Fréttabréf stjórnenda ríkisstofnana 17. september 2010
3. tbl. 12. árg.
Útgefið 17. september 2010
Útgefandi: Fjármálaráðuneytið
Ábyrgðarmaður: Ráðuneytisstjóri
Vefur: www.fjarmalaraduneyti.is
Tölvupóstfang: [email protected]
Kynjuð hagstjórn
Fyrsta verkefnið í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð var unnið í Ástralíu árið 1984. Síðan þá hafa yfir 50 lönd tekið upp kynjaða hagstjórn og nú hefur Ísland bæst í hópinn. Sem stendur eru öll ráðuneyti að vinna tilraunaverkefni sem kynnt verða í fjárlögum 2011 og niðurstöður verkefnana verða í fjárlögum 2012.
En hvað felst í kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð?
Til að fræðast nánar um það er tilvalið að halda kynningarfundi í ráðuneytum og stofnunum. Um er að ræða klukkustundarlanga kynningu þar sem farið er yfir hugmyndafræði kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar, söguna á bakvið hana og af hverju hún er gagnlegt tæki í vegferð okkar í átt að jafnréttissamfélagi.
Til að bóka kynningu, vinsamlegast hafið samband við Katrínu Önnu Guðmundsdóttur verkefnisstjóra hjá fjármálaráðuneytinu, [email protected]. Nánari upplýsingar er einnig að finna á vef fjármálaráðuneytisins.
Launahækkanir – kyrrstaða?
Hagstofan birti í síðustu viku vísitölu launa á 2. ársfjórðungi 2010. Þar kemur fram að laun hækkuðu um 1,2% milli ársfjórðunga sem má að mestum hluta rekja til launaþróunar á almennum vinnumarkaði. Þar hækkuðu laun um 1,5% en laun opinberra starfsmanna (ríkis og sveitarfélaga) um 0,4% að meðaltali.
Frá fyrra ári hækkuðu laun um 4,6%, þar af um 5,7% á almennum markaði og um 1,9% hjá opinberum starfsmönnum.
Hækkunin, hvort sem er á almennum markaði eða opinberum, má að mestu rekja til kjarasamninga sem komu til framkvæmda á tímabilinu. Hvað starfsmenn ríkisins varðar hækkuðu mánaðarlaun sem voru lægri en 285 þúsund um 6.500 kr. og laun að 310 þúsundum hækkuðu um 1.500 - 5.500 kr. eftir launabili. Þessi hækkun náði nær eingöngu til félagsmanna BSRB og ASÍ, sem á annað borð voru með lægri taxta en 310 þúsund.
Það má í raun segja að 0,4% hækkun milli ársfjórðunga sé kyrrstaða og bendir þetta til að launaskrið (-breytingar) opinberra starfsmanna sé ekkert.
Seinni könnun um einelti
Niðurstöður starfsumhverfiskönnunnar, sem lögð var fyrir haustið 2006, leiddu í ljós að tæp 17% ríkisstarfsmanna töldu sig hafa orðið fyrir einelti á vinnustað. Það sýndi að brýn þörf var á markvissri fræðslu til stofnana um einelti og hefur starfsmannaskrifstofan m.a. staðið fyrir fundum og útgáfu fræðsluefnisins í framhaldinu. Einnig var ákveðið að standa fyrir tveimur sérstökum könnunum um einelti. Í þeirri fyrri, sem lögð var fyrir árið 2008 var spurt með nákvæmari hætti en áður um tilurð og tíðni eineltis. Seinni könnuninni verður lögð fyrir nú um miðjan september. Henni er ætlað að meta árangur þeirrar eineltisfræðslu sem fjármálaráðuneytið hefur staðið fyrir. Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar strax og þær liggja fyrir.
Fjármálaráðuneytið hefur gefið út bækling um „Einelti á vinnustað – leiðbeiningar fyrir stjórnendur“. Bæklinginn ásamt leiðbeiningum um varnir gegn einelti er að finna á vef ráðuneytisins.
Norræn starfsmannaskipti
Umsóknarfrestur til þess að sækja um styrk til starfsmannaskipta frá Norrænu ráðherranefndinni fyrir árið 2011 er til 30. nóvember 2010.
Upplýsingar um starfsmannaskiptin er að finna á vefsíðu fjármálaráðuneytisins en þar er meðal annars að finna markmið og tilgang Norrænu starfsmannaskiptana ásamt skýrslum frá styrkþegum. Umsóknir um styrk skulu sendast til fjármálaráðuneytisins. Frekari upplýsingar veitir Ásta Lára Leósdóttir, [email protected].
Frá Alþingi
Á Alþingi 2009 - 2010 voru lögð fram nokkur stjórnarfrumvörp sem varða starfsemi og starfsmannamál ríkisstofnana og voru samþykkt sem lög frá Alþingi.
Lög um nýjar stofnanir og sameiningu eldri stofnana í nýjar:
- Lög nr. 38/2010 um Íslandsstofu.
- Lög nr. 77/2010 um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.
- Lög nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara.
Lög sem fela í sér breytt skipulag og tilfærslu á starfsemi milli stofnana:
- Lög nr. 136/2009 um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum. (Landið eitt skattumdæmi)
- Lög nr. 98/2010 um breytingu á varnarmálalögum, nr. 34/2008. (Varnarmálastofnun lögð niður)
Önnur lög:
- Lög nr. 27/2010 um framhaldsfræðslu.
- Lög nr. 48/2010 um breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga.
- Lög nr. 51/2010 um breyting á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, með síðari breytingum.
- Lög nr. 59/2010 um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum.
- Lög nr. 81/2010 um breytingu á lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum.
- Lög nr. 86/2010 um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og fleiri lögum (siðareglur).
Frumvörp sem lögð voru fram og hafa ekki verið afgreidd:
- Frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum.
- Frumvarp til laga um heilbrigðisstarfsmenn.
- Frumvarp til laga um rannsókn samgönguslysa.
- Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, o.fl.
- Frumvarp til laga um Vinnumarkaðsstofnun.
- Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, með síðari breytingum.
- Frumvarp til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála.
- Frumvarp til laga um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála.
Önnur mál er fram komu á Alþingi og varða starfsmannamál ríkisins:
- Starfsráðningar í ráðuneytum.
- Aðstoðarmenn ráðherra og tímabundnar ráðningar.
- Ávinningur við sameiningu ríkisstofnana.
- Fjöldi starfa hjá ríkinu.
- Fjöldi starfsmanna hjá ríki og sveitarfélögum.
- Veittar áminningar og skipun tilsjónarmanna.
- Vinnustaðir fatlaðra og launakjör.
- Sparnaður af breytingum á héraðsdómstólum, sýslumannsembættum og lögreglu.
- Opinber störf á vegum ríkisins.
- Áminningar vegna eyðslu umfram fjárheimildir.
- Stöðugildi á aðalskrifstofum ráðuneyta.
- Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um almannatryggingar.
- Áminningar til embættismanna.