fram tillögu um hvernig tryggja megi varasamband fjarskipta við umheiminn í framtíðinni og eftir atvikum skila útfærðum tillögum um fjármögnun, eignarhald og framkvæmdatíma. Starfshópurinn lagði fram tillögu að aðgerðaáætlun en skoðaðir voru einkum þrír möguleikar á lagningu nýs strengs og var einkum staldrað við lagningu strengs milli Íslands og Írlands með tengingu við Færeyjar.
Stofnkostnaður við lagningu nýs sæstrengs er talinn vera á bilinu 2,8 til 3,9 milljarðar króna eftir því hvaða leið verður valin. Meðal hugmynda um útfærslu og fjármögnun er að ræða við Færeyinga sem hafa þegar ákveðið að leggja annan streng og að fjármögnun gæti orðið með svipuðu sniði og var við Farice-1 strenginn. Samkvæmt því yrði um 30% stofnkostnaðar fjármagnaður með nýju hlutafé en 70% tekin að láni til 12 ára. Stofnframlag yrði því að vera kringum einn milljarður króna.
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir að til greina komi annars vegar að stofna nýtt félag um lagningu nýja strengsins eða að semja við Farice um verkefnið. Verði síðarnefnda leiðin farin væri einnig hugsanlegt að ræða við fjarskiptafyrirtækin og fleiri hagsmunaaðila um að leggja fram fjármagn. Þessar leiðir yrðu kannaðar á næstu dögum og vikum. Ráðherra segir að engan tíma megi missa og segir brýnt að koma málinu af stað hið fyrsta.
Verði ákvörðun tekin um lagningu strengs á næstu vikum má gera ráð fyrir að undirbúningur og rannsóknir taki mestan hluta næsta árs og að lagning strengs færi fram árið 2008. Með því móti væri unnt að taka nýjan streng í notkun seint á árinu 2008.