Fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins
Fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd samnings á vegum Sameinuðu þjóðanna frá 20. nóvember 1989 um réttindi barnsins
Inngangur
Þann 26. janúar 1990 var Samningur á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 undirritaður fyrir Íslands hönd með fyrirvara um fullgildingu. Alþingi heimilaði ríkisstjórninni með ályktun þann 13. maí 1992 að fullgilda bókunina og 28. október 1992 var aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna afhent fullgildingarskjal Íslands vegna samningsins. Samningurinn um réttindi barnsins öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 27. nóvember 1992.
Þessi skýrsla er unnin í samræmi við 44. grein samningsins þar sem segir að aðildarríki skuldbindi sig til að láta nefnd sem stofnuð er með samningnum, í té skýrslur um það sem þau hafa gert til að koma í framkvæmd réttindum þeim sem eru viðurkennd í samningnum og hvernig hefur miðað í beitingu þeirra. Þetta er fyrsta skýrsla Íslands um efnið. Hún var unnin á vegum dómsmálaráðuneytisins í samráði við önnur ráðuneyti sem fara með málefni tengd börnum, auk þess sem upplýsinga var leitað hjá fjölda annarra opinberra stofnana og fleiri aðila sem láta sig varða málefni barna. Við gerð og uppsetningu skýrslunnar var byggt á leiðbeiningarreglum frá nefndinni um réttindi barnsins um frágang skýrslna samkvæmt samningnum sem birtar eru í skjali CRC/C/5 frá 30. október 1991.
Efnisyfirlit
I. Almennar athugasemdir 1-39
(a) Stjórnskipan og stjórnarhættir 2-10
(b) Meðferð mála sem varða börn 11-23
(c) Ýmsar tölfræðilegar upplýsingar varðandi börn o.fl. 24-39
(a) Ráðstafanir til þess að aðlaga íslenska löggjöf að ákvæðum
samningsins 44-63
(b) Heildarsamræming á stefnumótun um málefni barna og eftirlit
með því að ákvæðum samningsins sé framfylgt 64-71
III. Hugtakið barn 72-91
IV. Almennar meginreglur 92-120
(a) Jafnræðisregla (2. grein) 92-95
(b) Hagsmunir barnsins í fyrirrúmi (3. grein) 96-104
(c) Réttur til lífs, afkomu og þroska (6. grein) 105-113
(d) Virðing fyrir sjónarmiðum barnsins (12. grein) 114-120
V. Borgaraleg réttindi 121-180
(a) Nafn og þjóðerni (7. grein) 121-132
(b) Réttur til að varðveita auðkenni (8. grein) 133-138
(c) Tjáningarfrelsi (13. grein) 139-143
(d) Aðgangur að upplýsingum (17. grein) 144-152
(e) Réttur til frjálsrar hugsunar,sannfæringar og trúar (14. grein) 153-160
(f) Félagafrelsi og frelsi til að koma saman með friðsömum
hætti (15. grein) 161-168
(g) Vernd einkalífs (16. grein) 169-175
(h) Réttur til að þurfa ekki að þola pyndingar eða aðra grimmilega,
ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (37. grein a) 176-180
VI. Fjölskyldumálefni 181-275
(a) Leiðsögn og handleiðsla foreldra (5. grein) 184-186
(b) Foreldraábyrgð (18. grein 1. og 2. málsgrein) 187-203
1. málsgrein 187-197
2. málsgrein 198-203
(c) Aðskilnaður frá foreldrum (9. grein) 204-216
(d) Endurfundir fjölskyldunnar (10. grein) 217-220
(e) Innheimta framfærslueyris með barni (27. grein 4. málsgrein) 221-226
(f) Börn sem njóta ekki fjölskyldu sinnar (20. grein) 227-244
(g) Ættleiðing (21. grein) 245-253
(h) Ólöglegur útflutningur barna og hald erlendis (11. grein) 254-258
(i) Misnotkun og vanræksla á börnum (19. grein)
Líkamlegur og sálrænn bati og félagsleg aðlögun (39. grein) 259-267
(j) Regluleg endurskoðun á vistun (25. grein) 268-275
VII. Heilsugæsla 276-307
(a) Afkoma og þroski (6. grein, 2. málsgrein) 276-278
(b) Fötluð börn (23. grein) 279-287
(c) Heilsa og heilsugæsla (24. grein) 288-293
(d) Félagsleg aðstoð og aðstaða til umönnunar barna (26. grein og
18. grein, 3. málsgrein) 294-304
(e) Lífsafkoma ( 27. grein 1.-3. málsgrein) 305-307
VIII. Menntun, tómstundir og menningarmál 308-340
(a) Menntun, þar með talin starfsmenntun og ráðgjöf (28. grein) 308-325
(b) Markmið menntunar (29. grein) 326-331
(c) Frítími, tómstundir og þátttaka í menningarlífi (31. grein) 332-340
IX. Sérstakar verndarráðstafanir 341-400
(a) Börn í neyðarástandi 341-350
(i) Flóttamannabörn (22. grein) 341-347
(ii) Börn í vopnuðum átökum (38. grein) Sálrænn bati og
samfélagsleg aðlögun (39. grein) 348-350
(b) Börn sem komast í kast við lögin 351-378
(i) Stjórn á málefnum sem varða brot ungmenna (40. grein) 351-369
(ii) Börn sem eru svipt frelsi sínu, þar með talið hvers konar varðhald, fangelsun og ráðstöfun vegna forsjár
(37. grein (b), (c) og (d)) 370-375
(iii) Refsing ungmenna, sérstaklega bann við dauðarefsingu og
lífstíðarfangelsi (37. grein (a)) 376-377
(iv) Líkamlegur og sálrænn bati (39. grein) 378
(c) Misnotkun barna Líkamlegur og sálrænn bati og samfélagsleg
aðlögun (39. grein) 379-396
(i) Efnahagsleg misnotkun, þ.m.t. talin vinna barna (32. grein) 379-383
(ii) Misnotkun ávana- og fíkniefna (33. grein) 384-389
(iii) Kynferðisleg hagnýting og misnotkun (34. grein) 390-394
(iv) Önnur misnotkun barna (36. grein) 395
(v) Sala og brottnám barna og verslun með börn (35. grein) 396
(d) Börn sem tilheyra hópum minnihluta eða frumbyggja (30. grein) 397-400
I. Almennar athugasemdir
1. Hér verður lýst í stuttu máli nokkrum staðreyndum um Ísland og tölfræðilegar upplýsingar veittar um ýmislegt sem sérstaklega snýr að börnum. Um frekari almennar upplýsingar um land og þjóð er vísað til HRI/CORE/1/Add.26 frá 24. júní 1993.
(a) Stjórnskipan og stjórnarhættir2. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Forseti lýðveldisins, Alþingismenn og sveitarstjórnir eru kosnar í almennum kosningum á fjögurra ára fresti. Landið fékk fullt sjálfstæði þegar sambandi við Danmörku var slitið árið 1944. Frá því ári er stjórnarskrá lýðveldisins en mörg ákvæði hennar eru mun eldri og má rekja þau aftur til ársins 1874 þegar landið fékk fyrst stjórnarskrá. Meðal elstu ákvæðanna eru þau sem snúa að mannréttindum, en undanfarin ár hefur aukist mjög umræða um að breytinga sé þörf á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og að færa þurfi ákvæði hans til samræmis við alþjóðlega mannréttindasamninga sem Ísland er aðili er að.
3. Meginreglan um þrískiptingu ríkisvaldsins er bundin í stjórnarskrána. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri, hlutbundinni kosningu til fjögurra ára í átta kjördæmum landsins.
4. Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds, hver á sínu sviði en ráðuneyti eru fjórtán. Ráðherrar hafa oftast verið færri eða um tíu talsins, þannig að sumir þeirra fara með fleiri en eitt ráðuneyti. Verkaskipting ráðuneyta er ákveðin með lögum.
5. Umboðsmenn framkvæmdarvaldsins í héraði eru sýslumenn og eru þeir alls 27 í jafn mörgum stjórnsýsluumdæmum. Störf sýslumanna eru margvísleg, þ.á.m. lögreglustjórn, tollstjórn, innheimta á tekjum ríkissjóðs, borgaralegar hjónavígslur og útgáfa skilnaðarleyfa, úrskurðir um umgengnisrétt við börn og meðlagsgreiðslur, lögræðismál, þinglýsingar, skráning látinna manna og ýmis afskipti af dánarbúum, fjárnám og aðrar aðfarargerðir, nauðungarsala o.fl. Ágreiningi um störf sýslumanna má í mörgum tilvikum skjóta beint til dómstóla, einkum hvað varðar fullnustugerðir og dánarbússkipti en ella er kæruleið opin innan stjórnsýslunnar til dómsmálaráðuneytisins og á það einkum við um ákvarðanir sýslumanna í sifja- og lögræðismálum.
6. Alls eru 196 sveitarfélög í landinu, miðað við 1. janúar 1994. Íbúafjöldi í hverju þeirra er allt frá nokkrum tugum íbúa til rúmlega hundrað þúsund íbúa í stærsta sveitarfélaginu sem er Reykjavík. Stefna ríkisstjórna undanfarinna ára hefur verið að fækka sveitarfélögum verulega með sameiningu. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er ákveðin með lögum.
7. Dómendur fara með dómsvaldið samkvæmt stjórnarskránni. Í landinu eru átta héraðsdómstólar, einn í hverju kjördæmi. Þeir hafa dómsvald í einkamálum og sakamálum, kveða upp úrskurði um gjaldþrotaskipti og leysa úr ágreiningi sem rís vegna starfa sýslumanna við fullnustugerðir. Dómendur skera jafnframt úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Byggt er á þeirri meginreglu að dómstólar hafi vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur nær til nema það sé undan lögsögu þeirra skilið samkvæmt lögum, venju eða eðli sínu.
8. Úrlausnum héraðsdómstólanna verður skotið til Hæstaréttar Íslands sem er áfrýjunardómstóll fyrir landið allt. Dómum í opinberum málum má skjóta til Hæstaréttar að tilteknum skilyrðum uppfylltum og nokkur skilyrði um lágmarkshagsmuni eru fyrir því að einkamáli verði skotið til Hæstaréttar.
9. Íslenskir dómstólar hafa talið sér heimilt að meta hvort lög eru að efni til andstæð ákvæðum stjórnarskrárinnar, þótt þetta endurskoðunarvald þeirra sé ekki berum orðum tekið fram í sjálfri stjórnarskránni. Ef dómstólar telja að lagaákvæði brjóti í bága við mannréttindaákvæði í stjórnarskránni virða þeir slíkt lagaákvæði að vettugi í dómum sínum. Hins vegar hafa íslenskir dómstólar ekki heimild til að fella lög formlega úr gildi þótt þau séu talin andstæð stjórnarskránni.
10. Embætti umboðsmanns Alþingis var stofnað árið 1988. Umboðsmaður er kosinn af Alþingi og gefur því árlega skýrslu um störf sín en hann er að öðru leyti sjálfstæður. Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Honum er ætlað að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnsýslu landsins. Þá fylgist hann með því hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrá, eða séu haldin öðrum meinbugum, þar á meðal hvort þau samrýmist mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að. Álitsgerðir umboðsmanns eru ekki bindandi gagnvart stjórnvöldum og hann getur ekki ógilt formlega ákvarðanir stjórnvalda. Hins vegar hafa þær mikil áhrif og leggja þá kvöð á stjórnvöld að þau breyti í samræmi við þær, sem þau gera nánast undantekningarlaust.
(b) Meðferð mála sem varða börn
11. Helstu málaflokkunum sem varða sérstaklega málefni barna er skipt upp á milli þriggja ráðuneyta og stofnana sem heyra undir þau og verður starfsemi þeirra hér lýst í stórum dráttum, en nánari umfjöllun um meðferð á málefnum sem varða börn er að finna í tengslum við einstaka ákvæði samningsins.
Verkefni dómsmálaráðuneytis og sýslumanna
12. Undir dómsmálaráðuneytið heyra öll sifjamálefni, þar á meðal þau málefni sem talin eru í barnalögum nr. 20/1992. Helstu málefni sem fjallað er um í barnalögum eru faðernisreglur, framfærsla og forsjá barna, foreldraskyldur og umgengnisréttur.
13. Sýslumenn fara almennt með úrskurðarvald á lægra stjórnsýslustigi samkvæmt barnalögunum nema í ágreiningsmálum um forsjá barna. Ef ágreiningur rís um forsjá barna geta aðilar valið um hvort þeir snúa sér til dómstóla eða dómsmálaráðuneytis með ágreiningsefnið. Úrskurðum sýslumanns í ágreiningsmálum samkvæmt barnalögum og lögræðislögum má skjóta til dómsmálaráðuneytisins. Dómsmálaráðuneytið fer með ættleiðingar barna svo og yfirfjárráð, persónurétt og erfðarétt.
Verkefni félagsmálaráðuneytis og barnaverndaryfirvalda
14. Þann 1. janúar 1993 tók félagsmálaráðuneyti við málefnum barnaverndarmála af menntamálaráðuneyti. Samkvæmt nýjum lögum um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992 sem þá tóku gildi fer félagsmálaráðuneytið nú með yfirstjórn þessara mála og annast samræmingu þeirra og heildarskipulag. Helstu málefni sem fjallað er um í lögum um vernd barna og ungmenna eru um störf barnaverndaryfirvalda, þ.e. barnaverndarnefnda og Barnaverndarráðs og um hvernig því markmiði laganna verði náð að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði. Þar er meðal annars lýst skyldum barnaverndaryfirvalda gagnvart einstökum börnum og ungmennum og fjölskyldum þeirra, um þvingunarúrræði gagnvart foreldrum, um ráðstöfun barna í fóstur og um málsmeðferð barnaverndaryfirvalda. Félagsmálaráðuneytið fer að auki með fjölmörg verkefni á sviði barnaverndarmála svo sem þróunarstarf og rannsóknir, leiðbeiningar og ráðgjöf til barnaverndarnefnda, eftirlit og umsjón með stofnunum þar sem börn og unglingar eru vistuð og fræðslustarfsemi. Barnaverndaryfirvöld á lægra stjórnsýslustigi sem heyra undir félagsmálaráðuneytið eru barnaverndarnefndir og Barnaverndarráð, en ráðið fer með fullnaðarúrskurðarvald innan stjórnsýslunnar.
15. Barnaverndarnefndir starfa á vegum sveitarfélaga og í þær er kosið af sveitarstjórnum. Eins og áður var lýst eru sveitarfélög tæplega tvö hundruð talsins á landinu og í þeim minnstu eru aðeins nokkrir tugir íbúa. Ekki náðust fram tillögur í frumvarpi til nýrra barnaverndarlaga að stækka umdæmi barnaverndarnefnda til þess að tryggja að stærri einingar standi að barnverndarstarfi en nú er. Smæð margra sveitarfélaga hefur leitt til þess að þau hafa minna bolmagn til að sinna raunhæfu barnaverndarstarfi, bæði vegna fjárskorts og ófullnægjandi sérþekkingar við úrlausnir erfiðra barnverndarmála. Hefur þessi tilhögun verið gagnrýnd en hún leiðir m.a. til þess að erfitt er að fá samræmdar upplýsingar um starfsemi barnaverndarnefnda á landinu öllu. Af þessum sökum er almennt látið við það sitja í skýrslu þessari að lýsa framkvæmd og gefa tölfræðilegar upplýsingar um starfsemi barnaverndarnefndar Reykjavíkur sem er langstærsta barnaverndarumdæmi á landinu og því helst marktækt að meta framkvæmd laganna samkvæmt tölulegum upplýsingum þaðan. Eftir að barnaverndarlögin nýju gengu í gildi 1. janúar 1993 hefur félagsmálaráðuneytið safnað og mun í framtíðinni samræma upplýsingar um starfsemi barnaverndarnefnda í öllu landinu en þegar þessi skýrsla var rituð lágu þær upplýsingar ekki enn fyrir.
16. Þrátt fyrir að í lögunum segi að minni sveitarfélög skuli sameinast um kosningu barnaverndarnefnda, þá hefur sú skipan ekki enn komist á. Því eru barnaverndarnefndirnar enn sem komið er jafn margar sveitarfélögunum. Á næstu árum má ætla að minni sveitarfélög verði sameinuð í ríkum mæli en samhliða þeirri fækkun munu umdæmi barnaverndaryfirvalda stækka. Sveitarstjórn er heimilt að fela félagsmálaráði eða félagsmálanefnd störf barnaverndarnefndar og hefur það verið gert í öllum stærri sveitarfélögum. Í Reykjavíkurborg, sem er langstærsta sveitarfélagið fer sérstök deild innan Félagsmálastofnunar með barnaverndarmálefni í samvinnu við barnaverndarnefnd Reykjavíkur.
17. Hver barnaverndarnefnd er skipuð fimm mönnum og jafnmörgum varamönnum og skal að jafnaði skipuð bæði konum og körlum. Nefndarmenn skulu vera kunnir að grandvarleik og bera gott skyn á mál þau sem barnaverndarnefnd fjallar um. Leitast skal við að kjósa lögfræðing í barnaverndarnefnd þar sem slíks er kostur og enn fremur fólk með sérþekkingu á málefnum barna. Barnaverndarnefnd skal ráða sérhæft starfslið og skal það miðað við að hægt sé að veita foreldrum, forráðamönnum barna og stofnunum sem annast uppeldi, viðhlítandi ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningar. Miðað skal við að nægilegir möguleikar séu til félagslegra og sálfræðilegra rannsókna á börnum er með þurfa vegna könnunar og meðferðar barnaverndarmála.
18. Tilteknum málum sem varða ráðstafanir gagnvart börnum, ungmennum eða forráðamönnum þeirra er barnaverndarnefnd skylt að ráða með úrskurði og ef enginn lögfræðingur á sæti í nefndinni skal sýslumaður eða löglærður fulltrúi hans taka sæti í henni. Mál sem barnaverndarnefnd þarf að ráða með úrskurði eru:
- Ef grípa þarf til úrræða án samþykkis foreldra (24. gr. laganna)
- Ef svipta þarf foreldra forsjá barns (25. gr.)
- Ef meina þarf kynforeldri um umgengnisrétt við barn sitt sem er í fóstri (33. gr.)
- Ef barn á að vera áfram í fóstri þrátt fyrir að kynforeldrar vilji rifta fóstrinu (35. gr.)
- Ef barnaverndarnefnd hefur bannað flutning barns úr umsjá annarra en foreldra sinna þarf hún að kveða upp úrskurð um dvalarstað barnsins innan þriggja mánaða (40. gr.)
- Ef neita þarf aðilum um aðgang að gögnum vegna hagsmuna barnsins (46. gr.)
19. Félagsmálaráðherra skipar þriggja manna Barnaverndarráð fyrir landið allt til fjögurra ára í senn og þrjá menn til vara. Formaður ráðsins skal fullnægja skilyrðum til þess að vera skipaður héraðsdómari. Ráðsmenn skulu vera kunnir að grandvarleik og hafa sérþekkingu á málefnum barna og ungmenna. Ráðherra tilnefnir formann og varaformann barnaverndarráðs. Úrskurðum barnaverndarnefnda verður skotið til barnaverndarráðs til fullnaðarúrskurðar og er Barnaverndarráði skylt að taka málið til skjótrar meðferðar og úrlausnar. Málskot til Barnaverndarráðs frestar ekki framkvæmd ákvörðunar barnaverndarnefndar en þegar sérstaklega stendur á getur Barnaverndarráð þó ákveðið að framkvæmd samkvæmt ákvörðun barnaverndarnefndar skuli frestað uns ráðið hefur fellt úrskurð sinn.
20. Á árinu 1993 bárust alls tuttugu ný kærumál til Barnaverndarráðs frá barnaverndarnefndum á landinu sem vörðuðu 27 börn. Ráðið kvað upp fjórtán úrskurði í tólf málum. Tvö mál voru afturkölluð en í árslok 1993 voru sex mál óafgreidd hjá ráðinu.
Verkefni menntamálaráðuneytis
21. Menntamálaráðuneyti fer með yfirstjórn mála sem varða menntun barna þar á meðal málefni leikskóla og grunnskóla.
Hlutverk dómstóla
22. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Í barnalögum er kveðið á um málsmeðferð innan stjórnsýslunnar á tveimur stigum. þ.e. ákvörðun sýslumanns sem verður skotið til dómsmálaráðuneytis og á þetta til dæmis við um ákvarðanir um umgengnisrétt og meðlagsúrskurði með börnum. Skylt er að tæma kæruleiðir innan stjórnsýslunnar áður en mál er borið undir dómstóla. Eftir að endanleg ákvörðun dómsmálaráðuneytis er fengin er hægt að skjóta málinu til dómstóla. Dómstólar endurskoða þá hvort réttra aðferða hafi verið gætt við ákvarðanatöku innan stjórnsýslunnar og hvort lögmæt sjónarmið liggi ákvörðun til grundvallar. Dómaframkvæmd á þessu sviði hefur sýnt að dómstólar virðast einnig telja sér fært að meta öll efnisatriði máls. Þannig endurskoða þeir ekki eingöngu formhlið ákvörðunarinnar heldur endurskoða hana einnig efnislega. Ákvarðanir um forsjá samkvæmt barnalögum njóta nokkurrar sérstöðu því sýslumenn úrskurða ekki í málum þar sem ágreiningur um forsjá kemur upp. Foreldrar eiga á hinn bóginn valkost um hvort þeir leggja málið fyrir beint fyrir dómsmálaráðuneyti eða dómstóla til úrskurðar.
23. Í lögunum um vernd barna og ungmenna fer meðferð mála einnig fram á tveimur stigum, lægra stjórnsýslustigið er barnaverndarnefnd en ákvörðunum hennar má skjóta til Barnaverndarráðs. Þótt lögin kveði á um að ákvarðanir Barnaverndarráðs séu fullnaðarúrskurðir og þar með síðasta kærustig innan stjórnsýslunnar, þá hafa dómstólar ekki túlkað það svo að þeim sé ekki fært að endurmeta ákvarðanir ráðsins efnislega. Þannig hefur ákvörðunum Barnaverndarráðs verið skotið til dómstóla sem meta bæði formhlið málsins, þ.e. form og aðferð við ákvörðun og þau sjónarmið sem hún hvílir á en að auki eru öll efnisatriði málsins endurskoðuð. Hvað varðar einstaka ákvarðanir barnaverndaryfirvalda, til dæmis þvingunarráðstafanir gagnvart foreldrum þá þarf atbeina dómstóla venjulega ekki fyrirfram til þess að þeim verði beitt, en eins og áður var lýst er hægt að skjóta þeim til dómstóla eftir að kæruleið til Barnaverndarráðs hefur verið tæmd. Sú undantekning um fyrirfram atbeina dómstóla er þó gerð að barnaverndarnefnd er aðeins heimilt að fara inn á einkaheimili eða annan þann stað þar sem börn dveljast til þess að rannsaka hagi barns eða ungmennis á grundvelli dómsúrskurðar ef samþykki foreldra liggur ekki fyrir.
(c) Ýmsar tölfræðilegar upplýsingar varðandi börn o.fl.
Íbúafjöldi
24. Íbúafjöldi á Íslandi 31. desember 1993 var 264.922 íbúar. Þar af voru konur 132.113 og karlar 132.951. Börn og unglingar undir 18 ára aldri voru alls 77.989 eða um 30% þjóðarinnar. Hlutfall barna á Íslandi er nokkuð hærra en á hinum Norðurlöndunum þar sem hlutfall þessa hóps er um 20-25% mannfjölda. Á einu ári, eða frá 1. desember 1992 fjölgaði Íslendingum um 2.729 eða 1,04%. Á meðan um 2.600 manns fluttust til landsins á einu ári, fluttu um 2.700 manns frá landinu. Tala fæddra á árinu var um það bil 2.800 hærri en tala látinna.
25. Árið 1960 var um 8% þjóðarinnar 65 ára og eldri. Árið 1990 var talan komin upp í 11% og spáð er að hlutfallið verði rúmlega 17% árið 2020. Hlutfall barna á aldrinum 0-6 ára fækkar hins vegar verulega, frá því að vera um 10.1% árið 1987 en spáð er að þau verði um 7.7% árið 2000.
Fjöldi fæddra og fjölskyldustaða barna
26. Barnsfæðingum á Íslandi fækkaði á tímabilinu 1961-1989, úr 25,4 á 1000 íbúa í 18,0. Fæðingartölur á Íslandi og fjölskyldustaða nýfæddra barna undanfarin ár eru eftirfarandi:
Lifandi fæddir alls fædd í hjónabandi fædd utan hjónabands
1991 4.533 1.945 2.558
1992 4.609 1.967 2.642
27. Eins og sjá má af þessu er innan við helmingur fæddra barna á Íslandi undanfarin ár, eða um 43% fædd innan hjónabands. Töluverð breyting hefur orðið á undanförnum áratugum ef miðað er við að tímabilið 1961-1965 voru 74% foreldra í hjónabandi við fæðingu fyrsta barns. Ef hins vegar er litið er til þess í hve mörgum tilvikum ógiftir foreldrar nýfædds barns eru í sambúð kemur eftirfarandi í ljós:
Börn alls fædd
utan hjónabands foreldrar í sambúð foreldrar ekki í sambúð
1991 2.558 2.087 471
1992 2.642 2.103 539
28. Af þessu má sjá að í miklum meirihluta tilvika eða um 80%, þar sem börn eru ekki fædd innan hjónabands, eru foreldrar þess í sambúð. Heildarhlutfall barna þar sem foreldrar eru hvorki giftir né í sambúð er rúmlega 10%.
29. Barnsburðaraldur foreldra á Íslandi er lágur miðað við það sem tíðkast í nágrannalöndum. Meðalaldur móður við fæðingu frumburðar hefur þó hækkað síðustu tvo áratugina. Tímabilið 1986-1990 var meðalaldur móður við fæðingu frumburðar 23,7 ár en tíðasti aldur 21 ár. 1991-1992 var meðalaldurinn 24,2 ár og tíðasti aldur 24 ár.
Barnadauði
30. Tíðni barnadauða á Íslandi er mjög lág. Árið 1992 var barnadauði 4,7 af hverjum 1000 fæddum börnum.
Lífslíkur
31. Lífslíkur á Íslandi árin 1991-92 voru 75,4 ár fyrir karla en 80,89 fyrir konur.
Kjarnafjölskyldan
32. Kjarnafjölskyldur á Íslandi 1. desember 1992 voru alls taldar vera 63.540. Nánari sundurliðun með tilliti til samsetningar á kjarnafjölskyldum var eftirfarandi
hjónaband án barna 22.209
hjónaband með börnum 23.350
óvígð sambúð án barna 2.262
óvígð sambúð með börnum 7.565
karl með börn 531
kona með börn 7.632
Meðalstærð kjarnafjölskyldu 1. desember 1992 var 2,95 fjölskyldumeðlimir.
Hlutfall í þéttbýli og strjálbýli
33. Árið 1993 bjuggu um það bil 92% landsmanna í þéttbýli, en 8%í strjálbýli. Þéttbýli telst staður með 200 íbúa eða fleiri.
Atvinnumál
34. Lengd vinnuviku er að meðaltali 49,8 klukkustundir á viku hjá körlum en 33,9 klukkustundir á viku hjá konum. Atvinnuleysi í lok árs 1993 mældist um 5% samanborið við 4,7% í lok árs 1992. Áætla má að heildarfjöldi atvinnulauss fólks í lok árs 1993 hafi verið um 7.500 manns. Atvinnuleysi meðal kvenna var 5,9% en 4,4% meðal karla. Atvinnuleysi var mest meðal fólks í yngsta aldursflokknum, 16-19 ára, eða 15,8%. Atvinnuþátttaka beggja foreldra hér á landi er sú hæsta á Vesturlöndum.
Dagvistunarmál
35. Leikskólar eru reknir af sveitarfélögum og sjúkrahúsum. Þeir annast að ósk foreldra uppeldi barna fram að skólaskyldualdri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í uppeldismálum. Leikskólar eru starfræktir fyrir börn frá þeim tíma er fæðingarorlofi lýkur til 6 ára aldurs. Fjöldi barna sem dvaldist daglega á leikskólum árið 1992 var eftirfarandi í prósentum talið:
4-5 klst.daglega 5-6 klst. daglega 7-8 klst. daglega
0-2 ára 6,9 1,5 5,2
3-5 ára 46,1 12,4 15,2
0-5 ára 26,0 6,8 10,1
36. Skóladagheimili eru starfrækt fyrir börn á skólaskyldualdri, þ.e. frá 6-10 ára aldurs. Samanlagður fjöldi barna sem dvaldist daglega á dagvistarstofnunum árið 1992, þ.e. bæði leikskólum og skóladagheimilum var 12.419.
37. Kannanir hafa leitt í ljós að hlutfallslega eru færri börn hérlendis í dagvistun allan daginn en á hinum Norðurlöndunum. Færri pláss eru fyrir börn á dagvistarstofnunum hér á landi.
Menntamál
38. Skólaskylda er 10 ára á Íslandi fyrir börn í grunnskólum frá 6-16 ára aldurs. Skólaárið 1992-93 voru rúmlega 41 þúsund nemendur í grunnskólum landsins, þar af rösklega 13 þúsund nemendur í grunnskólum Reykjavíkur sem er lang stærsta fræðsluumdæmi landsins. Framhaldsskóli tekur við af grunnskóla frá aldrinum 16-20 ára. Skólaárið 1992-93 voru tæplega 18 þúsund nemendur í framhaldsskólum landsins. Innritunargjöld á bilinu 5-10.000 ISK árlega og eftir atvikum efnisgjöld eru innheimt af nemendum í framhaldsskólum. Skólaárið 1992-93 voru um 4.900 nemendur skráðir við nám í Háskóla Íslands. Háskóli Íslands innheimtir mjög lág skólagjöld.
Verkefni á sviði barnaverndarmála
39. Til verkefna á sviði félagsmála, svo sem til dagvistarstofnana, æsku-lýðs-starf-semi og barnaverndar verja Íslendingar 2,5% af landsframleiðslu sinni.
II. Ráðstafanir í samræmi við ákvæði samningsins
40.Samningurinn um réttindi barnsins var undirritaður fyrir Íslands hönd 26. janúar 1990 með fyrirvara um fullgildingu. Þann 13. maí 1992 heimilaði Alþingi með ályktun ríkisstjórninni að fullgilda bókunina. Þann 28. október 1992 var aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna afhent fullgildingarskjal Íslands vegna samningsins. Samningurinn öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 27. nóvember 1992.
41.Íslensk stjórnskipan fylgir þeirri lögfræðikenningu í þjóðarétti að alþjóðlegir samningar fái ekki sjálfkrafa lagagildi að landsrétti þótt þeir hafi verið fullgiltir, heldur séu þeir einungis skuldbindandi að þjóðarétti. Samningurinn um réttindi barna hefur ekki verið lögfestur á Íslandi og því er ekki hægt að beita honum beint fyrir innlendum dómstólum. Eini alþjóðlegi mannréttindasamningurinn sem hefur verið lögfestur hér á landi er Mannréttindasáttmáli Evrópu, með lögum nr. 62/1994.
42. Sú lögskýringarregla gildir þó að landslög skuli túlka með hliðsjón af alþjóðalögum, en séu þau ósamrýmanleg ganga hin fyrrnefndu almennt framar. Á síðustu árum hafa íslenskir dómstólar í auknum mæli tekið tillit til og vitnað í alþjóðasamninga um mannréttindi. Ekki eru þó dæmi um að vísað hafi verið til samningsins um réttindi barnsins í íslenskum dómum, enda ber að hafa í huga að þegar þetta er ritað er stutt síðan samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu.
43. Íslensk stjórnvöld hafa ávallt talið innlenda löggjöf í samræmi við þá alþjóðasamninga um mannréttindi sem þau hafa fullgilt nema sérstakur rökstuddur fyrirvari hafi verið gerður um annað.
(a) Ráðstafanir til þess að aðlaga íslenska löggjöf að ákvæðum
samningsins
44. Íslensk löggjöf sem varðar málefni barna hefur sætt gagngerri endurskoðun og tekið miklum breytingum undanfarin þrjú ár. Flest mikilvægustu lög á þessu sviði og reglugerðir með stoð í þeim eru því nýleg en meðal þeirra mikilvægustu eru eftirfarandi:
* Ættleiðingarlög nr. 15/1978
* Lög um framhaldsskóla nr. 47/1988
* Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991
- Reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum nr. 198/1992
* Lög um grunnskóla nr. 49/1991
* Barnalög nr. 20/1992
- Reglugerð um stjórnsýslumeðferð mála samkvæmt barnalögum nr. 231/1992
* Lög um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992
- Reglugerð um Unglingaheimili ríkisins nr. 15/1993
- Reglugerð um sumardvalarheimili barna og sumarbúðir nr. 160/1993
- Reglugerð um tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa og stuðningsfjölskyldu nr. 452/1993
- Reglugerð um starfsháttu barnaverndarráðs nr. 49/1994
* Lög um leikskóla nr. 78/1994
* Lög um umboðsmann barna nr. 83/1994
45. Við endurskoðun á barnalögunum og lögum um vernd barna og ungmenna var mjög tekið mið af því að færa þau til samræmis við viðhorf sem koma fram alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að og þá einkanlega í samningnum um réttindi barnsins. Barnalög nr. 20/1991 tóku gildi 1. júlí 1992 og leystu af hólmi eldri barnalög frá árinu 1981. Meðal helstu breytinga sem gerðar voru með nýju barnalögunum í áðurgreindu markmiði má nefna eftirfarandi:
46. * Afnumin voru hugtökin skilgetið barn og óskilgetið frá fyrri barnalögum. Í nýju lögunum er því kveðið á um réttarstöðu barna samfellt og án tillits til þessara grunnhugtaka. Ákvæði um faðerni og feðrun barna svo og að sínu leyti um forsjá barns þar sem einkum reyndi á þennan mun í eldri barnalögum eru orðuð án þess að nefnd hugtök séu lögð til grundvallar. Með eldri barnalögunum hafði börnum sambúðarforeldra í reynd verið búin sama réttarstaða sem börnum giftra foreldra.
47. * Með nýju barnalögunum var í fyrsta skipti lögfest ákvæði um að foreldrar geti samið um sameiginlega forsjá vegna skilnaðar hjóna og sambúðarslita foreldra í óvígðri sambúð. Þá er ógiftum foreldrum sem ekki búa saman heimilað að semja um slíka forsjá.
48. * Ýmsar breytingar voru gerðar á reglum um meðferð forsjármála frá eldri barnalögum. Meðal annars voru lögskráðar í fyrsta skipti reglur um að barni sem náð hefur 12 ára aldri skuli veittur kostur á að tjá sig um forsjármál og að rétt sé að ræða við yngra barn miðað við aldur þess og þroska. Lögð er áhersla á að aðgát skuli höfð þegar viðhorf barns er kannað og nærgætni við barn sitji þar í fyrirrúmi. Einnig var lögfest heimild til að skipa barni talsmann vegna úrlausnar forsjármáls á kostnað hins opinbera.
49. *Sú breytta tilhögun kemur fram í nýju barnalögunum að það er meginregla að dómstólar skeri úr ágreiningsmáli foreldra um forsjá barns nema aðilar séu á einu máli um að leita úrlausnar dómsmálaráðuneytisins í forsjármálinu. Foreldrar geta nú alltaf borið kröfu um breytta forsjá undir undir dómstóla, en samkvæmt eldri lögunum var dómstólaleið lokuð ef þeir höfðu áður valið þann kost að láta dómsmálaráðuneytið úrskurða í forsjárdeilu. Sætti sú tilhögun töluverðri gagnrýni og var m.a. til skoðunar í íslensku kærumáli hjá Mannréttindanefnd Evrópuráðsins.
50. * Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á lagaákvæðum sem varða ákvarðanir um umgengnisrétt foreldra og barna. Meginbreyting felst í því að úrlausn um ágreining foreldra út af umgengnisrétti er nú hjá sýslumönnum en aðilar geta skotið úrlausn sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins. Samkvæmt eldri skipan var úrlausn um umgengnisrétt eingöngu hjá dómsmálaráðuneytinu. Var talið að réttaröryggi myndi aukast ef tvö stjórnsýslustig geta fjallað um málið. Ætlað er að úrlausnir ráðuneytisins horfi til þess að skipa samræmda framkvæmd um umgengnisréttinn.
51. * Með barnalögunum voru lögfestar reglur um meðferð og úrlausnir stjórnvalda á málum þeim, sem í þeirra hlut koma samkvæmt lögunum. Fyrir gildistöku barnalaganna voru þessar reglur óskráðar en höfðu mótast í stjórnsýslunni og var fylgt í reynd við meðferð mála samkvæmt eldri lögum í dómsmálaráðuneytinu. Í nýju barnalögunum og í reglugerð nr. 231/1992 um stjórnsýslumeðferð mála samkvæmt barnalögum er m.a. sérstaklega vikið að lögsögu, leiðbeiningaskyldu, sáttum, kröfum og gagnaöflun, rétti aðila til að kynna sér gögn máls og til að tjá sig um mál svo og form og efni úrskurða. Þá eru einnig lögfest ákvæði um stjórnsýslukæru varðandi úrlausnir sýslumanns sem eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins.
52. Ný lög um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992 tóku gildi 1. janúar 1993 en þau leystu af hólmi lög um vernd barna og ungmenna frá árinu 1966. Ýmsar breytingar voru gerðar með nýju lögunum sem miða að því að bæta réttarstöðu barna. Meðal helstu nýmæla laganna má nefna eftirfarandi:
53. * Eins og áður var lýst fluttist yfirstjórn barnaverndarmála úr höndum menntamálaráðuneytis til félagsmálaráðuneytis. Þetta var gert í ljósi þess að félagsmálaráðuneytið hefur með höndum almennt eftirlit með störfum sveitarfélaga svo og ýmsum verkefnum sem eru unnin á vegum þeirra, svo sem félagsmálum. Barnaverndarstörf tengjast með ýmsum hætti félagslegri þjónustu sem er unnin á vegum sveitarfélaga og þótti því félagsmálaráðuneytið sem handhafi framkvæmdarvalds hafa mun betri aðstöðu en Barnaverndarráð til að hafa virkt eftirlit með störfum barnaverndarnefnda og skyldum sveitarfélaga og hafa þar áhrif á ef þessir aðilar bregðast lögboðnum skyldum sínum.
54. * Starfsháttum Barnaverndarráðs var breytt þannig að það fer ekki lengur með það tvíþætta hlutverk að veita barnaverndarnefndum ráðgjöf við úrlausn einstakra mála og fara með fullnaðarúrskurðarvald í sömu málum, en sú tilhögun ríkti samkvæmt eldri barnaverndarlögum. Ítarlegar reglur um málsmeðferð fyrir ráðinu eru settar með reglugerð nr. 49/1994 um starfsháttu barnaverndarráðs.
55. * Skýrari ákvæði voru sett um skyldur barnaverndaryfirvalda gagnvart börnum og ungmennum heldur en þær sem voru í eldri lögum. Þá er nú kveðið á um skyldur yfirvalds gagnvart þeim börnum sem fremja afbrot svo og þeim sem verða fyrir afbrotum.
56. * Mun ítarlegri reglur en áður giltu voru settar um ráðstöfun barna í fóstur svo og um réttarstöðu barna í fóstri, fósturforeldra og kynforeldra.
57. * Nýmæli eru varðandi heimildir barnaverndarnefnda til að fara á heimili til að athuga barn, heimilishagi og aðrar aðstæður barna. Samkvæmt lögunum er aðeins heimilt að fara á einkaheimili í rannsóknarskyni ef foreldrar eða forráðamenn samþykkja eða á grundvelli dómsúrskurðar nema um sé að ræða neyðartilfelli. Ef ekki liggur fyrir samþykki foreldra eða forráðamanna og ekki er um neyðartilfelli að ræða verður að leita til dómara og fá sérstaka heimild til að fara á heimili.
58. * Í eldri lögum voru ákvæði um málsmeðferð barnaverndarmála á víð og dreif í ýmsum lagagreinum. Í nýju lögunum fjallar sérstakur kafli um starfshætti og málsmeðferð barnaverndarnefnda þar sem eru settar fram mun skýrari reglur en áður giltu.
59. * Réttarstaða barna og ungmenna í barnaverndarmálum er skilgreind með skýrari hætti en áður var og er miðað að því að auka réttarvernd þeirra. Sem dæmi má nefna að sú regla er nú lögfest að börn eigi að jafnaði rétt á að tjá sig um mál sitt og er það skylt þegar barn er orðið 12 ára. Þegar sérstaklega stendur á er barnaverndarnefnd auk þess heimilt að skipa barni eða ungmenni sérstakan talsmann.
60. Hvað varðar breytta löggjöf að öðru leyti en því sem sérstaklega hefur verið rakið um lög sem varða málefni barna, má nefna mikla réttarbót sem hefur verið gerð með því að lögfesta í fyrsta skipti almennar reglur um meðferð mála í stjórnsýslunni. Með þessu er átt við stjórnsýslulög nr. 37/1993 sem tóku gildi 1. janúar 1994. Lögin taka til allrar stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, nema sérlög geymi strangari málsmeðferðarreglur. Lögunum er ætlað að gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur einstaklinga eða lögaðila. Helsta markmið með setningu stjórnsýslulaganna er að tryggja sem best réttaröryggi manna í skiptum við hið opinbera þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Með lögunum voru því lögfestar reglur um málsmeðferð í stjórnsýslunni, þ.e. bæði form- og efnisreglur varðandi undirbúning mála og úrlausn þeirra, þar á meðal um rétt þegnanna auk þess að fylgjast með meðferð mála hjá stjórnvöldum og koma að sjónarmiðum sínum og andmælum. Þessar reglur voru áður ólögfestar en var engu að síður beitt sem grundvallarreglum innan stjórnsýslunnar.
61. Á ritunartíma þessarar skýrslu voru samþykkt á Alþingi lög nr. 83/1994 um embætti umboðsmanns barna en fyrirmynd slíks umboðsmanns er meðal annars að finna í Noregi og Svíþjóð. Með lögunum er stefnt að því að bæta hag barna í samfélaginu og er umboðsmanni ætlað að standa vörð um hagsmuni og réttindi barna, en með börnum er átt við einstaklinga innan 18 ára aldurs. Samkvæmt lögunum skal forseti Íslands skipa, að tillögu forsætisráðherra, umboðsmanna barna til fimm ára í senn. Umboðsmaður barna skal hafa lokið háskólaprófi og hafi hann ekki lokið embættisprófi í lögfræði skal lögfræðingur starfa við embættið.
62. Starf umboðsmanns á að vera að vinna að því að stjórnsýsluhafar, einstaklingar, félög og samtök einstaklinga taki fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna barna. Í starfi sínu skal hann setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna á öllum sviðum samfélagsins. Umboðsmaður barna skal einkum:
- Hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni barna.
- Koma á framfæri tillögum um úrbætur á réttarreglum og fyrirmælum stjórnsýsluhafa er varða börn sérstaklega
- Stuðla að því virtir verði þjóðréttarsamningar sem varða réttindi og velferð
barna og fullgiltir hafa verið af Íslands hálfu og enn fremur benda á að
samningar um þetta efni verði fullgiltir.
- Bregðast við með tiltækum úrræðum telji hann að stjórnsýsluhafar, einstaklingar, félög og samtök einstaklinga hafi brotið gegn réttindum, þörfum og hagsmunum barna í samfélaginu. Hann skal beina rökstuddri álitsgerð til viðkomandi aðila ásamt tillögum um úrbætur eigi það við.
- stuðla að því að kynna fyrir almenningi löggjöf og aðrar réttarreglur er varða börn og ungmenni og beita sér fyrir því að gerðar verði rannsóknir á þessu sviði.
63. Umboðsmaður barna getur tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu. Hann tekur ekki til meðferðar ágreining á milli einstaklinga en honum ber að leiðbeina þeim sem til hans leita með slík mál um leiðir sem eru færar innan stjórnsýslu og hjá dómstólum. Umboðsmanni barna er ætlað að verða sjálfstæður og óháður fyrirmælum framkvæmdarvaldsins en gefur forsætisráðherra árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Í ljósi þess hve ný lögin um umboðsmann barna eru þegar skýrsla þessi er rituð er ekki komin reynsla á störf hans enn sem komið er en vonir eru bundnar við að réttindi barna hér á landi verði enn fremur tryggð með tilkomu hans.
(b) Heildarsamræming á stefnumótun um málefni barna og eftirlitmeð því að ákvæðum samningsins sé framfylgt
64. Sérstakir eftirlitsaðilar hafa ekki verið skipaðir til þess að hafa eftirlit með framkvæmd samningsins hér á landi. Mun því hvert ráðuneyti sem mismunandi málaflokkar samkvæmt samningnum heyra undir, fylgjast með og fylgja eftir framkvæmd hans, hvert á sínu sviði. Mannréttindamál eru meðal þeirra málaflokka sem falla undir verksvið dómsmálaráðuneytisins. Dómsmálaráðuneytið annast því skýrslugerð vegna samningsins og safnar og heldur saman samræmdum upplýsingum um framkvæmd samningsins frá öðrum ráðuneytum og opinberum stofnunum.
65. Umboðsmaður Alþingis getur að eigin frumkvæði rannsakað stjórnsýslumál og bent á ef meinbugir eru á löggjöf, þar á meðal ef hún brýtur gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfest eru með lögum nr. 62/1994 eða alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að.
66. Umboðsmaður barna sem lýst var framan mun láta sig sérstaklega varða hvort ákvæðum samningsins um réttindi barnsins sé framfylgt og kemur með ábendingar til stjórnvalda ef hann telur að misbrestur sé á því, en eins og áður var nefnt er ekki enn komin reynsla á störf hans.
67. Auglýsing um samning um réttindi barnsins birtist í C-deild Stjórnartíðinda nr. 18, 2. nóvember 1992, eins og aðrir alþjóðasamningar sem Ísland hefur fullgilt. Þar var samningurinn birtur í heild sinni á íslensku og ensku. Samningurinn hefur einnig verið gefinn út af dómsmálaráðuneytinu í almennri sérprentun og er fáanlegur þar að kostnaðarlausu. Hvað varðar kynningu á samningnum að öðru leyti af hálfu hins opinbera hér á landi þá hefur lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu haldið fyrirlestra um samninginn á málþingum á vegum Rauða krossins á Íslandi og Bernskunnar, Íslandsdeildar OMEP samtakanna en þessir fyrirlestrar hafa síðar verið gefnir út á vegum áðurgreindra samtaka. Grein um samninginn eftir lögfræðing í dómsmálaráðuneytinu og þjóðréttarfræðing í utanríkisráðuneytinu hefur verið birt í öðru stærsta lögfræðitímaritinu hér á landi. Stefnt er að því að kynning á samningnum fari fram reglulega í framtíðinni. Í því skyni hefur dómsmálaráðherra skipað starfshóp með fulltrúum frá dómsmálaráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu, heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu til þess að kanna og gera tillögur um hvernig rétt sé að standa að frekari kynningu á samningnum. Ákveðið hefur verið að veita 2 milljónum ISK til kynningarverkefnisins á árinu 1994. Áðurgreindur starfshópur hefur gert áætlun um kynningarátak sem hefst haustið 1994. Meðal annars verður samningurinn um réttindi barnsins gefinn út í þremur útgáfum, fyrir aldurshópana, 6-9 ára, 9-12 ára og 12-15 ára í u.þ.b. 50 þúsund eintökum og dreift til allra barna í grunnskólum. Samráð hefur verið haft við Námsgagnastofnun um kennslu á efni samningsins, og leiðbeiningar samdar fyrir kennara í því markmiði. Samningurinn verður einnig kynntur sérstaklega í fjölmiðlum. Þess má geta að á vegum Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis stendur yfir rannsóknarverkefni sem hver heitið "Alþjóðleg könnun á réttindum barna á heimili og í skóla." Verkefnið er unnið í samvinnu við Alþjóðlega skólasálfræðingafélagið og er markmiðið að öðlast þekkingu á sambandinu milli viðhorfa til réttinda barna og félagsmótunar í hverju landi fyrir sig og á milli landa. Jafnframt á að kanna hvort samræmi sé milli þess hvernig réttindin eru skynjuð og réttindanna eins og þau birtast í lögum og sáttmálum. Rannsóknin er hönnuð með sérstöku tilliti til ákvæðanna sem eru sett fram í samningnum um réttindi barnsins. Rannsóknin er í þremur áföngum og er fyrirhugað að leggja fyrstu spurningalista fyrir þátttakendur sem eru á aldursbilinu 12-14 ára, í september 1994 og er búist við fyrstu niðurstöðum úr rannsókninni á miðju ári 1995. Áframhaldandi rannsókn er síðan fyrirhuguð sem tekur til fleiri aldurshópa og sérstakra hópa í þjóðfélaginu svo sem nýbúa. Má ætla að niðurstöður þessara rannsókna geti í framtíðinni nýst vel við skýrslugerð um framkvæmd samningsins um réttindi barnsins hér á landi, einkum við mat á því hvernig hefur tekist til við kynningu af hálfu hins opinbera á samningnum.
Þátttaka sjálfstæðra félaga í barnavernd og kynningu á samningnum
68. Margvísleg félög og samtök eru starfandi hér á landi sem vinna á einn eða annan hátt að hagsmunum barna. Þar má til dæmis nefna samtökin Barnaheill sem eru frjáls félagasamtök sem hafa það stefnumark að vera málsvari barna í samfélaginu, m.a. með því að fá ríki, sveitarfélög og félagasamtök til að auka velferð barna, hafa áhrif á lagasetningu og gera almenning og stjórnmálamenn betur meðvitaða um börn og aðbúnað þeirra. Tekjur félagsins koma frá félagsgjöldum félagsmanna sem eru nú um ellefu þúsund. Samtökin hafa haft frumkvæði á ýmsum sviðum til að kynna samninginn um réttindi barnsins.
69. Um líkt leyti og samningurinn um réttindi barnsins var fullgiltur af Íslands hálfu, í lok októbermánaðar 1992 stóð Barnaheill fyrir tveggja daga ráðstefnu um samninginn um réttindi barnsins. Fjöldi erinda sem tengdust samningnum var fluttur á ráðstefnunni sem var fjölsótt og voru erindin birt í tímariti Barnaheilla sem kom út í byrjun árs 1993. Samtökin stóðu fyrir útgáfu á útdrætti úr efnisákvæðum samningsins í íslenskri þýðingu og dreifðu meðal félagsmanna sinna svo og helstu opinberra stofnana sem fara með málefni barna. Tvær stuttmyndir hafa verið gerðar á vegum samtakanna um samninginn sem fyrirhugað er að sýna í sjónvarpi. Samtökin hafa ekki notið opinberra styrkja í kynningarstarfsemi sinni á samningnum.
70. Sérstök mannréttindaskrifstofa var stofnuð í Reykjavík vorið 1994, en sambærilegar skrifstofur hafa starfað á öðrum Norðurlöndum um nokkurt skeið. Að mannréttindastofnuninni standa Íslandsdeild Amnesty International, Samtökin Barnaheill, Biskupsstofa, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Lögmannafélag Íslands, Hjálparstofnun Kirkjunnar, Rauði Krossinn, Kvenréttindafélag Íslands, Jafnréttisráð og UNIFEM á Íslandi. Má ætla að Mannréttindaskrifstofan láti meðal annars til sín taka hvernig til hefur tekist með framkvæmd alþjóðlegra mannréttindasamningu hér á landi og þ.á m. samningsins um réttindi barna, en þegar skýrsla þessi er rituð er ekki enn komin reynsla á starfsemi hennar.
71. Auk þess að hafa verið gefinn út í sérprentun af hálfu dómsmálaráðuneytisins hefur samningurinn verið gefinn út á íslensku ásamt öðrum alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að, í riti sem málflutningsstofa í Reykjavík gaf út árið 1992.
III. Hugtakið barn
72. Enga almenna skilgreiningu er að finna í íslenskum lögum á því hvar aldursmörk barna, ungmenna eða ófullveðja manna liggja, heldur eru ýmis aldursviðmið á bilinu 15-18 ára notuð eftir því hvaða lög eiga í hlut þar sem sérreglur eru settar fram um börn og unglinga. Þessar reglur miða ýmist að því að veita börnum og unglingum sérstaka vernd, veita þeim réttindi fram til ákveðins aldurs eða þær miða að því að maður öðlist tiltekinn réttindi við ákveðinn aldur. Hér verður gefið almennt yfirlit yfir helstu lög þar sem sérreglur eru settar fram um börn og unglinga með ákveðnum aldursmörkum en um flestar þeirra verður þó fjallað nánar í umfjöllun um einstaka ákvæði samningsins.
73. Þegar rætt er um börn í lögum um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992 er átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs en ungmenni eru einstaklingar á aldursbilinu 16-18 ára.
Ákvæði sem veita börnum og ungmennum réttindi eða leggja á þau skyldur
74. Samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 49/1991 er sveitarfélögum skylt að halda grunnskóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6-16 ára. Öllum börnum og unglingum á framangreindum aldri er skylt að sækja grunnskóla.
75. Barn á rétt á forsjá foreldra sinna til 16 ára aldurs en framfærsluskyldu foreldra gagnvart barni lýkur samkvæmt barnalögum þegar barn verður 18 ára.
Ákvæði sem veita börnum og ungmennum sérstaka vernd
76. Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 er sakhæfi barns miðað við fimmtán ára aldur og sérstök sjónarmið gilda um ákvörðun refsingar ungmenna á aldrinum 15-18 ára. Aldrei má dæma menn í þyngri hegningu fyrir brot sem þeir fremja á aldrinum 15-18 ára en 8 ára fangelsi.
77. Samkvæmt hegningarlögunum varðar það fangelsi allt að 12 árum að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára og önnur kynferðisleg áreitni varðar fangelsi allt að 4 árum. Það varðar fangelsi allt að 4 árum að tæla ungmenni á aldrinum 14-16 ára með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt til samræðis eða annarra kynferðismaka. Allt að 6 ára fangelsi liggur við því að hafa samræði við barn sitt eða niðja og allt að 10 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára. Önnur kynferðisleg áreitni manns gagnvart barni sínu eða öðrum niðja varðar allt að 2 ára fangelsi og allt að 4 ára fangelsi ef barnið er yngra en 16 ára. Sambærileg refsivernd er einnig veitt kjörbörnum, stjúpbörnum, sambúðarbörnum eða ungmennum sem manni hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis.
78. Samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gilda ýmsar sérreglur þegar börn og ungmenni eiga í hlut, bæði meðan á rannsókn máls stendur, áður en ákæra er gefin út og við meðferð máls fyrir dómi. Ef sakaður maður yngri en 16 ára er yfirheyrður, skal það tilkynnt barnaverndarnefnd sem getur sent fulltrúa sinn til að vera við yfirheyrsluna. Dómara er heimilt að ákveða að dómþing skuli háð fyrir luktum dyrum ef sakborningur er undir 18 ára aldri.
79. Ýmsar sérreglur gilda einnig um vitni og vitnaleiðslur yfir barni bæði í einkamálum og opinberum málum. Í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 er sú almenna regla að hverjum manni sem er orðinn 15 ára er skylt að koma fyrir dóm sem vitni. Dómari getur þó metið með hliðsjón af atvikum hverju sinni hvort yngri manni en 15 ára verði gert skylt að gefa skýrslu sem vitni. Í opinberum málum er ekki kveðið á um sérstakt aldurslágmark fyrir vitnaskyldu. Samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála metur dómari það hverju sinni hvort barn hafi náð þeim þroska að það beri slíkt skynbragð á málsatvik að vitnisburður þess um þau skipti máli. Loks er það óundanþæg regla bæði í einkamálum og opinberum málum að vitni undir 15 ára aldri verður ekki látið staðfesta framburð sinn með eiði eða drengskaparheiti.
80. Samkvæmt lögum um hollustuhætti og aðbúnað á vinnustöðum nr. 46/1980 njóta börn undir 16 ára aldri og ungmenni á aldrinum 16 og 17 ára sérstakrar verndar í atvinnulífinu. Óheimilt er að ráða barn yngra en 14 ára gamalt til vinnu nema störfin séu létt og hættulítil. Vinnutími 14 og 15 ára barna má ekki fara fram úr venjulegum vinnutíma fullorðinna sem starfa í sömu starfsgrein og unglingar 16 og 17 ára mega ekki vinna lengur en 10 klukkustundir á dag. Barnaverndanefndir hafa eftirlit með því að barni eða ungmenni sé ekki ofþjakað við þunga eða óholla vinnu, með löngum vinnutíma, vökum eða óreglulegum vinnuháttum.
Ákvæði sem tilskilja lágmarksaldur til að öðlast tiltekin réttindi
81. Reglur um sjálfræði og fjárræði barna er að finna í lögræðislögum nr. 68/1984. Samkvæmt þeim öðlast maður sjálfræði við 16 ára aldur. Í sjálfræðinu felst að maður ræður einn öðru en fé sínu og er þá fyrst og fremst átt við dvalarstað eða vinnu og hann verður ekki vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum. Fram til 18 ára aldurs ræður maður aðeins sjálfsaflafé sínu sem hann hefur þegar unnið fyrir svo og gjafafé sínu. Við 18 ára aldur verður maður fjárráða, en það þýðir að hann ræður einn fé sínu. Fjárráða maður getur því ráðstafað eignum sínum og tekið á sig fjárskuldbindingar. Maður telst vera lögráða þegar hann hefur náð bæði sjálfræði og fjárræði. Lögráðamenn fara með málefni ólögráða manna. Lögráðamenn eru fyrst og fremst foreldrar ólögráða barna sem fara með forsjá þeirra. Lögráðamaður ósjálfráða manns ræður persónulegum högum hans þ.á m. vinnusamningum nema öðruvísi sé mælt í lögum.
82. Hjúskaparaldur á Íslandi er 18 ár samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993. Dómsmálaráðuneytið getur veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap. Við hjúskaparstofnun verða bæði hjón lögráða þrátt fyrir að þau hafi ekki náð 18 ára aldri.
83. Samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 má veita ökuskírteini þeim sem er fullra sautján ára.
84. Samkvæmt lögum nr. 46/1977 um skotvopn, sprengiefni og skotelda getur einstaklingur fengið leyfi til að eiga skotvopn þegar hann hefur náð 20 ára aldri og er ekki sviptur sjálfræði, auk frekari skilyrða sem talin eru í lögunum.
85. Þeir sem eru orðnir 16 ára að aldri geta tekið ákvörðun um inngöngu í trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi, samkvæmt lögum um trúfélög nr. 18/1975. Foreldrar geta saman tekið ákvörðun um inngöngu barns síns í trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi. Það foreldri sem fer eitt með forsjá getur tekið slíka ákvörðun. Enginn, sem ekki er orðinn 20 ára getur svo að gilt sé unnið heit um inngöngu í trúarreglu, klaustur eða þvílík samtök og er bannað að taka við slíku heiti.
86. Kosningarétt við kosningar til Alþingis, sveitarstjórna og í forsetakosningum öðlast maður við 18 ára aldur.
87. Barn sem er innan 16 ára aldurs á tekjuárinu er ekki sjálfstæður skattaðili ef það er á framfæri foreldra sinnar, sbr. 6. gr. laga um tekju- og eignaskatt nr. 75/1981.
88. Börn og unglingar, 16 ára og yngri eru sjúkratryggð með foreldrum sínum og það sama gildir um stjúpbörn og fósturbörn.
89. Samkvæmt áfengislögum nr. 82/1969 má ekki selja, veita eða afhenda áfengi yngri mönnum en 20 ára og ungmennum yngri en 18 ára er óheimil dvöl eftir kl. 8 að kvöldi á veitingastað þar sem veitingar áfengis eru leyfðar nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka. Sala og neysla á eiturlyfjum er ólögleg án tillits til aldurs.
90. Enginn innlendur her er á Íslandi og þar af leiðandi engin herskylda eða álitaefni um lágmarksaldur í því tilliti.
91. Eins sjá má af ofangreindum dæmum er hugtakið "barn" er ekki skilgreint með sama hætti í íslenskri löggjöf og í 1. grein samningsins um réttindi barnsins þar sem enga einhlíta skilgreiningu er að finna á aldursmörkum heldur ráðast þau af því um hvers konar réttindi eða vernd er að ræða hverju sinni. Þrátt fyrir að almenna skilgreiningu skorti er litið svo á að réttindi þau sem eru sett fram í samningnum séu í raun tryggð öllum undir 18 ára aldri, líkt og 1. grein samningsins kveður á um.
IV. Almennar meginreglur
(a) Jafnræðisregla (2. grein)
92. Í íslenskri löggjöf er engin almenn regla orðuð sérstaklega um að börnum verði ekki mismunað vegna þeirra atriða sem talin eru í þessari grein. Á þessari meginreglu er engu að síður byggt sem grundvallarreglu í íslenskri stjórnskipun. Í 78. gr. stjórnarskrárinnar er að finna þá almennu reglu að sérréttindi sem bundin eru við aðal, nafnbætur og lögtign megi aldrei taka í lög.
93. Í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er sú regla skýrlega lögð til grundvallar við meðferð mála í stjórnsýslunni að stjórnvöldum er óheimilt að mismuna aðilum vegna sjónarmiða byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.
94. Það varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum samkvæmt 233. gr. a í almennum hegningarlögum að ráðast opinberlega með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt á hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða. Ekki eru dæmi um að reynt hafi á beitingu þessa hegningarlagaákvæðis fyrir dómstólum.
95. Hvergi í íslenskri löggjöf er börnum mismunað vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis eða annarra þeirra atriða sem talin eru í 2. grein. Dæmi finnast í sérlögum um að grundvallarreglan um jafnræði barna sé áréttuð sérstaklega, svo sem í 3. mgr. 48. gr. laga um grunnskóla nr. 49/1991 þar sem segir að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar.
(b) Hagsmunir barnsins í fyrirrúmi (3. grein)
96. Eitt mikilvægasta markmiðið sem haft er að leiðarljósi við úrlausn mála sem varða börn í íslenskri löggjöf, stjórnsýsluframkvæmd og dómstólaframkvæmd er að hagsmunir barnsins séu ávallt hafðir í fyrirrúmi. Þetta kemur víða fram í löggjöf um barnamálefni og þá sem alger grundvallarregla sem ber að hafa í huga við úrlausn mála jafnvel þótt þess sé ekki getið sérstaklega í hverju lagaákvæði sem varðar meðferð mála þar sem börn eiga í hlut. Dæmi um almenna stefnumörkun laga um að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi er að finna í 1. mgr. 1. gr. laga um vernd barna og ungmenna sem er svohljóðandi:
"Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði. Skal það gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Í barnaverndarstarfi skal jafnan það ráð upp taka sem ætla má að barni eða ungmenni sé fyrir bestu. Skal barnaverndarstarfi hagað þannig að það stuðli að stöðugleika í uppvexti barna og ungmenna."
97. Í ýmsum sérákvæðum laganna um vernd barna og ungmenna er þetta grundvallarviðhorf áréttað. Samkvæmt 24. og 25. gr. eru barnaverndarnefnd t.d. heimiluð ýmis úrræði ef sýnt er að heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra. Þar á meðal er það úrræði að svipta foreldra forsjá barns með úrskurði ef barninu er búin mjög alvarlega hætta. Í 33. gr. er tiltekið að fósturforeldra barns skuli velja sérstaklega út frá hagsmunum og þörfum viðkomandi barns. Í 36. gr. kemur fram að takmarka megi umgengni barns í fóstri við kynforeldra sína ef sérstök atvik valda því að hag barns og þörfum er með því stefnt í hættu.
98. Almenn tilkynningarskylda er lögboðin í 12. gr. laganna um vernd barna og ungmenna og er hverjum sem verður þess vís að barni sé misboðið, uppeldi þess sé vanrækt eða aðbúnaði þess svo áfátt að barninu geti stafað hætta af, skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd í því sveitarfélagi sem barnið dvelst. Það varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum samkvæmt 60 gr. laganna um vernd barna og ungmenna ef maður vanrækir að tilkynna barnaverndarnefnd um svo illa meðferð eða slæman aðbúnað barns eða ungmennis að lífi þess eða heilsu sé hætta búin.
99. Sérstök tilkynningarskylda er lögð á þá sem hafa afskipti af börnum og ungmennum, svo sem fóstrur, dagmæður, kennara, presta, lækna, ljósmæður, sálfræðinga, félagsráðgjafa og aðra sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf, að gera barnaverndaryfirvöldum viðvart ef ætla má að málefnum barns sé þannig komið að barnaverndarnefnd ætti að hafa afskipti af þeim.
100. Loks hvílir tilkynningarskylda á lögreglumanni að gera barnaverndarnefnd viðvart þegar hann hefur til meðferðar mál barns eða ungmennis. Ef barn er innan 16 ára aldurs skal jafnframt gefa barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan þegar barnið er yfirheyrt. Óski foreldri eftir því að vera viðstatt yfirheyrslu yfir barni sínu yngra en 16 ára skal það að jafnaði heimilt.
101. Í barnalögum kemur einnig víða fram að hagsmunir barns skuli sitja í fyrirrúmi. Þetta á sérstaklega við í þeim kafla laganna sem fjallar um foreldraskyldur, forsjá barns og umgengnisrétt. Í 35. gr. barnalaganna kemur m.a. fram að ef annað foreldra krefst þess að samningi eða úrlausn dómstóls eða dómsmálaráðuneytis um forsjá verði breytt, þá megi aðeins taka slíka kröfu til greina vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags og þarfa barnsins. Með þessu er einkum átt við að breyttar og betri aðstæður til dæmis þess foreldris sem ekki fer með forsjá séu ekki nægilegar til þess að forsjá flytjist til þess frá hinu foreldri sem hefur óbreyttar aðstæður heldur er haft að leiðarljósi að sem minnstar breytingar séu gerðar á högum barnsins, dvalarstað þess og félagslegu umhverfi.
102. Í 37. gr. barnalaga um umgengnisrétt kemur það viðhorf fram að barn eigi rétt á umgengni við það foreldra sinna sem fer ekki með forsjá þess og sé þessi réttur gagnkvæmur hvað varðar foreldrið. Hins vegar er sú undantekning gerð í 3. mgr. sömu greinar að ef sérstök atvik valda því að mati sýslumanns að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag barns og þörfum þá geti hann kveðið svo á um að umgengnisréttar njóti ekki við. Takmarkanir á umgengnisrétti geta til dæmis átt við í tilvikum þar sem stálpað barn er mótfallið umgengni eða þegar krafist er umgengni við mjög ungt barn sem hefur ekki áður haft tengsl við það foreldri sem krefst umgengnisréttar. Algert bann við umgengnisrétti gæti átt við ef sá sem krefst umgengnisréttar er sálsjúkur, kunnur að ofbeldisverkum eða kynferðisbrotum gagnvart börnum eða er haldinn öðrum þeim ágöllum sem gera það varhugavert að hann hafi tengsl við barnið.
103. Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 starfar sérstök félagsmálanefnd í hverju sveitarfélagi. Eitt af hlutverkum hennar er að gæta velferðar og hagsmuna barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Nefndin á að sjá til þess að börn fái notið hollra og þroskavænlegra uppvaxtarskilyrða, t.d. leikskóla og tómstundaiðju. Hún á einnig að gæta þess að aðbúnaði barna sé ekki áfátt og ekki séu þær aðstæður í umhverfi barna sem þeim stafar hætta af. Forvarnastarf félagsmálanefnda í málefnum barna og ungmenna miðar að því að bæta þroskaskilyrði og aðstæður barna almennt í samfélaginu en beinist ekki að einstaka börnum. Sem dæmi um forvarnir félagsmálanefnda í þessum málaflokki má nefna rekstur leikskóla fyrir börn, sem miða að góðum uppeldisskilyrðum og gæslu sem veitir börnum öryggi. Í því sambandi má nefna góð leiksvæði þar sem börn geta leikið sér óhult, aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðju og framboð á tómstundum við hæfi barna.
104. Bæði í lögum um leikskóla og lögum um grunnskóla eru upphafsákvæði þar sem vikið er að því að hagsmunir barnins og þarfir skuli sitja í fyrirrúmi annars vegar með uppeldisstarfi í leikskóla og hins vegar að störfum grunnskóla sé hagað í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðlað sé að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.
(c) Réttur til lífs, afkomu og þroska (6. grein)
105. Réttur allra manna til lífs er verndaður með lögum á Íslandi. Samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga varðar það fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt að svipta annan mann lífi.
106. Í hegningarlögunum eru einnig sérákvæði sem vernda sérstaklega nýfædd börn og fóstur. Í 212. gr. laganna segir að ef móðir deyðir barn sitt í fæðingunni eða undir eins og það er fætt, og ætla má að hún hafi gert það vegna neyðar, ótta um hneisu eða sökum veiklaðs eða ruglaðs hugarástands þá varði það fangelsi allt að 6 árum. Ef aðeins er um tilraun að ræða og barnið hefur ekki beðið neitt tjón, má láta refsingu falla niður. Aðeins er vitað um eitt dæmi þess að ákært hafi verið vegna brots á 212. gr. hegningarlaganna, en árið 1993 gekk héraðsdómur þar sem kona var dæmd í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa deytt fullburða barn sitt í fæðingu. Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
107. Fóstri er veitt sérstök refsivernd samkvæmt 216. gr. hegningarlaganna. Þar segir að kvenmaður sem deyðir fóstur sitt, skuli sæta varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum. Ef sérstaklega ríkar málsbætur eru fyrir hendi má ákveða að refsing falli niður. Mál skal ekki höfðað ef 2 ár eru liðin frá því að brot var framið og tilraun er refsilaus. Einnig segir að hver sem með samþykki móður deyðir fóstur hennar eða ljær henni lið sitt til fóstureyðingar, skuli sæta fangelsi allt að 4 árum. Ef um mikla sök er að ræða, einkum ef verknaðurinn er framinn í ávinningsskyni eða hann hefur haft í för með sér dauða eða stórfellt heilsutjón móður, skal beita allt að 8 ára fangelsi og hafi verkið verið framið án samþykkis móður skal refsing vera fangelsi ekki skemur en 2 ár og allt að 12 árum. Ekki hefur reynt á þetta ákvæði fyrir dómstólum á síðustu áratugum.
108. Samkvæmt íslenskum lögum er fóstureyðing læknisaðgerð sem kona gengst undir í því skyni að binda enda á þungun áður en fóstrið hefur náð lífvænlegum þroska. Ákvæði um fóstureyðingar eru í lögum nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf, barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Fóstureyðing er heimil af þrenns konar ástæðum;
- í fyrsta lagi af félagslegum ástæðum,
- í öðru lagi af læknisfræðilegum ástæðum
- í þriðja lagi ef konu hefur verið nauðgað eða hún orðið þunguð sem afleiðing af öðru refsiverðu atferli.
109. Fóstureyðing skal framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans. Fóstureyðing skal aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu. Einnig skal fóstureyðing leyfileg eftir 16 vikur séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.
110. Fóstureyðingum fór fjölgandi eftir 1975, en hefur farið nokkuð fækkandi undanfarin ár. Félagslegar ástæður eru algengasta ástæða fóstureyðingar.
Fóstureyðingar á Íslandi 1971-1991:
Fjöldi á 100
Fjöldi alls lifandi fæddra barna
1971-75 203 4,6
1976-1980 472 11,0
1981-1985 670 16,0
1986 685 17,7
1987 695 16,6
1988 673 14,4
1989 670 14,7
1990 714 14,9
1991 658 14,5
111. Fylgst er reglulega með heilsu verðandi mæðra og fer eftirlit fram mánaðarlega á meðgöngu á göngu- og mæðradeildum þar sem ljósmæður og fæðingarlæknar starfa en hálfsmánaðarlega og vikulega á síðustu vikum meðgöngu. Mæðraskoðun er ókeypis. Samræmd mæðraskrá er haldin um allt land og konur geta því flutt sig milli landshluta og farið í mæðraskoðun þar sem hentugast er fyrir þær. Reglulegt eftirlit er haft með heilsu og vexti ungbarna og þau gangast skipulega undir ónæmisagerðir allt frá þriggja mánaða aldri. Skólabörn í grunnskóla fara í læknisskoðun að minnsta kosti einu sinni á ári.
112. Allar konur sem fæða eiga rétt á fæðingarorlofi sem venjulega er sex mánuðir frá fæðingu. Opinberir starfsmenn og bankamenn eiga rétt á óskertum launum í fæðingarorlofi. Aðrar konur sem eru starfandi á vinnumarkaði og konur í námi fá auk fæðingarorlofs, fæðingarstyrk og fæðingardagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 117/1993.
113. Í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 er byggt á þeim sjónarmiðum sem koma fram í 6. grein samningsins. Í lögunum kemur fram sú stefna að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Sjúklingar greiða aðeins að litlu leyti læknis-, lyfja- og sjúkrahúskostnað. Heilbrigðisþjónusta tekur til hvers kyns heilsugæslu, heilbrigðiseftirlits, lækningarannsókna, lækninga og hjúkrunar í sjúkrahúsum, læknisfræðilegs endurhæfingarstarfs, tannlækninga og sjúkraflutninga. Nánari lýsingu á heilbrigðiskerfinu er að finna í umfjöllun um 24. gr. samningsins.
(d) Virðing fyrir sjónarmiðum barnsins (12. grein)
114.Fyrir lögfestingu nýju barnalaganna og nýju laganna um vernd barna og ungmenna var ekki skilyrðislaust kveðið á um rétt barns til að tjá sig um málefni sem það varðaði og að taka skyldi tillit til sjónarmiða þess. Þrátt fyrir það var þeirri reglu í reynd almennt beitt í lagaframkvæmd.
115. Um leið og réttarstaða barna og ungmenna í barnaverndarmálum var gerð skýrari með nýjum lögum um vernd barna og ungmenna var sú regla lögfest að börn eigi að jafnaði rétt á að tjá sig um mál sitt sem er til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum. Þessi regla er fortakslaus þegar barnið er orðið 12 ára gamalt. Jafnframt var lögfest heimild barnaverndarnefndar til þess að skipa barni eða ungmenni sérstakan talsmann ef sérstaklega stendur á. Þessu úrræði er m.a. lýst í 22. gr. laganna ef barnaverndarnefnd telur ekki hjá því komist að vista ungmenni tímabundið á stofnun vegna þess að það stefnir eigin heilsu eða þroska í alvarlega hættu með vímuefnaneyslu. Ef vistun er gegn vilja barns sem er orðið 12 ára skal það fá tækifæri til að tala máli sínu fyrir nefndinni með liðsinni sérstaks talsmanns. Heimilt er að gefa barni undir 12 ára aldri kost á að tjá sig með sama hætti óski barnið þess.
116. Sambærilega regla um rétt barns til að tjá sig um mál sig var lögfest með nýju barnalögunum. Dæmi um það má finna í 4. mgr. 34. gr. laganna þar sem segir að veita skuli barni sem hefur náð 12 ára aldri kost á að tjá sig um forsjármál nema telja megi að slíkt geti haft skaðvænleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Það gæti meðal annars átt við ef barn er andlega fatlað eða annað foreldra augljóslega vanhæft til að fara með forsjá barns. Jafnframt er tekið fram í ákvæðinu að heimilt sé að ræða við yngri börn, ef slíkt þykir réttmætt, miðað við aldur þeirra og þroska. Hér á einnig við sá fyrirvari að þetta skuli ekki gert ef ef það telst skaðvænlegt fyrir heilsu barnsins. Sú framkvæmd hefur komist á hér á landi að m.a. er leitað eftir viðhorfi ungra barna með viðtölum við sálfræðinga. Gert er ráð fyrir að viðtöl við börn samkvæmt þessu ákvæði fari fram á vegum barnaverndarnefnda eða að sérstaklega tilkvaddir kunnáttumenn annist þau eftir nánari ákvörðun dómstóls eða stjórnvalds, en dómari eða stjórnvald geta einnig rætt við barnið. Almennt verður það þó ekki gert fyrir dómi. Reglan um rétt barns til þess að tjá sig um mál á einnig við í umgengnisréttamálum.
117. Í 5. mgr. 34. gr. barnalaga segir að skipa megi barni talsmann á kostnað hins opinbera til að gæta hagsmuna þess við úrlausn forsjármáls. Með talsmanni er hér til dæmis átt við fagmann á sviði sálfræði, barnageðlækninga eða félagsráðgjafar, sem hefði það hlutverk að veita barni, sem verður bitbein foreldra í sérstaklega erfiðum forsjárdeilum, liðsinni sitt ef úrlausnaraðili telur barninu brýna þörf á stuðningi vegna málarekstursins. Einnig geta dómari eða dómsmálaráðuneyti leitað eftir liðsinni barnaverndarnefndar til stuðnings barni, einkum ef umsagnar nefndarinnar í forsjármálinu hefur ekki verið beiðst.
118. Í 6. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978 er sú fortakslausa regla að ekki má ættleiða þann sem er orðinn 12 ára án skriflegs samþykkis hans. Barnið skal njóta leiðsagnar um lagaáhrif ættleiðingarinnar áður en það gefur samþykkið. Sama skilyrði um samþykki barns er einnig sett varðandi niðurfellingu ættleiðingarleyfis.
119. Heimilt er með leyfi dómsmálaráðuneytis samkvæmt mannanafnalögum nr. 37/1991 að feðrað barn kenni sig til stjúpforeldris. Þegar barn er ættleitt skal það kennt til kjörforeldris nema kjörforeldri óski eftir því að barnið haldi fyrra kenninafni sínu. Þessar ákvarðanir um nafnbreytingar á kenninafni barns eru þó háðar samþykki barnsins sjálfs, enda sé það orðið 12 ára. Ef barn er ættleitt eftir að því var gefið nafn má í ættleiðingarbréfi gefa því nýtt eiginnafn í stað hins fyrra eða til viðbótar einu nafni sem það hefur áður hlotið. Þessi ákvörðun er þó að jafnaði háð samþykki barnsins sé þess kostur án tillits til aldurs.
120. Þeir sem eru orðnir 16 ára að aldri geta tekið ákvörðun um inngöngu í trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi, samkvæmt lögum um trúfélög nr. 18/1975. Fram til þess tíma geta foreldrar tekið saman ákvörðun um inngöngu barns síns í trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi. Það foreldri sem fer eitt með foreldravald getur tekið slíka ákvörðun. Hafi barn náð 12 ára aldri er skylt að leita álits þess áður en ákvörðun er tekin.
V. Borgaraleg réttindi
(a) Nafn og þjóðerni (7. grein)
121. Fæðingarskýrsla er gerð um öll börn sem fæðast hér á landi, íslenskra sem erlendra og þær eru varðveittar á Hagstofu Íslands. Hagstofan veitir fæðingarvottorð samkvæmt fæðingarskýrslum þegar þess er óskað. Læknir eða ljósmóðir sem tekur á móti barni, skráir fæðingarskýrslu þar sem meðal annars skulu koma fram öll þau atriði sem má ráða af um þroska barnsins og frásögn móðurinnar um faðerni barnsins.
122. Daglega eru allar fæðingaskýrslur frá Fæðingardeild Landspítalans í Reykjavík sendar þjóðskrá á Hagstofu Íslands en vikulega frá sjúkrahúsum utan Reykjavíkur. Þegar fæðingarskýrslur berast þjóðskrá er kyn barns fært inn í þjóðskrá og föðurnafn ef foreldrar þess eru í hjúskap eða í sambúð en ella er það kennt við móðurina þar til faðernisviðurkenning þess sem móðir kenndi föður við fæðingu barnsins er lögð inn til þjóðskrár eða dómur um faðerni barns.
123. Barn fær kennitölu í þjóðskrá strax þegar fæðingarskýrslu er skilað þangað og nafn þess er fært inn eftir tilkynningu um að því hafi verið gefið nafn. Börn sendiráðsstarfsmanna og hermanna úr liði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli fá þó ekki sjálfkrafa kennitölu og eru ekki færð í þjóðskrá enda er það í samræmi við gildandi milliríkjasamninga.
124. Reglur um mannanöfn eru í lögum nr. 37/1991 um mannanöfn. Samkvæmt þeim er skylt að gefa hverju barni eiginnafn innan sex mánaða frá fæðingu þess. Barn getur öðlast nafn við skírn í þjóðkirkjunni eða í skráðu trúfélagi eða með tilkynningu til Hagstofu Íslands, Þjóðskrár, prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags. Ef barni er ekki gefið nafn innan sex mánaða frá fæðingu er Þjóðskrá skylt að vekja athygli foreldra barnsins á þessari lagaskyldu og skora á þá að gefa barninu nafn án tafar. Ef foreldrar sinna þessu ekki áður en mánuður er liðinn og tilgreina ekki ástæður fyrir því að dregist hefur að gefa nafn, er Hagstofunni heimilt að leggja dagsektir á foreldra og falla þær á þar til nafn er gefið. Aldrei hefur reynt á dagsektaheimildina í gildistíð mannanafnalaganna.
125. Samkvæmt mannanafnalögunum skipar dómsmálaráðherra mannanafnanefnd til fjögurra ára í senn. Hlutverk hennar er einkum að semja skrá um mannanöfn sem teljast heimil og að vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Hagstofunni, dómsmálaráðuneyti og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsmálum um nöfn, nafngjafir, nafnritun o.fl. Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurðir innan stjórnsýslunnar en dómstólar geta ógilt ákvarðanir nefndarinnar ef sýnt er fram á að ólögmæt sjónarmið liggi þeim til grundvallar eða réttum málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt. Maður getur fengið breytt bæði eiginnafni sín og kenninafni eftir reglum sem eru nánar tilgreindar í mannanafnalögum. Samþykki foreldra er þó áskilið ef maður er yngri en 16 ára gamall.
126. Á það er litið sem sjálfsagða meginreglu í íslenskum lögum að börn fylgi kynforeldrum sínum og njóti umönnnunar þeirra og slíkt markmið er hvergi orðað sérstaklega í löggjöf. Segja má að nýmæli barnalaga um að foreldrar sem ekki búa sama hafi sameiginlega forsjá yfir barni sínu, sé liður í þeirri viðleitni að stefna að því að börn njóti sem mest umönnunar beggja foreldra sinna.
127. Í stórum dráttum eru aðeins tvær undantekningar frá þessari meginreglu. Þetta á annars vegar við ef barn er ættleitt en samkvæmt ættleiðingarlögum öðlast kjörbarn sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldrum, ættmennum þeirra og þeim sem eru í kjörsifjum við þá, eins og það væri skilgetið barn kjörforeldra. Frá sama tíma falla niður lagatengsl barnsins og kynforeldra þess, nema lög kveði á annan veg. Ættleitt barn, kynforeldrar þess og kjörforeldrar hafa ávallt óheftan aðgang að gögnum og upplýsingum hjá dómsmálaráðuneytinu sem varða ættleiðinguna, þrátt fyrir að þessi regla sé ekki beinlínis orðuð í ættleiðingarlögum. Þessi upplýsingaréttur kemur hins vegar skýrlega fram í 15. gr. stjórnsýslulaga þar sem segir að aðili máls eigi rétt á að kynna sér skjöl og önnur gögn sem varða mál hans. Ekkert aldurlágmark er tilskilið ef ættleitt barn óskar þess að fá upplýsingar um ættleiðingu sína og kynforeldra og eru dæmi um allt niður í 12 ára gamalt barn sem æskti þess, án milligöngu kjörforeldra sinna að fá upplýsingar um ættleiðingu sína. Annars eru beiðnir um aðgang að slíkum upplýsingum tiltölulega sjaldgæfar.
128. Önnur undantekning frá þeirri meginreglu að barn njóti umönnunar foreldra sinna eru úrræði barnaverndaryfirvalda samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna. Ef barnaverndaryfirvöld telja að heilsu barns eða þroska sé stefnt í verulega hættu með því að dveljast hjá foreldrum sínum vegna vanrækslu þeirra, vanhæfni eða framferðis. Við slíkar aðstæður getur barnaverndarnefnd samkvæmt 24 gr. laga um vernd barna og ungmenna kveðið á um töku barns af heimili, kyrrsetningu þess á fóstur- eða vistheimili, læknisskoðun, innlögn á sjúkrahús eða aðra stofnun til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu. Slíkar ákvarðanir skulu þó alltaf vera tímabundnar og eigi standa lengur en þörf krefur. Þær skulu endurskoðaðar ekki sjaldnar en á sex mánaða fresti.
129. Í 25. gr. laga um vernd barna og ungmenna er barnaverndarnefnd veitt heimild til að svipta með úrskurði annað foreldra eða bæði forsjá ef:
- uppeldi, daglegri umönnun eða samskiptum foreldra við barnið er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska.
- barn er sjúkt eða fatlað og foreldrar tryggja því ekki viðeigandi meðferð, þjálfun eða kennslu.
- barninu er misþyrmt, misboðið kynferðislega ellegar það má þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu.
- telja má fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána svo sem vegna vímuefnaneyslu, alvarlegrar geðveilu, mikils greindarskorts eða hegðun foreldra er líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.
Litið er á forsjársviptingu sem algert þrautaúrræði og ef aðrar aðgerðir hafa verið reyndar til úrbóta en reynst árangurslausar.
130. Samkvæmt 68. gr. stjórnarskrárinnar getur enginn útlendingur fengið ríkisborgararétt nema með lögum. Um ríkisborgararétt gilda lög um íslenskan ríkisborgararétt nr. 100/1952. Samkvæmt 1. gr. laganna öðlast barn íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu ef það er skilgetið og faðir þess eða móðir er íslenskur ríkisborgari og ef það er óskilgetið og móðir þess er íslenskur ríkisborgari, sbr. 1. gr. laga. Þetta er eina undantekningin frá þeirri meginreglu í íslenskri löggjöf um að enginn greinarmunur sé á réttarstöðu skilgetinna og óskilgetinna barna en hana verður að skoða í ljósi stefnu sem ríkti við setningu laganna um að koma bæri í veg fyrir tvöfaldan ríkisborgararétt. Ef erlend móðir óskilgetins barns sem fæðist hér á landi fær ríkisborgararétt öðlast barnið það einnig ef það er undir 18 ára aldri og á lögheimili hér á landi, nema faðir þess sé útlendingur og fari með forsjá barnsins. Ef íslenskur karlmaður og erlend kona eignast saman barn áður en þau ganga í hjúskap öðlast barnið íslenskan ríkisborgararétt við giftingu foreldranna ef það hefur ekki gengið í hjónaband og er ekki fullra 18 ára.
131. Ef foreldrar barns sem fæðist hér á landi eru erlendir ríkisborgarar eða ef barnið er óskilgetið og móðir þess er erlendur ríkisborgari, þá fær barnið ekki ríkisborgararétt frá fæðingu og getur þannig orðið ríkisfangslaust, ef það fær ekki erlent ríkisfang foreldra sinna. Barn sem fundist hefur hér á landi telst vera íslenskur ríkisborgari þar til annað reynist sannara.
132. Útlendingar geta öðlast ríkisfang með svokallaðri þegnleiðingu en þá sækja þeir um ríkisborgararétt til dómsmálaráðuneytis. Ráðuneytið gerir frumvarp með lista yfir útlendinga sem sótt hafa um ríkisfang sem er síðan lagt fyrir Alþingi. Að jafnaði eru afgreidd ein lög árlega frá Alþingi um veitingu ríkisborgararéttar.
(b) Réttur til að varðveita auðkenni (8. grein)
133. Reglur um missi íslensks ríkisfangs eru settar fram í lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Samkvæmt 7. gr. laganna missir íslenskur ríkisborgari íslenskt ríkisfang sitt í eftirfarandi tilvikum.
1. hann hlýtur erlent ríkisfang samkvæmt umsókn sinni eða skýlausu samþykki
2. hann hlýtur erlent ríkisfang með því að ganga í opinbera þjónustu í öðru ríki
3. ef ógift barn undir 18 ára aldri verður erlendur ríkisborgari með þeim hætti, að foreldrar þess, sem hafa forráð þess, fá erlent ríkisfang af ástæðu 1. eða 2. að ofan, eða foreldri sem hefur eitt forráð barnsins eða ásamt hinu, sem er ekki íslenskur ríkisborgari fær erlent ríkisfang með fyrrnefndum hætti.
134. Samkvæmt 8. gr. laganna um ríkisborgararétt missir íslenskur ríkisborgari íslenskt ríkisfang sitt við 22 ára aldur ef hann er fæddur erlendis og hefur aldrei átt lögheimili hér á landi né hefur dvalist hér í einhverju skyni er af megi ráða að hann vilji vera íslenskur ríkisborgari. Þó getur forseti leyft að hann haldi ríkisfangi sínu ef um það er sótt innan þess tíma. Ef maður missir ríkisfang samkvæmt framangreindu þá missa einnig börn hans undir 18 ára aldri íslenskt ríkisfang sem þau hafa öðlast á grundvelli ríkisfangs hans nema þau verði ríkisfangslaus við það.
135. Sérregla gildir um missi íslensks ríkisfangs hjá manni sem nýtur tvöfalds ríkisborgararéttar. Í 9. gr. a. laganna um íslenskan ríkisborgararétt segir að ákveða megi með samningum við önnur ríki að íslenskur ríkisborgari sem varð við fæðingu einnig ríkisborgari í öðru tilteknu ríki, missi íslenskt ríkisfang er hann nær aldursmarki sem ákveðið er í samningnum og má ekki vera lægra en 19 ár og ekki hærra en 22 ár hafi hann síðustu 5 árin átt lögheimili í því samningsríki. Enginn slíkur samningur hefur enn verið gerður við annað ríki.
136. Samkvæmt lögum um mannanöfn gilda sérstakar reglur um nöfn útlendinga sem gerast íslenskir ríkisborgarar og aðlögun nafna þeirra að íslensku nafnakerfi. Sérstaða íslensks nafnakerfis felst í því að það er meginregla að fjölskyldu- eða ættarnöfn eru ekki notuð. Á eftir eiginnafni kenna Íslendingar sig því að meginstefnu við föður, þ.e. eftirnafn þeirra (kenninafn) er eiginnafn föður að viðskeyttu "son" eða "dóttir" eftir því hvort kyn á í hlut, en einnig er hægt að taka þann valkost að kenna sig við eiginnafn móður þótt sú tilhögun sé fágæt.
137. Sú regla kemur fram í 15. gr. mannanafnalaga að ef maður sem heitir erlendu nafni, fær íslenskt ríkisfang með lögum þá skulu börn hans 15 ára og yngri taka upp íslenskt eiginnafn og kenninafn sem er samþykkt af mannanafnanefnd. Börnum hans 16 ára og eldri er þetta einnig heimilt. Maðurinn skal sjálfur taka sér íslenskt eiginnafn, ásamt nafni sem hann ber fyrir. Börnum hans ber að kenna sig við það eiginnafn. Manni er heimilt ef hann kýs heldur að breyta eiginnafni sínu og/eða ættarnafni eftir ákvæðum laganna. Barni sem fæðist eftir að foreldri þess hefur fengið íslenskt ríkisfang með lögum, skal gefið íslenskt eiginnafn og það skal fá íslenskt kenninafn.
138. Ýmis ákvæði mannanafnalaga hafa sætt gagnrýni, þar á meðal sú regla að útlendingum sé skylt að taka upp íslenskt eiginnafn er þeir öðlast íslenskt ríkisfang og að börn þeirra undir ákveðnum aldri fái ekki að bera ættarnöfn heldur beri að kenna sig við íslenska eiginnafnið á meðan börn yfir þessum tiltekna aldri geta haldið erlenda ættarnafninu. Dómsmálaráðherra hefur skipað nefnd til þess endurskoða lögin um mannanöfn. Eru áðurgreind atriði einkum meðal þeirra sem sæta endurskoðun í lögunum.
(c) Tjáningarfrelsi (13. grein)
139. Í 72. gr. stjórnarskrárinnar er tryggður réttur manns til þess að láta í ljós hugsanir sínar á prenti, en þó verður hann að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei leiða í lög samkvæmt ákvæðinu.
140. Helstu takmarkanir á tjáningarfrelsi sem má finna í íslenskri löggjöf byggjast fyrst og fremst á sjónarmiðum um æruvernd en æra manna nýtur refsiverndar almennra hegningarlaga. Sá sem telur vegið að æru sinni með útgáfu prentaðs efnis eða með ummælum í útvarpi eða sjónvarpi, getur höfðað meiðyrðamál fyrir dómstólum og krafist refsingar svo og ómerkingar ummæla og miskabóta.
141. Litið er svo á að prentfrelsisákvæðið eigi jafnt við um alla og ekki er talin þörf á sérreglu hvað varðar börn. Hins vegar ber að gæta að því að takmarkanir eru á því að börn verði dregin til ábyrgðar fyrir dómi. Eins og áður var lýst er lágmarksaldur til þess að þola refsingu 15 ár. Samkvæmt íslenskum rétti er sakhæfi til greiðslu skaðabóta þó ekki bundið við ákveðinn aldur eins og sakhæfi til þess að verða refsað. Börn geta því fræðilega orðið skaðabótaskyld eftir sakarreglunni en slík tilvik eru þó nánast óþekkt.
142. Í lögum um prentrétt nr. 57/1956 eru sett ýmis skilyrði fyrir útgáfustarfsemi án þess að þau séu talin til tálmana í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í 10 gr. þeirra laga segir m.a. að útgefandi og ritstjóri blaðs eða tímarits skuli vera lögráða. Þetta þýðir því takmörkun á útgáfustarfsemi barna að því leyti að skilyrði um 18 ára lágmarksaldur verður að vera uppfyllt hvað varðar ritstjóra og útgefanda.
143. Hafa ber í huga að þeir sem hafa forsjá barns á hendi hafa bæði rétt og skyldu til að ráða persónulegum högum barnsins og gegna öðrum foreldraskyldum. Þessi regla kemur fram í 29. gr. barnalaga. Í foreldraskyldum hljóta að felast afskipti og ýmsar takmarkanir á athafnafrelsi barns, þar á meðal þyrfti barn frekar að þola takmarkanir á tjáningarfrelsi af hálfu foreldra sinna heldur en fullorðinn.
(d) Aðgangur að upplýsingum (17. grein)
144. Fram til ársins 1985 hafði íslenska ríkið einkarétt til sjónvarps- og útvarpsreksturs. Með útvarpslögum nr. 68/1985 var einkaréttur ríkisins á þessu sviði afnuminn og er nú ein sjónvarpsstöð auk ríkissjónvarpsins og um það bil tugur útvarpsstöðva starfræktur í landinu. Til þess að hægt sé að stofnsetja og reka útvarps- eða sjónvarpsstöð á Íslandi þarf að sækja um leyfi til Útvarpsréttarnefndar sem starfar samkvæmt útvarpslögunum. Útvarpsréttarnefnd skipar sjö menn sem eru kosnir hlutfallskosningu á Alþingi til fjögurra ára. Heimilt er að birta auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi eins og í prentuðu máli en áfengis- og tóbaksauglýsingar eru bannaðar.
145. Í lagaákvæðum útvarpslaga er bæði vikið að skyldum útvarpsstöðva almennt og skyldum Ríkisútvarpsins sérstaklega hvað varðar efni fyrir börn og unglinga. Í 5. tl. 2. mgr. 3. gr. útvarpslaga segir að útvarpsstöðvar beri ábyrgð á því efni sem þær senda út í samræmi við lög um vernd barna og ungmenna, hegningarlög eða önnur lög eftir því sem við á. Ekki eru þó dæmi um að reynt hafi á refsi- eða skaðabótaábyrgð útvarpsstöðva fyrir íslenskum dómstólum vegna slíkra brota.
146. Á vegum Ríkisútvarpsins er nú rekin ein sjónvarpsrás og tvær útvarpsrásir. Í 15 gr. útvarpslaga er vikið að því hvers konar þjónustu ríkisútvarpinu er skylt að veita. Þar segir m.a. að þess skuli sérstaklega gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi og sjónvarpi.
147. Sérstök barna- og unglingadeild er starfrækt á vegum hljóðvarps Ríkisútvarpsins. Að meðaltali er flutt barnaefni frá barna- og unglingadeild á annarri útvarpsrás Ríkisútvarpsins í um fjörutíu mínútur dag hvern. Reynt er að hafa þátttöku barna í dagskrárgerðinni sem mesta, og að efnið sé þroskandi og fræðandi fyrir börn og unglinga frekar en afþreyingarefni. Barnaefni er sent út daglega bæði á vegum sjónvarpsstöðvar Ríkisútvarpsins og einkarekinnar sjónvarpsstöðvar. Hvað varðar barnaefni á vegum Ríkissjónvarpsins þá er barnaefni sent út u.þ.b. klukkustund hvern virkan dag vikunnar en eina og hálfa til þrjár klukkustundir um helgar. Innlent barnaefni er hlufallslega lítið, en a.m.k. tvær klukkustundir í hverri viku er þáttur með innlendri dagskrárgerð, en að auki eru annað slagið sýndar íslenskar kvikmyndir eða fræðslumyndir. Erlent barnaefni sem er sýnt í sjónvarpinu er að stærstum hluta keypt af erlendum sjónvarpsstöðvum. Það er markviss stefna hjá Ríkisútvarpinu að talsetja allt sjónvarpsefni fyrir yngstu aldurshópana. Mikil samvinna hefur verið við sjónvarpsstöðvar á hinum Norðurlöndunum um innkaup á barnaefni og nýlega hófst þátttaka íslenska Ríkissjónvarpsins í samvinnuverkefnum á vegum Evrópusambands sjónvarpsstöðva (EBU). Reynt er að hafa a.m.k. lágmarkshluta af barnaefninu fræðsluefni og stilla afþreyingarefni í hóf.
148. Árið 1992 voru 1.672 íslenskar eða þýddar bækur gefnar út á Íslandi. Þar af voru barnabækur 247 eða um 15% útgefinna bóka, en kennslubækur voru 351 og flestar þeirra gefnar út fyrir grunnskóla.
149. Samkvæmt lögum um bann við ofbeldiskvikmyndum nr. 33/1983 er bannað að framleiða í landinu eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir, en með því er átt við kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir því að sýna hvers kyns misþyrmingar á mönnum og dýrum eða hrottalegar drápsaðferðir. Sérstök stofnun, Kvikmyndaeftirlit ríkisins, metur hvort kvikmyndir geti haft skaðleg áhrif á siðferði og sálarlíf barna og ákveður m.a. hvort og þá hvaða aldurstakmörk á kvikmynd skuli sett gagnvart 16 ára börnum og yngri. Ef um grófa ofbeldismynd er að ræða, leggur Kvikmyndaeftirlitið bann við því að henni verði dreift.
150. Í 210. gr. almennra hegningarlaga er lagt bann við útgáfu og dreifingu á klámi. Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ber ábyrgð á birtingu þess eftir prentlögum sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Sömu refsingu varðar að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni eða dreifa á annan hátt klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum eða hafa þá obinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar eða leiks sem er ósiðlegur á sama hátt. Ef Kvikmyndaeftirlit ríkisins telur að kvikmynd brjóti gegn þessu ákvæði hegningarlaganna um klám, tilkynnir það um það til ríkissaksóknara sem metur þá hvort tilefni er til að krefjast þess fyrir dómi að kvikmynd eða myndband verði gert upptækt.
151. Barnaverndarnefndir og löggæslumenn hafa eftirlit með því að aðeins séu til dreifingar, sýningar, sölu eða leigu kvikmyndir sem Kvikmyndaeftirlit ríkisins hefur skoðað og heimilað dreifingu á. Þeim sem selja sýna eða dreifa kvikmyndum með öðrum hætti er óheimilt að afhenda börnum og unglingum kvikmynd, ef þau eru yngri en mat Kvikmyndaeftirlitsins á sýningarhæfni kvikmyndarinnar segir til um.
152. Brot gegn ákvæðum laganna um bann við ofbeldskvikmyndum varða sektum eða varðhaldi allt að 12 mánuðum og gera skal ólöglegar kvikmyndir samkvæmt lögunum upptækar.
(e) Réttur til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar (14. grein)
153. Réttur manna til þess að ráða hugsunum sínum og sannfæringu takmarkalaust er ekki bundinn berum orðum í mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar enda er hann álitinn sjálfsagður og óskerðanlegur. Engin heimild er í íslenskri löggjöf til að takmarka þennan rétt og engar aðstæður yrðu taldar réttlæta slíka skerðingu enda er litið svo á að hún sé í raun óframkvæmanleg.
154. Samkvæmt 62. gr. stjórnarskrárinnar er þjóðkirkja Ísland hin evangelíska lúterska kirkju og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Trúfrelsi ríkir á Íslandi og er það verndað af 63. og 64 gr. stjórnarskrárinnar. 63. gr. stjórnarskrárinnar segir að landsmenn eigi rétt á að stofna félög til að þjóða guði með þeim hætti sem best á við sannfæringu hvers eins; þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu. Loks kveður 64. gr stjórnarskrárinnar á um að enginn megi neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum vegna trúarbragða sinna og að enginn verði skyldaður til þess að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annar guðsdýrkunar en þeirrar, sem hann sjálfur aðhyllist. Ef maður er utan þjóðkirkjunnar, þá geldur hann til Háskóla Íslands eða einhvers styrktarsjóðs við þann skóla eftir því sem við á, gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til þjóðkirkjunnar, enda heyri hann ekki til öðrum trúarbragðaflokki sem er viðurkenndur í landinu. Í lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987 eru settar nánari reglur um hlutdeild þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs í tekjuskatti.
155. Menn eiga rétt á því að stofna trúfélög, en reglur sem varða þetta svið er að finna í lögum um trúfélög nr. 18/1975. Samkvæmt þeim er hverjum manni frjálst að iðka trú sína og þjóða guði, einn eða í félagi með öðrum með þeim hætti sem best á við sannfæringu hvers og eins. Ekki má þó kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu.
156. Engum er skylt að tilheyra trúfélagi á Íslandi. Menn eru sjálfráðir um hvort þeir tilheyra trúfélagi og þá hverju eftir að þeir hafa náð 16 ára aldri. Barn sem er fætt í hjónabandi, er frá fæðingu talið tilheyra sama trúfélagi og foreldrar þess en ef foreldrarnir tilheyra ekki sama trúfélagi skal barnið frá fæðingu tilheyra sama trúfélagi og móðir þess. Það sama á við um barn sem er fætt utan hjónabands eða eftir að hjónabandi foreldra þess er slitið. Foreldrar geta saman tekið ákvörðun um inngöngu barns síns undir 16 ára aldri í trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi. Það foreldri sem fer eitt með forsjá getur einnig tekið slíka ákvörðun svo og lögráðamaður ef foreldrar fara ekki með forsjá barns. Skylt er að leita álits barns sem hefur náð 12 ára aldri um ákvörðun um skráningu í trúfélag.
157. Öllum er heimilt að stofna trúfélög utan þjóðkirkjunnar án þess að skylt sé að tilkynna stjórnvöldum um stofnun þess eða starfsemi. Hægt er að leita skráningar á trúfélögum utan þjóðkirkjunnar. Með skráningunni fá trúfélög réttindi og skyldur sem nánar er kveðið á um í lögunum um trúfélög.
158. Skráning í trúfélög og utan trúfélaga á Íslandi á tveimur síðustu árum var eftirfarandi:
1992 1993
Íbúar í landinu 262.202 264.922
Þjóðkirkjan 241.634 243.675
Fríkirkjur 8.252 8.374
Kaþólska kirkjan 2.419 2.484
Aðventistar 778 780
Hvítasunnusöfnuður 1.062 1.089
Sjónarhæðarsöfnuður 52 52
Vottar Jehóva 541 556
Baháísamfélag 379 384
Ásatrúarfélag 119 130
Krossinn 317 309
Kirkja Jesú Krists h.s.d.h. 163 157
Vegurinn 654 755
Orð lífsins 28 43
Önnur trúfélög og ótilgreint 2.218 2.458
Utan trúfélaga 3.586 3.676
159. Trúarbrögðum á Íslandi er veitt refsivernd án tillits til þess hvaða trúfélag á í hlut. Í 125. gr. almennra hegningarlaga segir að hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skuli sæta sektum eða varðhaldi.
160. Ákvæði um trúfræðslu barna í grunnskólum er í lögum um grunnskóla. Í 2. mgr. 42. gr. laganna kemur m.a. fram að menntamálaráðuneytið setji grunnskólum aðalnámskrá, þar sem kveðið er nánar á um uppeldishlutverk skólans og meginstefnu varðandi kennslufræði og kennsluskipan þar sem skuli m.a. vera ákvæði um kennslu um kristna trú og siði svo og kennslu um önnur helstu trúarbrögð. Í aðalnámskrá fyrir grunnskóla á Íslandi frá árinu 1989 segir m.a.: " Mikilvægt er að sýna nærgætni þegar fjallað er um málefni og viðhorf sem tengjast heimilum, t.d. neyslu og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir. Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum hvað varðar trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms grunnskóla". Í sérstökum kafla námskrárinnar um kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræðslu kemur fram sú stefna að kennslu í grunnskólum um þetta efni sé ætlað að veita þekkingu og skilning á ýmsum trúarbrögðum og lífsviðhorfum og hvernig þau birtast í helgihaldi og daglegu lífi. Fræðslan á að veita nemendum aðstoð til að umgangast og virða fólk sem er annarrar trúar eða lífsskoðunar. Megin viðfangsefnin eiga að vera helstu trúarbrögð heims og önnur lífsviðhorf í samtímanum. Leggja skal áherslu á mun á þeim og kristinni trú. Fræðslan á að vera málefnaleg og alhliða og þar sem tök eru á er æskilegt að fá einstaklinga með ólíka trú til að kynna lífsviðhorf sín.
(f) Félagafrelsi og frelsi til að koma saman með friðsömum hætti (15. grein)
161. Réttur allra til að stofna félög er verndaður með 73. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt ákvæðinu geta menn stofnað félög í sérhverjum löglegum tilgangi án þess að sækja þurfi um leyfi til þess. Þessi réttur er ekki bundinn neinum takmörkunum hvað varðar til dæmis kyn, aldur eða ríkisfang. Ekkert félag má leysa upp með stjórnarráðstöfun. Þó má banna félag um sinn, en þá verður þegar að höfða mál gegn því til þess að það verði leyst upp. Ekki er að finna nein lagaákvæði í íslenskri löggjöf sem varða sérstaklega félagafrelsi barna.
162. Misjafnar reglur gilda eftir íslenskum lögum um skrásetningu félaga og tilkynningar um félagsstofnun til stjórnvalda eftir því hvaða félög eiga í hlut, með hliðsjón af því hver starfsemi félagsins er. Í sumum tilvikum er skrásetning félags skilyrði fyrir því að það fái að stunda rekstur og geti orðið persóna að lögum. Í ljósi reglna um lögræðisaldur leiðir af sjálfu sér að 18 ára aldurslágmark er tilskilið til þess að heimilt sé að stofna félög sem hafa fjárumsvif með höndum og takast á hendur fjárskuldbindingar. Þetta á til dæmis við um stofnanda hlutafélags sbr. lög um hlutafélög nr. 32/1978 og samvinnufélags sbr. lög um samvinnufélög nr. 22/1991.
163. Um stofnun trúfélaga má vísa til umfjöllunar í lið (e) að framan um 14. grein samningsins. Enginn lágmarksaldur er tilskilinn til þess að stofna trúfélag, en ef trúfélag á að vera skráð er það skilyrði sett að prestur eða forstöðumaður félagsins sé ekki yngri en 25 ára.
164. Engin skilyrði eru sett um stofnun eða starfsemi stjórnmálafélaga á Íslandi og engar sérstakar reglur eru um skrásetningu eða tilkynningaskyldu um stofnun þeirra, eða starfsemi að öðru leyti. Hins vegar ber að hafa í huga að bæði kosningaréttur og kjörgengi til Alþingis- og sveitarstjórnarkosninga er bundið skilyrði um 18 ára lágmarksaldur.
165. Bann hefur aldrei verið lagt við starfsemi félags á Íslandi. Takmörkunum sem heimilaðar eru í 73. gr. stjórnarskrárinnar hefur því aldrei verið beitt.
166. Fundafrelsi er tryggt með 74. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að menn eigi rétt á að safnast saman vopnlausir. Lögreglu er heimilt að vera við almennar samkomur og banna má mannfundi undir berum himni þegar uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.
167. Réttinum til fundafrelsis er veitt refsivernd í 122. gr. almennra hegningarlaga, en þar eru lagðar sektir, varðhald eða fangelsi allt að 2 árum við því að hindra að löglegur mannfundur sé haldinn og ofríki og ógnun hefur verið viðhaft til þess. Það getur einnig varðað refsingu ef fundarfriði er raskað á lögboðnum samkomum um opinber málefni með háreysti eða uppivöðslu.
168. Fundafrelsi er tryggt öllum, án tillits til þess hvort börn eða fullorðnir eiga í hlut. Þó ber að hafa í huga að frelsi barna til að sækja fundi hlýtur að takmarkast af ýmsum ástæðum svo sem reglum um ákvörðunarvald þeirra sem hafa forsjá barns. Í 57. gr. laganna um vernd barna og ungmenna eru reglur sem takmarka útivistartíma barna. Þannig mega börn, 12 ára og yngri ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20 nema í fylgd með fullorðnum og börn á aldrinum 13-16 ára skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Yfir sumartímann lengist heimill útivistartími barna um tvær klukkustundir.
(g) Vernd einkalífs (16. grein)
169. Reglan um friðhelgi heimilisins er bundin í 66. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir jafnframt að ekki megi gera húsleit, né kyrrsetja bréf og önnur skjöl og rannsaka þau nema eftir dómsúrskurði eða eftir sérstakri lagaheimild.
170. Friðhelgi heimilis, einkalífs og æru manna er veitt sérstök refsivernd. XXV. kafli almennra hegningarlaga fjallar eingöngu um þess háttar brot og refsingu sem er lögð við þeim. Þar má m.a. nefna brot sem felast í því að hnýsast í bréf og önnur gögn sem varða einkamálefni manna, skýra opinberlega frá einkamálefnum annars manns, ryðjast heimildarlaust inn í hús, raska friði annars manns með því að ofsækja hann með bréfum, símhringingum eða á annan hátt og meiða æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum.
171. Það er óundanþægt skilyrði að dómsúrskurð eða beina lagaheimild þurfi til að víkja frá meginreglunni um friðhelgi heimilis og einkalífs. Engin heimild er á hinn bóginn til þess að víkja megi frá refsivernd yfir æru manna. Nokkur lagaákvæði er að finna í íslenskri löggjöf sem varða frávik frá reglunni um friðhelgi heimilis og einkalífs, einkum vegna rannsóknarþarfa í lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Í þeim tilvikum þarf hins vegar ávallt dómsúrskurð.
172. Ýmis ákvæði laganna um meðferð opinberra mála stefna að því að vernda börn sérstaklega. Dæmi um slíkt er í 8. gr. laganna þar sem segir að dómara sé rétt að loka þinghaldi í refsimáli ef sakborningur er undir 18 ára aldri, og er þetta einkum gert til hlífðar því ungmenni sem á í hlut.
173. Í lögum um vernd barna og ungmenna eru nokkrar sérheimildir sem varða afskipti barnaverndaryfirvalda af heimilislífi barna og ungmenna. Það er meginregla að barnaverndarnefnd eða starfsmönnum hennar sé því aðeins heimilt að fara á einkaheimili, barnaheimili eða annan þann stað þar sem börn dveljast til rannsóknar á högum barns eða ungmennis, að fyrir liggi samþykki foreldrs eða forráðamanns þess en á grundvelli dómsúrskurðar ef slíkt samþykki skortir.
174. Ef neyðarráðstöfunar er þörf sem ber undir barnaverndarnefnd getur formaður hennar eða starfmaður í umboði hans framkvæmt hana, en hann skal leggja málið fyrir barnaverndarnefnd til staðfestingar án tafar og ekki síðan en innan viku. Við þessar aðstæður er heimilt að fara inn á heimili, enda sé ástæða til að ætla að barn sé í bráðri hættu.
175. Fleiri heimildir finnast til aðgerða af hálfu barnaverndaryfirvalda sem má framkvæma án samþykkis foreldra en að þeim var áður vikið í umfjöllun í lið (a) að framan um 7. grein samningsins. Þeim verður aðeins beitt sem algeru þrautaúrræði ef sýnt er að heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra. Við slíkar kringumstæður veitir 24. gr. laganna barnaverndarnefnd heimild til að ákveða með úrskurði:
- Að eftirlit verði haft með heimili
- Fyrirmæli um aðbúnað og umönnun barnsins svo sem dagvistun þess, skólasókn, læknisþjónustu meðferð eða þjálfun
- Að barn verði tekið af heimili, kyrrsett á fóstur- eða vistheimili, það verði skoðað af lækni, lagt inn á sjúkrahús eða aðra stofnun til að tryggja öryggi þess eða til þess að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu.
Ákvarðanir þær sem er lýst að ofan skulu ávallt vera tímabundnar og ekki standa lengur en þörf krefur hverju sinni. Þær skulu endurskoðaðar ekki sjaldnar en á sex mánaða fresti. Ákvörðunum barnaverndarnefndar verður skotið til Barnaverndarráðs. Hægt er að bera ákvörðun ráðsins undir dómstóla.
(h) Réttur til að þurfa ekki að þola pyndingar eða aðra grimmilega,ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (37. grein a)
176. Líkamsárásir og þar með taldar pyndingar eru refsiverðar samkvæmt 27. gr. almennra hegningarlaga og á það að sjálfsögðu jafnt við um börn sem fullorðna. Refsivist og sektir eru einu refsitegundirnar á Íslandi en eldri ákvæði um líkamsrefsingar hafa löngu verið afnumin.
177. Líkamlegar refsingar eru bannaðar í leikskólum og grunnskólum sem og alls staðar annars staðar. Ýmis sérákvæði finnast í lögum sem veita börnum sérstaka vernd hvað varðar líkamsrefsingar og ómannúðlega meðferð. Í 53. gr. laga um vernd barna og ungmenna er sérstaklega tekið fram að líkamlegum eða andlegum refsingum megi ekki beita á heimilum eða stofnunum fyrir börn og ungmenni. Ef meðferð barns á barnaheimili eða uppeldisstofnun er óhæfileg er barnaverndarnefnd skylt að áminna viðkomandi stofnun. Komi það ekki að haldi skal málið lagt fyrir félagsmálaráðuneytið, sem getur svipt heimili eða stofnun rétti til áframhaldandi rekstrar.
178. Það varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum, samkvæmt 64. gr. laga um vernd barna og ungmenna að beita barn eða ungmenni refsingum, hótunum eða ógnunum sem ætla má að skaði barnið andlega eða líkamlega. Loks varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum, að sýna barni eða ungmenni ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, og að særa það eða móðga.
179. Þurfi lögregla eða dómari að yfirheyra barn yngra en 16 ára er fulltrúa barnaverndarnefndar og foreldrum leyfilegt að vera við þær.
180. Börnum yngri en 15 ára verður ekki refsað hér á landi og aldrei má dæma menn í þyngri hegningu fyrir brot sem þeir fremja á aldrinum 15-18 ára en 8 ára fangelsi.
VI. Fjölskyldumálefni
181.Eins og lýst var í umfjöllun um 3. og 12. gr. samningsins að framan eru hagur barns og þarfir og það sem er barninu sjálfu fyrir bestu undirstöðusjónarmið við framkvæmd barnalaga og laga um vernd barna og ungmenna. Við allar úrlausnir stjórnvalda og dómstóla á að hafa það sjónarmið að leiðarljósi hvað barni sé fyrir bestu. Lagatexti barnalaga og laga um vernd barna og ungmenna tekur ríkulega mið af þessu sjónarmiði en þótt það sé ekki sérstaklega orðað í hverju lagaákvæði, haggar það því ekki að það ber ávallt að leggja til grundvallar.
182. Í 29. gr. barnalaga er meginreglan um að foreldar fari með forsjá barns og að þeim beri að gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Ef foreldrar bregðast þessum skyldum sínum og aðstæður barns eða aðbúnaður er óviðunandi, er barnaverndaryfirvöldum skylt að grípa til viðeigandi úrræða samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna. Í þessu tilliti vegast hins vegar á sjónarmið um hvernig á að tryggja öryggi og velferð barna og ungmenna án þess að skerða um of friðhelgi einstaklinga og heimilis. Þar sem öll afskipti barnarverndaryfirvalda eru til þess fallin að trufla meira eða minna leyti einkalíf viðkomandi fjölskyldu þá var eitt helsta markmiðið við setningu nýja laganna um vernd barna og ungmenna að setja fram mjög skýrar reglur um hvenær slík afskipti teljast réttlætanleg. Var haft í huga að afskipti barnaverndaryfirvalda hafa þann eina tilgang að koma barni til hjálpar þegar foreldrar bregðast skyldum sínum gagnvart barninu og afskipti verði því aðeins réttlætanleg að með þeim verði hagur eða aðbúnaður barnsins bættur.
183. Lögin um vernd barna og ungmenna ganga því út því að það eru fyrst og fremst foreldrarnir sem bera ábyrgð á börnum sínum og uppeldi þeirra. Barnaverndaryfirvöld hafa að þessu leyti þær skyldur að þeim ber að aðstoða foreldra við að annast börn sín, ef leitt er í ljós að þeir eru ófærir um að gegna þessum skyldum án hjálpar.
(a) Leiðsögn og handleiðsla foreldra (5. grein)
184. Í VI. kafla barnalaga er fjallað um foreldraskyldur og forsjá barns. Barn á rétt á forsjá foreldra sinna uns það verður sjálfráða, þ.e. 16 ára gamalt og eru þeir forsjárskyldir við það fram til þess tíma. Einstakar forsjárskyldur geta þó haldist lengur ef þarfir barnsins krefjast þess.
185. Með forsjá barns er átt við rétt og skyldu forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins og gegna öðrum foreldraskyldum. Í því felst m.a. að foreldrar annast daglegar þarfir barnsins, ráða hverju það klæðist frá degi til dags, mataræði, útivistartíma o.s.frv. Þeir sem hafa forsjá barns á hendi hafa rétt og skyldu til að vera fjárráðamenn barnsins samkvæmt lögræðislögum og eru það í langflestum tilvikum. Foreldrum ber að stuðla að því eftir mætti að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál. Þeim ber þó að hafa samráð við barn sitt áður en persónulegum málum þess er ráðið til lykta, eftir því sem gerlegt er, þar á meðal með tilliti til þroska barnsins. Ýmis lagaákvæði sem varða börn ganga framar rétti foreldranna til þess að ráða persónulegum högum barns, þ.á m. ákvæði grunnskólalaga sem kveða á um 10 ára grunnskólaskyldu barna á aldrinum 6-16 ára.
186. Áður var vikið að rétti barna til að ganga úr og í trúfélög í umfjöllun um 14. grein samningsins. Barn sem er fætt í hjónabandi tilheyrir sjálfkrafa sama trúfélagi og foreldrar þess en ef foreldrarnir eru hvort í sínu trúfélaginu tilheyrir barnið trúfélagi móðurinnar. Foreldrar geta saman ákveðið inngöngu eða úrsögn barns síns undir 16 ára aldri úr trúfélagi. Skylt er að leita álits barns sem hefur náð 12 ára aldri um ákvörðun um skráningu í trúfélag.
(b) Foreldraábyrgð (18. grein 1. og 2. málsgrein)
1. málsgrein
187. Samkvæmt barnalögum er foreldrum, báðum saman og hvoru um sig, skylt að framfæra barn sitt. Framfærslu barns skal haga með hliðsjón af högum foreldra og þörfum barns. Framfærsluskyldu foreldra lýkur þegar barn verður 18 ára. Ósjálfráða barn á rétt á forsjá beggja foreldra sinna sem eru í hjúskap eða búa saman. Ef foreldrar barns eru hvorki í hjúskap né búa saman við fæðingu barnsins fer móðirin ein með forsjá þess.
188. Skylt er að ákveða hvort foreldra fer með forsjá barns við skilnað að borði og sæng og við lögskilnað, svo og við slit óvígðrar sambúðar foreldra. Ef foreldra greinir á um forsjána sker dómstóll úr ágreiningsmálinu. Dómsmálaráðuneytið getur skorið úr ágreiningi um forsjá ef aðilar eru sammála um að fela ráðuneytinu úrskurðarvald. Dómstóll eða dómsmálaráðuneytið kveða í úrlausnum sínum á um hjá hvoru foreldra forsjá verði eftir því sem barni er fyrir bestu og er skylt að hraða meðferð forsjármála. Við úrlausn forsjármáls leitar dómsmálaráðuneytið að jafnaði umsagnar barnaverndarnefndar og dómari skal leita umsagnar barnaverndarnefndar ef hann telur þörf á því.
189. Þegar barn er orðið 12 ára gamalt er skylt að gefa því kost á að tjá sig um forsjármálið, nema telja megi að slíkt geti haft skaðvænleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Einnig er rétt að ræða við yngra barn, eftir því sem á stendur miðað við aldur þess og þroska.
190. Það nýmæli var lögfest við gildistöku nýju barnalaganna 1. júlí 1992 að foreldar geta samið svo um að forsjá barns þeirra verði hjá þeim báðum, þ.e. sameiginleg, eftir skilnað eða sambúðarslit. Þessi heimild var lögfest með þá meginreglu í huga að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn sitt og koma því til þroska. Með þessum hætti verða foreldraskyldur beggja virkari en ella væri og reynsla nágrannaþjóða sem hafa lögfest slíkt úrræði sýnir að það foreldri sem barnið dvelst ekki aðallega hjá sættir sig betur við forsjárákvörðunina þegar tryggt er að það verður einnig eftirleiðis þátttakandi í lögráðum vegna barnsins og fær að hafa barn meira hjá sér en vera myndi samkvæmt almennum umgengnisreglum.
191. Skilyrði fyrir því að foreldrar fái sameiginlega forsjá barns er að þau séu sammála um þá tilhögun. Samningur um sameiginlega forsjá skal lagður fyrir sýslumann til staðfestingar og skal sýslumaður leiðbeina foreldrum um skilyrði þessarar tilhögunar og réttaráhrif hennar áður en þeir staðfesta samninginn.
192. Við gerð samnings um sameiginlega forsjá barns er foreldrum skylt að ákveða hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með hvar barnið hefur búsetu að jafnaði. Það foreldri sem barn á lögheimili hjá hefur réttarstöðu einstæðs foreldris til að taka við meðlagsgreiðslum með barni úr hendi hins foreldrisins eða Tryggingastofnunar ríkisins, mæðra- eða feðralaunum og barnabótum og öðrum greiðslum frá hinu opinbera ef því er að skipta. Foreldrar geta síðan samið sín á milli um skiptingu greiðslna þessara enda er samkomulag foreldra um öll atriði er varða forsjá forsenda sameiginlegrar forsjár. Það foreldri sem barn á lögheimili hjá hefur einnig réttarstöðu einstæðs foreldris samkvæmt skattalögum, Ennfremur nýtur það þeirra hlunninda sem ríki og sveitarfélag bjóða einstæðum foreldrum. Ef barn dvelur um tíma hjá því foreldri sem það á ekki lögheimili hjá getur það þó notið þessara hlunninda um stundarsakir, t.d. réttinda til dagvistar barns. Reynslan hér á landi frá gildistöku barnalaganna sýnir að margir foreldrar hafa nýtt sér heimildina til að semja um sameiginlega forsjá og hefur það jafnframt dregið úr fjölda ágreiningsmála um forsjá við skilnað.
193. Eftirfarandi tölur sýna hvernig ákvörðunum um forsjá þ.á m. fjöldi samninga um sameiginlega forsjá, hefur verið háttað frá gildistöku nýju barnalaganna 1. júlí 1992- 1. október 1993:
Samningar um sameiginlega forsjá beggja foreldra: 268
Forsjá móður:
samkvæmt samningi 1.087
samkvæmt úrskurði dómsmálaráðuneytis 6
samkvæmt dómi 2
Forsjá föður:
samkvæmt samningi 76
samkvæmt úrskurði dómsmálaráðuneytis 2
samkvæmt dómi 1
194. Ef forsjá er í höndum annars foreldris eingöngu, þá á barnið rétt til umgengni við hitt foreldra sinna og gagnkvæmt. Því foreldri sem hefur ekki forsjá barnsins er skylt að rækja umgengni og samneyti við barn. Ef foreldrar ná ekki samkomulagi um umgengnisrétt sker sýslumaður úr ágreiningnum og kveður á um inntak umgengnisréttarins. Það er nýmæli að sýslumaður úrskurði um umgengnisrétt og að fjallað sé um málið á tveimur stjórnsýslustigum því áður var sú ákvörðun eingöngu í höndum dómsmálaráðuneytisins. Ákvörðunum sýslumanns má skjóta til dómsmálaráðuneytisins.
195. Engar lögfestar reglur eru um hvert skuli vera inntak umgengisréttar barns og foreldris sem fer ekki með forsjá þess. Ákveðnar reglur hafa þó mótast í framkvæmd. Þannig er algengt ef fullt samkomulag er milli foreldra um umgengnisrétt á annað borð, að barnið dvelji hjá því foreldri sem ekki fer með forsjá aðra hvora helgi frá föstudegi til sunnudags, tvær til fjórar vikur í sumarfrí, einn eða tvo daga yfir jól, yfir önnur hver áramót og helming af páskafríi.
196. Líkt og þegar ágreiningur er um forsjá barns er barni eldra en 12 ára í deilu um umgengnisrétt gefinn kostur á því að tjá sig um sinn vilja í málinu og einnig verður leitað eftir áliti yngra barns eftir því sem á stendur miðað við aldur þess og þroska. Í algerum undantekningartilvikum getur sýslumaður úrskurðað að barn njóti ekki umgengnisréttar við foreldri sitt en það er ef sérstök atvik valda því að umgengni barns við foreldri er andstæð hag barns og þörfum. Sambærilegt ákvæði er í lögum um vernd barna og ungmenna hvað varðar umgengnisrétt barns í fóstri við kynforeldra. Ef sérstök atvik valda því að mati barnaverndarnefndar að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum getur nefndin úrskurðað að umgengnisréttar njóti ekki við eða breytt fyrri ákvörðun um umgengnisrétt með úrskurði. Jafnframt getur nefndin í þeim tilvikum lagt bann við hvers konar samskiptum foreldra og barns.
197. Ef samkomulag er milli foreldra við skilnað um framfærslueyri með börnum, staðfestir sýslumaður eða dómstóll sem hefur skilnaðarmál til meðferðar, samning þar að lútandi. Að öðrum kosti úrskurðar sýslumaður um framfærslueyri að kröfu annars hvors foreldris, en lögbundið lágmarksmeðlag á ári með barni er 123.600 ISK. Framfærslueyrir eða meðlag með barninu skal greitt mánaðarlega fyrirfram nema annað sé ákveðið. Heimilt er að úrskurða meðlagsskylt foreldri til að inna af hendi sérstök framlög vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru tilefni. Framfærslueyrir tilheyrir barninu en ekki því foreldra sem fer með forsjá þess.
2. málsgrein
198. Margs konar stuðningur er veittur foreldrum og barnafjölskyldum samkvæmt lögum um almannatryggingar nr. 117/1993, lögum um félagslega aðstoð nr. 118/1993 og lögum um fæðingarorlof nr. 57/1987 og skattalegt hagræði er veitt barnafjölskyldum samkvæmt lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.
199. Foreldrar sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi eiga rétt á sex mánaða fæðingarorlofi. Þeir geta skipt með sér fæðingarorlofinu, en konunni er heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Óheimilt er að segja barnshafandi konu upp eða foreldri í fæðingarorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Ef heilsu barnshafandi konu eða fósturs er hætta búin af eðli starfs, er vinnuveitanda skylt að færa hana til í starfi án þess að það hafi áhrif á launakjör hennar til lækkunar.
200. Reglur um fæðingarstyrk í lögum um almannatryggingar gilda um greiðslur til foreldra meðan á fæðingarorlofi stendur, en nokkrar sérreglur gilda um opinbera starfsmenn, bankamenn og aðra félagsmann í stéttarfélögum þar sem kjarasamningar veita rýmri rétt til greiðslu, þ.e. óskertra launa meðan á fæðingarorlofinu stendur. Þar sem lögin um almannatryggingar eiga við er greiddur fæðingarstyrkur til móður sem á lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hefur átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna. Fæðingarstyrkur er 25.090 ISK mánaðarlega. Foreldrar í fæðingarorlofi sem hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna eiga auk fæðingarstyrksins, rétt á fæðingardagpeningum enda leggi þeir niður launuð störf þann tíma. Það sama á við um námsmenn. Félagsmenn í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna og nokkurra annarra stéttarfélaga falla ekki undir þetta þar sem þeir njóta betri kjara samkvæmt kjarasamningum og eftir atvikum óskertra launa í fæðingarorlofinu.
201. Meðal bóta sem teljast til félagslegrar aðstoðar eru mæðra- og feðralaun, barnalífeyrir vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára og umönnunarstyrkur til framfærenda fatlaðra og sjúkra barna. Mæðra- eða feðralaun eru greidd til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eiga lögheimili hér á landi. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir eða ef foreldrar, annað eða báðir, eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar. Árleg mæðra- og feðralaun eru:
Með einu barni ISK 12..000
Með tveimur börnum ISK 60.000
Með þremur börnum ISK 129.600
202. Ríkissjóður greiðir barnabætur vegna hvers barns innan 16 ára aldurs sem er heimilisfast hér á landi og er á framfæri þeirra sem taldir eru skattskyldir samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Barnabætur eru hærri fyrir hvert barn undir 7 ára aldri og ávallt tvöfalt hærri með hverju barni til foreldra sem eru einstæðir.
203. Með lögum um leikskóla nr. 78/1994 og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 er sú lagaskylda lögð á sveitarfélög að annast byggingu og rekstur leikskóla og að hafa forystu um að tryggja börnum dvöl í góðum leikskóla. Öðrum aðilum er heimilt að reka leikskóla að fengnu samþykki viðkomandi sveitarstjórna. Leikskólar eru fyrsta stigið í skólakerfinu og eru reknir fyrir börn undir skólaskyldualdri. Þeir annast að ósk foreldra uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í leikskólauppeldi. Leikskólanefnd, sem er kjörin af sveitarstjórn fer með málefni leikskóla í umboði sveitarstjórnar. Fagleg yfirstjórn málaflokksins heyrir undir menntamálaráðuneytið og skal tilkynna ráðuneytinu um stofnun nýs leikskóla. Sveitarstjórnir skulu senda menntamálaráðuneytinu árlega ársskýrslu um starfsemi leikskóa. Um 220 leikskólar eru nú reknir á landinu, þar af um 70 í Reykjavík. Auk þess að reka og veita leyfi til reksturs leikskóla geta sveitarfélög veitt leyfi til daggæslu barna í heimahúsum og til reksturs gæsluvalla fyrir börn.. Árið 1993 voru 638 dagmæður í heimahúsum á landinu
(c) Aðskilnaður frá foreldrum (9. grein)
204. Eins og lýst var að framan í umfjöllun um 1. mgr. 18. greinar samningsins, er sú meginregla skýrlega orðuð í 37. gr. barnalaga að ef forsjá barns er í höndum annars foreldris, þá njóta barnið og það foreldri sem ekki fer með forsjá þess, gagnkvæms réttar til umgengni hvort við annað. Í 33. gr. laga um vernd barna og ungmenna er sambærileg regla um umgengnisrétt hvað varðar barn í fóstri, en fyrir gildistöku laganna var ekki lögfestur umgengnisréttur barns í fóstri við kynforeldra sína. Barn sem er í fóstri, með eða án samþykkis kynforeldra, á rétt á umgengni við þá og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrum er skylt að rækja umgengni og samneyti við barn og hlíta nánari skilmálum er að því lúta samkvæmt ákvörðun barnaverndarnefndar.
205. Undantekningar frá meginreglunni um umgengnisrétt foreldris og barns er að finna bæði í barnalögum og lögum um vernd barna og ungmenna. Annars vegar segir í barnalögum að ef sérstök atvik valda því að mati sýslumanns að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag barns og þörfum, getur hann kveðið svo á um að umgengnisréttar njóti ekki við. Þeirri ákvörðun má skjóta til dómsmálaráðuneytis eftir almennum reglum. Á árinu 1993 kvað dómsmálaráðuneyti upp tvo úrskurði þar sem úrskurðir sýslumanns um að umgengnisréttar nyti ekki við voru kærðir til ráðuneytisins. Í báðum tilvikum felldi ráðuneytið ákvarðanirnar úr gildi.
206. Í 33. gr. laganna um vernd barna og ungmenna segir að ef sérstök atvik valda því að mati barnaverndarnefndar að umgengni barns við foreldra sé andstæð hag þess og þörfum geti nefndin úrskurðað að umgengnisréttar njóti ekki við og lagt bann við hvers konar samskiptum foreldra og barns. Þeirri ákvörðun verður skotið til Barnaverndarráðs eins og öðrum ákvörðunum barnaverndarnefnda. Á árinu 1993 kvað var enginn slíkur úrskurður kveðinn upp af barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Enginn úrskurður um takmörkun umgengnisréttar var kveðinn upp af Barnaverndarráði á árinu 1993 en ráðið felldi úr gildi einn úrskurð barnaverndarnefdnar Reykjavíkur um takmörkun á umgengnisrétti..
207. Sömu rök um að hagsmunir barns séu í hætti liggja að baki heimildum sem er að finna í barnalögum um að barnaverndarnefndir geti ákveðið að barn skuli tekið af heimili án samþykkis foreldra. Að þeim var áður vikið í umfjöllun um 16. gr. samningsins. Þeim verður aðeins beitt sem algeru þrautaúrræði ef sýnt er að heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra. Við slíkar kringumstæður veitir 24. gr. laganna barnaverndarnefnd heimild til að ákveða með úrskurði: að barn verði tekið af heimili, kyrrsett á fóstur eða vistheimili, það verði skoðað af lækni, lagt inn á sjúkrahús eða aðra stofnun til að tryggja öryggi þess eða til þess að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu.
208. Ákvarðanir þær sem er lýst að ofan skulu ávallt vera tímabundnar og ekki standa lengur en þörf krefur hverju sinni. Þær skulu endurskoðaðar ekki sjaldnar en á sex mánaða fresti. Ákvörðunum barnaverndarnefndar verður skotið til Barnaverndarráðs sem skal kveða upp fullnaðarúrskurð innan sex mánaða frá því að málinu var skotið til ráðsins. Á árinu 1993 kvað barnaverndarnefnd Reykjavíkur upp 10 úrskurði á grundvelli þess ákvæðis. Aldrei kom til valdbeitingar til þess að framfylgja mætti úrskurðunum. Á árinu 1993 kvað Barnaverndarráð upp einn úrskurð á grundvelli 24. gr. laganna.
209. Samkvæmt 25. gr. laganna um vernd barna og ungmenna getur barnaverndarnefnd með úrskurði svipt foreldra, annað eða bæði, forsjá barns ef:
a. uppeldi, daglegri umönnun eða samskiptum foreldra við barnið er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska
b. barnið er sjúkt eða fatlað og og foreldrar tryggja því ekki viðeigandi meðferð, þjálfun eða kennslu
c. barni er misþyrmt, misboðið kynferðislega eða það má þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu
d. telja má fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætta búi sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjá sem sem vegna vímuefnaneyslu, alvarlegrar geðveilu, mikils greindarskorts, eða hegðun foreldra er líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.
210. Úrskurður um forsjársviptingu skal aðeins kveðinn upp ef ekki er unnt að beita öðrum úrræðum, svo sem stuðningsúrræðum eða tímabundnum aðgerðum sem taldar eru í 24. gr. laganna eða þær hafa þegar verið reyndar án árangurs. Úrskurð á grundvelli d-liðar að framan er heimilt að kveða upp þegar sérstaklega stendur á áður en nýfætt barn flyst í umsjá foreldra. Í þessum tilvikum eru strangar kröfur gerðar til rökstuðnings fyrir slíkri niðurstöðu. Því er gert ráð fyrir að barnaverndarnefnd sýni fram á að það sé fullvíst að barni verði hætta búin og að um augljósa vanhæfni foreldra sé að ræða og er sérstök sönnunarbyrði lögð á barnaverndarnefnd ef beita á þessu úrræði. Á árinu 1993 kvað barnaverndarnefnd Reykjavíkur upp 5 úrskurði um sviptingu forsjár. Á sama ári kvað Barnaverndarráð upp 9 úrskurði þess efnis en felldi úr gildi einn úrskurð barnaverndarnefndar Reykjavíkur um forsjársviptingu.
211. Fyrirvari Íslands við 1. mgr. 9. greinar samningsins stendur óbreyttur. Hvað varðar almenna umfjöllun um úrskurðarvald dómstóla á Íslandi má vísa til kafla I. (b) í skýrslunni að framan. Í tengslum við áðurgreindan fyrirvara Íslands í þessum efnum má benda á að í lögum um vernd barna og ungmenna segir að ákvarðanir Barnaverndarráðs séu fullnaðarúrskurðir. Þessar ákvarðanir eru þó háðar endurskoðun dómstóla að því leyti að það er meginregla að dómstólar geti ógilt ákvörðun stjórnvalds komist þeir að þeirri niðurstöðu að ólögmæt sjónarmið liggi henni til grundvallar eða ef ágallar eru á málsmeðferð. Þetta vald dómstóla styðst við 60. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Í framkvæmd hafa dómstólar á síðustu árum hins vegar teygt sig æ lengra í að meta efnislega ákvarðanir stjórnvalda t.d. hvort skilyrði til takmörkunar á umgengnisrétti eru uppfyllt og ekkert dæmi er um frá nýliðnum árum um að dómstólar hafi berum orðum tekið fram að þeir telji sér ekki fært að endurmeta efnislega ákvörðun stjórnvalds. Sú tilhneiging er ríkjandi í íslenskri löggjöf að fækka lagaákvæðum þar sem rætt er um fullnaðarúrskurðarvald stjórnvalds. Dæmi um slíkt er að finna í barnalögunum, en áður var foreldrum lokuð dómstólaleið til að fá breytt úrskurði um forsjá yfir barni, ef dómsmálaráðuneytið hefur áður úrskurðað um forsjána. Samkvæmt nýju barnalögunum stendur valkosturinn um dómstólaleið eða dómsmálaráðuneytið í ágreiningsmálum um forsjá, ávallt opinn og í reynd er það gert að meginreglu að ágreiningsmál um forsjá skuli leyst fyrir dómstólum.
212. Samkvæmt 13. gr. ættleiðingarlaga nr. 15/1978 er foreldrum heimilt að bera undir dómstóla ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um veitingu ættleiðingarleyfis sem hefur verið veitt án þess að samþykki þeirra hafi legið fyrir.
213. Í umfjöllun að framan um 12. grein samningsins um virðingu fyrir sjónarmiðum barnsins, var lýst helstu reglum um hvernig barni skal veittur kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og taka þátt í málsmeðferð í máli hjá stjórnvöldum sem varðar það sjálft og er það í samræmi við 2. mgr. 9. greinar samningsins. Við þetta má bæta að í 34. gr. laga um vernd barna og ungmenna segir að barnaverndarnefnd skuli eftir atvikum gera barni ljóst hvers vegna því var komið í fóstur að svo miklu leyti sem heppilegt er vegna aldurs þess og þroska. Með sama hætti skal gera barni grein fyrir þeim áformum sem barnaverndarnefnd hefur og varða barnið. Í 46. gr. sömu laga segir að áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í barnaverndarmáli, ber að leiðbeina foreldrum eða öðrum forráðamönnum barns eða ungmennis um réttarstöðu þeirra samkvæmt lögum þessum. Jafnframt skal veita þeim kost á að tjá sig um málið fyrir barnaverndarnefnd munnlega eða skriflega þar á meðal með liðsinni lögmanna. Eftir atvikum ber barnaverndarnefnd að veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð. Nefndin skal að auki, með nægilegum fyrirvara láta aðilum í té öll skrifleg gögn sem byggt er á við úrlausn málsins. Nefndin getur ákveðið með rökstuddum úrskurði að tiltekin gögn skuli þó ekki afhent ef það skaðar hagsmuni barnsins eða heitið hefur verið trúnaði. Á sama hátt getur nefndin ákveðið að aðilar geti kynnt sér gögn án þess að þau verði afhent.
214. Hvað varðar málsmeðferð í málaflokkum sem heyra undir barnalög þá hafa verið settar ítarlegar reglur um þátttöku aðila máls í málsmeðferð hjá sýslumanni og dómsmálaráðuneyti í reglugerð nr. 231/1992 um stjórnsýslumeðferð mála samkvæmt barnalögum.
215. Þess má loks geta að ef upp koma tilvik í stjórnsýslunni í málum sem varða börn þar sem ekki eru sérstök lagaákvæði um þennan rétt, þá gilda almenn stjórnsýslulög nr. 37/1993 um málsmeðferðina. Þar koma fram skýrar reglur um rétt aðila til að koma á framfæri andmælum sínu og um upplýsingarétt þeirra sem ber að fylgja við málsmeðferð í stjórnsýslunni.
216. Í íslenskri löggjöf er ekki að finna sambærilegt ákvæði við 4. mgr. 9. greinar samningsins, þ.e. um tilkynningarskyldu stjórnvalda um verustað eða afdrif foreldris eða barns ef um aðskilnað er að ræða. Þar af leiðandi er ekki heldur að finna neinar takmarkanir á rétti fólks til upplýsinga ef slík beiðni kemur fram. Er því engin ástæða til að ætla að stjórnvöld myndu neita fólki um upplýsingar af þessu tagi, að þeim fyrirvara þó gættum sem kemur fram í ákvæðinu, að það skaði ekki barnið sem á í hlut að láta vitneskjuna í té.
(d) Endurfundir fjölskyldunnar (10. grein)
217. Engin ákvæði eru í íslenski löggjöf sem beinlínis telja upp hvenær útlendingur geti átt rétt til þess að koma inn í landið, hvort sem er vegna endurfunda fjölskyldu eða annars.
218. Helsta löggjöf hvað varðar komu útlendinga inn í landið eru lög um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965 og eru þar m.a. tilgreindar ástæður fyrir því að meina beri útlendingi landgöngu og hvenær vísa má honum úr landi. Lögreglustjóri kveður upp úrskurð um synjun landgönguleyfis eins fljótt og unnt er eftir komu útlendings til landsins. Þetta á þó ekki við ef útlendingur ber að hann hafi orðið að leita sér hælis sem pólitískur flóttamaður enda teljist framburður hans sennilegur. Má lögreglan þá ekki meina honum landgöngu heldur ber að leggja málið fyrir sérstaka stofnun, Útlendingaeftirlitið, til úrskurðar. Það sama á við ef ætla má að útlendingur sé kominn til landsins til starfa eða athafna sem eru ólöglegar, ósæmilegar eða hættulegar hagsmunum ríkis eða almennings, eða högum útlendingsins er að öðru leyti svo háttað að vist hans hér að landi megi teljast hættuleg eða bagaleg hagsmunum ríkis eða almennings. Með lögum nr. 133/1993 sem breyttu lögunum um eftirlit með útlendingum var m.a. rýmkaður málskotsréttur útlendinga sem er vísað úr landi og pólitískra flóttamanna sem er meinuð landganga en áður var engin málskotsheimild fyrir hendi. Útlendingaeftirlitið tekur nú ákvörðun um brottvísun útlendings úr landi, en slíka ákvörðun má kæra til dómsmálaráðherra og skal útlendingi leiðbeint um þessa kæruheimild þegar honum er kynnt ákvörðun um brottvísun.
219. Allir menn hafa frelsi til þess að yfirgefa landið ef skilyrði sem sett eru í reglum um vegabréf eru uppfyllt. Reglur um útgáfu vegabréfa eru í lögum um íslensk vegabréf nr. 18/1953. Íslenskir ríkisborgarar skulu samkvæmt þeim hafa í höndum vegabréf þegar þeir fara úr landi og koma til landsins. Börn yngri en 15 ára mega þó fara úr landi og koma til landsins án þess að hafa eigið vegabréf ef þau eru í fylgd með foreldri, fósturforeldri eða öðrum nánum venslamanni og nöfn þeirra skráð í vegabréf hlutaðeigandi.
220. Í lögunum um íslensk vegabréf eru taldar ástæður þess að neita má um útgáfu vegabréfs. Þær eru allar tengdar því að viðkomandi tengist refsimáli eða að brottför hans myndi brjóta í bága við lagaákvæði sem eiga að tryggja nærveru hans þar til hann hefur fullnægt almennum skuldbindingum sem á honum hvíla gagnvart almannavaldinu eða einstaklingum. Þessar ástæður geta í ljósi aldursskilyrða ekki átt við um börn undir 15 ára aldri. Í framkvæmd er nánast óþekkt að manni sé neitað um útgáfu vegabréfs af þessum ástæðum, en í þeim fáum tilvikum sem komið hafa upp á undanförnum árum hefur ástæðan verið sú að maður sé í farbanni vegna rannsóknar á refsimáli.
(e) Innheimta framfærslueyris með barni (27. grein 4. málsgrein)
221. Í umfjöllun að framan um 1. málsgrein 18. greinar samningsins var lauslega vikið að reglum um framfærslueyri með börnum. Reglur um ákvörðun framfærslueyris með börnum eru í III. kafla barnalaga.
222. Framfærslueyrir með barni er nefndur meðlag, þegar framfærsla er fólgin í greiðslu tiltekinnar upphæðar sem annað hvort er samið um eða er ákveðin með meðlagsúrskurði. Orðið meðlag er einkum notað um framfærslufé sem foreldri (oftast föður) óskilgetins barns er gert að greiða með barninu, en er þó einnig notað um framfærslueyri með barni við hjónaskilnað. Ef ekki semst milli foreldra um greiðslu framfærslueyris kveður sýslumaður upp meðlagsúrskurð. Í meðlagsúrskurði má aldrei ákveða lægri meðlagsgreiðslu en sem nemur barnalífeyri, eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma í lögum um almannatryggingar, né heldur takmarka meðlagsskyldu meðlagsskylds foreldris við lægri lágmarksaldur en 18 ára. Skyldu til greiðslu meðlags lýkur almennt þegar barn er 18 ára en heimilt er þó að ákveða framlag til menntunar eða starfsþjálfunar barns allt til 20 ára aldurs. Loks má úrskurða meðlagsskyldan aðila til að inna af hendi sérstök framlög vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, vegna sjúkdóms, greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni. Meðlag tilheyrir barni og geta foreldrar því ekki afsalað þeim rétti fyrir hönd barnsins.
223. Í lögum um almannatryggingar nr. 117/1993 kemur fram að foreldri sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með börnum sínum og sérstakt framlag vegna menntunar eða starfsþjálfunar getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið greiðslurnar þaðan og þarf ekki að því ekki að krefja meðlagsskyldan aðila beint um þær eða að ganga á eftir innheimtu meðlaga ef dráttur verður á meðlagsgreiðslum eða greiðslufall. Þegar eftir að sýslumaður hefur veitt viðtöku ósk frá móður um að aflað verði faðernisviðurkenningar hjá lýstum barnsföður getur hún fengið meðlag greitt með barninu frá Tryggingastofnun. Foreldri getur einnig fengið greitt hjá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt stjórnvaldsúrskurði eða staðfestu samkomulagi sem kveðið er á um í 21. og 22. gr. barnalaga
- sérstakan framfærslueyri barnsföður vegna barnsfara konu
- hjúkrunar- og framfærslustyrk vegna veikinda í tengslum við barnsfarir
- kostnað vegna meðgöngu og fæðingar.
224. Sérstök stofnun, Innheimtustofnun sveitarfélaga, annast innheimtu á meðlögum. Stofnunin var sett á fót með lögum nr. 54/1971 og er sameign allra sveitarfélaga landsins en er með aðsetur í Reykjavík. Hlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga er að innheimta hjá meðlagsskyldum foreldrum meðlög sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra. Innheimtustofnunin skilar Tryggingastofnun ríkisins innheimtufé mánaðarlega eftir því sem það innheimtist og skal það ganga upp í meðlagsgreiðslur. Þótt meðlag innheimtist ekki að fullu bitnar það ekki á barni sem meðlag á að greiða með. Það sem á vantar að Tryggingastofnun hafi fengið meðlög að fullu endurgreidd með slíkum skilum, skal Innheimtustofnun sveitarfélaga greiða innan tveggja mánaða frá því að meðlag var greitt úr sérstökum sjóði, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
225. Ef krafa um meðlag með barni hefur verið sett fram en fyrirsjáanlegt er að mál muni dragast á langinn þar sem foreldri, sem krafa beinist gegn, er búsett erlendis eða sérstakir erfiðleikar bundnir við að ná í það, þá getur sýslumaður kveðið upp bráðabirgðaúrskurð um framfærslueyri með barninu á hendur Tryggingastofnun ríkisins. Ríkissjóður endurgreiðir þessar fjárhæðir, en Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir þær hjá hinu meðlagsskylda foreldri í samræmi við úrskurð sýslumanns á hendur því.
226. Einn milliríkjasamningur er í gildi á Íslandi um innheimtu meðlaga. Það er samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um innheimtu meðlaga. Með lögum nr. 93/1962 voru ákvæði samningsins gerð að lögum samkvæmt íslenskum rétti. Samkvæmt samningnum skal fullnægt aðfararhæfum dómi, úrskurði stjórnvalds eða skriflegri skuldbindingu sem hefur lagt einhverjum á herðar í einu samningsríkjanna að greiða meðlag með maka sínum, fyrrverandi maka, skilgetnu barni, stjúpbarni, kjörbarni, óskilgetnu barni eða móður óskilgetins barns, og skal fullnusta heimil í því ríki sé þess farið á leit. Fullnustan fer fram í hverju ríki samkvæmt gildandi lögum þar og án kostnaðar fyrir rétthafa.
(f) Börn sem njóta ekki fjölskyldu sinnar (20. grein)
227. Skilyrðum þess að barnaverndarnefnd geti með úrskurði svipt foreldra, annað eða bæði forsjá barns var lýst að framan í umfjöllun um 7. og 9. grein samningsins. Við þessar kringumstæður hverfur forsjá barns til barnaverndarnefndar að svo stöddu en henni ber að hlutast til um að yfirlögráðandi, þ.e. sýslumaður í viðkomandi umdæmi, skipi barninu lögráðamann samkvæmt reglum lögræðislaga.
228. Þegar barnaverndarnefnd ráðstafar barni með því að vista það um skamman tíma utan heimilis á vistheimili eða fósturheimili eða tekur við forsjá barns, er henni skylt að tryggja því tafarlaust góða umsjá. Í því markmiði skal hún gera skriflega áætlun svo um hvort og hvernig barnið fer að nýju til foreldra eða hvort því skuli komið í varanlegt fóstur. Sérstök áhersla er lögð á að finna systkinum sameiginlegar lausnir í samræmi við þarfir þeirra.
229. Í VI. kafla laganna um vernd barna og ungmenna er safnað saman ákvæðum um fóstur barna. Eru þessar reglur að mörgu leyti skýrari en reglur um fóstur samkvæmt eldri lögum. Með fóstri samkvæmt lögunum er átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum forsjá eða umsjá barns þegar
- kynforeldrar samþykkja það
- barn er forsjárlaust
- kynforeldrar hafa verið sviptir forsjá eða barn er í umsjá barnaverndarnefndar um tíma
230. Í nýju barnaverndarlögunum var í fyrsta skipti orðaður skýrlega greinarmunur á tímabundnu fóstri og varanlegu fóstri enda hafði í framkvæmd eldri laga mótast sterk hefð fyrir þessum tvenns konar fósturráðstöfunum á vegum barnaverndarnefnda.
231. Þegar barn fer í tímabundið fóstur er það oftast með samþykki foreldra. Fósturtíminn getur varað frá nokkrum vikum til nokkurra ára. Markmiðið er þó alltaf að barnið haldi töluverðum tengslum við upprunalega fjölskyldu sína.
232. Með varanlegu fóstri barns er átt við að það haldist þar til forsjárskyldur falla niður við 16 ára aldur en með því er stefnt að stöðugleika í lífi barna sem foreldrar geta ekki annast sjálfir. Að jafnaði verður ekki gerður samningur um varanlegt fóstur fyrr en að liðnum reyslutíma sem skal ekki vera lengri en eitt ár.
233. Barnaverndarnefnd ber að velja fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til aðstæðna þeirra, hæfni og reynslu sem heppilegra uppalenda. Ennfremur skal velja fósturforeldra sérstaklega út frá hagsmunum og þörfum viðkomandi barns. Barnaverndarnefnd veitir fósturforeldrum aðstoð og undirbýr þau áður en fóstur hefst og veitir þeim stuðning og leiðbeiningar á meðan fóstur varir eftir því sem nauðsyn ber til. Fulltrúi barnaverndarnefndar skal koma á fósturheimili, ekki sjaldnar en einu sinni á hverju ári.
234. Í stærri sveitarfélögum landsins þar sem sérstakar félagsmálastofnanir eru starfandi sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1981 eru ýmiss konar fósturráðstafanir fyrirferðarmiklar í starfi barnaverndarnefnda. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ráðstafaði 201 barni í langtímafóstur á árunum 1971 til 1987. 63 barnanna fóru í fóstur í kjölfar forsjársviptingar. Tæpur helmingur barnanna fór fyrir 3 ára aldur og tæplega 3/4 hluti barnanna fyrir 6 ára aldur.
235. Í ársbyrjun 1994 voru 130 börn undir 16 ára aldri í varanlegu fóstri fyrir tilstilli Reykjavíkurborgar hjá 106 fjölskyldum. Félagsmálaráðuneytið heldur skrá um börn í varanlegu fóstri.
236. Svokallaðar stuðningsfjölskyldur taka börn inn á heimili sín í stuttan tíma í senn, t.d. eina helgi í mánuði. Markmiðið er tvíþætt; annars vegar að hvíla foreldra, sem oftast eru einstæðir og njóta ekki stuðnings við uppeldið frá ættingjum eða öðrum, en hins vegar að veita börnunum tilbreytingu og auka þekkingu þeirra, m.a. með viðkynningu af fólki sem er tilbúið að sinna þörfum þeirra. Á árinu 1992 voru 24 börn á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkurborgar í tengslum við 18 stuðningsfjölskyldur.
237. Fyrir milligöngu félagsmálastofnana tekur svokallaður tilsjónarmaður að sér ákveðið stuðningshlutverk við barn, ungling eða foreldra undir stjórn og handleiðslu félagsráðgjafa. Oft velst til starfans fólk með sérþekkingu á málefnum barna og unglinga þótt slíkt sé ekki skilyrði. Hlutverk tilsjónarmanns felst fyrst og fremst í því að aðstoða foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldu sinni svo sem best hentar hag og þörfum barns eða ungmennis. Á árinu 1992 höfðu 86 börn og unglingar slíka tilsjón fyrir milligöngu Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Í reglugerð nr. 452/1993 sem sett hefur verið með stoð í barnaverndarlögum um tilsjónarmann, persónulega ráðgjafa og stuðningsfjölskyldu eru nánari reglur um þessi stuðningsúrræði sem barnaverndaryfirvöld veita.
238. IX. kafli laganna um vernd barna og ungmenna fjallar um heimili sem rekin eru fyrir börn og ungmenni, leyfi til að reka þau og eftirlit með þeim. Þar er safnað saman lagaákvæðum um hvers konar vistheimili eða meðferðarheimili fyrir börn og unglinga, hjálparstöðvar eða neyðarathvarf fyrir unglinga, sumardvalarheimili, sumarbúðir eða önnur heimili sem taka börn og ungmenni til uppeldis, umönnunar eða aðhlynningar, um langan tíma eða skamman. Félagsmálaráðuneytinu er skylt að hlutast til um að settar verði á fót stofnanir eða heimili sem eru nauðsynleg til þess að barnaverndarnefndum sé unnt að rækja störf sín.
239. Það er ríkjandi stefna samkvæmt barnaverndarlögum að þrátt fyrir að nauðsyn þess að hafa aðgang að stofnunum sem geta tekið við börnum sem vista þarf um lengri eða skemmri tíma verði reynt beita fjölþættum stuðningsúrræðum til að komast hjá því að vista barn á stofnun. Ef stofnanadvöl reynist nauðsynleg er reynt að hafa hana svo stutta sem kostur er og koma í veg fyrir endurteknar vistanir. Lögð er vaxandi áhersla á þátttöku foreldranna í umönnun barnsins meðan á dvölinni stendur. Þetta á sérstaklega við um ung börn. Síðustu tvo til þrjá áratugi hefur plássum fyrir börn á stofnunum á vegum barnaverndaryfirvalda fækkað verulega. Reykjavíkurborg hefur eitt sveitarfélaga rekið vistheimili fyrir börn yngri en 12 ára. Fyrir árið 1970 voru á vegum Reykjavíkurborgar á annað hundrað pláss á vistheimilum fyrir börn undir 12 ára aldri. Í upphafi þessa áratugar voru þau færri en tuttugu talsins. Þessi fækkun var möguleg vegna ýmissa annarra aðgerða, en þar má helst telja stórlega aukna notkun fósturheimila, eflingu stuðningsúrræða fyrir foreldra og börn, þ. á m. eflingu félagsmálastofnunar, sálfræðideildar skóla og sérkennsluúrræða, stofnun barnageðdeildar og meðferðarheimilis í tengslum við sálfræðideildir skólanna sem er nú rekið á vegum geðdeildar Borgarspítalans í Reykjavík.
240. Unglingaheimili ríkisins er ríkisrekin stofnun þar sem yfirvöldum ber að aðstoða unglinga á aldrinum 12-15 ára um lengri eða skemmri tíma, ef þess gerist þörf vegna hegðunarvandamála unglinganna, vegna alvarlegs skorts á eðlilegum aðbúnaði, umönnun og uppeldi unglinganna af hálfu forsjáraðila þeirra, eða vegna alvarlegrar röskunar á högum unglinganna. Reglur um starfsemi Unglingaheimilisins koma fram í Reglugerð nr. 15/1993 sem er sett með stoð í lögum um vernd barna og ungmenna.
Starfsemi Unglingaheimilisins hefur aukist nokkuð eftir að það var sett á stofn árið 1972. Þar eru nú starfræktar þrjár deildir, auk opinnar unglingaráðgjafar (göngudeildar). Í unglingaráðgjöfinni sinna sálfræðingar og félagsráðgjafar göngudeildarmeðferð og eru auk þess ráðgefandi í meðferðarstarfi fyrir hinar deildirnar.
241. Af deildum Unglingheimilis ríkisins má fyrst telja móttökudeild, þar sem er hægt að taka við unglingum í bráðavistun þar sem lögregla og barnaverndarnefndir geta fyrirvaralaust vistað ungling til skamms tíma. Deildin sinnir einnig rannsóknar- og meðferðarvistunum og dvelja unglingar þar að meðaltali í 4-6 vikur. Í rannsóknarvistun er rúm fyrir mest 4 unglinga í senn og 2 í bráðaþjónustu. Á árinu 1992 voru vistunardagar í deildinni 1267, þar af voru 1024 unglingar í rannsóknarvistun eða 81%. Að meðaltali voru 3.36 börn á hverjum degi á deildinni árið 1992. Meðalaldur við vistun var u.þ.b. 14.9 ár. Unglingaheimilið rekur tvær uppeldis- og meðferðardeildir til lengri dvalar. Þar vistast unglingar um lengri tíma, 6-12 mánuði eða jafnvel lengur ef nauðsyn ber til. Vandi þeirra unglinga sem þar vistast er jafnan fjölþættur, en gjarnan fara saman erfiðar fjölskylduaðstæður, tilfinningaleg vandkvæði, erfiðleikar í samskiptum og vandamál í skóla. Í mörgum tilvikum vistast þar unglingar með félagslegan vanda sem teljast geta sótt almennan skóla eða vinnu með þeim stuðningi sem þau fá á heimilinu. Vistunarpláss fyrir unglinga á þessum deildum eru 12.
242. Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar, haustið 1989 var stofnuð sérstök deild fyrir unga vímuefnaneytendur á vegum Unglingaheimilisins. Þar vistast unglingar í 2-3 mánuði vegna misnotkunar vímuefna. Meðferðin byggir á hugmyndafræði AA-samtakanna og er lögð áhersla á samvinnu við fjölskyldur. Að lokinni meðferð á deildinni þar sem 12 unglingar geta dvalið í senn, fara unglingarnir í eftirmeðferð sem er rekin í tengslum við Unglingaráðgjöfina. Árið 1992 voru innlagnir á deildina fyrir vímuefnaneytendur, 62 eða 42 drengir og 20 stúlkur. Í þessum hópi voru 51 einstaklingar; 35 drengir og 16 stúlkur. Meðalfjöldi vistmanna hvern dag var 6,25 og meðalvistunartími hvers unglings var 37 dagar. Meðalaldur var 15,5 ár.
243. Þegar skýrsla þessi er rituð eru fyrirhugaðar margvíslegar breytingar og nýskipan í meðferðarstarfi ríkisins fyrir börn og unglinga. Þessar breytingar felast meðal annars í því að Unglingaheimili ríkisins verður lagt niður í núverandi mynd. Í stað þess koma tvær stofnanir, Miðstöð í barna- og unglingamálum og Móttöku- og meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga. Hlutverk Miðstöðvar í barna- og unglinga verður að hafa umsjón með stjórnsýslu verkefna á sviði barna- og unglingamála sem heyra undir félagsmálaráðuneytið. Það felur í sér að Miðstöðin ber ábyrgð á samræmingu þessara verkefna, fer með fjármálastjórn í málaflokknum, sér um faglega ráðgjöf og aðstoð við meðferðarheimili og barnaverndarnefndir. Markmið Móttöku- og meðferðarstöðvar ríkisins fyrir unglinga á að felast í greiningu og meðferð unglinga sem eig við sálræna og félagslega erfiðleika að stríða í samræmi við 3. mgr. 51. gr. laganna um vernd barna og ungmenna. Ýmsar breytingar eru ráðgerðar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, til dæmis að ráðgjafarþjónusta fyrir almenning verði í höndum sveitarfélaga og að unglingaráðgjöfin í sinni núverandi mynd á vegum Unglingaheimilis ríkisins verði lögð niður. Einnig er ráðgert að að rekstur unglingasambýla verði í höndum sveitarfélaga. Starfsemi ríkisins verður ekki lengur bundin við aldurshópinn 13-15 ára heldur munu verkefni miðast við barnaverndaraldur.
244. Neyðarathvarf fyrir börn og unglinga er starfrækt á vegum Rauða Kross Íslands, sem hefur verið starfrækt í Reykjavík frá 1985. Megintilgangur þess er að koma til móts við þarfir barna og unglinga sem eiga við verulega erfiðleika að stríða. Með því að bjóða upp á athvarf sem er opið allan sólarhringinn, alla daga ársins, er börnum og unglingum auðveldað að leita sér aðstoðar, en athvarfið er ætlað þeim sem eru 18 ára og yngri. Þar er boðið upp á svefnaðstöðu, næringu, aðhlynningu, stuðning og ráðgjöf og er þessi þjónusta gestum að kostnaðarlausu. Á árinu 1992 voru 100 gestakomur í neyðarathvarfið og á bak við þær voru 67 unglingar. Meðaldvalartími unglings í athvarfinu var 8.2 nætur. Meðalaldur þeirra sem sóttu athvarfið var um 16 ár. Algengustu orsakir dvalar voru samskiptaörðugleikar við foreldra eða aðra forráðamenn, vímuefnaneysla og húsnæðisleysi.
(g) Ættleiðing (21. grein)
245. Ekki er tilefni til að ætla annað en að íslensk löggjöf sé í samræmi við þetta ákvæði samningsins. Ítarlegar reglur um ættleiðingu eru settar fram í ættleiðingarlögum nr. 15/1978.
246. Dómsmálaráðherra veitir leyfi til ættleiðingar og ekki má veita leyfi til ættleiðingar, nema sýnt þyki eftir könnun á málefnum væntanlegs kjörbarns og þeirra er óska ættleiðingar að ættleiðing sé barninu til gagns enda sé það ætlun ættleiðenda að ala upp barnið, barn hafi verið alið upp hjá þeim eða aðrar sérstakar ástæður liggi til ættleiðingar.
247. Leyfi til ættleiðingar verður veitt þeim einum sem náð hefur 25 ára aldri, en þó má, ef sérstaklega stendur á, veita manni sem er orðinn tvítugur leyfi til ættleiðingar. Aðeins hjónum er heimilt að ættleiða saman og það er meginregla að þau skuli bæði standa að ættleiðingu, nema ef um ræðir ættleiðingu annars hjóna á barni hins.
248. Skylt er að leita samþykkis barns um ættleiðingu ef það er orðið 12 ára gamalt. Slíkt samþykki verður að vera skriflegt og skal barnið njóta leiðsagnar um lagaáhrif ættleiðingarinnar. Ef barn er undir 18 ára aldri þurfa kynforeldrar þess að samþykkja ættleiðinguna. Gerð er undantekning frá því skilyrði, þegar annað foreldra hefur ekki forræði barns, eða er horfið, geðveikt eða fáviti eða geðrænum högum þess er að öðru leyti svo háttað að það má ekki láta uppi marktæka yfirlýsingu og nægir þá samþykki hins. Ef þannig er ástatt um bæði foreldri þarf samþykki lögráðamanns. Ítarlegar reglur eru í lögunum um hvernig þetta samþykki þetta skuli gefið og reglur um afturköllun þess. Áður en ættleiðingarleyfi er veitt skal leiða í ljós hvort innt hafi verið af hendi gjald eða ætlun sé að greiða slíkt gjald í sambandi við ættleiðingu af hálfu annars hvors aðilans og ef svo er hversu hátt gjaldið er. Má ganga eftir skriflegum yfirlýsingum aðila um þetta. Ef ættleiðendum er greitt slíkt gjald má binda ættleiðingu því skilyrði að tryggt sé að greiðsla renni til kjörbarns eða framfærslu þess.
249. Ef fyrir kemur að leyfi til ættleiðingar sé veitt án tilskilins samþykkis, má bera leyfisveitinguna undir dómstóla til ógildingar og nýtur stefnandi gjafsóknarkjara. Ekkert dæmi er um dómsmál af þessu tagi í gildistíð ættleiðingarlaganna.
250. Dómsmálaráðherra getur fellt niður ættleiðingu, ef kjörforeldri og kjörbarn eru sammála um að óska eftir því. Ef aðili er sviptur lögræði þarf einnig samþykki lögráðamanns. Ef kjörbarnið er ólögráða verða kjörforeldrar og kynforeldrar að vera sammála um það og niðurfelling ættleiðingar verði talin henta best þörfum barnsins. Ef kjörbarnið er 12 ára eða eldra þarf einnig skriflegt samþykki þess eftir að það hefur fengið leiðsögn um lagaáhrif ættleiðingarinnar. Ef kjörforeldrar eru látnir getur dómsmálaráðherra fellt niður ættleiðinguna að beiðni kynforeldra og með samþykki barns sem hefur náð 12 ára aldri. Beiðnir um niðurfellingu á ættleiðingu eru tiltölulega fátíðar.
251. Tölur um fjölda útgefinna ættleiðingarleyfa hjá dómsmálaráðuneytinu síðasta áratug eru eftirfarandi:
Fjöldi ættleiðinga á Íslandi 1983-1993
Fjöldi alls þar af erlend börn þar af ættleidd stjúpbörn
1983 89 30 43
1984 39 5 25
1985 90 44 33
1986 87 49 30
1987 37 10 14
1988 37 7 16
1989 53 22 26
1990 28 11 13
1991 26 7 16
1992 42 4 27
1993 35 10 21
252. Mikið fór að kveða að ættleiðingum barna á níunda áratugnum eins og sjá má af tölunum að ofan en nokkuð hefur dregið úr þeim á síðustu árum. Langstærsti hluti íslensku barnanna í þessum tölum var ættleiddur af stjúpforeldrum sínum. Á tímabilinu 1983-1986 var hlutfall erlendra barna mjög hátt, þar af komu flest frá Sri Lanka 1985 og 1986, en á síðustu árum hafa flest erlendu barnanna komið frá Indlandi, eða 5 árið 1991, 3 árið 1992 og 5 árið 1993. Samstarf hefur verið á milli dómsmálaráðuneytisins og sérstakrar nefndar um alþjóðlegar ættleiðingar á vegum sænska ríkisins (N.I.A) sem hefur m.a. eftirlit með löggiltum samstarfsaðilum erlendis í gegnum ræðismenn, starfsmenn sænskra sendiráða og hefur einnig samband við barnaheimili erlendis sem miðla börnum löglega til ættleiðinga. Dómsmálaráðuneytið hefur einnig haft samstarf um ættleiðingar á milli landa við ættleiðingarstofnun á vegum norska ríkisins. Ekkert íslenskt barn hefur verið ættleitt frá Íslandi til annarra landa á undanförnum árum svo vitað sé.
253. Ísland er aðili að samkomulagi, ásamt Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð frá 6. febrúar 1931 um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð og hefur samningurinn lagagildi hér á landi. Ísland hefur ekki fullgilt samning á vegum Evrópuráðsins frá 24. apríl 1967 um ættleiðingu. Í undirbúningi er fullgilding Íslands á samningi Haag ráðstefnunnar um verndun barna og samvinnu um ættleiðingar milli landa, frá maí 1993.
(h) Ólöglegur flutningur barna og hald erlendis (11. grein)
254. Engin almenn lagaákvæði eru í íslenskri löggjöf um ráðstafanir gegn því að börn séu ólöglega flutt úr landi og haldið erlendis. Að sjálfsögðu er þó reynt að sporna við slíkum útflutningi og algengustu tilvik sem helst koma upp í tengslum við þetta er þegar foreldri barns sem fer ekki með forsjá þess, reynir að komast úr landi, án samþykkis hins foreldris eða annars rétts forsjáraðila.
255. Í 39 gr. barnalaga segir að hafi forsjármáli hafi ekki verið ráðið til lykta þá geti dómstóll eða dómsmálaráðuneytið eftir því hvar málið er til úrlausnar, lagt svo fyrir að ósk annars foreldris að ekki megi að svo stöddu fara með barnið úr landi. Dómstóll eða dómsmálaráðuneytið leysa úr málinu með úrskurði. Ákvörðun dómstóls er kæranleg til Hæstaréttar, en kæra frestar ekki réttaráhrifum úrskurðarins. Í 40 gr. sömu laga segir að þegar annað foreldra á umgengnisrétt við barn þá megi hitt foreldra ekki flytjast með barnið úr landi nema því foreldri sem á umgengnisrétt, sé veitt færi á að tjá sig um málið og þar á meðal bera mál undir sýslumann.
256. Fremur fágætt er að á það reyni að yfirvöld þurfi að stöðva brottför barns úr landi. Nýlegt dæmi er að finna frá árinu 1993, þar sem yfirvöld stöðvuðu erlendan föður og aðstoðarmann hans sem ætluðu á brott með tvö börn íslenskrar móður, búsettri hérlendis. Mennirnir hlutu fangelsisdóm í kjölfarið sem þeir afplánuðu hér á landi.
257. Í lögum um vernd barna og ungmenna er ákvæði í 24. gr. þar sem segir að ef barnaverndarnefnd telur sýnt að heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra þá geti nefndin með úrskurði ákveðið að ekki megi fara með barnið úr landi. Sambærileg heimild var ekki lögfest í eldri barnaverndarlögum.
258. Ísland hefur ekki fullgilt Haag samninginn frá 25. október 1980 um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna milli landa og Evrópuráðssaminginn frá 20. maí 1989 um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna en unnið er að undirbúningi á fullgildingu þessara samninga.
(i) Misnotkun og vanræksla á börnum (19. grein)
Líkamlegur og sálrænn bati og félagsleg aðlögun (39. grein)
259. Það er undirstöðumarkmið laganna um vernd barna og ungmenna að vernda börn fyrir þeim atriðum sem talin eru upp í 1. mgr. 19. greinar samningsins. Sama markmið kemur einnig víða fram í barnalögum og ákvæðum almennra hegningarlaga sem veita börnum sérstaka vernd.
260. Áður hefur verið lýst í stórum dráttum heimildum barnaverndaryfirvalda til afskipta af heimilum án samþykkis foreldra eða forráðamanna þar sem ástæða er til að ætla að heilsu barns eða þroska sé hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra og á það að sjálfsögðu við ef barn þarf að þola líkamlegt eða andlegt ofbeldi, meiðingar, misnotkun, vanrækslu eða annað það sem er talið í þessu ákvæði samningsins.
261. Helstu heimildirnar í þessum efnum eru 24. gr. laganna um vernd barna og ungmenna þar sem meðal annars er heimiluð tímabundin taka barns af heimili án samþykkis foreldra og 25. gr. laganna þar sem ef veitt heimild til að svipta foreldra forsjá. Um bæði þessi ákvæði var nánar fjallað að framan í umfjöllun um 9. og 16. grein samningsins. Það er meginregla barnaverndarlaga að barnaverndarnefnd eða starfsmönnum hennar sé því aðeins heimilt að fara inn á einkaheimili, barnaheimili eða annan þann stað þar sem börn dveljast til rannsóknar á högum barns eða ungmennis að fyrir liggi samþykki foreldris eða forráðamanns þess eða á grundvelli dómsúrskurðar. Dómari metur hvenær þörf er á að fara inn á heimili. Í 47. gr. laganna er heimild til að grípa til neyðarráðstafana. Ef vinda þarf bráðan bug að ráðstöfun sem ber undir barnaverndarnefnd getur formaður hennar eða starfsmaður í umboði hans framkvæmt hana en leggja verður málið fyrir barnaverndarnefnd til staðfestingar án tafar og ekki síðar en innan viku.
262. Barnaverndarnefnd skal halda sérstaka skrá um þau börn og ungmenni í umdæmi sínu sem hún telur að sé hætta búin vegna þess að í ljós er leitt að aðbúnaði, umönnun, eða uppeldi barns er áfátt vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra eða barn stefnir eigin heilsu eða þroska í hættu með hegðun sinni, t.d. afbrotum eða neyslu vímuefna. Tilgangur með skránni er að tryggja yfirsýn og samfellda málsmeðferð í slíkum málum. Ef aðstæður breytast þannig að mati nefndar að barn telst ekki lengur í áhættuhópi skal nafn þess tekið af skránni.
263. Ef barn eða ungmenni stefnir eigin heilsu eða þroska í hættu með hegðun sinni, svo sem með neyslu áfengis eða annarra vímuefna, afbrotum eða annarri jafnskaðlegri hegðun skal barnaverndarnefnd þá veita sérstaka aðstoð með viðtölum, ráðgjöf, vistun á unglingaheimili eða öðrum tiltækum stuðningsaðgerðum. Undir þessum kringumstæðum er barnaverndarnefnd heimilt í samráði við foreldra að vista barn til skammtímameðferðar og rannsóknar í allt að fjórar vikur í senn á viðeigandi stofnun. Ef vistun er gegn vilja barns sem er orðið 12 ára skal það fá tækifæri til að tala máli sínu fyrir nefndinni með liðsinni sérstaks talsmans ef því er að skipta. Heimilt er að gefa barni undir 12 ára aldri kost á að tjá sig með sama hætti ef það óskar þess.
264. Hafi barn eða ungmenni orðið fyrir áreitni, ofbeldi eða öðrum afbrotum skal barnaverndarnefnd aðstoða það með ráðgjöf eða meðferð eftir því sem við á. Ef mál sem varðar barn er til meðferðar hjá lögreglu eða dómstólum vegna brota sem annaðhvort eru framin af barni eða ungmenni eða brota sem eru framin gegn þeim, skal barnaverndarnefnd tilkynnt um það, og er nefndinni heimilt að fylgjast með rannsókn málsins. Nefndin getur skipað barninu sérstakan talsmann.
265. Um ákvæði almennra hegningarlaga og sérreglur um kynferðisbrot gagnvart börnum má vísa til umfjöllunar í 77. málsgrein í kafla III að framan svo og um 34. gr. samningsins síðar. Á vegum fjölskyldudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar starfar sérstakur samstarfshópur vegna kynferðisbrota gegn börnum og unglingum. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og Rannsóknarlögregla ríkisins hafa frá árinu 1991 haft með sér náið samstarf um meðferð kynferðisafbrotamála þar sem börn eiga í hlut.
266. Sérstök sálfræðiþjónusta er rekin á vegum fræðsluskrifstofu fyrir alla grunnskóla í landinu, samkvæmt ákvæðum grunnskólalaga. Eftir ósk foreldra, kennara og heilsugæslu skóla, annast hún athuganir á nemendum sem eiga í sálrænum, tilfinningalegum, félagslegum eða öðrum skyldum erfiðleikum. Sálfræðiþjónustan leiðbeinir foreldrum og starfsmönnum skóla um uppeldi þessara nemenda og tekur þá sem með þurfa til greiningar eða vísar þeim í viðeigandi meðferð. Í reglugerð nr. 21/1980 um ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla eru settar nánari reglur um þessa þjónustu sem allir grunnskólanemendur eiga aðgang að.
267. Allir leikskólar eiga rétt á sérhæfðri ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu sem er skipulögð í tengslum við ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu sem kveðið er á um í grunnskólalögum.
(j) Regluleg endurskoðun á vistun (25. grein)
268.Í lögum um vernd barna og ungmenna eru ákvæði sem varða eftirlit með fóstri sem barni er komið í, hvort heldur með samþykki kynforeldra eða eftir að kynforeldar hafa verið sviptir forsjá. Samningur um varanlegt fóstur verður ekki gerður fyrr en að liðnum reynslutíma sem skal þó ekki vera lengri en eitt ár. Á meðan fóstur varir skal fulltrúi barnaverndarnefndar koma á fósturheimili til eftirlits ekki sjaldnar en einu sinni á ári. Að auki veitir barnaverndarnefnd fósturforeldrum stuðning og leiðbeiningar á meðan fóstur varir eftir því nauðsyn ber til.
269. Eins og áður var lýst um 22. gr. laga um vernd barna og ungmenna er barnaverndarnefnd heimilt í samráði við foreldra, ef önnur úrræði duga ekki, að vista barn eða ungmenni til skammtímameðferðar og rannsóknar í allt að fjórar vikur í senn á viðeigandi stofnun ef það stefnir eigin heilsu eða þroska í hættu með hegðun sinni, svo sem með neyslu áfengis eða annarra vímuefni, afbrotum eða annarri jafnskaðlegri hegðun. Verður barni því ekki haldið lengur en í fjórar vikur í vistun samkvæmt úrskurði barnaverndarefndar.
270. Þegar ungmenni hefur náð 16 ára aldri er það sjálfráða og ekki er gert ráð fyrir að barnaverndaryfirvöld geti beitt það þvingunaraðgerðum vegna eigin hegðunar. Þá taka við ákvæði lögræðislega um sjálfræðissviptingu um nauðungarvistun en ákvæðum þeirra hvað þetta varðar má í stórum dráttum lýsa sem eftirfarandi.
271. Í 13. gr. lögræðislaga nr. 68/1984 segir að sjálfráða maður verði ekki vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum. Sú undantekning kemur jafnframt fram þar að hefta megi frelsi manns ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða ofnautn áfengis eða ávana- og fíkniefna.
272. Hámarkstími sem slík frelsisskerðing má standa er tveir sólarhringar nema dómsmálaráðuneytið veiti samþykki sitt til þess að frelsisskerðingin standi lengur og að vistunin þyki óhjákvæmleg að mati læknis. Í lögræðislögunum er talið með tæmandi hætti hverjir geti lagt fram beiðni til dómsmálaráðuneytisins um sjúkrahúsvistun manns, en það eru aðeins nánustu vandamenn hans og lögráðamaður, svo og félagsmálastofnun eða samsvarandi fulltrúi sveitarstjórnar á dvalarstað mannsins.
273. Nánari reglur eru í lögræðislögunum um meðferð málsins hjá dómsmálaráðuneytinu. Ráðuneytið skal þegar í stað taka málið til afgreiðslu og án óþarfs dráttar ákveða hvort vistun skuli heimiluð eða ekki, eftir að hafa aflað gagna eftir þörfum. Meðal annars getur það leitað álits trúnaðarlæknis sem starfar á vegum ráðuneytisins.
274. Nauðungarvistun á sjúkrahúsi samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðuneytisins má ekki standa lengur en þörf krefur en hún getur aldrei staðið lengur en í fimmtán sólarhringa, nema áður hafi verið lögð fram krafa fyrir dómi um að viðkomandi maður verði sviptur sjálfræði, sbr. 19. gr. lögræðislaga. Hægt er að bera ákvörðun ráðuneytisins um nauðungarvistun undir dómstóla, en trúnaðarlækni ráðuneytisins ber að kynna þann rétt fyrir þeim sem er vistaður. Sérstakar reglur gilda um skjóta meðferð slíkra mála fyrir dómstólum.
275. Um afgreiðslu þessara mála má geta þess að nánast í öllum tilvikum tekur dómsmálaráðuneytið ákvörðun um nauðungarvistun samdægurs og beiðni um hana berst og í sérstökum vafatilvikum er álits trúnaðarlæknis ráðuneytisins leitað. Í sumum tilvikum er aðdragandi að beiðni til ráðuneytisins um nauðungarvistun sá að tveggja sólarhringa frestur til að halda manni gegn vilja sínum á sjúkrahúsi er að renna út, en það er þó ekki algilt. Fá dæmi eru frá síðustu árum um að ákvarðanir ráðuneytisins um nauðungarvistun hafi verið bornar undir dómstóla og ekkert dæmi um að slík ákvörðun hafi verið ógilt.
VII. Heilsugæsla
(a) Afkoma og þroski (6. grein, 2. málsgrein)
276. Í almennri umfjöllun að framan um 6. gr. var að því vikið hvernig reynt er að tryggja eftir fremsta megni að börn megi lifa og þroskast. Eftirlit með vexti og þroska hefst strax á meðgöngu. Fylgst er reglulega með heilsu verðandi mæðra og fer eftirlit fram að minnsta kosti mánaðarlega á meðgöngu á göngu- og mæðradeildum heilsugæslustöðva um allt land þar sem ljósmæður og fæðingarlæknar starfa. Reglulegt eftirlit er haft með heilsu og vexti ungbarna, sem gangast meðal annars reglulega undir ónæmisaðgerðir gegn helstu barnasjúkdómum, frá nokkurra vikna aldri.. Skólabörn í grunnskóla fara reglulega í læknisskoðun og gangast undir bólusetningar og ber skólastjóra að fylgjast með því að þau nýti sér þá læknisþjónustu sem er boðið upp á í skólanum.
277. Allar konur sem fæða eiga rétt á fæðingarorlofi sem venjulega er sex mánuðir frá fæðingu. Reglum um fæðingarorlof og um greiðslur í fæðingarorlofi var lýst í 199. og 200. mgr. að framan í umfjöllun um 2. mgr. 18. greinar samningsins og er hér vísað til þeirrar umfjöllunar.
278. Í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990 er byggt á þeim sjónarmiðum sem koma fram í 6. grein samningsins. Í lögunum kemur fram sú stefna að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Sjúklingar greiða aðeins að litlu leyti læknis- og lyfjakostnað og sjúkrahúsþjónusta er veitt án endurgjalds. Heilbrigðisþjónusta tekur til hvers kyns heilsugæslu, heilbrigðiseftirlits, lækningarannsókna, lækninga og hjúkrunar í sjúkrahúsum, læknisfræðilegs endurhæfingastarfs, tannlækninga og sjúkraflutninga. Nánari lýsingu á heilbrigðiskerfinu, þ.á m. eftirliti með heilsu barna verður að finna í almennri umfjöllun um heilsugæslu varðandi 24. grein samningsins hér á eftir.
(b) Fötluð börn (23. grein)
279. Síðastliðinn áratug hefur mikill vöxtur orðið í starfsemi ríkisins í þágu fatlaðra, eða sem nemur 181% raunhækkun útgjalda. Samfara þessum vexti hefur fjölbreytni í þjónustu aukist og búsetuformum fjölgað. Síðastliðin ár hefur áhersla verið lögð á að auka aðgang fatlaðra að almennri félagsþjónustu, sem m.a. kemur fram í fjölgun félagslegra íbúða í eigu fatlaðra eða hagsmunasamtaka þeirra, aukinni stoðþjónustu og átaki í aðgengi fatlaðra barna í leik- og grunnskóla, sérstaklega í þéttbýli.
280.Í íslenskri löggjöf er reynt að koma til móts við þarfir fatlaðra barna jafnt sem fullorðinna. Áhersla hefur verið lögð á að foreldrar geti alið upp fötluð börn sín heima og reynt hefur verið að draga úr stofnanavistunum fatlaðra barna. Fjölskyldum fatlaðra barna er veittur ýmis konar félagslegur stuðningur af hálfu ríkisins til að ná þeim markmiðum sem talin eru í 23. grein samningsins. Í lögum um málefni fatlaðra nr. 59/1992 er fjallað um leiðir til þess að ná fram því markmiði að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.
281. IX. kafli laganna fjallar sérstaklega um málefni barna og fjölskyldna fatlaðra. Þar er í upphafi vikið að því hvernig bregðast skuli við grun eftir fæðingu um að barn geti verið fatlað. Ef slík einkenni koma í ljós ber að hlutast til um að fram fari frumgreining. Ef hún leiðir í ljós að þörf sé á frekari greiningu eða meðferðarúrræðum skal tilkynna það til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins eða öðrum viðeigandi aðilum sem leita heppilegra úrræða í samráði við foreldra. Það sama á við ef starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, skólakerfi og félagsþjónstu verða þess áskynja að barn hafi einkenni um fötlun.
282. Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins starfar samkvæmt lögunum um málefni fatlaðra en helstu verkefni hennar eru eftirfarandi:
- Athugun, rannsókn og greining á fötluðum sem vísað er þangað eða leita þangað að eigin frumkvæði
- Gerð, prófun og mat viðeigandi meðferðar- og þjálfunaráætlana, svo og ráðgjöf og leiðbeiningar fyrir foreldra.
- Langtímameðferð fyrir þá einstaklinga sem þarfnast hennar,
- Starfræksla leikfangasafns og útlán leikfanga til foreldra og forráðamanna ásamt ráðgjöf og leiðbeiningum. Einnig fagleg aðstoð og ráðgjöf við uppbyggingu og starfsemi annarra leikfangasafna á landinu.
- Skráning og varðveisla upplýsinga um fötlun einstaklinga í samvinnu við félags-, fræðslu- og heilbrigðisyfirvöld.
283. Á árinu 1990 voru 2.779 fatlaðir einstaklingar á skrá hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og svæðisskrifstofum. Þeim var skipt í 11 flokka eftir fötlun. Þar af voru 554 einstaklingar taldir eiga við mjög alvarlega, alvarlega eða miðlungs þroskahömlun að stríða. Á síðustu árum hafa u.þ.b. 400 börn notið þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.
284. Fötluð börn eiga rétt á að dveljast á almennum leikskólum sem reknir eru á vegum sveitarfélaga, sbr. lög um leikskóla nr. 78/1994. Þar er þeim er veitt nauðsynleg stuðningsþjónusta eða þau dvelja á sérhæfðum deildum þar sem þau fá sérstaka aðstoð og þjálfun undir handleiðslu fóstra, þroskaþjálfa og annarra sérfræðinga. Markmið þjálfunarinnar er að auka færni barnsins miðað við þroskastig þess. Ákvörðun um þjálfun og tilhögun hennar skal tekin í samráði við foreldra barnsins og ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu leikskólans, að undangenginni greiningu og mati sálfræðiþjónustunnar eða annarra lögboðinna greiningaraðila.
285. Fötluð börn eiga kost á þjónustu leikfangasafna, en auk útlána úr leikfangasöfnum fer þar fram þroska- og leikþjálfun barns. Leikfangasöfnin eru 14 á landinu auk þess sem er rekið í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins í Reykjavík. Söfnin hafa þjónað mjög mikilvægu hlutverki fyrir fötluð börn en þjónusta þeirra er veitt endurgjaldslaust. Þegar þörf krefur skulu foreldrar eiga kost á skammtímavistun fyrir fötluð börn sín. Skammtímavistun er ætlað að veita fötluðum tímabundna dvöl til hvíldar eða vegna erfiðra heimilisaðstæðna svo sem vegna veikinda eða annars álags. Einnig er reynt að stuðla að því að fötluð börn eigi kost á sumardvöl þegar þörf er á, en markmið með henni er að gefa fötluðum kost á að skipta um umhverfi og dveljast utan heimilis sér til ánægju og tilbreytingar. Er þessi þjónusta einnig veitt foreldrum að kostnaðarlausu.
286.Samkvæmt grunnskólalögum skulu börn og unglingar sem þurfa sérkennslu vegna fötlunar, eiga rétt á kennslu við sitt hæfi og getur hún verið einstaklingsbundin eða farið fram í hópi innan eða utan almennra bekkjardeilda, í sérstökum deildum eða í sérskóla.
287.Foreldrum fatlaðra barna er veittur fjárhagslegur stuðningur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð en þar segir að heimilt sé að greiða framfærendum fatlaðra og sjúkra barna, sem dveljast í heimahúsi eða á sjúkrahúsi um stundarsakir, styrk eða umönnunarbætur ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld eða sérstaka umönnun eða gæslu. Árið 1992 nutu fjölskyldur 813 barna fjárhagslegs stuðnings samkvæmt þessum reglum.
(c) Heilsa og heilsugæsla (24. grein)
288.Íslenskt heilbrigðiskerfi og löggjöf um heilbrigðisþjónustu er í samræmi við þau markmið sem eru sett fram í 24. grein samningsins. Helstu lög á þessu sviði eru lög um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990. Þar kemur fram að allir landsmenn skuli eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu, sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði. Heilbrigðisþjónusta tekur til hvers kyns heilsugæslu, heilbrigðiseftirlits, lækningarannsókna, lækninga og hjúkrunar í sjúkrahúsum, læknisfræðislegs endurhæfingarstarfs, tannlækninga og sjúkraflutninga.
289. Allir sem hafa átt lögheimili í landinu í sex mánuði eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar. Börn og unglingar, 16 ára og yngri eru sjúkratryggð með foreldrum sínu og það sama gildir um stjúpbörn og fósturbörn. Árið 1991 námu útgjöld vegna heilbrigðiskerfisins u.þ.b. 8.4% af vergri þjóðarframleiðslu. Heildarhlutfall þeirra sem starfa innan heilbrigðiskerfisins er um 6.5% af vinnumarkaði.
290. Landinu er skipt niður í 8 læknishéruð og hvert um sig skiptist niður í smærri umdæmi. Í hverju umdæmi starfar ein eða fleiri heilsugæslustöð og þar sem aðstæður leyfa er heilsugæslustöð í starfstengslum við sjúkrahús og þá rekin sem hluti af því. Á heilsugæslustöð eða í tengslum við hana er veitt eftirfarandi þjónusta:
Almenn læknisþjónusta, hjúkrunarþjónusta, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, vaktþjónusta vitjanir og sjúkraflutningar.
Lækningarannsóknir
Sérfræðileg læknisþjónusta, tannlækningar og læknisfræðileg endurhæfing
Heimahjúkrun
Heilsuvernd, en aðalgreinar hennar eru:
- Heilbrigðisfræðsla í fyrirbyggjandi tilgangi
- Mæðravernd
- Ungbarna- og smábarnavernd
- Heilsugæsla í skólum
- Ónæmisvarnir
- Berklavarnir
- Kynsjúkdómavarnir
- Geðvernd, áfengis-, tóbaks og fíkniefnavarnir
- Sjónvernd
- Heyrnarvernd
- Heilsuvernd aldraðra
- Hópskoðanir og skipulögð sjúkdómsleit
- Félagsráðgjöf, þ.m.t. fjölskyldu og foreldraráðgjöf
- Umhverfisheilsuvernd
- Atvinnusjúkdómar
- Slysavarnir
291. Ungbarnadauði og barnadauði er mjög lágur á Íslandi. Árið 1992 var barnadauði 4,7 af hverjum 1000 fæddum börnum. Mikið eftirlit er haft með nýfæddum börnum og um mæðraeftirlit og stuðning við mæður í kringum barnsburð má vísa til umfjöllunar að framan um 6. grein samningsins.
292.Í lögum um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um heilsugæslu í grunnskólum en einnig er kveðið á um slíka heilsugæslu grunnskólanemenda í grunnskólalögum. Skipulegt eftirlit fer fram með heilsu grunnskólanemenda. Yfirlæknir heilsugæslustöðvar skólahverfis skal hafa samráð við skólanefnd og skólastjóra um skipulagningu og fyrirkomulag heilsugæslu. Skólastjóra hvers grunnskóla er skylt að fylgjast með því að nemendur njóti heilsugæslu í skólanum í samræmi við þá tilhögun sem hefur verið ákveðin.
293. Engar hefðir eru við lýði hér á landi sem ástæða er til að sporna gegn vegna þess að þær eru skaðlegar heilbrigði barna eða andstæðar hagsmunum þeirra að öðru leyti.
(d) Félagsleg aðstoð og aðstaða til umönnunar barna (26. grein og 18. grein, 3. málsgrein)
294.Í 70. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram sú regla að sá skal eiga rétt á styrk úr almennum sjóði sem eigi fær séð fyrir sér og sínum, og sé eigi öðrum skylt að framfæra hann, en þá skal hann vera skyldum þeim háður sem lög áskilja.
295. Víða í löggjöf endurspeglast sú meginregla að aðstoð skuli veita þeim sem ekki geta framfært sig sjálfir og fjárhagslegur stuðningur er veittur barnafjölskyldum. Þar ber fyrst að nefna lög um almannatryggingar nr. 117/1993. Bætur samkvæmt lögunum eru hins vegar almennt ekki tekjutengdar
296. Börn og unglingar undir 16 ára aldri eru sjúkratryggð með foreldrum sínum og á það sama við um stjúpbörn og fósturbörn. Börn og unglingar undir 16 ára aldri njóta einnig sérstakrar sjúkratryggingar vegna tannlækninga, sem fullorðnir njóta ekki, að frátöldum elli- og örorkulífeyrisþegum.
297. Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra er látið eða örorkulífeyrisþegi, ef annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft hefur átt hér lögheimili a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Ef báðir foreldrar eru látnir eða örorkulífeyrisþegar er greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum sem annast framfærslu þeirra að fullu. Árlegur barnalífeyrir með hverju barni er 123.600 ISK, en ekki er greiddur barnlífeyrir vegna þeirra barna sem þegar njóta örorkulífeyris.
298. Eins og lýst var í 199. og 200. mgr. skýrslunnar að framan nýtur móðir að lágmarki 6 mánaða fæðingarorlofs vegna fæðingar barns. Meðan á orlofi stendur er greiddur fæðingarstyrkur til móður sem á lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hefur átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna. Fæðingarstyrkur er 25.090 ISK á mánuði og má hefja greiðslu hans allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Reglur um fæðingarstyrk eiga ekki við um félagsmenn í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga sem þar sem konur í þessum hópi njóta óskertra launa meðan á fæðingarorlofi stendur. Auk fæðingarstyrks njóta foreldrar í fæðingarorlofi sem hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðinguna, réttar til fæðingardagpeninga í sex mánuði ef þeir hafa unnið fullt starf í tiltekinn tíma fyrir fæðingu enda leggi þeir niður launuð störf meðan á fæðingarorlofi stendur.
299. Ýmiskonar félagsleg aðstoð er veitt vegna framfærslu barna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Meðal bóta sem teljast til félagslegrar aðstoðar eru mæðra- og feðralaun, barnalífeyrir vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára og umönnunarstyrkur til framfærenda fatlaðra og sjúkra barna. Mæðra- eða feðralaun eru greidd til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eiga lögheimili hér á landi. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir eða ef foreldrar, annað eða báðir, eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar. Árleg mæðalaun- og feðralaun nema: Með einu barni 12.000 ISK, með tveimur börnum 60.000 ISK og með þremur börnum eða fleiri kr. 129.600 ISK.
300. Ríkissjóður greiðir barnabætur vegna hvers barns innan 16 ára aldurs sem er heimilisfast hér á landi og er á framfæri þeirra sem taldir eru skattskyldir samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Barnabætur eru hærri fyrir hvert barn undir 7 ára aldri og ávallt tvöfalt hærri með hverju barni til foreldra sem eru einstæðir.
301. Með lögum um leikskóla nr. 78/1994 og lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 er sú lagaskylda lögð á sveitarfélög að stofna og reka leikskóla og eftir föngum tryggja framboð á leikskólarými. Leikskólar eru reknir fyrir börn frá þeim tíma sem fæðingarorlofi lýkur fram til 6 ára aldurs. Fagleg yfirstjórn málaflokksins heyrir undir menntamálaráðuneytið sem veitir starfsleyfi til reksturs leikskóla, en litið er á leikskóla sem fyrsta skólastigið innan íslenska menntakerfisins.
302. Foreldar greiða ákveðið leikskólagjald en einstæðir foreldrar greiða 30-50% lægra gjald en giftir foreldrar, auk þess sem börn einstæðra foreldra njóta forgangs til leikskólaplássa. Börn dvelja á leikskólum frá fjórum til níu klukkustunda daglega. Í kringum 75% barna á aldrinum 3-6 ára sækja leikskóla daglega og um það bil 15% barna á aldrinum 0-2 ára. Um 220 leikskólar eru nú reknir á landinu, þar af um 70 í Reykjavík. Þeir eru misjafnir að stærð en í flestum eru á bilinu 40-80 börn og eru venjulega deildaskiptir eftir aldursflokkum. Flestir starfa 11 mánuði á ári hverju. Auk leikskóla, eru veitt leyfi til daggæslu barna í heimahúsum og til reksturs gæsluvalla fyrir börn.
303. Skóladagheimili eru starfrækt fyrir börn á skólaskyldualdri, þ.e. frá 6-10 ára aldurs. Samanlagður fjöldi barna sem dvaldist daglega á dagvistarstofnunum árið 1992, þ.e. bæði leikskólum og skóladagheimilum var 12.419.
304. Í nýju grunnskólalögunum frá 1991 er sérstaklega að því stefnt að komið verði á einsetnum grunnskóla í landinu með samfelldum sjö stunda skóladegi og nemendum gefist kostur á málsverði í skólanum. Þetta er álitin undirstaða þess að unnt sé að lengja viðverutíma barna í skólum á sama tíma og þjóðfélagið byggir á þeirri forsendu að báðir foreldrar vinni utan heimilis. Miðað er við að þessu markmiði verði náð á tíu ára tímabili, þ.e. árið 2001.
(e) Lífsafkoma ( 27. grein 1.-3 málsgrein)
305. Þau almennu markmið sem koma fram í þessu ákvæði samningsins eru ekki tekin fram berum orðum í íslenskri löggjöf. Engu að síður eru þetta undirstöðumarkmið sem stefnt er að í íslensku velferðarkerfi og endurspeglast víða í löggjöfinni.
306. Nefna má tvö almennt orðuð ákvæði stjórnarskrárinnar sem eru af þessum toga. Annars vegar 70 gr. stjórnarskrárinnar sem nefnd var í 294. málsgrein. að framan að sá skuli eiga styrk úr opinberum sjóði sem fær ekki séð fyrir sér og sínum og hins vegar 71. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að ef foreldrar hafa ekki efni á að fræða sjálf börn sín eða ef börn eru munaðarlaus, þá er skylt að sjá þeim fyrir uppfræðingu og framfæri af almannafé.
307. Leiðir að því markmiði að börn og aðrir þegnar í þjóðfélaginu njóti sem bestrar lífsafkomu koma einkum fram í löggjöf sem varðar almannatryggingar, félagsleg málefni að öðru leyti, menntamál og heilbrigðismál. Hér verður því vísað til umfjöllunar um einstaka ákvæði samningsins sem varða þessa málaflokka, og þar sem lagaákvæði þar sem reynt er að ná þessum markmiðum eru reifuð sérstaklega.
VIII. Menntun, tómstundir og menningarmál
(a) Menntun, þar með talin starfsmenntun og ráðgjöf (28. grein)
308.Í 306. málsgrein að framan var nefnd 71 gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að hafi foreldrar ekki efni á að fræða sjálf börn sín eða séu börnin munaðarlaus og öreigar, er skylt að sjá þeim fyrir uppfræðingu og framfæri af almannafé. Þótt ákvæði þetta sé gamalt og orðalagið eigi hugsanlega ekki alls kostar við nútíma aðstæður þá lýsir þetta þeirri meginstefnu sem enn er við lýði á Íslandi, að öll börn skuli eiga kost á menntun án tillits til efnahags og fjölskylduaðstæðna.
309.Eins og nefnt var að framan í umfjöllun um 3. mgr. 18. greinar samningsins eru leikskólar reknir fyrir börn undir skólaskyldualdri. Fagleg yfirstjórn málaflokksins heyrir undir menntamálaráðuneytið sem veitir starfsleyfi til reksturs leikskóla, en litið er á leikskóla sem fyrsta skólastigið innan íslenska menntakerfisins. Engin skylda er lögð á börn að sækja leikskóla, en um 2/3 barna á aldrinum 3-6 ára sækja þó leikskóla daglega enda er mjög algengt að báðir foreldrar stundi atvinnu. Eftirfarandi eru nokkrar tölfræðilegar upplýsingar um leikskóla á Íslandi frá árinu 1992:
Fjöldi barna á aldrinum 6 mánaða til 5 ára í landinu: 22.500
Fjöldi barna á aldrinum 0-5 ára á leikskólum: 11.500
Fjöldi leikskóla á landinu: 220
Fjöldi faglærðra starfsmanna á leikskólum: 620
Fjöldi ófaglærðra starfsmanna 970
Fjöldi barna 0-2 ára á hvern starfsmann 3-4
Fjöldi barna 3-6 ára á hvern starfsmann 6-8
310.Öllum börnum og unglingum á aldrinum 6 til 16 ára er skylt að sækja grunnskóla og eru ríki og sveitarfélög skyldug til þess að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á þessum aldri samkvæmt grunnskólalögum. Með þessu er reynt að ná því markmiði að ekki aðeins standi menntun öllum börnum og unglingum jafnt til boða heldur sé þeim einnig skylt að sækja skóla. Rúmlega 41 þúsund nemendur eru í grunnskólum landsins, þar af rösklega 13 þúsund nemendur í grunnskólum Reykjavíkur sem er lang stærsta fræðsluumdæmi landsins. Skólaár grunnskóla er frá 1. september til 31. maí og fá nemendur því skólafrí í þrjá mánuði yfir sumartímann en einnig samanlagt nokkrar vikur yfir jól og páska
311. Skyldunám á Íslandi er ókeypis. Með því er átt við að öll kennsla og námsgögn eru veitt án endurgjalds, en misjafnt er hvort námsgögn eru afhent til eignar eða afnota. Sú regla er skýrlega orðuð í grunnskólalögunum að ekki sé heimilt að krefja nemendur í skyldunámi um greiðslu fyrir kennslu, námsgögn og annað efni sem þeim er gert skylt að nota samkvæmt lögunum og ríki og sveitarfélög eiga að leggja til. Að auki ber ríki og sveitarfélögum að standa straum af kostnaði ef nemendur þurfa að dvelja á heimavist. Stefnt er að því að börn yngri en 10 ára dvelji ekki á heimavist og er þeim ekið til og frá skóla ef skóli er ekki í göngufæri frá heimili þeirra. Í skólum í dreifbýli þar sem nemendum er ekið til og frá skóla fá börn málsverð í skólanum.
312. Grunnskólanemendur sem þarfnast sérkennslu vegna erfiðleika í námi, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar eiga rétt á kennslu við sitt hæfi. Sérstök reglugerð, nr. 106/1992 um sérkennslu hefur verið sett þar sem meðal annars koma fram nánari reglur um markmið og skilgreiningu sérkennslu, athugun á þörf fyrir sérkennslu og hvernig sérkennsla fer fram í grunnskólum. Þar kemur einnig fram að nemandi á rétt á sjúkrakennslu ef hann er frá námi vegna lengri veikindaforfalla t.d. vegna vistar á sjúkrahúsi. Í lögum um málefni fatlaðra og lögum um leikskóla kemur fram sú meginstefna að fötluð börn skuli sækja venjulega grunnskóla en sé jafnframt boðið þar upp á kennslu og þjónustu í samræmi við sérþarfir þeirra.
313. Öll börn á grunnskólaaldri eiga sama rétt til menntunar án tillits til litarháttar, þjóðernis eða trúarskoðana. Börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku, er veitt sérstök aðstoð við að læra íslensku, og til að byrja með stunda þau nám í sérstökum bekkjum fyrir erlend börn þar sem þau læra undirstöðuatriði í málinu áður en þau eru send út í almenna bekki grunnskólans. Um 200 börn á grunnskólaaldri njóta nú þessarar þjónustu í grunnskólum Reykjavíkur.
314. Á undanförnum árum hefur verið reynt að fylgjast með ástæðum þess og að stemma stigu við því að börn flosni upp úr grunnskóla. Í þessu skyni skipaði félagsmálaráðherra nefnd árið 1991, um úrbætur á aðstæðum ungmenna sem flosna upp úr skóla. Í niðurstöðum nefndarinnar frá árinu 1992 kemur fram ýmis gagnrýni á fræðsluskrifstofur í nokkrum umdæmum landsins sem fylgjast ekki sem skyldi með skólasókn nemenda og engin lög ná beinlínis yfir skráningu nemenda. Lítið er til um samræmdar tölur yfir nemendur sem flosna upp úr skóla, en af 4203 ungmennum með lögheimili á Íslandi árið 1990 sem áttu að ljúka grunnskóla vorið 1991, vantaði 119 miðað við tölur um fjölda nemenda í síðasta bekk grunnskóla, en þannig eru tæplega 3% nemenda í árganginum sem virðast hafa flosnað upp úr skóla. Svo virðist sem helstu ástæður þess að nemendur flosna upp úr skóla séu veikindi, vanþroski, félagsleg vandamál og flutningur milli skólahverfa og jafnvel landa. Nefndin hefur lagt til að stofnaður verði umboðsmaður nemenda við hina stærri skóla á landinu til að sinna forvörnum og veita ráðgjöf, t.d. með aðstoð við nemendur sem kennarar eða skólastjórar telja að eigi við námserfiðleika eða félagslega erfiðleika að stríða. Jafnframt að heildarskráning nemenda verði á ábyrgð og undir eftirliti einnar stofnunar. Tillögum nefndarinnar hefur ekki verið fylgt eftir.
315. Eftirfarandi eru nokkrar tölfræðilegar upplýsingar um grunnskóla (fyrir skólaárið 1992-1993):
Fjöldi grunnskóla á landinu 203
Fjöldi nemenda 40.772
Fjöldi einkaskóla 6
Fjöldi nemenda í einkaskólum 788
Fjöldi sérskóla 7
Fjöldi nemenda í sérskólum 628
Fjöldi faglærðra kennara 2.858
Fjöldi fullra stöðugilda 2.417
Fjöldi ófaglærðra kennara 504
316. Kostnaður vegna grunnskóla fyrir skólaárið 1992-1993:
Frá ríki: ISK 5.110.000.000
Frá sveitarfélögum ISK 1.600.000.000
317. Að loknum grunnskóla í íslenska skólakerfinu tekur við framhaldsskóli en reglur um hann koma fram í lögum nr. 47/1988 um framhaldsskóla. Í kringum 18 þúsund nemendur stunda nám í framhaldsskólum landsins. Nám í framhaldsskóla stendur í fjögur ár, frá því að skyldunámi lýkur til tvítugs. Fjöldi framhaldsskóla er starfræktur í landinu, menntaskólar, fjölbrautarskólar verslunarskólar, iðnskólar og margvíslegir sérskólar á framhaldsskólastigi svo sem búnaðarskóli, sjávarútvegsskóli, vélskóli, garðyrkjuskóli og fósturskóli. Allir sem hafa lokið grunnskólanámi eða eru orðnir 18 ára eiga rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla.
318. Lögin um framhaldsskóla tilgreina þríþættan tilgang með framhaldsskólanámi: - að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðissamfélagi með því að skapa skilyrði til náms og þroska við allra hæfi,
- að búa nemendur undir störf í atvinnulífinu með sérnámi er veiti starfsréttindi,
- að búa nemendur undir nám í sérskólum og á háskólastigi með því að veita þeim þekkingu og þjálfun í vinnubrögðum.
319. Nám í framhaldsskóla skal samkvæmt lögunum fara fram í námsbrautum sem eru skilgreindar eftir markmiðum námsins að því er varðar undirbúning til starfa eða áframhaldandi náms. Lögð er áhersla á tengsl verklegra og bóklegra þátta námsins. Auk skyldunámsefnis skal heimilt að gefa nemendum kost á valgreinum.
320. Skylt er að bjóða upp á fræðslu í löggiltum iðngreinum og öðrum iðnaði samkvæmt nánari ákvæðum í námsskrá og er kveðið á um það í reglugerð um iðnfræðslu nr. 558/1981.
321. Langflestir framhaldsskólar á landinu eru ríkisreknir en nemendur eru krafðir um skráningargjald og gjald fyrir þátttöku í nemendafélögum, á bilinu 5-10.000 ISK árlega. Nemendur verða sjálfir að greiða fyrir námsgögn.
322. Engin heildarlög eru á Íslandi um menntun á háskólastigi. Um Háskóla Íslands gilda lög nr. 131/1990. Þar til á síðustu árum var Háskóli Íslands eini skólinn á háskólastigi á landinu. Allir sem hafa lokið framhaldsskólanámi eiga rétt á því að stunda nám við Háskóla Íslands. Aðrir sem hafa lokið námi í sambærilegum skólum hérlendis eða erlendis eiga einnig sama rétt.
323. Undanfarin ár hafa u.þ.b. 5000 stúdentar verið skráðir í nám við Háskóla Íslands og um 800 stúdentar útskrifast þaðan árlega. Um 300-400 Íslendingar hafa útskrifast árlega úr erlendum háskólum undanfarin ár. Stúdentar þurfa árlega að greiða skráningargjald í Háskóla Íslands sem var 22.500 ISK fyrir skólaárið 1993-1994. Stúdentar geta fengið námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna til framfærslu meðan á háskólanámi stendur og til skólagjalda eða hluta þeirra ef þeir vilja stunda nám í erlendum háskólum. Samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992 er hlutverk sjóðsins að tryggja stúdentum tækifæri til náms án tillits til efnahags. Stúdentagarðar eru reknir í tengslum við Háskóla Íslands með lágri leigu. Stúdentar sem koma utan af landsbyggðinni eiga forgangsrétt til húsnæðis á stúdentagörðum.
324.Þess má geta að ólæsi á Íslandi er talin vera mjög lág, þótt ekki séu til tölur um það. Ísland hefur tekið þátt í átaki Sameinuðu Þjóðanna um að útrýma ólæsi í heiminum fyrir árið 2000.
325. Framlög ríkisins til menntamála nema um 15% af ríkisútgjöldum. Þar af renna 73% til skólastarfsemi (u.þ.b. 40% til grunnskóla, 28% til framhaldsskóla og 32% til æðri menntunar), 10% fara til skólabygginga og 17% til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Framlög sveitarfélaga nema um fjórðungi kostnaðar við skólastarfsemi og um 40% kostnaðar vegna byggingar framhaldsskóla.
(b) Markmið menntunar (29. grein)
326. Í upphafsákvæðum bæði leikskólalaga og grunnskólalaga er skýrlega lýst markmiðum með lögunum. Samkvæmt 1. gr. laganna um leikskóla nr. 78/1994 skal leikskóli að ósk foreldra annast uppeldi og menntun barna á leikskólaaldri undir handleiðslu sérmenntaðs fólks í leikskólauppeldi. Samkvæmt 2. gr. laganna skal meginmarkmið með uppeldisstarfi í leikskóla vera:
- að veita börnum umönnun, búa þeim hollt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði
- að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn leikskólakennara,
- að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo að þau fái notið bernsku sinnar,
- að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisstöðu þeirra í hvívetna,
- að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
- að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt.
327. Sambærileg markmið koma fram í 2. gr. laga um grunnskóla þar sem segir:
"Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið. Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra."
328. Samkvæmt grunnskólalögunum setur menntamálaráðuneytið grunnskólum aðalnámsskrá. Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans. Við setningu aðalnámskrár, skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skal þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái sem jöfnust tækifæri til náms. Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar. Loks er tekið fram í grunnskólalögunum að í öllu skólastarfi skuli tekið mið af mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasviðum nemenda.
329. Meðal þeirra atriða sem skulu koma fram í aðalnámsskrá er hvernig haga skuli fræðslu um kristna trú og siði, önnur trúarbrögð og almenn lífsgildi. Í aðalnámsskrá fyrir grunnskólana sem er frá árinu 1989, segir m.a.: "Mikilvægt er að sýna nærgætni þegar fjallað er um málefni og viðhorf sem tengjast heimilum, t.d. neyslu- og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir. Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum hvað varðar trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms grunnskóla." Sérstakur kafli námsskrárinnar fjallar um kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræðslu og þar kemur fram sú stefna að kennslu í grunnskólum um þetta efni sé ætlað að veita þekkingu og skilning á ýmsum trúarbrögðum og lífsviðhorfum og hvernig þau birtast í helgihaldi og daglegu lífi. Fræðslan á að veita nemendum aðstoð við að umgangast og virða fólk sem er annarrar trúar eða lífsskoðunar. Meginviðfangsefnin eiga að vera helstu trúarbrögð heims og önnur lífsviðhorf í samtímanum. Leggja skal áherslu á muninum á þeim og kristinni trú. Fræðslan á að vera málefnaleg og alhliða og þar sem tök eru á er æskilegt að fá einstaklinga með ólíka trú til að kynna lífsviðhorf sín.
330. Hvað varðar rétt manna og hópa til þess að koma á fót og stjórna menntastofnunum þá eru ekki settar hömlur í þeim efnum af hálfu ríkisvaldsins, nema í þeim tilvikum þar sem einkaskólar eiga að þjóna hlutverki grunnskóla, en þá eru sett sérstök skilyrði. Þannig kveður 73. gr. grunnskólalaganna á um að menntamálaráðuneytinu sé heimilt að löggilda grunnskóla eða hluta grunnskóla sem eru kostaðir af einstaklingum eða stofnunum, ef þeir starfa samkvæmt reglugerð eða skipulagsskrá sem ráðuneytið staðfestir, enda hlíti slíkir skólar sama eftirliti og reglum og aðrir grunnskólar. Börn, sem sækja þess einkaskóla þurfa ekki að sækja ríkisrekna grunnskóla, en forstöðumaður skal fyrir upphaf hvers skólaárs senda hlutaðeigandi skólanefnd og fræðslustjóra skrá um nemendur og tilkynna sömu aðilum allar breytingar á nemendaskrá jafnóðum og þær verða.
331. Mjög fáir einkaskólar eru reknir á grunnskólastigi, og enginn þeirra er utan Reykjavíkur. Einkaskólar eiga ekki kröfu til styrks af almannafé en engu að síður fá þeir nokkurn stuðning frá ríkinu auk þess sem skólagjöld eru innheimt af nemendum. Það sama á við um þá fáu einkaskóla sem eru reknir á framhaldsskóla og háskólastigi.
(c) Frítími, tómstundir og þátttaka í menningarlífi (31. grein)
332. Í 326. málsgrein að framan var talið meðal þeirra markmiða sem eru sett fram í lögum um leikskóla að uppeldisstarf í leikskóla skuli búa börnum örugg leikskilyrði og hollt uppeldisumhverfi og að börnum skuli gefinn kostur á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn fóstra.
333. Í grunnskólalögum er ennfremur vikið að því hvernig börn geti notið frítíma og tómstunda. Þar er m.a. lagt bann við því að nemandi stundi vinnu utan grunnskólans ef hún veldur því að hann getur ekki rækt nám sitt sem skyldi eða fær ekki nauðsynlega hvíld að dómi skólastjóra og kennara. Í slíkum tilvikum skal skólastjóri gera nemandanum, forráðamanni hans og hlutaðeigandi vinnuveitanda viðvart. Að þessu ákvæði grunnskólalaganna og vinnu barna og unglinga almennt verður vikið nánar í umfjöllun um 32. grein samningsins.
334. Samkvæmt 52. gr. grunnskólalaga skal nemendum í öllum grunnskólum gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda- og félagsstarfi á vegum skólans. Tómstunda- og félagsstarf getur bæði verið liður í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma. Áhersla er lögð á að tómstunda- og félagsstarf fari ekki aðeins fram utan venjulegs skólastarfa heldur geti einnig verið liður í daglegu starfi. Í félagsstarfi skal m.a. að því stefnt að nemendur verði færir um að taka að sér félagsleg störf í þjóðfélaginu. Kostnaður við félagsstörf greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi. Gerður er greinarmunur á tómstunda- og félagsstörfum sem sveitarfélög standa straum af og svonefndri félagsmálafræðslu sem er hluti af skyldunámi og greidd sem kennsla.
335. Samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, er félagsmálanefnd í hverju sveitarfélagi skylt að sjá til þess að börn fái notið hollra og þroskavænlegra uppvaxtarskilyrða og er þar einkum átt við leikskóla og tómstundaiðju. Á vegum sveitarfélaganna fer víða fram öflugt tómstundastarf fyrir börn og unglinga. Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur heldur úti mjög öflugu starfi fyrir almenning í borginni með sérstaka áherslu á börn og unglinga. Fjöldi íþróttasvæða er rekinn á vegum borgarinnar og um tugur félagsmiðstöðva er starfræktur af Reykjavíkurborg. Íþrótta- og tómstundaráð borgarinnar styður fjárhagslega við bakið á fjölda félaga og samtaka sem hafa tómstunda- og íþróttastarf að markmiði. Fjárframlag Reykjavíkurborgar til íþrótta- og tómstundamála er rúmur milljarður ISK sem er um 10% af heildarfjárhagsáætlun borgarinnar
336. Fjöldi íþróttafélaga er starfræktur í landinu þar sem boðið er upp á skipulegt íþróttastarf fyrir börn og unglinga. Ríkið veitir fjárstyrki til íþróttafélaga að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt Íþróttalögum nr. 49/1956 heyra íþróttamálefni undir menntamálaráðuneytið. Samkvæmt lögunum er m.a. skylt að iðka íþróttir í grunnskólum að ákveðnu marki og leggja áherslu á að nemendur fái að stunda íþróttir úti eftir því sem fært þykir og staðhættir leyfa. Þá skal einnig stuðla að því að nemendur iðki íþróttir í tómstundum sínum.
337. Lög nr. 24/1970 fjalla um æskulýðsmál, en tilgangur þeirra er að setja reglur um opinberan stuðning við æskulýðsstarfssemi og er þá einkum miðað við starfsemi fyrir börn og ungmenni á aldrinum 12-20 ára. Þeir sem njóta fjárstuðnings eru í fyrsta lagi félög sem vinna að æskulýðsmálum á frjálsum áhugamannagrundvelli enda byggist félagsstarfsemin fyrst og fremst á sjálfboðastarfi og eigin fjárframlögum og í öðru lagi er átt við aðra aðila sem sinna velferðarmálum ófélagsbundins æskufólks í skipulögðu starfi.
338. Ástundun listnáms er skyldubundinn þáttur í grunnskólanámi og segir í grunnskólalögum að í aðalnámsskrá skuli setja ákvæði um megininntak og skipulag náms og kennslu í listgreinum, fagurskyni, listhneigð og hagleik; mynd og handmennt, tónmennt, leiklist og dansi. Með kennslu í mynd- og handmennt sem er ítarlega kveðið á um í námsskrá er leitast við að koma til móts við það markmið grunnskólans að gefa öllum einstaklingum tækifæri til að uppgötva og þroska þá hæfileika sem þeir búa yfir. Meginmarkmið með kennslu á þessu sviði er eftirfarandi:
- Að þroska og þjálfa hug og hendur nemenda til að tjá eigin hugmyndir, þekkingu og reynslu með viðeigandi vinnubrögðum í margs konar efnivið
- Að efla hugmyndaflug, sköpunarhæfileika, sjálfstraust og sjálfstæði nemenda
- Að stuðla að því að nemendur verði læsir á umhverfi sitt
- Að stuðla að því að nemendur skynji og skilji boðskap þess myndmáls sem daglega ber fyrir augu
- Að rækta samstarfsvilja, samstarfshæfni og félagsþroska nemenda
- Að leggja grunn að sjálfstæðu gildismati nemenda, vekja áhuga og auka þekkingu á verkmenningu, listum og öðrum menningarverðmætum
- Að stuðla að því að nemendur kynnist eiginleikum hinna ýmsu efna sem unnið er úr, tileinki sér hagkvæm vinnubrögð og nái þeirri hæfni að verða sjálfbjarga í verki
- Að vekja, hlúa að og efla áhuga nemenda fyrir nytsömu og þroskandi tómstundastarfi.
339. Mynd- og handmennt er talin vera ákjósanleg undirstaða til ýmiss konar tómstundastarfa, en þá þurfa nemendur að ná þeirri hæfni að verða sjálfbjarga í verki og geta bætt við og byggt á þeirri þekkingu reynslu og þjálfun sem þeir hafa fengið í grunnskóla.
340. Á vegum menntamálaráðuneytisins eru í gangi ýmis verkefni sem miða að því að efla þátttöku barna í menningar- og listalífi. Sem eitt umfangsmesta þeirra á síðustu árum má nefna samnorrænt verkefni "Norræn æska - norræn list" (Et levende Norden), sem stóð yfir allt skólaárið 1993-1994. Norræna ráðherranefndin stóð að verkefninu, sem náði til níu svæða á öllum Norðurlöndunum. Dæmi um starfsemi verkefnisins voru efnisvikur eða dagar í skólum þar sem norrænir myndlistarmenn, leikarar, dansarar, tónlistarmenn, rithöfundar, kvikmyndaframleiðendur, teiknara o.fl. komu í heimsókn. Markmið verkefnisins var að auka þekkingu á Norðurlandamálum og efla norræna samkennd unga fólksins í gegnum bein samskipti í tengslum við menningu og listir. Hvað varðar fleiri verkefni til eflingar menningu barna má einnig nefna að vorið 1994 var stofnaður á vegum menntamálaráðuneytisins sérstakur Menningarsjóður barna sem hefur það markmið að veita styrki til verkefna sem tengjast menningu barna á einn eða annan hátt.
IX. Sérstakar verndarráðstafanir
(a) Börn í neyðarástandi
(i) Flóttamannabörn (22. grein)
341. Engin heildstæð löggjöf um flóttamenn er í gildi á Íslandi. Helstu ákvæði sem varða flóttamenn er að finna í lögum um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965, en þar er safnað saman lagaákvæðum sem almennt varða heimildir útlendinga til að koma til landsins og dveljast þar, eftirlit með þeim og ástæður brottvísunar úr landi. Ísland hefur fullgilt samning um réttarstöðu flóttamanna frá árinu 1951.
342. Enn skortir á að stjórnvöld hafi mótað ákveðna stefnu í málefnum flóttamanna eða að þau heyri í heild sinni undir eitt ráðuneyti. Í byrjun árs 1994 var skipaður vinnuhópur á vegum dómsmálaráðuneytis og utanríksráðuneytis til að gera tillögur um mótun stefnu í flóttamannamálum og um hugsanlega endurskoðun laganna um eftirlit með útlendingum. Þetta kemur meðal annars til af aukinni samvinnu við önnur Norðurlönd um flóttamannamálefni á síðustu árum og þörf á að móta samræmda stefnu Norðurlanda í flóttamannamálum.
343. Ísland hefur enn sem komið er enga ákveðna árlega kvóta hvað varðar móttöku á flóttamönnum hvorki að tölu til né heldur sem varða einstök lönd. Tiltölulega fáir flóttamenn hafa komið til landsins á undanförnum árum en þó flestir frá Asíu. Frá árinu 1956 til dagsins í dag, hafa ákvarðanir um flóttamannakvóta verið teknar af ríkisstjórn Íslands. Frá 1956, þegar 52 ungverskir flóttamenn komu til Íslands hafa fimm hópar flóttamanna komið til landsins. Þeir komu allir frá austantjaldslöndum þ.e. Ungverjalandi, Júgóslavíu og Póllandi svo og þrír hópar frá Víetnam:
1956 52 Ungverjar
1960 35 Júgóslavar
1979 34 Víetnamar
1982 26 Pólverjar
1990 30 Víetnamar
1991 30 Víetnamar
Samtals eru þetta 207 flóttamenn eða um 5 á ári að jafnaði. Að beiðni ríkisstjórnarinnar hefur Rauði Kross Íslands annast val, móttöku og aðlögun allra þessara flóttamanna nema 35 Júgóslava sem komu hingað árið 1960, þann hóp sá félagsmálaráðuneytið um. Ákvörðun um flóttamannakvóta var síðast tekin af ríkisstjórninni árið 1989 sem var áætlun um að 60 flóttamenn kæmu frá Suðaustur Asíu á árunum 1990-1992. Hópurinn kom hingað til lands á árunum 1990 og 1991. Á árunum 1982-1993 hafa 40 ættingjar og venslamenn flóttamannanna frá 1979 komið til landsins og 5 ættingjar þeirra sem komu 1991.
344. Rauði Kross Íslands hefur veitt flóttamönnum margvíslega aðstoð að beiðni ríkisstjórnarinnar eftir komu þeirra til landsins til þess að aðlagast breyttum lífsháttum. Á vegum Rauða Krossins starfar sérstök flóttamannanefnd, en markmið með henni er m.a. að veita stjórnvöldum aðstoð í málefnum flóttamanna. Þannig er meðal verkefna nefndarinnar að vinna að stefnumótun og aðstoða ríkisvaldið varðandi komu flóttamanna til landsins og vinna með ríkisvaldinu að aðlögun flóttamanna hér á landi. Nefndin vinnur gegn kynþáttamisrétti og hræðsluáróðri sem er beint að flóttamönnum og fólki af erlendum uppruna og er umsagnaraðili varðandi málefni flóttamanna.
345. Hvað varðar börn flóttamanna sérstaklega þá hefur vinna Rauða krossins fyrir þau mest beinst að því að fá viðurkenndan forgangsrétt þeirra til leikskóla og nauðsyn þess að ríkið greiði leikskólagjöld þeirra þar sem foreldrar greiða ekki fyrir barnagæslu. Rauði Krossinn hefur einnig haft milligöngu um að sameina flóttamannabörn sem hingað koma, fjölskyldum sínum sem eru flóttamenn í öðrum löndum.
346. Af hálfu menntamálaráðuneytisins hefur verið gripið til sérstakra aðgerða í skólakerfinu til þess að hjálpa flóttamannabörnum og öðrum nýbúum í landinu að aðlagast íslensku samfélagi. Er flóttamannabörnum í grunnskólum þannig boðið upp á sérkennslu í íslensku. Megináhersla er lögð á hópkennslu í íslensku og móttökudeildir fyrir börn sem eru að hefja skólagöngu á Íslandi. Hér er um tilraunastarf að ræða, sem hófst haustið 1993 og er liður í að endurskipuleggja þjónustu við nýbúa innan menntakerfisins. Í frumvarpi til fjárlaga 1994 er gert ráð fyrir áframhaldandi fjárveitingu til nýbúakennslu.
347. Börn flóttamanna njóta að öllu leyti sömu réttinda úr almannatryggingum og önnur börn sem dveljast á landinu.
(ii) Börn í vopnuðum átökum (38. grein). Sálrænn bati og samfélagsleg aðlögun (39. grein)
348. Ísland er aðili að Genfarsamningi um vernd almennra borgara á stríðstímum frá árinu 1949. Engin innanlandslöggjöf er til sem varðar vopnuð átök. Aldrei hefur komið til styrjaldar á Íslandi.
349. Innlendum her hefur aldrei verið komið á fót á Íslandi og því hefur aldrei verið almenn herskylda né nokkur álitaefni vaknað sem henni tengjast. Samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar er sérhver vopnfær maður skyldur að taka sjálfur þátt í vörn landsins, eftir því sem nákvæmar kann að verða fyrir mælt með lögum. Á þetta ákvæði hefur aldrei reynt en hugtakið "vopnfær maður" yrði þá án efa skýrt með 18 ára aldur að algeru lágmarksskilyrði.
350. Þar sem innfæddir Íslendingar hafa aldrei þurft að þola hörmungar sem fylgja vopnuðum átökum, er ekki um að ræða skipulegar ráðstafanir af hálfu ríkisins til að hljóta megi sálrænan bata og aðlögun að samfélaginu. Ef börn innflytjenda eða flóttamanna hafa verið fórnarlömb vopnaátaka stendur þeim til boða aðstoð sálfræðings eða önnur viðeigandi meðferð innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Það sama á við um börn sem hafa þurft að þola annars konar grimmilega eða vanvirðandi meðferð, s.s. vegna líkamsmeiðinga eða sem fórnarlömb kynferðisafbrota.
(b) Börn sem komast í kast við lögin
(i) Stjórn á málefnum sem varða brot ungmenna (40. grein)
351. Ef refsiverð brot eru framin af börnum yngri en 15 ára telst málið vera barnaverndarmál og verður því aðeins beitt úrræðum samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna. Börn ná sakhæfisaldri við 15 ára aldur. Þar með er heimilt að gefa út ákæru á hendur þeim fyrir refsiverð brot sem þau fremja. Sömu réttarfarsreglur gilda um brotamál sem höfðuð eru gegn unglingum á aldrinum 15-18 ára og þegar eldri brotamenn eiga í hlut og eru mál þeirra rekin fyrir almennum dómstólum eins og önnur refsimál. Víða í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991 og í almennum hegningarlögum má þó finna sérreglur um meðferð mála gegn unglingum á þessum aldri. Verður þessum sérreglum lýst nánar þar sem þær eiga við í umfjöllun um þau atriði sem talin eru í 40. grein samningsins.
352. Í stjórnarskránni er reynt að tryggja sjálfstæði dómara gagnvart öðrum þáttum ríkisvaldsins. Samkvæmt 59. gr. stjórnarskrárinnar verður skipun dómsvaldsins ekki ákveðin nema með lögum og í 61. gr. segir að dómendur skuli í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Dómendum verður ekki vikið úr embætti nema með dómi og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra, nema ef verið er að koma nýrri skipan á dómstólana. Þessi grundvallarregla um sjálfstæði dómara kemur einnig víða fram í löggjöf t.d. í reglum um skipun dómara, auk frekari reglna sem miða að því að að tryggja sjálfstæði og óhlutdrægni dómara í einstökum málum, m.a. vanhæfisreglur sem kveða á um að dómara beri að víkja sæti í máli vegna ástæðna sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans í efa.
353. Ný heildarlöggjöf um dómstólaskipan á Íslandi tók gildi 1. júlí 1992 en eitt helsta markmið hennar var að skilja að fullu á milli dómsvalds og framkvæmdarvalds og að gera dómstólana sem sjálfstæðasta og óháða framkvæmdarvaldinu. Samhliða því að koma á núverandi dómstólaskipan var sett ný löggjöf á öllum sviðum réttarfars, þ. á m. ný lög um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Lögin fólu í sér margvíslegar breytingar frá eldri lögum um sama efni frá árinu 1974. Með nýju lögunum var komið á ákæruréttarfari því algerlega er nú skilið á milli starfa ákæruvalds og lögreglu annars vegar og starfa dómsvaldsins hins vegar. Rannsókn sakamála er nú að öllu leyti í höndum ákæruvalds og lögreglu og dómari á aldrei frumkvæði að rannsókn, né heldur stýrir hann henni. Dómsrannsóknir hafa því verið lagðar niður og hlutverk dómara á rannsóknarstigi sakamáls takmarkast við úrlausn á ýmsum ágreiningsefnum sem hægt er að bera undir hann.
354. Í 2. gr. almennra hegningarlaga kemur fram sú grundvallarregla að ekki skuli refsa manni, nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem refsing er lögð við í lögum þegar verknaður er framinn. Er refsilöggjöf hefur breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur skal dæma eftir nýrri lögunum, en aldrei má þó dæma þyngri refsingu en samkvæmt eldri lögunum. Við sérstakar aðstæður verður maður dæmdur til refsingar samkvæmt refsilögum sem giltu þegar verknaður var framinn þótt refsiákvæði hafi verið felld úr gildi þegar dómur gengur, ef ástæður brottfallsins bera ekki vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar. Dæmi um slíkt tilvik er ef refsifyrirmæli sérstakra sóttvarnarlaga hafa verið felld niður vegna þess að sótthættan er ekki lengur fyrir hendi, vara sem var áður tollskyld, er það ekki lengur o.s.frv.f Brottfall slíkra laga ber ekki vitni um að löggjafinn ætlist til að brot á ákvæðum laganna, sem framin voru í gildistíð þeirra eigi að vera refsilaus.
355. Reglan um að maður skuli teljast saklaus þar til sekt hans er sönnuð kemur ekki fram berum orðum í lögum um meðferð opinberra mála. Engu að síður er þetta ein mikilvægasta grundvallarreglan sem fylgt er í opinberu réttarfari á Íslandi.
356. Í 45. gr. laganna um meðferð opinberra mála segir að sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik sem telja má honum í óhag hvíli á ákæruvaldinu. Allur vafi um sekt sakbornings er því túlkaður honum í hag.
357. Almennum reglum um sakborning og réttarstöðu hans, þar á meðal rétt hans til málsvara er safnað saman í VI. kafla laga um meðferð opinberra mála sem ber heitið "Sakborningur og verjandi". Í kaflanum koma fram skýrar reglur að maður sem hefur verið handtekinn í þágu opinbers máls eigi rétt á að hafa samband við lögmann eða annan talsmann sinn svo og nánustu vandamenn sína. Í kaflanum koma einnig fram reglur um réttindi og skyldur verjanda, m.a. skýlaus heimild hans til að fylgjast með framvindu opinbers máls og aðgangs að gögnum sem það varða. Þegar maður er handtekinn á hann skilyrðislausan rétt til vitneskju um ástæður fyrir handtökunni. Sá sem er yfirheyrður við rannsókn máls á rétt á því að fá vitneskju um það, þegar mál er orðið svo skýrt að þess sé kostur, hvort hann er spurður vegna gruns á hendur honum sjálfum um refsivert brot eða hvort hann er kvaddur til vitnisburðar.
358. Hvað varðar sérreglur um börn og unglinga í þessum efnum þá er löggæslumanni skylt samkvæmt barnaverndarlögum og lögum um meðferð opinberra mála að gera barnaverndarnefnd viðvart þegar hann hefur til meðferðar mál barns eða ungmennis. Þegar brot eru framin af börnum eða ungmennum eða gegn þeim skal löggæslumaður eða dómari þegar í stað tilkynna það barnaverndarnefnd og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn máls. Ef barnið er innan 16 ára aldurs skal jafnframt gefa barnaverndarnefnd kost á að láta fulltrúa sinn eða starfsmann vera viðstaddan þegar barnið er yfirheyrt. Getur dómari einnig krafist þess ef honum þykir þörf. Loks er barnaverndarnefnd skylt að tilkynna foreldri barns ef mál sem varðar barnið, er til meðferðar hjá lögreglu eða dómstólum, enda mæli hagsmunir barnsins ekki gegn því. Ef foreldri óskar þess að vera viðstatt yfirheyrslu yfir barni sínu, yngra en 16 ára, skal það að jafnaði heimilt.
359. Um málshraða fyrir dómstólum eru ekki lögfestar sérreglur í lögum um meðferð opinberra mála, þegar unglingar eiga í hlut, en í 133.gr. segir að hraða skuli máli eftir föngum og kveða upp dóm svo fljótt sem unnt er eða að jafnaði ekki síðar en þremur vikum eftir dómtöku. Dómara er heimilt að ákveða að dómþing skuli háð fyrir luktum dyrum ef sakborningur er undir 18 ára aldri.
360. Meðan á rannsókn máls stendur hjá lögreglu eru skýrslur af vitni yfirleitt teknar án viðurvistar sakbornings. Málsvari getur hins vegar alltaf verið viðstaddur yfirheyrslur annarra í máli sakbornings ef það þykir hættulaust vegna rannsóknar málsins. Málsvari getur þá beint því til yfirheyranda að spyrja þann sem er yfirheyrður um tiltekin atriði. Loks getur málsvari krafist þess að fá bókaða athugasemd um framkvæmd yfirheyrslu í lok hennar. Við aðalmeðferð opinbers máls yfir dómi er ákærði viðstaddur skýrslugjöf vitna. Dómari getur þó ákveðið að víkja sakborningi úr þinghaldi á meðan skýrsla vitnis er tekin, ef þess er krafist og dómari telur að nærvera sakborningsins geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð þess. Vitni verða kvödd fyrir dóm eftir því sem ákærandi og ákærði (verjandi) krefjast. Þó er dómara rétt að meina ákæranda eða ákærða að leiða vitni ef sú sönnunarfærsla er sýnilega þarflaus til upplýsingar málsins. Vitnaskýrsla fyrir dómi fer þannig fram í megindráttum að dómari leggur fyrir vitni spurningar sem ákærandi og verjandi óska, en hann getur einnig gefið þeim kost á að spyrja vitni beint. Hvert vitni er prófað sér, en dómari getur þó ákveðið að samprófa vitni við sakborning og aðra ef á greinir. Sú almenna regla gildir að sakborningi er óskylt á öllum stigum opinbers máls að svara spurningum sem varða refsiverða hegðun sem honum er gefin að sök. Ber yfirheyranda að benda sakborningi ótvírætt á þennan rétt þegar efni standa til. Einnig er sú regla lögfest í lögum um meðferð opinberra mála að manni sé ekki skylt að svara spurningu að viðlagðri vitnaábyrgð ef ætla má að svar við henni feli í sér játningu eða bendingu um að hann eða venslamaður hans hafi framið refsiverðan verknað.
361. Ýmsar sérreglur gilda um börn og vitnaskýrslur samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Enginn lágmarksaldur gildir um vitnaskyldu í opinberum málum, en dómari metur það hverju sinni hvort barn hafi náð þeim þroska að það beri slíkt skynbragð á málsatvik að vitnisburður þess um þau skipti máli. Við rannsókn máls er heimilt að að hljóðrita skýrslu vitnis eða sakbornings eða taka skýrslugjöf upp á myndband þegar börn eiga í hlut. Ef yfirheyra þarf barn við rannsókn máls er einnig heimild í lögum um meðferð opinberra mála til þess það verði þegar gert fyrir dómi meðan á rannsókn stendur. Er þessi heimild veitt einkum í þeim tilgangi að komast hjá endurteknum yfirheyrslum yfir börnum, þ.e. bæði við rannsókn máls og meðferð þess fyrir dómi.
362. Sú almenna heimild er í 75. gr. laganna um meðferð opinberra mála að bera má undir dómara ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu svo og ágreining um réttindi sakbornings og málsvara hans, þar á meðal ósk þeirra um tilteknar rannsóknaraðgerðir.
363. Refsimálum má áfrýja til Hæstaréttar með nokkrum minniháttar takmörkunum og engar sérreglur eru um mál ungmenna í þeim efnum. Samkvæmt ákvæðum XVIII. kafla laganna um meðferð opinberra mála má áfrýja til Hæstaréttar héraðsdómi í refsimáli í því skyni að fá:
- endurskoðun á ákvörðun viðurlaga
- endurskoðun á niðurstöðum sem eru byggðar á skýringu eða beitingu
réttarreglna
- endurskoðun á niðurstöðum sem eru byggðar á mati á sönnunargildi
annarra gagna er munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi
- ómerkingu á héraðsdómi og heimvísun máls
- frávísun máls frá héraðsdómi
Ef ákærði hefur ekki sótt þing í héraði og mál hefur verið dæmt að honum fjarstöddum, sem er heimilt ef brot þykir ekki varða þyngri viðurlögum en sekt, upptöku eigna og sviptingu réttinda eða ef ákærði hefur áður komið fyrir dóm og játað skýlaust alla þá háttsemi sem honum er gefin að sök og dómari telur ekki ástæðu til að efa að játningin sé sannleikanum samkvæm enda verði ekki dæmd þyngri refsing en sex mánaða fangelsi, þá verður dóminum aðeins áfrýjað um lagaatriði eða viðurlög og að fengnu leyfi Hæstaréttar. Einnig þarf leyfi Hæstaréttar til að áfrýja áfellisdómi ef ákærða er þar hvorki ákveðin frelsissvipting né sekt eða eignaupptaka sem er lægri en sem nemur 300.000 ISK. Frestur ákærða til þess að áfrýja máli er fjórar vikur frá því að honum er birtur dómur. Ef hann áfrýjar ekki innan þess tíma er litið svo á að hann vilji hlíta dóminum. Opinber mál sem áfrýjað er til Hæstaréttar njóta forgangs í meðferð mála fyrir réttinum. Þau ganga því jafnan fyrir einkamálum sem þar eru fyrir, og eru tekin til meðferðar jafnóðum og þau berast. Þessi regla ekki bundin í lög, en þó hefur Hæstiréttur lengi fylgt henni. Þessi tilhögun er líka í samræmi við 1. mgr. 133. gr. laga um meðferð opinberra mála um að hraða skuli meðferð opinbers máls eftir föngum.
364. Ef sakborningur sem gefur skýrslu fyrir dómi er ekki nægilega fær í íslensku skal kalla löggiltan dómtúlk til aðstoðar, nema dómari treysti sér sjálfur til að ræða við sakborning á öðru tungumáli. Þessi regla kemur fram í 1. mgr. 13. gr. laga um meðferð opinberra mála og gildir einnig þegar skýrsla er gefin við rannsókn máls. Túlkur verður einkum kallaður til þegar útlendingar eiga í hlut, en reglan gildir líka ef annars konar tjáskiptaörðugleikar koma til, til dæmis ef sakborningur er mállaus eða heyrnarlaus. Kostnaður vegna starfa túlks er greiddur úr ríkissjóði.
365. Nokkur lagaákvæði er að finna sem varða frávik frá reglunni um friðhelgi heimilis og einkalífs í íslenskri löggjöf, einkum vegna rannsóknarþarfa í lögum um meðferð opinberra mála. Í þeim tilvikum þarf hins vegar ávallt dómsúrskurð fyrir heimildinni nema við sérstakar undantekningaraðstæður í tengslum við leit sem verður lýst hér á eftir. Samkvæmt 89. gr. laganna um meðferð opinberra mála má leita í húsum sakbornings, geymslustöðum, hirslum, skipum og öðrum farartækjum í því skyni að handtaka hann, rannsaka ummerki brots eða hafa uppi á munum eða gögnum sem skal leggja hald á. Einnig má leita hjá öðrum mönnum en sökuðum þegar brot hefur verið framið þar eða sakaður maður handtekinn þar, svo og ef gildar ástæður eru til að ætla að sakborningur haldi sig þar eða þar sé að finna muni eða gögn sem skal leggja hald á. Undantekning frá því að dómsúrskurð þurfi til leitar er ef sá sem í hlut ásamþykkir leitina. Einnig er leit heimil án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum og ef leitað er að manni sem handtaka skal ef honum er veitt eftirför eða hætta er á að hann komi sér undan ef úrskurðar er beðið. Leita má á sakborningi sjálfum ef nauðsynlegt þykir til að taka af honum gögn eða muni sem skal leggja hald á, sbr. 92. gr. sömu laga. Þar er einnig heimild til að framkvæma leit að fengnu áliti læknis ef grunur leikur á að maður feli innvortis muni eða efni sem hald skal leggja á. Þá má taka blóð- og þvagsýni úr sakborningi og framkvæma á honum aðra þá líkamsrannsókn í þágu rannsóknar sem verður gerð á honum að meinalausu. Loks má taka af honum fingraför og myndir í þágu rannsóknar. Leita má á öðrum en sakborningi ef ástæða er til að ætla að hann hafi á sér gögn eða muni sem skal leggja hald á. Undantekningar frá því að dómsúrskurð þurfi til leitar í þessum tilvikum er ef sakborningur veitir samþykki sitt svo og ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. Engar sérreglur gilda um unglinga í þessum efnum.
366. Eins og áður kom fram eru refsimál gegn ungmennum á aldrinum 15-18 ára rekin fyrir almennum dómstólum og flestum sérreglum um meðferð opinberra mála þegar ungmenni eiga í hlut hefur þegar verið lýst að ofan. Engar sérstakar stofnanir eru til fyrir ungmenni á þessum aldri, sem eru grunuð, ásökuð eða fundin sek um refsilagabrot og fer afplánun dóma fram í almennum fangelsum landsins eins og nánar verður lýst í umfjöllun um 37. grein samningsins og fyrirvara sem Ísland hefur gert við þá grein.
367. Hvað varðar sakhæfi unglinga, þá er 15 ára aldur algerlega óundanþægt skilyrði þess að að maður teljist sakhæfur. Í almennum hegningarlögum koma fram nokkur sérsjónarmið um útgáfu ákæru og ákvörðun refsingar þegar ungmenni á aldrinum 15-21 árs eiga í hlut. Þannig er veitt heimild í 56. gr. til þess að þegar aðili hefur játað brot sitt þá getur ríkissaksóknari frestað um tiltekinn tíma ákæru til refsingar út af því ef hann er á áðurgreindu aldursbili. Í þessum tilvikum má skilorðstími ekki vera skemmri en 1 ár og ekki lengri en 5 ár, en að jafnaði skal hann vera 2-3 ár. Mál aðila má taka upp að nýju, ef réttarrannsókn hefst áður en skilorðstíma lýkur, út af nýju broti sem hann hefur framið á skilorðstímanum eða áður en máli var frestað, svo og ef hann rýfur ella í veigamiklum atriðum skilyrði þau sem honum voru sett.
368. Samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga má ákveða með dómi að fresta með skilyrðum um tiltekinn tíma ákvörðun um refsingu annars vegar og fullnustu refsingar hins vegar. Er þessum heimildum beitt í ríkum mæli þegar ungmenni eiga í hlut. Skilorðstími má ekki vera skemmri en 1 ára og ekki lengri en 5 ár. Að jafnaði skal ákveða hann 2-3 ár. Frestun skal vera bundin því skilyrði að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á skilorðstímanum en hana má einnig binda tilteknum skilyrðum, s.s. að aðili hlíti fyrirmælum umsjónarmanns um dvalarstaði, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og notkun tómstunda eða að hann neyti ekki á skilorðstímanum áfengis eða deyfilyfja.
369. Ef börn yngri en 15 ára gerast brotleg við lög er gripið til úrræða samkvæmt barnaverndarlögum. Engin meðferðarstofnun fyrir unglinga gegnir því hlutverki eingöngu að sinna börnum eða ungmennum sem hafa brotið af sér. Almennt eru afbrot talin birtingarform annarra undirliggjandi vandkvæða, svo sem tilfinningalegra, geðrænna eða félagslegra. Því er litið svo á að þær stofnanir sem vinna að meðferðar- eða greiningarvinnu með börnum og unglingum sinni að einhverju leyti börnum og unglingum sem hafa komist í kast við lögin. Þetta á sérstaklega við um Unglingaheimili ríkisins. Í umfjöllun um 20. grein samningsins að framan var fjallað um meðferðarúrræði sem Unglingaheimilið býður upp á, en jafnframt skal áréttað að þegar skýrsla þessi er rituð eru ýmsar breytingar fyrirhugaðar á meðferðarþjónustu ríkis og sveitarfélaga sem einnig er lýst í umfjöllun um 20. grein.
(ii) Börn sem eru svipt frelsi sínu, þar með talið hvers konar varðhald,
fangelsun og ráðstöfun vegna forsjár (37. grein (b), (c) og (d))
370. Börn yngri en 15 ára verða ekki dæmd til refsingar eins og áður var lýst og þurfa því aldrei að afplána refsivist. Í barnaverndarlögum er hins vegar kveðið á um úrræði ef börn undir þessum aldri gerast brotleg við lög. Þannig segir í 22. gr. laganna að ef barn eða ungmenni stefnir eigin heilsu eða þroska í hættu með hegðun sinni, svo sem með neyslu áfengis eða annarra vímuefni, afbrotum eða annarri jafn skaðlegri hegðun, þá skuli barnaverndarnefnd veita sérstaka aðstoð með viðtölum, ráðgjöf, vistun á unglingaheimili eða öðrum tiltækum stuðningsaðgerðum. Undir þessum kringumstæðum er barnaverndarnefnd heimilt í samráði við foreldra að vista barn til skammtímameðferðar og rannsóknar í allt að fjórar vikur í senn á viðeigandi stofnun. Ef barnaverndarnefnd telur ekki hjá því komist að vista ungmenni sem hefur náð sjálfræðisaldri gegn vilja þess á stofnun vegna þess að það stefnir eigin heilsu eða þroska í alvarlega hættu með vímuefnaneyslu, þá getur nefndin leitað samþykkis dómsmálaráðuneytis fyrir vistun ungmennis á sjúkrahúsi eða deild Unglingaheimilis ríkisins fyrir vímuefnaneytendur. Fer þá um frelsissviptinguna og kæruleiðum til dómstóla eftir ákvæðum lögræðislaga en þeim var lýst í 270.-275. málsgrein að framan í skýrslu þessari.
371. Í c. lið 1. mgr. 24. gr. barnaverndarlaga segir að ef sýnt er að heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra þá geti barnaverndarnefnd með úrskurði kveðið á um töku barns af heimili án samþykkis foreldra, kyrrsetningu þess á fóstur- eða vistheimili, læknisskoðun, innlögn á sjúkrahús eða aðra stofnun til að tryggja öryggi þess eð til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu. Slíkar ákvarðanir skulu þó alltaf vera tímabundnar og ekki standa lengur en þörf krefur hverju sinni, auk þess sem þær skal endurskoða ekki sjaldnar en á sex mánaða fresti. Líkt og aðrir úrskurðir barnaverndarnefnda er slík ákvörðun kæranleg til Barnaverndarráðs.
372. Samkvæmt lögum um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 er fangelsum á Íslandi skipt í tvo flokka, gæsluvarðhaldsfangelsi og afplánunarfangelsi. Í gæsluvarðhaldsfangelsi dvelja þeir sem eru úrskurðaðir í gæsluvarðahald þar sem fram er kominn rökstuddur grunur um að þeir hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og frekari skilyrði sem sett eru fram í lögum um meðferð opinberra mála eru uppfyllt. Hægt er að úrskurða unglinga á aldrinum 15-18 ára til gæsluvarðhaldsvistar meðan á rannsókn máls stendur, en mjög sjaldgæft er að unglingar undir 16 ára aldri séu úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Í 108. gr. laga um meðferð opinberra mála koma fram sérreglur um meðferð gæslufanga en þar segir að þeir skuli sæta þeirri meðferð sem er nauðsynleg til þess að gæslan komi að haldi og góð regla haldist í gæslunni, en varast skuli að beita þá hörku eða harðýðgi. Dómsmálaráðherra hefur sett reglugerð um gæsluvarðhaldsvist nr. 179/1992, sbr. heimild í 108. gr. laga um meðferð opinberra mála. Í reglugerðinni er ítarlega kveðið á um réttindi gæslufanga. Gæslufanga er heimilt að bera atriði sem varða vist í gæsluvarðhaldi undir dómara. Nánari sérreglur um meðferð gæslufanga eru meðal annars þær, að þeim er heimilt að útvega sér sjálfir og taka við fæði og öðrum persónulegum nauðsynjum, þ.á m. fatnaði. Þeir eru aðeins látnir vera í einrúmi ef rannsóknarnauðsynjar krefja, en þó verða þeir ekki hafðir með öðrum föngum gegn vilja sínum. Heimilt er að takmarka rétt gæslufanga til heimsókna, bréfasendinga og aðgang þeirra að fjölmiðlum ef nauðsyn þykir vegna rannsóknarhagsmuna.
373. Engin sérstök unglingafangelsi eru til á Íslandi þar sem vistaðir eru unglingar á aldrinum 15-18 ára til að afplána refsingu eða lagaskylda að ungum föngum skuli haldið aðskildum frá eldri föngum. Stendur fyrirvari Íslands hvað þetta varðar við 37. grein samningsins því óbreyttur. Áréttað er að í lögum um fangelsi og fangavist er tekið fram að við ákvörðun um í hvaða fangelsi afplánun eigi að fara fram skuli m.a. taka tillit til aldurs fanga. Fangar undir 18 ára aldri eru fáir á Íslandi og er það ein ástæða þess að ekki hafa verið byggð sérstök unglingafangelsi.
374. Samkvæmt fangelsislögum eiga fangar í afplánunarfangelsum rétt á vinnu, námi, tómstundaiðkunum, útivist, líkamsrækt, heilbrigðis- og prestþjónustu, heimsóknum á heimsóknartímum og símtölum eftir því sem aðstæður leyfa. Heimila má föngum nám og vinnu utan fangelsisins. Fangi hefur rétt til að þiggja heimsókn nánustu vandamanna sinna á tilteknum viðtalstímum og rétt á símtölum utan fangelsis að því marki sem aðstæður leyfa ífangelsinu.
375. Hluta refsivistar má afplána á sérstökum stofnunum, til dæmis meðferðarstofnunum gegn vímuefnanotkun.
(iii) Refsing ungmenna, sérstaklega bann við dauðarefsingu og
lífstíðarfangelsi (37. grein (a))
376.Áður eru nefndar reglur almennra hegningarlaga um að reynt sé að beita ákærufrestun, frestun á ákvörðun refsingar eða skilorðsbindingu refsingar þegar unglingar eiga í hlut í refsimáli. Aldur hefur einnig áhrif á þyngd refsingar fyrir brot samkvæmt VIII. kafla hegningarlaganna en refsingar eru venjulega lægri þegar unglingar eiga í hlut. Heimilt er að færa refsingu niður úr lágmarki refsiákvæðis þegar brot er drýgt af manni sem er ekki fullra 18 ára að aldri og álíta má vegna æsku hans að full refsing sé ónauðsynleg eða skaðleg.
377. Unglingar undir 18 ára aldri verða aldrei dæmdir til lengri fangelsisvistar en 8 ára. Dauðarefsing er ekki heimil samkvæmt íslenskum lögum.
(iv) Líkamlegur og sálrænn bati (39. grein)
378. Hér er vísað til umfjöllunar um íslenska heilbrigðiskerfið að framan í VII. kafla skýrslu þessarar.
(c) Misnotkun barna. Líkamlegur og sálrænn bati og samfélagslegaðlögun (39. grein)
(i) Efnahagsleg misnotkun, þar með talin vinna barna (32. grein)
379. Margvísleg lagaákvæði eiga að koma í veg fyrir óhóflegt vinnuálag barna, þótt ekki sé um barnaþrælkun að ræða.
380. Barnaverndarnefnd er skylt samkvæmt 54. gr. barnaverndarlaga að hafa eftirlit með því að barni eða ungmenni sé ekki ofþjakað við þunga eða óholla vinnu, með löngum vinnutíma, vökum eða óreglulegum vinnuháttum.
381. Börn á skólaskyldualdri, þ.e. að 16 ára aldri, mega ekki stunda vinnu á starfstíma skólans, valdi hún því að nemandinn geti ekki rækt nám sitt sem skyldi eða notið nauðsynlegrar hvíldar, sbr. 56. gr. laga um grunnskóla. Mjög algengt að íslenskir unglingar frá 13 ára aldri vinni í skólaleyfum á sumrin, enda eru sumarfrí grunnskóla og framhaldsskóla almennt á bilinu 3-4 mánuðir. Flest sveitarfélög starfrækja sérstaka unglingavinnu á sumrin fyrir 13 og 14 ára unglinga, en hún felst einkum í margskonar hreinsunar- og garðyrkjuvinnu. Nokkuð algengt er að framhaldsskólanemar stundi aukavinnu samhliða námi til að afla sér vasapeninga.
382. Í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 fjallar X. kafli um vinnu barna og unglinga. Óheimilt er að ráða barn yngra en 14 ára gamalt til vinnu, nema störfin séu létt og hættulítil. Ekki má láta börn, 15 ára eða yngri vinna við hættulegar vélar og við hættulegar aðstæður. Á vegum Vinnueftirlits ríkisins er gefin út bæklingur sem sendur er öllum atvinnurekendum um hvað teljast létt eða hættulítil störf. Hægt er að senda Vinnueftirlitinu fyrirspurnir á þessu sviði svo og ábendingar ef reglur laganna eru brotnar. Vinnutími 14 og 15 ára barna má ekki fara fram úr venjulegum vinnutíma fullorðinna sem starfa í sömu starfsgrein og unglingar 16 og 17 ára mega ekki vinna lengur en tíu klukkustundir á dag. Þeir skulu hafa minnst tólf klukkustunda hvíld á sólarhring. Hvíldartími skal að jafnaði vera á tímanum milli klukkan 19 og 7. Brot gegn ákvæðum þessum varða sektum, nema þyngri refsing liggi við í öðrum lögum.
383. Samkvæmt lögræðislögum verður maður sjálfráða við 16 ára aldur og þar með ræður hann dvalarstað sínum og vinnu. Hann getur því gert vinnusamninga á eigin spýtur án samþykkis lögráðamanns. Skilyrði fjárræðis er 18 ára aldur og sú meginregla gildir að maður verður að hafa náð þeim aldri til þess að mega ráðstafa fjármunum sínum. Sú undantekning er þó gerð frá þessu að ófjárráða maður ræður fé sínu sem hann hefur þegar unnið sér inn með persónulegri vinnu sinni andlegri eða líkamlegri. Heimildin til að ráðstafa vinnulaunum sínum er ekki bundinn við sjálfræðisaldur né annan tiltekinn aldur. Ef um mjög mikið sjálfsaflafé er að ræða eða ef ófjárráða maður fer ráðlauslega með fé, getur yfirlögráðandi heimilað lögráðamanni að taka féð að nokkru leyti eða öllu til varðveislu.
(ii) Misnotkun ávana- og fíkniefna (33. grein)
384.Varsla og meðferð ávana- og fíkniefna er óheimil á Íslandi. Í lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni er talið með nánari hætti hvað flokkast undir ávana og fíkniefni. Inn- og útflutningur, sala, kaup, skipti, afhending, móttaka, framleiðsla tilbúningur og varsla þessara efna er bönnuð nema að því leyti sem undantekningar eiga við í tengslum við lyfsölu. Brot á ávana- og fíkniefnalögum varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 árum. Í 173. gr. a. almennra hegningarlaga er þung refsing lögð við fíkniefnasölu, en þar segir að hver sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi skuli sæta fangelsi allt að 10 árum. Sömu refsingu varðar að búa til, flytja inn eða út, kaupa, láta af hendi, taka við eða hafa í vörslum sínum ávana- og fíkniefni. Loks segir í 173. gr. b sömu laga að það varði sömu refsingu að taka við eða afla sér eða öðrum ávinnings af fíkniefnabrotum sem lýst er að framan.
385. Ísland er aðili að Alþjóðasamningi um ávana- og fíkniefni frá árinu 1961. Í undirbúningi er að fullgilda Alþjóðasamning gegn ólöglegri sölu fíkni- og skynvilluefna frá árinu 1988.
386. Eitt af markmiðum barnaverndarlaga er að barnaverndarnefndir vinni gegn hvers konar vímuefnaneyslu barna og ungmenna í ungdæmi sínu. Samkvæmt áfengislögum nr. 62/1969 er þetta einnig verkefni áfengisvarnanefnda. Skulu barnaverndarnefndir einnig stuðla að því að þeir sem selja, útvega eða veita börnum eða ungmennum vímuefni sæti ábyrgð samkvæmt lögum. Áður var nefnt í að ef barnaverndarnefnd telur að ekki verði hjá því komist að vista ungmenni gegn vilja þess á stofnun vegna þess að það stefnir eigin heilsu eða þroska í alvarlega hættu með vímuefnaneyslu þá getur nefndin leitað samþykkis dómsmálaráðuneytisins fyrir vistun ungmennis á sjúkrahúsi eða deild Unglingaheimilis ríkisins fyrir vímuefnaneytendur í samræmi við ákvæði lögræðislaga.
387. Árið 1991 var opnað í fyrsta skipti meðferðarheimili fyrir unga fíkniefnaneytendur á aldrinum 14-18 ára. Meðferðarheimilið er ríkisrekið og er ætlað að þjóna landinu öllu. Er unglingum í fíkniefnavanda boðið þar upp á átta vikna meðferð til að losna undan fíkn sinni og 18 vikna eftirmeðferð. Jafnframt er fjölskyldum unglinga boðið upp ráðgjöf. Meðferðarheimilið heyrir undir félagsmálaráðuneytið.
388. Forvarnarstarf fer fram á vegum heilbrigðisráðuneytisins í grunnskólum landsins gegn fíkniefnaneyslu, svo og gegn áfengisneyslu og tóbaksreykingum. Um allnokkurt skeið hefur einnig verið unnið að vímuefnavörnum í grunnskólum á vegum sveitarfélaganna. Sérstök fræðslumiðstöð í fíkniefnavörnum er starfrækt í Reykjavík, en að henni standa frjálsu félagasamtökin Vímulaus æska og Íslenskir ungtemplarar. Fjöldi annarra frjálsra félagasamtaka í landinu starfar að vímuefnavörnum.
389. Ekki er vitað um dæmi þess hér á landi að börn hafi unnið við framleiðslu fíkniefna, og í raun eru tilvik þar sem framleiðsla fíkniefna hefur átt sér stað mjög fágæt hér á landi, en flest fíkniefnabrot varða innflutning og sölu á fíkniefnum.
(iii) Kynferðisleg hagnýting og misnotkun (34. grein)
390.Í XXII. kafla almennra hegningarlaga sem fjallar um kynferðisbrot eru mörg ákvæði sem miða að því að vernda börn fyrir kynferðislegri misnotkun og þung refsing er lögð við slíkum brotum. Samkvæmt þeim varðar það fangelsi allt að 12 árum að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára. Önnur kynferðisleg áreitni varðar fangelsi allt að 4 árum. Það varðar fangelsi allt að 4 árum að tæla ungmenni á aldrinum 14 til 16 ára með blekkingum, gjöfum eða á annan hátt til samræðis eða annarra kynferðismaka. Allt að 6 ára fangelsi liggur við því að hafa samræði við barn sitt eða niðja og allt að 10 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára. Önnur kynferðisleg áreitni manns gagnvart barni sínu eða öðrum niðja varðar allt að 2 ára fangelsi og allt að 4 ára fangelsi ef barnið er yngra en 16 ára. Sambærileg refsivernd er einnig veitt kjörbörnum, stjúpbörnum, sambúðarbörnum eða ungmennum sem manni hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis.
391. Á síðasta áratug hefur aukist mjög umræða í þjóðfélaginu um kynferðislega misnotkun barna innan fjölskyldunnar og um aðstoð við börn sem verða fyrir slíkri misnotkun. Samhliða því hafa orðið miklar framfarir í rannsókn slíkra mála, einkum þannig að opinberir aðilar sýni þolendum nærgætni og skilning við rannsókn máls. Dómsmálum vegna kynferðislegra afbrota gegn börnum hefur fjölgað nokkuð. Í skýrslu sem kom út árið 1991 hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum og unglingum voru rannsökuð mál sem bárust stofnuninni á tímabilinu 1. janúar 1983 til 31. mars 1990. Þar kemur fram fjölgun mála vegna kynferðisafbrota gegn börnum, eða úr sex árið 1987 í 20 árið 1988 og 24 árið 1989. Meintur gerandi í meirihluta tilvika var faðir eða stjúpfaðir barns. Á árinu 1992 bárust samstarfshópi vegna kynferðisbrota á vegum Félagsmálastofnunar 43 mál, þar sem meintir þolendur voru samtals 60, 48 telpur og 12 drengir. Meðalaldur barnanna var 8 ár. Alls voru 12 mál kærð til Rannsóknarlögreglu ríkisins eða 28% málafjöldans. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur og Rannsóknarlögregla ríkisins hafa frá árinu 1991 haft með sér náið samstarf um meðferð kynferðisafbrotamála þar sem börn eiga í hlut.
392. Fjölgun mála sem varða kynferðisafbrot gegn börnum er ekki endilega talin þýða að slíkum brotum hafi fjölgað, heldur er nú mun opnari umræða um þessi mál en áður var. Samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna getur barnaverndarnefnd með úrskurði svipt, foreldra, annað eða bæði, forsjá barns ef barninu er misþyrmt, misboðið kynferðislega eða það má þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðulægingu á heimilinu. Einnig kemur fram sú skylda í barnaverndarlögum að tilkynna barnaverndarnefnd í því í umdæmi þar sem barn dvelst ef grunur vaknar um að barni sé misboðið eða aðbúnaði þess áfáttt, og á þetta þannig við ef grunur leikur á kynferðislegri misnotkun barns.
393. Það varðar fangelsi allt að 2 árum að stunda vændi sér við framfærslu. Það varðar enn þyngri refsingu eða fangelsi allt að 4 árum að hafa viðurværi sitt af lauslæti annarra eða að ginna, hvetja eða aðstoða ungmenni yngra en 18 ára til þess að hafa viðurværi sitt af lauslæti. Sömu refsingu varðar það einnig að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann hafi viðurværi sitt af lauslæti ef viðkomandi er yngri en 21 árs eða honum er ókunnugt um þennan tilgang fararinnar.
394. Klám er refsivert samkvæmt almennu hegningarlögunum og það varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 6 mánuðum að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum eða hafa þá opinberlega til sýnis svo og að efna til opinbers fyrirlestrar eða leiks sem er ósiðlegur á sama hátt. Sérstaklega er tekið fram að það varði sömu refsingu að láta af hendi við unglinga yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra slíka hluti.
(iv) Önnur misnotkun barna (36. grein)
395.Í íslenskum lögum eru ekki sérstök lagaákvæði sem leggja refsingu við annarri misnotkun barna en þegar hefur verið talið. Hins vegar er það almennt grundvallarsjónarmið laga um vernd barna og ungmenna að velferð barns sé höfð í fyrirrúmi og kveðið á um úrræði sem grípa má til ef henni er á einhvern hátt stefnt í hættu.
(v) Sala og brottnám barna og verslun með börn (35. grein)
396.Ekki eru ákvæði í íslenskri löggjöf sem leggja sérstaklega bann við sölu eða brottnámi barna. Í XXIV. kafla almennra hegningarlaga er fjallað um brot gegn frjálsræði manna og myndi sala og brottnám barna því tvímælalaust falla undir þau ákvæði. Þar segir m.a. í 226. gr. að hver sem sviptir annan mann frelsi sínu, skuli sæta fangelsi allt að 4 árum. Hafi frelsissviptingin verið framin í ávinningsskyni eða verið langvarandi, svo og ef maður hefur verið fluttur burt í önnur lönd eða fenginn mönnum á vald sem ekki eiga neinn rétt á því, þá er refsingin mun þyngri, eða fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum eða ævilangt. Aldrei hefur reynt á brot hér á landi þar sem börn eru brottnumin til sölu eða að komist hafi upp um skipulega verslun með börn. Hins vegar finnast dæmi þess að foreldrar sem ekki fara með forsjá barns hafi numið börn sín brott ólöglega en um það má vísa til umfjöllunar um 11. greinar samningsins að framan.
(d) Börn sem tilheyra hópum minnihluta eða frumbyggja (30. grein)
397. Íslendingar eru ein þjóð í einu og mjög afmörkuðu landi þar sem allir tala sömu tungu án teljandi mállýskumunar og deila sama menningararfi. Þjóðin er fámenn og hefur vegna legu landsins verið skýrlega afmörkuð án þess að blandast öðrum þjóðum. Þannig er íslenskt þjóðfélag í reynd tiltölulega einsleitt og engir minnihlutahópar til staðar hvað varðar þjóðhætti eða tungumál. Íslendingar eru afkomendur norskra landnámsmanna sem námu landið á 9. öld en landið var þá óbyggt. Því hafa aldrei verið til hópar frumbyggja á Íslandi.
398. Flóttamenn á Íslandi eru tiltölulega fáir en frá árinu 1956 hafa fimm hópar flóttamanna komið til landsins samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Samtals eru þetta 207 flóttamenn eða um 5 á ári að jafnaði. Á sama tíma hafa 45 ættingjar og venslamenn flóttamannanna komið til landsins. Í 343. málsgrein skýrslunnar að framan má sjá nánari sundurliðun á hvaðan flóttamenn hafa komið. Mjög fáir sem talist geta flóttamenn hafa lagt leið sína hingað til lands og eru umsóknir um hæli því fátíðar.
399. Alls voru 4.825 erlendir ríkisborgarar búsettir á landinu 1. desember 1993 og er það nokkur fækkun frá fyrri árum. Þar af voru Norðurlandabúar 1.657 eða um þriðjungur erlendu ríkisborgarana. Erlendir ríkisborgarar eru nú 1.8% af heildarmannfjölda landsins. Ef hins vegar er litið er á tölur yfir íslenska ríkisborgara fædda erlendis er talan nokkuð hærri. Af íslenskum ríkisborgurum búsettum á Íslandi voru 10.420 fæddir erlendis eða um 4% íslenskra ríkisborgara, og þar af er tæpur helmingur fæddur á hinum Norðurlöndunum. Að því ber að gæta að í tölunni yfir Íslendinga fædda erlendis eru taldir bæði þeir sem þar fæddust íslenskir ríkisborgarar og útlendingar sem hafa flust hingað til lands og gerst íslenskir ríkisborgarar. Er raunhæft að ætla, þegar rætt er um fjölda útlendinga hér á landi, að hann liggi á bilinu 2-4% mannfjöldans og er þá bæði tekið tillit til erlendra ríkisborgara hérlendis og útlendinga sem hafa flust hingað til lands og gerst íslenskir ríkisborgarar.
400. Fjöldi trúfélaga er í landinu eins og lýst er í umfjöllun um 14. grein samningsins að framan. Fólk í þeim er að langstærstu leyti Íslendingar og sker sig vart úr að nokkru leyti frá öðrum þjóðfélagshópum. Hvað varðar réttindi trúarbragðahópa til þess að játa og iðka eigin trú má vísa til áðurgreindrar umfjöllunar um 14. grein samningsins.