Fréttabréf fyrir stjórnendur ríkisstofnana, 7. febrúar 2000. 1. tbl. 2. árg.
1. tbl. 2. árg.
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri
Vefur: www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang: [email protected]
Framkvæmd fjárlaga árið 2000
Af hálfu fjármálaráðherra hafa nýlega verið lagðar fyrir ríkisstjórn ýmsar tillögur í þeim tilgangi að styrkja framkvæmd fjárlaga og festa í sessi vinnureglur um viðbrögð við umframútgjöldum og verklag við gerð fjárlaga og fjáraukalaga. Markmiðið er að tryggja heildarsýn yfir ríkisfjármálin og að samþykktir útgjaldarammar haldi, þannig að aukafjárveitingar verði í lágmarki.
Til þess að fylgja tillögum þessum eftir hafa m.a. verið gefnar út verklagsreglur um framkvæmd fjárlaga, rekstur og stjórnun ríkisstofnana í A-hluta. Markmiðið með reglunum er að áætlanagerð stofnana verði virkt stjórntæki og að stjórnendur stofnana grípi til aðgerða ef sýnt þykir að rekstur stefni fram úr þeim heimildum sem fjárlög ákveða. Ábyrgð stjórnenda á rekstrinum er skilgreind og mælt fyrir um þau úrræði sem ráðuneyti hafa gagnvart þeim sem fara fram úr heimildum.
Reglurnar skiptast í sex kafla. Fyrsti kaflinn fjallar um markmið reglnanna, útskýrir helstu hugtök sem stuðst er við og segir til um gildissvið reglnanna. Annar kaflinn tekur á skipulagi og verkaskiptingu milli ráðuneyta og stofnana. Þriðji kaflinn, og sá umfangsmesti, fjallar um með hvaða hætti staðið skuli að áætlanagerð stofnana; hvernig og hver beri ábyrgð á miðlun upplýsinga; hvernig staðið skuli að úthlutun af safnliðum; hvernig fara skuli með ófyrirséð útgjöld og hver skuli hafa eftirlit með ársáætlun, svo nokkur atriði séu nefnd. Fjórði kaflinn skilgreinir í hverju skyldur forstöðumanna liggi en fimmti kaflinn mælir fyrir um til hvaða úrræða ráðuneyti geti gripið gagnvart þeim sem fara fram úr heimildum. Í sjötta kafla er svo tiltekið að reglurnar gildi við framkvæmd fjárlaga árið 2000. Ætlunin er að endurskoða reglurnar í lok ársins og eftir atvikum setja þær þá í reglugerðarbúning.
Samhliða útsendingu verklagsreglnanna verða birtar reglur í Stjórnartíðindum um láns- og reikningsviðskipti ríkisstofnana í A-hluta sem ætlað er að takmarka lántökur stofnana og tryggja að mat á afkomu þeirra liggi ávallt fyrir.
Að síðustu er rétt að nefna að fjármálaráðherra hefur skipað nefnd til að gera tillögur um lagabreytingar er miði að því að samræma ákvæði laga um stjórnun einstakra ríkisstofnana, ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og fjárreiðulaganna. Markmiðið er að ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna ríkisstofnana verði tilgreint með skýrum hætti í lögum.
Tímaáætlun fjárlaga fyrir árið 2001
Fjármálaráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn verk- og tímaáætlun fjárlaga fyrir árið 2001. Helstu dagsetningar fram að framlagningu fjárlagafrumvarps eru eftirfarandi: Til 7. febrúar er skilafrestur á erindum stofnana til ráðuneyta. 28. febrúar til 3. mars skila ráðuneytin rammatillögum til fjármálaráðuneytisins. Áformað er að í lok mars ákveði ríkisstjórnin útgjaldaramma fyrir árið 2001 og móti stefnuna íríkisfjármálum til næstu fjögurra ára. Fyrrihluta júní er áformað að ráðuneytin skili útfærðum tillögum um skiptingu fjárveitinga á verkefni. Í ágúst verða efnahagslegar forsendur endurmetnar og tekið tillit til annarra nauðsynlegra breytinga og rammar endurmetnir, hafi forsendur breyst. Seinnihluta ágúst og fyrrihluta september er skrifuð greinargerð með frumvarpinu sem verður lagt fram í byrjun október.
Langtímaáætlanir stofnana í fjárlagafrumvarpi
Gögn vegna fjárlagagerðar voru nýlega send ráðuneytum sem koma þeim áfram til stofnana sinna. Miðað er við að stofnanir skili ráðuneytum tillögum fyrir 7. febrúar n.k. Sú nýbreytni er tekin upp að kalla jafnframt eftir upplýsingum um áætlaðar breytingar frá fjárlögum 2000 á bundnum útgjöldum árin 2002-2004. Hér er eingöngu um að ræða útgjöld sem rakin eru til lýðfræðilegra þátta, s.s. fólksfjölda, nemendafjölda og breytinga á aldurssamsetningu, nýlegrar lagasetningar sem ekki er áætlað að fullu fyrir í fjárlögum, samninga sem fjármálaráðuneytið hefur staðfest og annarra skuldbindinga, auk tímabundinna útgjalda sem þegar hafa verið ákveðin. Þess er óskað að hvorki verði áætlað fyrir eflingu á starfsemi sem fyrir er né nýrri starfsemi, þjónustu og framkvæmdum.
Miðað er við að hafa upplýsingarnar til hliðsjónar við stefnumörkun í ríkisfjármálum næstu ára og fjalla um þær í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2001. Ekki er gert ráð fyrir að ráðuneytin taki nauðsynlega skýra afstöðu til áætlananna að þessu sinni en stefnt er að því að svo geti orðið á næstu árum. Það er í samræmi við stefnu ríkisins um fyrirkomulag samskipta milli ráðuneyta og stofnana undir formerkjum árangursstjórnunar í ríkisrekstri og almennan vilja forstöðumanna ríkisstofnana að greint verði frá áætluðum fjárveitingum tvö til þrjú ár fram fyrir fjárlög ársins.
Nýtt innkaupakort stuðlar að hagkvæmari innkaupum
Samningur um notkun innkaupakorts gerður á milli fjármálaráðuneytis og
EUROPAY Ísland
Fimmtudaginn 13. janúar s.l. undirrituðu Geir H. Haarde, fjármálaráðherra og Ragnar Önundarson, forstjóri EUROPAY Ísland, samning um að taka í notkun innkaupakort fyrir ríkisstofnanir. Ráðuneytið ákvað að ganga til samninga við Europay Ísland á grundvelli tilboðs fyrirtækisins í útboði Ríkiskaupa vegna innkaupakortanna og er samningurinn til fjögurra ára. Í framhaldi af undirritun samningsins mun Europay Ísland hanna og þróa öflugt innkaupakortakerfi sem ráðuneyti og ríkisstofnanir geta nýtt sér.
Með sérstökum innkaupakortum fyrir ríkið er stefnt að því að einfalda greiðsluferil reikninga, minnka umsýslukostnað við smáinnkaup og auka sýn stjórnenda yfir innkaup. Þá mun innkaupakortið styrkja rammasamningskerfi Ríkiskaupa og þannig stuðla að hagkvæmari innkaupum ríkisins. Innkaup eru stór þáttur í rekstri ríkisins. Áætlað er að 25-30% af öllum útgjöldum ríkisins falli undir opinber innkaup, eða 45-55 milljarðar króna. Hagkvæmari innkaup og innkaupaaðferðir spara ríkinu því umtalsverða fjármuni. Hagræðing söluaðila felst í því að umsýslukostnaður minnkar í viðskiptum við ríkisstofnanir.
Smáinnkaup og fjöldi smáreikninga
Í áliti nefndar fjármálaráðherra sem fjallaði um ávinning ríkisins af innkaupakortum, kemur fram að smáinnkaup eru meirihluti innkaupa þeirra stofnana sem eru í bókhaldsþjónustu Ríkisbókhalds. Af heildarfjölda reikninga voru 91% vegna innkaupa að verðmæti undir 50.000 kr. Hins vegar voru þessir reikningar aðeins 36% af heildarverðmæti innkaupa. Stefnt er að því að innkaupakortin leiði til þess að reikningum vegnainnkaupa fækki stórlega með því að aðeins sé greiddur einn reikningur um hver mánaðamót. Dæmi eru um að tiltölulega smáar stofnanir hafi á síðasta ári notað meira en 1000 beiðnir til smáinnkaupa. Dæmigerðan greiðsluferil reikninga stofnunar í greiðsluþjónustu Ríkisféhirðis má sjá á myndinni.
Kostnaður við mismunandi tilhögun greiðslna
Kostnaður við eiginlega greiðslu reikninga er mjög mismunandi. Þegar tekið er tillit til tíma við umsýslu, t.d. skráningu í sjóðsbók og bókhald, er mikill munur á heildarkostnaði. Dýrast er að greiða með ávísun, þá bankalínu og síðan debetkorti.
Niðurstöður nefndar fjármálaráðherra sýna að greiðslur með innkaupakorti og gjaldkerakerfi ríkisfjárhirslu kosta álíka mikið og eru mun ódýrari en fyrrnefndar leiðir. Sé hins vegar litið á fjölda reikninga, sýnir sig að innkaupakortin eru mun hagkvæmari þar sem reikningum fækkar mjög.
Aukið öryggi og hagkvæmni
Innkaupakort eru kreditkort sem ætluð eru opinberum aðilum til nota við smáinnkaup. Miðað er við smáupphæðir, t.d. innan við 50.000 kr., en einnig er heimilt að nota kortin í sérstökum tilfellum til stærri innkaupa. Kortið verður alþjóðlegt EUROCARD / MasterCard kreditkort. Kortin eru gefin út fyrir hvern starfsmann sem að einhverju leiti annast innkaup stofnunarinnar. Munurinn á innkaupakorti og venjulega kreditkorti sem einstaklingar hafa, er sá að hægt er að takmarka notkun þess, t.d. eftir tegund söluaðila og við kaup á vörum sem notaðar eru í almennum rekstri. Upplýsingar með hverri færslu verða meiri og verður þeim safnað saman í einn gagnagrunn sem unnt verður að vinna úr skýrslur um innkaup ríkisins. Þannig er unnt að greina innkaup einstakra aðila með auðveldari hætti en áður þekktist og vinna að hagræðingu og samræmingu innkaupa.
Umsýslukostnaður lækkar verulega
Rannsóknir sýna að umsýslukostnaður við innkaup á smávöru getur numið frá fjórðungi og allt að margföldu verði hennar. Ef til dæmis vara eða þjónusta kostar í kringum 500 krónur gegn afhendingu beiðni og reikningur síðan greiddur um bankalínu, má áætla að umsýslukostnaður nemi a.m.k. verði vörunnar, þ.e. 500 krónum. Talið er að lækka megi þennan kostnað með tilkomu innkaupakortanna um 55-75% fyrir utan það að reikningum fækkar stórlega.
Ríkið greiðir engin gjöld vegna notkunar innkaupakortanna
Samkvæmt samningnum greiða ríkisstofnanir engin gjöld vegna notkunar kortanna, svo sem færslugjöld, stofngjald o.s.frv. Hagur EUROPAY Íslands byggir á því að með samningnum beini ríkið viðskiptum sínum til fyrirtækisins auk þess sem hingað til hefur ekki tíðkast að ríkisstofnanir noti kreditkort í viðskiptum sínum.
Samkvæmt samningi fjármálaráðuneytisins og Europay á Íslandi er gert ráð fyrir að í fyrstu verði unnið frumverkefni, sem nokkrar stofnanir auk birgja hafa verið valdar til þátttöku í. Að loknu frumverkefni er gert ráð fyrir að ríkisstofnunum verði gert kleift að taka upp innkaupakort samkvæmt samningi þessum. Framkvæmd samningsins af hálfu ríkisins verður í höndum Ríkiskaupa.
Skýrsla fjármálaráðuneytis um "Starfsumhverfi ríkisstarfsmanna við aldahvörf"
Í síðasta tölubuaði fréttabréfsins var kynnt könnunin sem gerð var á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna. Fjöldi þeirra stofnana sem uppfylltu þau skilyrði að hafa yfir 40 starfsmenn og a.m.k. 50% þátttöku starfsmanna í könnuninni, voru alls 81. Þessar stofnanir hafa átt þann kost að fá sérvinnslu á völdum spurningum fyrir sína stofnun.
Nú um miðjan janúar hafa 44,4% þessara stofnana notað þetta einstaka tækifæri sér að kostnaðarlausu. Þar með eru það 55,6% sem enn hafa ekki beðið um sérvinnslu.
Forstöðumenn þessara stofnana eru hér með hvattir til að hafa samband við starfsmannaskrifstofu fjármálaráðu-
neytisins og biðja um sérvinnslu fyrir sína stofnun. Um leið eru þeir hvattir til að kynna niðurstöður könnunarinnar fyrir starfsmönnum sínum og huga jafnframt að úrbótum þar sem þeirra er þörf.
Túlkun á kjarasamningum
Sérstakir frídagar: vinnudagur, frídagur eða gefið frí
Við uppgjör á vinnu vaktavinnumanna um jól og nýár koma gjarnan upp sömu spurningarnar um hvernig með skuli fara. Síðustu jól og áramót voru þó sérstök að því leyti að þau bar upp á helgi. Þar af leiðandi skal ekki bæta þeim starfsmönnum jóladag, 2. jóladag, og nýársdag sem ekki áttu merktan vinnudag þá daga.
Hér á eftir verður fjallað um vinnu og/eða frí vaktavinnumanna sem fá uppgjör fyrir helgidagavinnu samkvæmt gr. 2.6.9 í kjarasamningi SFR og sambærilegum greinum í öðrum kjarasamningum, þ.e. vaktavinnumenn sem hafa valið greiðslu yfirvinnu- eða stórhátíðakaups fyrir vinnu á sérstökum frídögum en fá ekki eða eiga ekki kost á 88 stunda helgidagafríi árlega.
Í 1. mgr. samningsgreinarinnar er fjallað um vinnu á sérstökum frídögum. Fyrir slíka vinnu skal greiða yfirvinnu- eða stórhátíðakaup, þó aldrei minna en 8 klst. fyrir hvern merktan vinnudag fyrir fullt starf. Aðfangadagur jóla og gamlársdagur reiknast sem hálfir frídagar og er lágmarksgreiðsla því 4 klst. Ef vakt skv. reglubundinni vaktskrá er styttri en 8 klst. hjá starfsmanni í fullu starfi, skal greiða honum það sem upp á vantar á einföldu yfirvinnukaupi, eins þó um stórhátíðardag sé að ræða. Greiða skal hlutfallslega fyrir hlutastarf.
Uppgjör vegna matar- og kaffitíma á sérstökum frídögum er hið sama og um aukavakt væri að ræða og greiðast 12 mín. á hverja klst. sem unnin er skv. gr. 2.6.11.
Ef vakt hefur verið stytt eða felld niður vegna frídagsins, kemur frí í stað greiðslu. Algengt er að starfsmenn telji að þeir eigi að halda fullri greiðslu fyrir daginn þótt gefið sé frí en það er ekki rétt. Yfirvinnugreiðslan er einmitt tilkomin af því að starfsmaðurinn á ekki frí þennan dag og ef hann fær frí, fellur greiðslan niður á móti fyrir jafnmargar klukkustundir og frí er gefið.
Í 2. mgr. umræddrar samningsgreinar er fjallað um frídag sem ber upp á sérstakan frídag annan en laugardag og sunnudag. Fyrir slíka daga skal greiða starfsmanni í fullu starfi 8 klst. á yfirvinnukaupi, eins þó um stórhátíðardag sé að ræða. Skiptir þá ekki máli þótt starfsemi liggi niðri þann dag. Aðfangadagur jóla og gamlársdagur bætast að hálfu. Greitt skal hlutfallslega fyrir hlutastarf, þ.e. greiða skal hlutastarfsmanni meðalstundafjölda í stað 8 klst.
Dæmi: Starfsmaður í 60% starfi á frídag á aðfangadag. Hans bæting er (8 : 2) x 0,6 = 2,4 st. Þetta er það sem kallað er bæting í daglegu tali. Slíkir tímar taka ekki með sér viðbótargreiðslur vegna 12-mín. skv. gr. 2.6.11 né ferðatíma o.þ.h. Starfsmaður getur raunar valið um greiðslu yfirvinnukaups eða frís síðar í jafn margar klst.
Bætingin og greiðsla yfirvinnukaups miðar hvort tveggja að því að stytta vinnuár vaktavinnumannsins til jafns við vinnuár dagvinnumanns. Með greiðslu yfirvinnukaups má líta svo á að vöktum sé breytt í aukavaktir en bætingin bætir fyrir vinnu í þeirri sömu viku sem er umfram vikulega vinnuskyldu.
Dæmi: Vaktavinnumaður í fullu starfi vinnur 5x8 st. vaktir í sömu viku en á frídag á mánudegi sem ber upp á 1. maí. Með greiðslu 8 st. yfirvinnukaups í bætingu fyrir þann dag má segja að verið sé að breyta einni af vöktunum 5 sem hann skilar í þeirri viku, í aukavakt vegna þess að vikuleg vinnuskylda hans er 32 st. þessa viku, alveg eins og hjá dagvinnumanninum.
_______________
Orlofsáætlun
Þýðingarmikið atriði við skipulagningu orlofs hjá hverri stofnun er að leggja fram orlofsáætlun starfsmanna strax í upphafi árs en hún skal liggja fyrir frágengin í síðasta lagi einum mánuði fyrir upphaf orlofstímabils sbr. gr. 4.5.1 í kjarasamningum ríkisstarfsmanna og sambærilegar greinar. Einungis á þennan hátt geta yfirmenn stýrt orlofstöku starfsmanna sinna og jafnframt haft yfirsýn yfir hvenær þeir fara í orlof.
Tímabil sumarorlofs er frá 15. maí til 30. september hjá flestum opinberum starfsmönnum en hjá starfsmönnum sem eru innan ASÍ er tímabil sumarorlofs ýmist frá 2. maí til 30. september eða frá 1. júní til 30. september. Opinberir starfsmenn eiga rétt á að fá 160 vinnuskyldustunda orlof sitt á sumarorlofstímabilinu (í sumum stéttarfélögum jafnvel meira) og allt að fullu orlofi á sama tíma, verði því við komið vegna starfs stofnunarinnar.
Athyglisverðir dómar
Í síðasta fréttabréfi var fjallað ítarlega um tvo dóma Héraðsdóms Reykjavíkur, þ.e. annars vegar Þ.R. gegn Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann (SÁÁ) og hins vegar J.I.Ó. gegn Heilsugæslunni í Garðabæ. Í báðum málunum var deilt um það hvort uppsögn vinnuveitanda á vinnusambandi hefði verið lögmæt. Niðurstaða fyrrnefnda dómsins var sú að uppsögn Þ.R. úr starfi hjá sjálfseignarstofnuninni SÁÁ hefði verið ólögmæt þar sem málsmeðferðar-reglna starsfmannalaga hafði ekki verið gætt og ekki hefði verið tilefni til uppsagnar. Síðarnefndi dómurinn var sýknudómur, sem byggði á því að J.I.Ó. hefði verið sagt upp starfi hjá heilsugæslunni meðan á reynslutíma stóð og að heilsugæslan hefði rökstutt uppsögnina nægilega með því að vísa til þess að hún ætti sér stað á reynslutíma og væri í samræmi við umsaminn uppsagnarfrest.
Dómunum tveimur var áfrýjað til Hæstaréttar. Hæstiréttur féllst á niðurstöðu héraðsdóms um að uppsögn J.I.Ó. úr starfi hjá heilsugæslunni hefði verið lögmæt samkvæmt 43. gr. starfsmannalaga. Þá féllst Hæstiréttur á þá niðurstöðu héraðsdóms að uppsögn Þ.R. úr starfi hjá SÁÁ hefði byggt á efnislega röngum ásökunum en öfugt við héraðsdóm byggði Hæstiréttur ekki á því að málsmeðferðar-reglur starfsmannalaga hefðu verið brotnar. Þá vísaði Hæstiréttur til ákvæðis í ráðningarsamningi aðila um gagnkvæma heimild til uppsagnar með tilteknum fresti og tók fram að SÁÁ hefði verið frjálst að neyta þeirrar heimildar að segja Þ.R. upp störfum gegn greiðslu launa á uppsagnarfresti enda væri heimildin ekki háð því að Þ.R. bryti af sér í starfi. Hæstiréttur tók ennfremur fram að almennar tilvísanir ráðningarsamnings og kjarasamnings til starfsmannsmannalaga breyttu engu í þessu sambandi. Dóma Hæstaréttar ásamt reifunum er hægt að nálgast á heimasíðu Hæstaréttar.
_______________
Aðilar deildu um það hvort kennara hefði verið sagt upp störfum hjá Fjölbrauta-skóla Vesturlands með lögmætum hætti í máli nr. E-1688/1999 hjá Héraðsdómi Reykjavíkur: Þ.G. gegn Fjölbrautaskóla Vesturlands. Sýknudómur var kveðinn upp 22. desember 1999.
Skólaárið 1997 - 1998 var Þ.G. ráðin í starf framhaldsskólakennara samkvæmt tímabundnum ráðningarsamningi með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Fljótlega eftir að Þ.G. hóf störf, fór að bera á því að nemendur kvörtuðu undan henni. Að sögn aðstoðarskólameistara kvörtuðu nemendur helst yfir því að námsmat yfir önnina væri í ósamræmi við kennsluáætlun og að Þ.G. fengist ekki til að ræða á hvaða hátt námsmatið hefði breyst eða hvernig það myndi breytast. Þá kvörtuðu nemendur yfir því að kennsla Þ.G. væri ekki gagnvirk, þ.e. að hún skrifaði töluvert af texta námsbókarinnar orðrétt upp á töflu og að spurningar frá nemendum virtust ekki vel þegnar. Ennfremur sögðu nemendur að þeim væri ómögulegt að átta sig á því hvað væru aðalatriði og hvað aukaatriði í huga Þ.G.
Að sögn skólameistara hlutaðist hann til um að kennarar við sömu deild og Þ.G. reyndu að leiðbeina henni við kennsluna og aðstoða hana við að ná tökum á samskiptum við nemendur en án árangurs. Aðstoðarskólameistari reyndi einnig að leiðbeina Þ.G. og lagði til við hana breytingar á kennsluaðferðum en, að hans sögn, urðu engar breytingar á kennsluaðferðum hennar. Eftir því sem leið á önnina héldu kvartanir áfram að berast frá nemendum. Upp úr miðri önn barst listi með nöfnum 73 nemenda. Töldu þeir kennslu ófullnægjandi og kröfur óraunhæfar. Þegar hér var komið, taldi skólameistari að það væri borin von að Þ.G. gæti kennt áfram við skólann og tilkynnti henni að ráðningar-samningi hennar væri rift frá og með 1. desember en að starfslok skyldu vera þegar haustönn lyki. Þ.G. fékk greidd laun til febrúarloka 1998, þ.e. sem nam þriggja mánaða uppsagnarfresti.
Þ.G. hélt því fram að um ólögmæta uppsögn hefði verið að ræða þar sem ákvæði 21. og 44. gr. starfsmannalaga hafi verið brotin með því að andmælaréttur sinn væri virtur að vettugi, sér hafi ekki verið veitt áminning eða gefinn kostur á að bæta ráð sitt. Skólameistari mótmælti því að umrædd ákvæði ættu við um uppsögnina og sagði að samskipti Þ.G. við nemendur hefðu verið veikleiki hennar og að uppsögnin væri því ekki vegna ávirðinga í starfi.
Í forsendum dómsins sagði að Þ.G. hefði ekki tekist að sýna fram á að um uppsögn hennar skyldi fara eftir ákvæðum 44. gr. starfsmannalaga. Þá sagði að hafa bæri í huga að Þ.G. hefði nýlega aflað sér kennsluréttinda og að um frumraun hennar á því sviði hafi verið að ræða. Að þessu virtu taldi dómurinn að skólameistara hafi eins og á stóð verið heimilt að nýta sér skýr ákvæði í ráðningarsamningi um uppsögn hans.
Spurningum svarað - Starfslok
Rétt er að vekja athygli á því ákvæði starfsmannalaganna í 43. grein að skylt er að segja starfsmanni upp störfum frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri.
Þetta ákvæði gildir um alla starfsmenn ríkisins óháð stéttarfélagsaðild. Uppsögn ber að miða við að starfslok verði næstu mánaðamót eftir að starfsmaður nær 70 ára aldri. Verði starfsmaður t.d. sjötugur 10. apríl, skal honum sagt upp störfum fyrir lok janúar þannig að uppsögnin taki gildi í lok apríl.
Áréttað skal að uppsagnarfresturinn er ekki alltaf þrír mánuðir. Samkvæmt kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ getur uppsagnarfrestur verið allt að sex mánuðir. Þannig verður að taka mið af þeim uppsagnarfresti sem gildir um hvern og einn þegar starfsmanni er sagt upp störfum vegna aldurs.
Spurningum svarað - Veikindi barna
Í 7. gr. reglugerðar um veikindaforföll starfsmanna ríkisins nr. 411/1989 og í kjarasamningum ASÍ er fjallað um veikindi barna yngri en 13 ára. Þar kemur fram, að öðru foreldri er heimilt að vera frá vinnu í samtals 7 vinnudaga árlega vegna veikinda barna sinna undir 13 ára aldri, enda verði ekki annarri umönnun við komið.
Þetta þýðir að leyfi vegna veikinda barna er 56 stundir á ári miðað við fullt starf. Starfsmaður í hálfu starfi á þannig 28 stundir árlega. Oft er spurt um veikindi barna í orlofi foreldra. Ítrekað skal að heimildin tekur aðeins til fjarveru frá vinnu.
Ýmislegt fréttnæmt - Hugbúnaðarleyfin í lag!
Væntanlega hafa nú allir forstöðumenn ríkisstofnana fengið í hendur skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í desember sl. með heitinu Um lögmæti hugbúnaðar hjá ríkisaðilum. Endurskoðun upplýsingakerfa. Skýrslan greinir frá niðurstöðum úr könnun hjá ríkisaðilum á því hverjir hafa lögmætan hugbúnað á tölvum sínum.
Af heildarsvörum má ráða að leyfi er til staðar fyrir 40% af þeim hugbúnaði sem könnunin náði til. Lögmæti er óljóst fyrir 19% og óþekkt fyrir 32% en ólögmætur hugbúnaður nemur 8,8% og er þar með talinn sá hugbúnaður sem svarendur segjast ætla að kaupa leyfi fyrir sem og hugbúnaður án skýringa.
Í samningi menntamálaráðherra við Microsoft um íslenskun á stýri-kerfinu Windows '98, sem undirritaður var fyrir um það bil ári, skuldbatt ríkisstjórnin sig til að gera sérstakt átak til að útrýma ólöglegum hugbúnaði úr ríkisstofnunum fyrir árslok 1999. Óhjákvæmilega hafa nú efndir þess samnings dregist nokkuð. Ber því nauðsyn til að hraða aðgerðum til þess að við hann verð1 staðið að öðru leyti. Það er sjálfsagður hlutur sem ekki ætti að þurfa frekari orðræður um.
Eftir könnun Ríksiendurskoðunar er staða mála öllum ljós. Misskilningi um eðli hugbúnaðarleyfa hefur verið eytt. Menn hafa fengið í hendur tæki og aðferðafræði til að halda sínum málum í lagi framvegis. Í hverri stofnun þarf nú að setja verklagsreglur sem tryggi að ávallt séu fyrir hendi gild leyfi fyrir öllum uppsettum hugbúnaði.
Svo vitnað sé í fréttabréf RUT-nefndar frá því um miðjan janúar, þá er álíka fjarstæða að nota hugbúnað sem ekki hefur verið greitt fyrir tilskilið gjald og það væri að reka ríkisbifreiðir á stolnu eldsneyti.
Ýmislegt fréttnæmt - Ríkisstofnun til fyrirmyndar
Fjármálaráðherra skipaði í desember sl. nefnd til að veita viðurkenningu til ríkisstofnunar sem skarar fram úr og er til fyrirmyndar í starfsemi sinni. Viðurkenningin er nú veitt í þriðja skiptið. Árið 1996 hlaut Kvennaskólinn í Reykjavík viðurkenninguna og Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra í Reykjanesi árið 1998. Nefndin sendi nýlega spurningalista til allra stofnana og óskaði eftir svörum fyrir 14. febrúar nk. frá þeim sem vilja koma til greina. Stjórnendur stofnana eru hvattir til að bregðast vel við og taka þátt þótt þeir geti ekki svarað öllum spurningunum. Leifur Eysteinsson í fjármálaráðuneytinu veitir allar nánari upplýsingar í síma 560-9145 eða með tölvupósti: [email protected].
Athygli er vakin á - Starfsreglur
Sérstakar reglur eru í gildi um Starfsmenntunarsjóð embættismanna en aðild að sjóðnum eiga t.d. flest allir sem Kjaradómur og kjaranefnd ákvarðar laun fyrir og þeir sem standa utan stéttarfélaga. Í reglunum kemur m.a. fram hvaða kostnaður er styrkhæfur, hvaða fjárhæðir er mögulegt að sækja um og hverjir geti fengið styrki úr sjóðnum. Umsóknum skal skilað til Starfsmenntunarsjóðs embættismanna, fjármálaráðuneytinu, Arnarhváli, 150 Reykjavík.
Frá félagi forstöðumanna ríkisstofnana
Endurmenntun og símenntun eru hugtök sem æ oftar heyrast í nútímasamfélagi. Fastur þáttur í rekstri starfsmanna fyrirtækja og stofnana er endurmenntun starfsmanna. Flestar stofnanir senda starfsmenn sína reglulega á námskeið, oftast tengd starfi stofnana sinna. E.t.v. hefur minna farið fyrir endurmenntun sjálfra forstöðumanna stofnananna. Á því er nú að verða bragarbót.
Í lok nóvember á síðastliðnu ári hélt Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) ráðstefnu þar sem m.a. voru til umræðu breyttar kröfur til forstöðumanna ríkisstofnana. Kom fram hjá fyrirlesurum að krafa um símenntun yrði stöðugt áleitnari. Í framhaldi af þeirri ráðstefnu hafði fjármálaráðuneytið forgöngu um að endurmenntun forstöðumanna var tekin til athugunar og fundir haldnir með fulltrúum stjórnar félagsins. Kom þar fram mikill vilji af hálfu fundarmanna að tekið yrði myndarlega á þessum málum.
Nú hefur Geir Haarde fjármálaráðherra sett á fót stýrihóp skipaðan tveim fulltrúum Félags forstöðumanna ríkisstofnana, þeim Magnúsi Jónssyni veðurstofustjóra og Skúla Eggert Þórðarsyni skattrannsóknarstjóra og tveim fulltrúum fjármálaráðuneytisins, þeim Hauki Ingibergssyni forstjóra Fasteignamats ríkisins og Gunnari Björnssyni skrifstofustjóra í því ráðuneyti. Hópnum er ætlað að móta tillögur um hvernig megi bæta stjórnunarþekkingu og leiðtogahæfileika forstöðumanna ríkisstofnana. Munu tillögurnar m.a byggja á því að nú eru auknar kröfur gerðar til forstöðumanna sem stjórnenda, frumkvöðla og leiðtoga. Ætlunin er að gera tilraun sem fellst í því að hópi forstöðumanna verði séð fyrir einstaklingsbundinni endurmenntun og þjálfun sem standi í eitt ár, undir stjórn áðurgreinds stýrihóps. Gert er ráð fyrir að viðkomandi forstöðumaður og leiðbeinandi vinni sameiginlega að því að greina á hvaða sviðum forstöðumaður þarf að bæta stjórnunarþekkingu sína og færni. Í framhaldi af því verði gerð áætlun um hvernig skuli standa að úrbótum.
Áform eru um að gerður verði rammasamningur við tvö ráðgjafafyrirtæki um hvernig skuli standa að framkvæmd þessarar einstaklingsfræðslu og er reiknað með að tilraun þessi standi í rúmt ár. Að henni lokinni mun verða tekin saman skýrsla til fjármálaráðherra og honum gerð grein fyrir niðurstöðum tilraunarinnar. Kostnaður mun skiptast milli viðkomandi fagráðuneytis og stofnunar eftir fyrirfram markaðri áætlun.
Hér er um athyglisverða nýjung að ræða sem ekki hefur staðið æðstu stjórnendum ríkisstofnana til boða en fellur vel að hugmyndum félagsmanna um úrbætur í endurmenntunarmálum þeirra sjálfra. Bindur Félag forstöðumanna ríkisstofnana miklar vonir við að starf þetta muni bera árangur. Auk þess að hafa umsjón með hinni einstaklingsbundnu þjálfun er stýrihópnum ætlað það hlutverk að koma með aðrar tillögur um skipulega fræðslu fyrir forstöðumenn ríkisstofnana. Ábendingar og hugmyndir stjórnenda ríkisstofnana um þessi mál verða vel þegnar.
Skúli Eggert Þórðarson
varaformaður FFR